LÝÐHEILSA OG VELFERÐ FYRIR ALLA

Lýðheilsa og velferð er mikilvægur þáttur í lífsgæðum hvers einstaklings. Garðabæjarlistinn ætlar að sækja fram í lýðheilsu- og velferðarmálum og leggur áherslu á að Garðabær verði leiðandi í að stuðla að því að allir íbúar búi við góða heilsu.

Forvarnir eru ekki síður undirstaða velferðar og því er afar farsælt að samþætta lýðheilsu og forvarnir. Lýðheilsa byggir á að viðhalda og bæta heilbrigði, líðan og aðstæður einstaklinga með heilsueflingu, forvörnum og heilbrigðisþjónustu. Samþætting þessara þátta gerir það að verkum að hægt er að byggja upp öflugt heilsueflandi samfélag og þar vill Garðabæjarlistinn leggja sitt af mörkum í þágu allra íbúa.

VELFERÐARÞJÓNUSTAN

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að velferðarþjónusta bæjarins verði framúrskarandi og til eftirbreytni. Við viljum að Garðabær móti sér öfluga velferðarstefnu þar sem tekið er utan um alla einstaklinga sem á þjónustunni þurfa að halda. Taka þarf betur utan um þörfina fyrir  umönnunarþjónustu sem og framboð á félagslegu húsnæði. Við viljum að Garðabær horfi til framtíðar og sé viðbúinn því að meðal íbúa er alls konar fólk með fjölbreyttar og afar ólíkar þarfir þegar kemur að velferðarþjónustu sem þarf að mæta með faglegum hætti.

Við viljum sjá stjórnsýsluna taka frumkvæði í allri þjónustu þar sem lögð er áhersla á upplýsingagjöf um þá þjónustu sem í boði er sem og réttindi hvers og eins til að sækja þá velferðarþjónustu sem sveitarfélaginu er skylt að veita.

VIRKAR FORVARNIR ALLT ÁRIÐ UM KRING

Mikilvægi forvarnarstarfs er gríðarlegt og leggur Garðabæjarlistinn áherslu á virkar og öflugar forvarnir allt árið um kring þar sem lögð er áhersla á fjölbreytt forvarnarstarf, t.d. vegna fíknivanda hvers konar, netnotkunar, veðmála, eineltis, ofbeldis, áreitni, hefndarkláms og andlegrar líðanar. Við viljum að staðið sé fyrir jafnréttisfræðslu í sinni fjölbreyttustu mynd þar sem tekið er á klámvæðingu, jafnrétti kynja, hinsegin fræðslu og rétti hvers einstaklings á tilvist sinni hver sem hann er. Garðabæjarlistinn leggur auk þess sérstaka áherslu á forvarnir fyrir eldri borgara sem taka til andlegrar og líkamlegrar heilsu.

Jafnrétti er mikilvæg forsenda þess að einstaklingurinn njóti sín í nærsamfélagi sínu. Við munum beita okkur sérstaklega fyrir jafnrétti hinsegin fólks sem og fyrir jöfnum rétti fatlaðra til þátttöku í samfélaginu.

MIKILVÆGAR ÁHERSLUR TIL AÐ STYÐJA VIÐ LÝÐHEILSU OG VELFERÐ

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á heilsueflandi aðgerðir sem koma til móts við alla í samfélaginu. Dæmi um slíkar aðgerðir eru systkinaafsláttur í íþróttum, fjölskyldukort til íþróttaiðkunar og bætt aðgengi að skipulögðum útivistarsvæðum með sérstöku tilliti til líkamsræktunar og markvissrar heilsueflingar eldri borgara. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á mikilvægi hvatapeninga fyrir ungmenni að 18 ára aldri og eldri borgara til að styðja enn frekar við hvers konar heilsueflandi iðkun. Við viljum bjóða upp á nýtingu íþróttamannvirka á þeim tímum sem ekki fara fram skipulagðar æfingar. Við viljum að bæjaryfirvöld leggi sig fram við að stuðla að góðri andlegri og líkamlegri heilsu allra íbúa, en í því felast ómetanleg lífsgæði.  Það er okkur mikilvægt að unnið sé að því að auka jöfnuð sem stuðlar að vellíðan allra íbúa bæjarins. Garðabær hefur alla burði til þess að vera fyrirmyndarbær þegar kemur að lýðheilsumálum og velferð en til þess þarf að huga að þessum málaflokki þvert á þær nefndir sem starfa nú innan stjórnsýslunnar.

STYTTING VINNUVIKUNNAR

Við viljum kanna þann möguleika að stytta vinnuviku starfsmanna Garðabæjar til þess að lækka rekstrarkostnað og auka starfsánægju. Með því viljum við auka lífsgæði og lýðheilsu með auknum samverustundum fjölskyldunnar, auknu starfsþreki og þar með fyrirbyggja kulnun í starfi. Við viljum taka þátt í og byggja á þeirri vinnu sem Reykjavíkurborg, Hjallastefnan og aðrir hafa tekið upp og hefur gengið vel.

Deila frétt

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on print
Share on email