MENNTUN FYRIR ALLA

Í Garðabæ eru reknir góðir leik- og grunnskólar þar sem boðið er upp á valfrelsi um skóla. Garðabæjarlistinn vill gera enn betur í menntamálum og tryggja að Garðabær bjóði raunverulega upp á menntun fyrir öll börn og ungmenni, fatlaða jafnt sem ófatlaða. Til þess að gera skólagöngu barna og ungmenna enn betri þarf að huga sérstaklega að velferð þar sem öllum er tryggð sú þjónusta sem þörf er á hvort heldur sem lýtur að andlegri líðan, námserfiðleikum eða öðrum þáttum. Auka þarf áherslu á jafnrétti og lýðræði í öllu skólastarfi með virkari þátttöku barna og ungmenna. Í Garðabæ er mikil reynsla og þekking af jafnrétti í skólastarfi sem má styrkja enn frekar svo fleiri njóti.

Stefnumótun um menntun án aðgreiningar er eitt af þeim verkefnum sem þarf að hefjast handa við að vinna.

LÆRDÓMSSAMFÉLAGIÐ GARÐABÆR

Gerum Garðabæ að framúrskarandi og leiðandi lærdómssamfélagi þar sem ýtt er með fjölbreyttum leiðum undir og stutt við starfsþróun og endurgjöf til kennara í leik- og grunnskólum. Starfsþróun er undirstaða lærdómssamfélags og á að vera aðalsmerki skólastarfsins. Þannig ýtum við undir vellíðan kennara í starfi sem leiðir til faglegra starfs og betri líðanar barna. Börnin verða þátttakendur í að nálgast nám með fjölbreyttum hætti þar sem frumkvæði og sköpun er í fyrirrúmi.

SKÓLASAMFELLA FRÁ 12 MÁNAÐA ALDRI

Leikskóli fyrir öll börn frá 12 mánaða aldri er mikið og brýnt mál fyrir allar fjölskyldur og ekki síður mikið jafnréttismál. Garðabær á að setja sér það markmið að bjóða upp á metnaðarfulla skólagöngu barna og ungmenna þar sem faglegt innra starf og velferð barna er ávallt haft að leiðarljósi. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á mikilvægi þess að fötluðum börnum og ungmennum sé tryggð menntun við hæfi frá upphafi leikskóla til loka framhaldsskóla í heimabyggð. Garðabæjarlistinn vill samfellu á milli skólastiga með samvinnu á milli grunn- og framhaldsskóla.

NÝSKÖPUN Í NÁMI OG SKAPANDI SKÓLASTARF

Áhersla á tækniþróun og nýsköpun þarf að haldast í hendur og styðja þarf við uppfærslu á kerfum og faglegan stuðning við þróunarstarf. Búnaði sem nemendum er færður þarf að fylgja faglegur stuðningur fyrir kennara til að tækin nýtist sem skyldi.Skapa þarf rými fyrir breytingar til framtíðar og rýna til gagns í skólaumhverfið í samvinnu við kennara, stjórnendur og foreldra.Námstími barna er langur og það er mikilvægt að endurskoða allan ramma sem settur er utan um viðveru barna í skóla og horfa til nútímalegri námsaðstöðu barna og ungmenna.Grunnskólinn verður að gera öllu námi jafnhátt undir höfði. Tengja þarf betur möguleikann á verk- og iðnnámi inn í grunnskólanám með sérstakri áherslu á aðkomu náms- og starfsráðgjafa um námsval, svo tryggja megi ungmennum áfram leiðir til að taka áfanga á framhaldsskólastigi samhliða efstu bekkjum grunnskólans.

TÓNLISTARSKÓLI

Mikilvægt er að efla og styðja við tónlistarnám fyrir Garðbæinga. Garðabæjarlistinn styður við nýsköpun í kennslu og tengingu á milli tónlistarskóla, grunnskóla og leikskóla, þannig að nemendur geti stundað sitt tónlistarnám í samfellu með sínu námi. Einnig er mikilvægt að stuðla að jafnrétti til tónlistarnáms og að sem flestir Garðbæingar hafi möguleika á tónlistarnámi.

FRÍSTUNDIR, TÓMSTUNDIR OG ÍÞRÓTTIR

Garðabæjarlistinn vill sjá frekari uppbygging á öflugu og faglegu frístundastarfi eftir skóla fyrir öll börn og ungmenni til 18 ára aldurs. Til að styðja vellíðan allra þarf að vinna að fjölbreyttum valkostum í tómstundastarfi. Garðabæjarlistinn vill koma á sköpunarmiðstöð unga fólksins, með framúrskarandi aðstöðu fyrir list- og nýsköpun. Þannig má efla tengsl á milli grunn- og framhaldsskóla í formi samstarfs um þróunarverkefni sem tengjast nýsköpun ungs fólks.

SAMFELLA OG SAMEIGINLEG ÁBYRGÐ MENNTA- VELFERÐAR- OG FJÖLSKYLDUSVIÐS

Tryggja þarf gott og traust samstarf á milli mennta- velferðar- og fjölskyldusviðs. Móta þarf heildarstefnu þvert á sviðin með það að leiðarljósi að sameiginleg ábyrgð kerfisins leiði til þess að vandi sé greindur snemma, hvort heldur sem hann er félagslegur eða námslegur. Efla þarf enn frekar starfs- og námsráðgjöf sem og sálfræðiþjónustu við skólana til að styðja við betri líðan og velferð barna.Garðabæjarlistinn vill endurskoða úthlutunarreglur vegna sérkennslu, svo að það fjármagn nýtist sem best. Við viljum að fagfólki sé treyst betur til að meta þörfina fyrir stuðningsþjónustu og draga úr valdi greininga á stýringu fjármagns.

STARFSUMHVERFI OG KJÖR KENNARA Í FORGANG

Garðabær á að taka forystu í að bæta vinnuumhverfi og kjör kennara. Garðabær á að sýna þor til þess að taka málin áfram og vera þannig fyrirmynd annarra sveitarfélaga í að gera betur fyrir sitt starfsfólk, mannauðinn sem er grunnstoð gæða samfélags. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á minni miðstýringu og vill færa valdið aftur inn í skólana og til kennara þannig að sjálfstæði skóla styrkist enn frekar.

FJÓRÐA IÐNBYLTINGIN OG STÖRFIN SEM ALDREI HVERFA

Í samfélagi sem sífellt vex og breytist með nýrri tækni og framþróun vísinda er mikilvægt að huga að grunnstoð hvers samfélags, en það eru störfin sem aldrei munu hverfa. Mikill mannauður sveitarfélaga felst í kennara- og umönnunarstéttum. Þessar stéttir vinna störf sem munu alltaf vera til staðar og að þeim þarf að hlúa sérstaklega til að þau megi eflast í þágu enn betri menntunar og velferðar allra bæjarbúa.

Deila frétt

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on print
Share on email