REKSTUR Í ÞÁGU ALLRA

Í Garðabæ er fjárhagstaðan góð, skuldahlutfallið er lágt og allar helstu lykiltölur í lagi. Tekjur hafa aukist á kjörtímabilinu sem skýrist að mestu af fjölgun íbúa umfram áætlanir og hækkun fasteignaverðs. Kostnaður hefur aukist í sama hlutfalli. Fjárhagsleg ábyrgð og ráðdeild hefur verið höfð að leiðarljósi og það mun Garðabæjarlistinn leggja mikla áherslu á.

TÆKIFÆRI TIL HAGRÆÐINGAR

Garðabæjarlistinn vill taka upp virka verkefnastjórnun í framkvæmdum og rekstri bæjarins til þess að tryggja enn betri nýtingu fjármuna og annarra verðmæta sveitarfélagsins. Með virkri verkefnastjórnun á vegum bæjarstjórnar má koma í veg fyrir töf við framkvæmdir, betri nýtingu og skilvirkari upplýsingagjöf. Með virkri verkefnastjórn tryggjum við að reynsla safnist upp í rekstri og uppbyggingu sveitarfélagsins og til þess að koma í veg fyrir að óhagkvæmni endurtaki sig. Með verkefnastýringu viljum við fylgjast með kostnaði, framkvæmdatíma og þjónustustigi sveitarfélagsins til þess að veita bæjarstjórn góð tæki til ákvarðanatöku og íbúum sveitarfélagsins góðar upplýsingar um stöðu mála til að veita bæjarstjórn aðhald.

GAGNSÆI Á MILLI LÖGBUNDINNA OG VALKVÆÐRA VERKEFNA

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á gagnsæi í fjármálum Garðabæjar. Við leggjum m.a. áherslu á nýja nálgun í framsetningu á útgjöldum þannig að verkefni séu skilgreind annars vegar út frá þeim lögbundnu verkefnum sem tilheyra rekstri sveitarfélags og hins vegar út frá valkvæðum verkefnum. Valkvæð verkefni eru allt frá því að vera mjög nauðsynleg til þess að styðja við alla grunnþjónustu yfir í að vera sannkölluð gæluverkefni sem gaman gæti verið að framkvæma óháð nauðsyn þeirra. Stefnt skal að því að gera bókhald Garðabæjar öllum opið og að það verði uppfært eins reglulega og kostur er á.

LAUNASTEFNA OG JAFNLAUNAVOTTUN

Útgjöld Garðabæjar líkt og annarra sveitarfélaga eru að stórum hluta falin í launum og launatengdum gjöldum. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á jafnlaunavottun og um leið á að laun allra starfsmanna bæjarins taki almennt mið af markaðslaunum.

NÝ NÁLGUN

Með nýrri nálgun tryggjum við aukið gagnsæi í útgjöldum og ráðstöfun útsvars. Við búum til möguleika á að stilla útsvari í hóf út frá lögbundnum verkefnum og gagnsæi í útgjöldum tengdum öðrum verkefnum. Hægt væri að aðlaga útsvar að framkvæmdum hvers árs því ákvörðun þess er tekin í lok hvers árs við gerð fjárhagsáætlunar.Garðabæjarlistinn vill virkja lýðræðið á öllum sviðum og efla aðkomu íbúa að ákvarðanaferli um valkvæð verkefni og gera ferlið um leið gagnsærra. Íbúar koma í meira mæli að þátttöku í forgangsröðun verkefna.Garðabæjarlistinn vill að rekstur bæjarins sé í þágu allra íbúa þvert á flokkslínur.

HORFT TIL FRAMTÍÐAR – FREKARI TEKJUMÖGULEIKAR

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að leita leiða til að auka tekjur frá lögaðilum sem hefja eða flytja starfsemi sína í bæjarfélagið. Til þess þarf að móta stefnu til framtíðar sem býður fyrirtæki velkomin í sveitarfélagið. Hraða þarf skipulagi fyrir húsnæði sem styður við þá þróun.

Deila frétt

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on print
Share on email