SKIPULAG FYRIR ALLA

Í Garðabæ líkt og í öðrum sveitarfélögum hafa samgöngu og skipulagsmál mikil áhrif á daglegt líf íbúa. Samgöngur í og úr íbúahverfum til skóla og vinnu hafa áhrif á val fólks um búsetu. Aðgengi barna og ungmenna að samgöngum er stórt hagsmunamál sem Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að unnið verði með þeim hætti að auka lífsgæði fjölskyldna. Við viljum styðja við umhverfisvænni lífsstíl og gera börnum og ungmennum kleift að ferðast með öruggum hætti.

FJÖLBREYTT ÍBÚABYGGÐ ER OKKAR HÚSNÆÐISSTEFNA

Fjölbreytt íbúabyggð er ein forsenda grósku og líflegs bæjarbrags. Fjölbreytt val um húsnæði skiptir máli og taka þarf sérstakt tillit til ungra fjölskyldna við uppbyggingu hverfa.

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á fjölbreytt framboð á húsnæði til eigu eða leigu í öllum stærðum og gerðum. Þetta viljum við gera með því að stýra framboði lóða og ná samstarfi við leigufélög og verktaka.

SAMGÖNGUR

Garðabæjarlistinn vill að Hafnarfjarðarvegur fari í stokk.

Við viljum bæta stígakerfið, gera sérstaka hjólreiðastíga sem eru aðskildir frá öðrum stígum og tryggja að þessir stígar séu færir allt árið. Hringtengingu þarf að koma á hjólastíga utan um Garðabæ og betri tengingu við önnur sveitarfélög. Mikilvægt er að leita álits hagsmunaaðila s.s. Landssamtaka hjólreiðamanna við slíkar framkvæmdir.

Auðvelda þarf bæjarbúum að nýta sér almenningssamgöngur sem ferðamáta bæði innan bæjar sem og milli sveitarfélaga. Til að stuðla að notkun almenningssamgangna viljum við að samgöngur innanbæjar verði gjaldfrjálsar fyrir börn og ungmenni til 18 ára aldurs og eldri borgara. Sérstaklega verði hugað að samgöngum barna í tómstundir í samstarfi tómstundavagns og strætó þannig að samgöngur í og úr tómstundum nýtist öllum börnum í öllum hverfum. Mikilvægt er að tryggja öryggi allra vegfarenda óháð samgöngumáta.

ÞÉTTING BYGGÐAR

Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að hækkað verði nýtingarhlutfall þeirra svæða sem eftir eru innan bæjarmarkanna. Mikilvægt er að vinna allt skipulag í samvinnu við fagaðila til að mæta heildarsýn svæðiskipulags höfuðborgarsvæðisins. Mikilvægt er að taka tillit til ábendinga Skipulagsstofnunar við gerð aðalskipulags.

ÖRYGGI

Öryggi barna á leið til og frá skóla eða tómstundum skal vera í forgangi við alla ákvarðanatöku vega- og skipulagsframkvæmda. Bæjarbúum skal kynna ítarlega allar tillögur og halda skal fundi með íbúum þar sem hægt er að koma fram athugasemdum og taka þátt í umræðunni. Ekki verðar teknar bindandi ákvarðanir án aðkomu þeirra sem málið varða. Umdeildar ákvarðanir varðandi skipulagsmál skal setja í íbúakosningu.

BLÓMLEGUR BÆR, NÆRSAMFÉLAG FYRIR ALLA

Garðabæjarlistinn vill að íbúahverfi byggist upp með það að leiðarljósi að auðvelt sé að sækja alla nærþjónustu með almenningssamgöngum. Við viljum að nærumhverfið sé aðlaðandi og staður sem eftirsóknarvert er að sækja. Kaffihús og söfn bæjarins sem og bókasafn séu auðsótt og skapi þannig lifandi og litríkan bæ.

Deila frétt

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on print
Share on email