UMHVERFI FYRIR ALLA

Í Garðabæ búa íbúar við einstakt tækifæri til að komast í snertingu við náttúruna og njóta  útivistar. Innan bæjarlandsins er einstök flóra jurta og dýralífs. Við þurfum að tryggja að allir íbúar búi við heilnæmt umhverfi og geti auðveldlega notið náttúru og útivistar. Til þess að sem flestir geti notið þessara gæða þurfa allar áætlanir og ákvarðanir að hafa hagsmuni og velferð íbúa að leiðarljósi. Jafnframt verður að tryggja að ekki sé gengið á möguleika komandi kynslóða til að njóta náttúru og umhverfisgæða. Því skal stuðlað að vernd og viðhaldi náttúru- og menningarminja.

ÚTIVISTARBÆRINN

Við viljum að íbúum verði auðveldað að temja sér umhverfisvænan og heilbrigðan lífsstíl. Tryggja þarf að allir geti notið grænna svæða í og við bæinn. Græn svæði bæjarins þarf að hirða vel og lýsa þau upp til að tryggja vellíðan og öryggi. Garðabæjarlistinn vill að útbúin verði hundasvæði á nokkrum stöðum í bænum. Við viljum gera grænu svæðin aðgengileg til dæmis fyrir útikennslu og hreyfingu. Garðabæjarlistinn vill fjölga svæðum til hvers kyns grænmetisræktunar inni í hverfum. Við viljum byggja upp útilífsmiðstöð í upplandinu (útivistarsvæði í nágrenni bæjarins) með salernum og bættu aðgengi fyrir bæjarbúa.

HEILNÆMT UMHVERFI

Samspil byggðar og náttúru hefur áhrif á líðan og heilsu bæjarbúa. Við verðum að vanda skipulag og umhirðu mikilvægra svæða eins og strandlengjunnar og Heiðmerkur. Við viljum að Garðabær og stofnanir bæjarins verði í fararbroddi við að minnka sóun og taki upp starfshætti sem hafa sem minnst skaðleg áhrif á umhverfið. Það er m.a. gert með innkaupastefnu sem miðar að góðri nýtingu hráefna, með því að sniðganga efni sem hafa skaðleg áhrif á umhverfið, s.s. plastpoka, notkun á umhverfisvænum samgöngum og með flokkun og endurvinnslu. Bæjarbúar og fyrirtæki í bænum verða hvött til umhverfisverndar og gert það auðveldara, m.a. með snyrtilegum og aðgengilegum gámasvæðum.

VISTVÆNAR SAMGÖNGUR

Við viljum að Garðabær stuðli að umhverfisvænum samgöngumáta m.a. með því að farartæki í eigu bæjarins verði knúin umhverfisvænum orkugjöfum og með eflingu almenningssamgangna. Garðabæjarlistinn vill að gerður verði samgöngusamningur fyrir þá starfsmenn Garðabæjar sem vilja nota almenningssamgöngur eða aðrar umhverfisvænar samgöngur. Við viljum að Garðabær styðji við notkun rafmagnsbíla og komi upp hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla við helstu stofnanir bæjarins.

Deila frétt

Share on facebook
Share on google
Share on twitter
Share on linkedin
Share on pinterest
Share on print
Share on email