Hlutverk bæjararfulltrúa er að standa vörð um hagsmuni bæjarbúa, halda vel utan um rekstur og leitast við að styðja við og bjóða upp á faglega og góða þjónustu. Lögbundin verkefni eru þau verkefni sem eru ávallt í forgrunni enda hlutverk sveitarfélags að standa undir ákveðinni grunnþjónustu eins og menntun og velferðaþjónustu.
Hlúa þarf að innviðum og leitast við að bjóða upp á það besta í þágu íbúa hverju sinni. Eitt af því sem skiptir máli er tími fólks. Allt tekur sinn tíma. Ég sem bæjarfulltrúi er mjög upptekin af því að vinna að því að einfalda leiðir fólks að allri þjónustu og spara tíma en ekki síður fjármagn. Tækninni fleygir fram og við sjáum fram á margar snjallar lausnir sem hafa það einmitt í för með sér að spara tíma og kostnað í þágu íbúa. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar að fjárfesta í tækni og slíkt kallar á vilja og kjark til að fjárfesta til framtíðar.
Að fjárfesta í tækni styrkir enn frekar innviði, eykur gæði þjónustu og sparar tíma. Mikilvægt er að horfa til skólakerfisins í þessu sambandi, að styðja við skólastarf einmitt með fjárfestingu í tækni. Fyrir kennara skiptir gott aðgengi að gögnum, námsefni og kennsluáætlunum máli en ekki síður umhverfi til að tengja saman við framvindu og námsmat nemenda við allan undirbúning fyrir kennslu. Um leið sparar slíkt tíma og ýtir undir frekari gæði í skólastarfi sem og samvinnu innan sem og milli skóla. Fjárfesting í tækni styrkir sömuleiðis alla stoðþjónustu til muna þar sem fjarþjónusta fer vaxandi og væri því frábær viðbót við þá þjónustu sem þörf er á innan skólakerfisins. Slík þjónusta sparar ekki síður tíma og fjármuni hvort heldur sem er fyrir kennara, börn eða foreldra.
Í Garðabæ er fyrirhugað að fara í vinnu, taka út stöðuna. Það er einlæg von mín að það verði til þess að horft verði til framtíðar með fókusinn á auðveldara aðgengi allra að þjónustu að leiðarljósi og nýrri sýn verði fylgt eftir inn í fjárhagsáætlun.
Ég hef fyrir hönd Garðabæjarlistans nú þegar lagt til fyrstu tillögurnar sem snúa að tæknivæddari Garðabæ með fókusinn á þjónustu við börn, ungmenni og kennara. Því hlakka ég til þess að taka þátt í að koma Garðabæ inn í framtíðina með hugmyndum að leiðum til að fjárfesta í tækni allt frá skólakerfinu inn í stjórnkerfið og gera þannig Garðabæ að framsæknu sveitarfélagi sem tekur stöðu með framtíðinni.
https://kjarninn.is/skodun/2019-04-10-ad-fjarfesta-i-framtidinni/