Málefnin

Sjá málefnabækling okkar hérna (PDF)

Okkar samfélag er fjölbreytt samfélag

Samgöngur eru bestar þegar við tökum ekki eftir þeim: Þegar við komumst á þægilegan og öruggan hátt þangað sem við viljum fara, sama hvaða ferðamáta við notum. Við eigum að geta sent börnin okkar áhyggjulaus af stað í skóla eða tómstundir milli hverfa bæjarins okkar og sjálf verið örugg hvort sem við erum gangandi, hjólandi, á vespu, rafskútu eða bíl. 

 

Garðabæjarlistinn vill að íbúar bæjarins hafi raunverulegt val um það hvernig þeir komast á milli staða og að allir hafi tækifæri til þess að efla eigin heilsu og vinna gegn loftslagsbreytingum og mengun með því að nýta virka ferðamáta. Til þess að það verði raunhæfur kostur þarf Garðabær að forgangsraða í þágu fjölbreyttra samgangna. Svo við komumst öll leiðar okkar og aftur heim.

 

Við viljum að…

 • Meiri áhersla verði lögð á vistvæna og virka samgöngumáta (gangandi, hjólandi, almenningssamgöngur, rafskútur o.fl.) og hugað að samræmingu og samtengingu þar á milli. Þannig má byggja undir þær framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar í bænum út frá samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. 
 • Í skipulagi verði alltaf lögð þung áhersla á öryggi fólks á ferð, óháð ferðamáta. 
 • Lögð sé áhersla á deilihagkerfi og örflæði, þ.e. deilibíla, deilihjól, deilirafskútur o.þ.h.
 • Sjálfstæð hönnun verði á hverjum þætti samgangna, þar sem þarfir og leiðir fólks fara ekki alltaf saman: gangandi, hjólandi, ríðandi o.s.frv.
 • Unnið sé að samgöngubótum og uppbyggingu á fjölbreyttum samgöngum innan Garðabæjar, til að styrkja bæinn sem heild og tengja vel milli hverfa. Þannig getum við fært fólk nær hvert öðru, störfum sínum og þeirri þjónustu sem það sækir.
 • Stefnt sé að því að orkugjafar í almenningssamgöngum og bílakosti bæjarins verði umhverfisvænir, notast verði t.a.m. við vetni eða rafmagn.
 • Í skipulagi verði gert ráð fyrir að almenna daglega þjónustu sé hægt að sækja fótgangandi innan 15 mínútna.
 • Tryggja strax örugga leið fyrir hjólandi og gangandi til og frá íþróttahúsinu Miðgarði. 
 • Aðgengismál fatlaðs fólks og gangandi vegfarenda verði höfð í huga við allar framkvæmdir.
 • Öruggir geymslustaðir fyrir hjól, rafhjól og rafmagnshlaupahjól séu settir upp við skóla og íþróttamannvirki bæjarins. Yfirbyggt og myndavélavaktað svæði með góðum möguleikum á að festa tækin vel.

Það er yndislegt að búa í Garðabæ og við eigum öll að hafa tækifæri til þess að koma þaki yfir höfuðið í heimabænum okkar. Garðbæingar eru fjölbreyttur hópur fólks með mismunandi þarfir og fjárráð. Allt of lengi hefur það verið lenska að ungt fólk eða tekjulægra flytji úr bænum þar til hagurinn hefur vænkast, með þeim afleiðingum að við missum fjölda fólks úr samfélaginu okkar til nærliggjandi sveitarfélaga. Garðabæjarlistinn vill að allar kynslóðir Garðbæinga eigi að geta búið saman í Garðabæ. Til þess þarf Garðabær alltaf að huga að alvöru fjölbreytni í húsnæðisuppbyggingu.

 

Við viljum að…

 • Byggt verði meira af hagkvæmu og fjölbreyttu íbúðarhúsnæði. Tryggja að í Garðabæ verði framboð af leigu- og kaupleiguíbúðum sem henta bæði einstaklingum og fjölskyldum, námsmönnum og eldra fólki.
 • Í skipulagi verði teknar frá fleiri lóðir fyrir óhagnaðardrifin leigufélög og búseturéttarfélög í öllum nýjum hverfum. Mikilvægt er að tryggja stofnframlag.
 • Gerðar verði tilraunir með uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir ungt fólk, þar sem byggt er ódýrt og hækkun verðs við endursölu er takmörkuð af kaupsamningum. 
 • Garðabær taki þátt í ábyrgri uppbyggingu félagslegs húsnæðis á höfuðborgarsvæðinu með því að auka framboð á félagslegu leiguhúsnæði. Ástandsskoða verður húsakost félagslegs húsnæðis milli íbúa. 
 • Gætt sé að því í uppbyggingu að framboð verði einnig af lóðum til einstaklinga og lóðum verði úthlutað á sanngjarnan hátt. 

Gott skipulag styður við og bætir lífsgæði íbúa og áhrif skipulags á daglegt líf fólks eiga alltaf að vera í öndvegi. Garðabær er ríkur af náttúruperlum og býður upp á fjölbreytt tækifæri til útivistar. Þetta er ein mesta sérstaða sveitarfélagins og um hana eigum við að standa vörð. Mannvirki Garðabæjar þurfa að fá gott viðhald og umhverfisgæði þarf að tryggja. Koma þarf á íbúaráðum fyrir hin fjölbreyttu hverfi Garðabæjar svo íbúar geti haft bein áhrif. 

Við viljum að…

 • Græn svæði eða náttúruvinjar verði innan 5-8 mínútna göngufæris og að lítið notaðar grasflatir verði gerðar að gæða grænum svæðum með fjölbreyttum gróðri.
 • Gæta þarf að fyrirbyggjandi aðgerðum til þess að koma í veg fyrir myglu- og rakaskemmdir. Gott viðhald á mannvirkjum Garðabæjar, t.d. íþrótta- og skólahúsum, er þar ákaflega mikilvægt ásamt öflugu eftirliti með rakaskemmdum í rýmum þar sem íbúar dvelja eða starfa á vegum bæjarins. 
 • Nauðsynlegt er að þétta byggð þar sem það er hægt. Þó verður að líta til þess að byggingar falli að núverandi umhverfi,
 • Þess sé gætt að varðveita og auka gæði, trjágróður og fjölbreytni grænna svæða í Garðabæ til útivistar, heilsuræktar o.þ.h. Sérstaklega þarf að huga að varðveislu þeirra samhliða þéttingu byggðar.
 • Umhverfisgæði (loftgæði og hljóðvist) þarf alltaf að skoða í uppbyggingu Garðabæjar. Út frá skipulagi þarf að skoða umferðarhraða, loftgæði og hljóðvist svo við getum öll geti búið í öruggu umhverfi án heilsuspillandi þátta. Til dæmis mætti skoða trálimgerði og náttúruvænar varnir við umferðargötur nálægt byggð gegn efnamengun og hljóðmengun. 
 • Garðabær og heilbrigðiseftirlit efli samstarf við ríkisstofnanir um mælingar á loftgæðum (Umhverfisstofnun) og hljóðvist (Vegagerðin).
 • Skipulag geri ráð fyrir því að skólp verði aðgreint frá öðrum fráveitumannvirkjum og nýta sjálfbærar ofanvatnslausnir eins og hægt er.
 • Í uppbyggingu og framkvæmdum þarf að bera virðingu fyrir bæði friðlýstum og óröskuðum svæðum innan sveitarfélaga og gæta þess að raska vistkerfum sem minnst. Mikilvægt er að horfa til almannaréttar þegar kemur að aðgengi fólks að fjörum, vatns- og árbökkum í skipulagi.
 • Fjölbreytt hverfi eru í bænum og hvert og eitt þeirra hefur sína sérstöðu. Garðabæjarlistinn vill að bærinn hugi jafnt að öllum hverfum Garðabæjar og gæti þess að Álftanes og Urriðaholt verði ekki útundan. Íbúaráð innan hverfa eru til skoðunar innan sveitarfélagsins og Garðabæjarlistinn telur að brýnt sé að koma þeim á fót svo hægt sé að valdefla íbúa til þess að hafa áhrif á nærsamfélag sitt og tryggja virkt samtal við Garðabæ.

Fjölbreytileiki mannlífsins auðgar samfélagið okkar. Með auknum fjölbreytileika verður æ brýnna að koma til móts við þarfir mismunandi hópa fólks og byggja þannig undir lífsgæði okkar allra. Við eigum öll að hafa tækifæri til þess að blómstra í Garðabæ. 

 

Við viljum að…

 • Garðabær útvíkki jafnréttisstefnu sína og setji sér sértæka mannréttindastefnu.
 • Mannréttindi fatlaðs fólks eins og kveðið er á um í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks séu virt og þrýst á ríkið í að veita fjármunum í málaflokkinn.
 • Sett verði sértæk stefna í hinsegin málefnum, t.a.m. um aðgengi trans fólks að sundstöðum, öðrum íþróttamannvirkjum og salernum, og verklagsreglur um það hvernig hinsegin börnum eigi að mæta í skólakerfinu.
 • Tryggt verði að hinsegin fræðsla sé aðgengileg fyrir allt starfsfólks sveitarfélagins auk fræðslu um kynþáttafordóma og fötlunarfordóma. Slík fræðsla eflir starfsfólk í sínum störfum svo betur sé hægt að koma til móts við þarfir ólíkra íbúa. 
 • Skoða þarf að koma af stað vísi að hinsegin félagsmiðstöð fyrir ungmenni úr öllum bænum í samstarfi bæjarins, félagsmiðstöðva og Samtakanna ‘78.
 • Með auknum fjölda flóttafólks og umsækjenda um alþjóðlega vernd í Garðabæ er brýnt að Garðabær standi vel að málum, bjóði fólk velkomið og gæti þess að viðeigandi stuðningur sé veittur t.d. með því að efla starfsfólk í skólakerfinu.

Á undanförnum árum hefur menningarlíf eflst mikið í Garðabæ og ráðning mennignarfulltrúa hefur reynst mikið heillaskref. Garðabæjarlistinn vill halda þeirri þróun áfram, enda hefur öflugt menningarlíf mikil og jákvæð áhrif á lífsgæði bæjarbúa og tekur þátt í að skapa fjölbreyttan bæjarbrag. 

Við viljum að…

 • Í Garðabæ rísi öflugt menningarhús. Kjarnastarfsemin gæti þá verið Bókasafn Garðabæjar, sem fengi loksins betra heimili til þess að geta sinnt kröfum nútímans til almenningssafna enn betur. Garðabæjarlistinn vill sjá lifandi menningarhús með fjölbreyttri starfsemi í hjarta bæjarins, nálægt eða við Garðatorg.
 • Öll börn eigi að hafa þess kost að stunda tónlistarnám, sérstaklega í bæ eins og Garðabæ sem þekktur er fyrir framúrskarandi tónlistarfólk. Með stækkun bæjarfélagsins hafa biðlistar lengst í Tónlistarskóla Garðabæjar og mikilvægt er að koma til móts við þá stöðu með fleiri stöðugildum og stækkun á húsnæði skólans.
 • Sett verði á fót ungmennahús fyrir 16-25 ára á borð við Hamarinn í Hafnarfirði. Mikilvægt er að húsnæðið hafi aðstöðu sem styður við nýsköpunarnám í Garðabæ og vinni gegn félagslegri einangrun ungs fólks.
 • Staðið verði enn betur að málum Hönnunarsafns Íslands. Sérstaklega þarf að huga að öryggi safneignar, enda eru mikil verðmæti fólgin í því fyrir bæinn að hýsa slíkt safn í miðbænum.
 • Lögð verði drög að byggðasafni, þar sem helstu þáttum í sögu Garðabæjar eru gerð skil.
 • Garðatorg verði gert grænna. Leita verður fjölbreyttra leiða til þess að gera torgið vistlegra svo það verði enn áhugaverðari og skemmtilegri áfanga- og samkomustaður, en einnig að tengja hluta þess betur saman. 
 • Stutt verði við félagasamtök í öllum hverfum bæjarins sem vinna að menningarmálum og sérstaklega hvatt til opins viðburðahalds. 
 • Gætt verði að því að viðburðir á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar fari einnig fram á Álftanesi.

Það eru lífsgæði að geta unnið nálægt heimili sínu. Garðabæjarlistinn vill að stutt sé við atvinnustarfsemi í bænum og að til skamms tíma sé sérstaklega horft til allra þeirra þekkingarstarfsmanna innan bæjarins sem eru í óstaðbundnum störfum. 

 

Við viljum að…

 • Fundið verði húsnæði sem hægt er að leigja einyrkjum og frumkvöðlum innan bæjarins, svo sjálfstætt starfandi fólk þurfi ekki að leita í önnur sveitarfélög eftir aðstöðu og stuðningsneti. 
 • Gætt verði að því að ekki verði skorið af skipulögðu atvinnuhúsnæði og því breytt í íbúðarhúsnæði, líkt og gerst hefur í Urriðaholti.

Okkar samfélag er ábyrgt samfélag

Í Garðabæ eru frábær tækifæri til þess að vera leiðandi í lýðheilsumálum á sveitarstjórnarstigi, við búum í nálægð við náttúru og græn svæði eru mörg, ný hverfi líta dagsins ljós og fjölbreytni er að aukast. Lýðheilsa snertir á svo ótal mörgum þáttum og það er sérstaklega mikilvægt að horfa til þeirra áhrifa sem nærsamfélagið getur haft á heilsu einstaklinga. 

 

Markviss og samstillt áhersla á félagslega áhrifaþætti heilsu þýðir að það þarf að halda vel utan um þær aðgerðir sem bæta kjör daglegs lífs fólks í nærsamfélaginu. Heilsueflandi samfélag er markvisst styrkt þar sem áhersla er á sjálfstæði einstaklingsins sem eykur félagslega samheldni og jöfnuð. Með þetta að leiðarljósi munu áherslur Garðabæjarlistans í lýðheilsumálum vera á heilsulæsi, snemmtæka íhlutun og forvarnir, næringu, ásamt áherslu á andlega líðan íbúa í Garðabæ.

 

Við viljum að… 

 • Lýðheilsa og lífsgæði séu lykiláherslur hjá sveitarfélaginu og unnið sé markvisst að heilbrigðri framtíð.
 • Farið verði í aðgerðir til þess að bæta heilsulæsi íbúa.
 • Stutt sé við þróun á sjálfbærri heilsu í samfélaginu okkar þar sem er einblínt á forvarnir og snemmtæk inngrip þegar fólk er í vanda.
 • Byggð verði upp og virkjuð færni innan sveitarfélagsins sem stuðlar að bættri heilsu og vellíðan þvert á aldurshópa.
 • Lagðar séu til aðgerðir sem stuðla að umhverfi sem eykur getu fólks til þess að hlúa að andlegri líðan. 
 • Horft sé til félagsauðs sem grundvallar hamingju íbúa. Það er verðmæti sem býr í fólkinu okkar og þeim tengslum sem það myndar hvert við annað. Mikilvægt er að allir finni sitt samfélag, því það er lýðheilsumál að tilheyra. 
 • Bærinn bregðist hratt og örugglega við þeim breytingum sem hafa orðið vegna COVID-19 faraldursins, því óljóst er hverjar langtímaafleiðingar verða.

Fatlað fólk er afar fjölbreyttur hópur og þarfir þeirra eru jafn ólíkar og einstaklingarnir sjálfir. Garðabær þarf að standa vörð um grundvallarréttindi fatlaðs fólks, þ.e. réttinn til sjálfstæðs lífs, og standa þannig undir þeim skyldum sem sveitarfélagið hefur gagnvart fötluðum íbúum sínum. Tryggja þarf að allar upplýsingar um réttindi fatlaðs fólks og ábyrgð sveitarfélagsins séu aðgengilegar fötluðu fólki og fjölskyldum þeirra.  

 

Við viljum að… 

 

 • Fatlaðir Garðbæingar hafi val um búsetuform og staðsetningu. 
 • Biðlistum verði útrýmt og aðgengilegu húsnæði á viðráðanlegu verði fjölgað.
 • Garðabær standist samanburð við nágrannasveitarfélög þegar kemur að þjónustu við fatlað fólk.
 • Allar opinberar byggingar, almenningssamgöngur, stígar, útivistarsvæði og almenningsgarðar verði aðgengilegir öllum. 
 • Gagnsæi um þjónustu við fötluð börn og fullorðna verði stóraukið, unnið að afstofnanavæðingu, virðing borin fyrir fötluðu fólki og fjölskyldum þeirra og réttur til sjálfstæðs lífs tryggður með réttu þjónustustigi.
 • Mikilvægar upplýsingar og tilkynningar frá bænum verði einnig settar fram á auðlesnu máli. 
 • Garðabær á að ganga á undan með góðu fordæmi og bjóða upp á hlutastörf fyrir fatlað fólk með sveigjanlegan vinnutíma.

Elsta fólkið í samfélaginu okkar á rétt á því að njóta lífsins í Garðabæ. Garðabæjarlistinn vill fjölbreytt samfélag þar sem allir aldurshópar fá notið sín saman, en til þess þarf að standa vel að málefnum eldri borgara. Við þurfum alltaf að vera meðvituð um að eldra fólk hefur fjölbreytt áhugamál og að ekki njóta öll sín við sömu iðju.

Við viljum að…

 • Upplýsingar um réttindi eldri borgara séu aðgengilegar og gagnsæi ríki í málaflokknum.
 • Eldra fólk hafi aðgengi að ráðgjöf og fái þjálfun í tæknilæsi.
 • Enn fjölbreyttara félagsstarf fyrir aldrað fólk verði aðgengilegt fyrir alla til þess að sporna gegn einangrun.
 • Þrýst verði á uppbyggingu mikilvægra innviða fyrir alla aldurshópa. Stutt verði við að aðstaða sé fyrir félagsstarf eldri borgara í öllum hlutum bæjarins, t.d. í Urriðaholti.
 • Stofnað verði til samtals við heilsugæsluna með það að markmiði að efla fjarheilbrigðisþjónustu til þess að koma frekar til móts við þarfir íbúa.
 • Eldra fólk fái nægan stuðning til að búa lengur í eigin húsnæði, kjósi það svo. 
 • Allar opinberar byggingar, almenningssamgöngur, stígar, útivistarsvæði og almenningsgarðar verði aðgengilegir öllum.
 • Forðast verði að skipa fólki í hverfi eftir aldri, stöðu eða öðru. 
 • Koma á frístundastyrk fyrir eldri borgara og öryrkja.

Garðabær hefur lengi verið eftirbátur nágrannasveitarfélaga í uppbyggingu félagslegs húsnæðis. Það er að mati Garðabæjarlistans óásættanlegt fyrir sveitarfélag sem telur 18 þúsund manns að geta ekki boðið húsnæði fyrir þau sem það þurfa, enda er ljóst að þörfin er til staðar. Garðbæingar sem lenda í áföllum eða þurfa aðstoð eiga að geta búið áfram í Garðabæ. Það er kominn tími til að Garðabær axli samfélagslega ábyrgð í málaflokknum og taki stoltur þátt í að styðja íbúa sína og reisa við þegar þess er þörf.

 

Við viljum að… 

 

 • Biðlistum verði útrýmt og að fjölbreytilegu og aðgengilegu húsnæði á viðráðanlegu verði verði fjölgað með markvissum hætti. 
 • Garðabær taki ábyrgð á uppbyggingu félagslegs húsnæðis og standist samanburð við nágrannasveitarfélög.
 • Garðabær standi vaktina gagnvart fjölbreyttu samfélagi í Garðabæ og grípi þá íbúa sem þurfa á stuðningi að halda. 
 • Að félagslegt húsnæði sé til staðar í öllum hverfum bæjarins. Þannig gætum við jafnvægis og erum í takt við tímann.

Við stöndum á krossgötum. Allt mannkyn þarf að koma saman til þess að takast á við þá loftslagsvá sem steðjar að vistkerfi heimsins og það þarf að gerast núna. Skýr, mælanleg, tímasett markmið sem og raunhæfar, framsæknar og fjármagnaðar aðgerðir eru forsenda árangurs Garðabæjar í loftslagsmálum. Garðabæjarlistinn vill standa vörð um náttúruna, bæði á heimsvísu og í Garðabæ. 

 • Garðabær á að vera leiðandi í loftslagsmálum og setja sér enn háleitari markmið en nú eru, bæði um losun sveitarfélagsins á kolefni og svo á þeim sviðum þar sem hægt er að hafa áhrif á losun íbúa.
 • Tryggja þarf gagnsæi og aðgengi að upplýsingum og almenningur á að hafa beina aðkomu að ákvörðunum varðandi umhverfis- og loftslagsmál snemma í ferli ákvarðanatöku.
 • Vísindaleg þekking þarf að vera undirstaða allra aðgerða í loftslagsmálum. Mikilvægt er að stefnumótun, markmiðasetning og aðgerðir séu uppfærðar reglulega og byggist á og mótist af vaxandi þekkingu, rannsóknum og vöktun hverju sinni.
 • Skipulags- og samgöngumál taki alltaf mið af áhrifum á umhverfið (sjá stefnur Garðabæjarlistans í þeim málaflokkum).
 • Ráðist verði í grænar fjárfestingar og stutt við loftslagsvæna nýsköpun.
 • Fylgja þarf nýrri úrgangsstefnu kröftuglega úr hlaði og koma samræmingu flokkunar á sorpi til framkvæmdar. 
 • Hringrásarhagkerfi er nauðsynlegt í þróun í átt að nýtnara samfélagi. 
 • Draga þarf úr myndun úrgangs, minnka sóun, auka endurnotkun, endurvinnslu og draga stórlega úr urðun, m.a. með banni við urðun lífræns úrgangs. Líta þarf á úrgang sem auðlind sem fer hring eftir hring í framleiðslu og notkun.
 • Bæta þarf vatnsvernd þar sem þess er þörf og stuðla að náttúrulegu ástandi vistkerfa ferskvatns og strandsjávar.
 • Við leggjum ríka áherslu á vernd og sérstöðu náttúru Garðabæjar, til lands og sjávar, og líffræðilegrar og jarðfræðilegrar fjölbreytni hennar.

Þökk sé háum meðaltekjum í sveitarfélaginu getur Garðabær innheimt eitt lægsta útsvarshlutfall á hvern íbúa á landsvísu, en að sama skapi er ljóst að endurnýjanlegir tekjustofnar duga um þessar mundir ekki fyrir grunnþjónustu og þeirri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað. 

Lóðasala í nýjum hverfum er takmörkuð auðlind og mikilvægt er að þeim fjármunum sem skapast við hana sé varið í að styrkja innviði bæjarfélagsins og takast á við þá uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað til þess að halda í við aukinn íbúafjölda, hvort sem hún er efnislegs eðlis, t.a.m. við byggingu skólahúsnæðis, eða felst í t.d. framlögum til íþróttafélaga. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á ábyrgð í fjármálum sveitarfélagsins, þar sem fjármunum er forgangsraðað í þágu heildarinnar. 

 

Við viljum að…

 • Forgangsröðun fjármuna verði til að jafna stöðu íbúa í Garðabæ. 
 • Að lækka þjónustugjöld eins mikið og hægt er. Forgangsraðað verði í þágu barnafjölskyldna, sem greiða hafa þurft há gjöld fyrir alla þjónustu. 
 • Þrátt fyrir mikla skuldasöfnun Garðabæjar á þessu kjörtímabili er mikilvægt að fjárfest verði í innviðum til að tryggja góða þjónustu við íbúa. Enn fremur er mikilvægt að pláss í leik- og grunnskólum fylgi íbúaþróun.
 • Leitað verði leiða til að Garðabær fái réttmætt hlutfall af innheimtum skatttekjum af fjármagnstekjuskatti. 
 • Þrýst verði á ríkið að koma til móts við Garðabæ svo hægt sé að standa með myndugleika undir grunnþjónustu á borð við þjónustu við fatlaða Garðbæinga. 
 • Að hafið verði samtal við ríkið um sanngjarnara fyrirkomulag á fasteigamati við álagningu á fasteignaskatti.

Okkar samfélag er barnvænt samfélag

Börn og ungmenni eru framtíðin og það er hlutverk hvers sveitarfélags að búa börnum umhverfi þar sem þau geta blómstrað á eigin forsendum, án tillits til efnahags foreldra eða stöðu að öðru leyti. 

Við viljum að…

 • Garðabær sé barnvænt samfélag og að hér sé eftirsóknarvert fyrir fólk að búa og ala upp börn sín.
 • Lækkaðar verði með markvissum og ábyrgum hætti álögur á barnafjölskyldur, sem jafnan hafa lægri tekjur. Dæmi um gjöld sem eru hærri í Garðabæ en annars staðar eru leikskólagjöld og matur í skólum. 
 • Fjölgreina- og systkinaafsláttur verði veittur í gegnum hvatapeningakerfið. 
 • Stutt verði við félagasamtök sem standa að íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna.
 • Áfram verði unnið að því að tryggja markvissa innleiðingu barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í gegnum verkefnið Barnvæn sveitarfélög. 
 • Þátttaka barna og ungmenna við ákvarðanatöku innan sveitarfélagsins verði efld. 
 • Lögð verði áhersla á að tryggja markvissa innleiðingu nýrra laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. 
 • Sérstaklega sé hugað að umferðaröryggi barna. 
 • Boðið verði upp á hafragraut og ávexti á morgnana í grunnskólum bæjarins, fjölskyldum að kostnaðarlausu.

Rekstur grunn- og leikskóla er eitt mikilvægasta verkefni hvers sveitarfélags. Garðabær hefur skapað sér orðstír sem bæjarfélag öflugra grunnskóla og leikskóla. Halda þarf áfram á þeirri vegferð, en ekki síst verður að standa vörð um og styðja duglega við þróunarstarf í skólum og gæta þess að húsnæðiskostur sé ásættanlegur, bæði fyrir börn og starfsfólk. Þannig búum við til framúrskarandi umhverfi til náms og leiks fyrir börnin okkar. 

 

Við viljum að… 

 

 • Stefnt skuli að gjaldfrjálsum leikskólum með aðkomu ríkisins. Farið verði í samtal við ríkið um leiðir til að gera leikskólann gjaldfrjálsan og festa hann þannig í sessi sem fyrsta skólastigið.
 • Staðið verði vörð um þróunarsjóði leik- og grunnskóla Garðabæjar og þeir efldir enn frekar.
 • Kanna þarf leiðir til að fylgja í fótspor nágrannasveitarfélaga og spjaldtölvuvæða mið- og unglingastig grunnskóla bæjarins í samráði við skólana.
 • Leikskólar og grunnskólar Garðabæjar eiga að vera aðlaðandi vinnustaðir. Sérstaklega þarf að huga að vinnuumhverfi starfsfólks leikskóla í bænum til að halda í faglært starfsfólk.
 • Þegar bærinn stækkar verður að gera ráð fyrir því í uppbyggingu leik- og grunnskóla. Huga þarf að húsnæðislausnum sem geta nýst á fjölbreyttan hátt ef íbúasamsetning breytist, en lykilatriði er að þær séu til staðar í tæka tíð þegar þörfin er fyrirsjáanleg. 
 • Séð verði til þess að Garðbæingar hafi tök á að koma börnum sínum í tónlistarnám ef þeir þess óska. Stækkun tónlistarskólans hefur ekki haldist í hendur við íbúafjölgun, sem augljóst er af löngum biðlista (284 börn). Mikilvægt er að úr því verði bætt sem fyrst.

Skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf er ein mikilvægasta forvörnin og getur skipt sköpum í velferð barna og ungmenna, fyrir utan það menningarlega mikilvægi sem það hefur fyrir samfélagið okkar. Við viljum að horft sé sérstaklega til lýðheilsu og félagslegra sjónarmiða.

Við viljum að… 

 • Öll stefnumótun í íþrótta- og æskulýðsmál sé til lengri tíma og að fjárframlög taki mið af auknu álagi á félög bæjarins í ört stækkandi bæ. 
 • Aukin áhersla verði sett á fjölbreytt íþrótta- og æskulýðsstarf, svo öll börn geti fundið tómstundir við hæfi.
 • Starfrækt verði sumarfrístund fyrir börn í grunnskólum og félög í bænum studd í því að bjóða upp á fjölbreytt sumarnámskeið. 
 • Stutt verði við að íþróttafélögin bjóði upp á íþróttastarf þar sem pláss er fyrir alla sem hafa áhuga, óháð getustigi. 
 • Félagasamtök með samninga við bæinn njóti einnig góðs af þeirri mannréttindafræðslu sem starfsfólki Garðabæjar býðst (sbr. mannréttindaáherslur Garðabæjarlistans).
 • Gætt sé að jafnræði milli íþróttafélaga og annara félaga bæjarins er varðar framlög, sérstaklega þeirra sem bjóða upp á skipulagt starf fyrir börn og ungmenni. 
 • Aðgengi að skipulögðu félagsstarfi sé tryggt á milli hverfa.
 • Stuðlað verði að því að Sigingaklúbburinn Vogur verði endurvakinn, sem góð viðbót við æskulýðsstarf í bænum auk þess að gefa bæjarbúum tækifæri til þess að njóta þessa einstaka útivistarsvæðis sem Arnarnesvogurinn er.