AÐ GETA HAFT ÁHRIF

Á þessu fyrsta ári kjörtímabilsins höfum við í Garðabæjarlistanum lagt fram 31 tillögu fyrir bæjarstjórn og því við hæfi að draga fram í hverju þær hafa falist og meðferð þeirra.

Tillögurnar hafa verið af ýmsum toga og fengið fjölbreytta meðferð meirihlutans. Allt frá því að hafa fengið nokkrar góðar samþykktar yfir í að vera felldar og teknar pólitísku eignarhaldi. Tillögur sem taka á ólíkum þáttum en allt málefnum sem við í Garðabæjarlistanum töluðum sterkt fyrir í aðdraganda kosninga.

Gagnsærri stjórnsýsla.

Við höfum verið að rýna í stjórnsýsluna og lagt til þó nokkrar tillögur til úrbóta þegar kemur að skýrari verkferlum og gagnsæi upplýsinga fyrir íbúa. Einhverjar eru í vinnslu og ein hefur þegar fengið fullnaðar afgreiðslu og breytt verklagi innan stjórnsýslunnar með formlegum hætti.

Fræðslumál

Okkar fyrsta tillaga í bæjarstjórn var um markvissa hinsegin fræðslu fyrir allt starfsfólk Garðabæjar sem var samþykkt til meðferðar hjá fræðsluráði og gerði það að verkum að allir stjórnendur grunnskólanna fengu fræðslu ásamt því að unnið er að sambærilegu fyrirkomulagi innan íþrótta- og tómstundasviðs.

Menntamál

Stytting vinnuvikunar þar sem fókusinn yrði á leikskólaumhverfið til að byrja með var felld. Því miður. Þar hefði verið hægt að stíga mikilvægt skref í að bæta umhverfi heillar stéttar sem starfar hjá Garðabæ. Fleiri tillögur sem taka á vinnuumhverfi kennara voru lagðar fram þar sem fókusinn var á tækni og vinnuhagræði með innleiðingu kerfis sem tekur utan um alla þætti sem varða skipulag og utanumhald kennslu. Tillagan var sett í farveg til frekari skoðunar hjá fræðslusviði. Önnur sambærileg tillaga um aukna kennslu í upplýsingatækni í takt við stafrænu byltinguna var færð til umræðu og úrvinnslu í skólanefnd. Sú tillaga hefur haft þau áhrif að í haust munum við fá til okkar alla kennsluráðgjafa og fá yfirsýn yfir þessa þætti skólastarfsins með það í huga hvernig megi gera betur.

Umhverfismál

Við lögðum fram tillögu um innleiðingu Heimsmarkmiðanna sem felld var inn í tillögu meirihlutans og hún samþykkt. Tillaga um umhverfisvænni ferðamáta starfsmanna bæjarins var flutt yfir í bæjarráð og síðar lagði meirihlutinn fram sambærilega tillögu um kaup á rafmangshjólum sem bjóðast starfsmönnum til afnota.

Lýðheilsumál

Við höfum ítrekað lagt fram tillögu sem tekur á frekari systkinaafslætti þegar kemur að íþróttaiðkun sem hefur verið send áfram inn í nefnd en ekki verið afgreidd. Lýðheilsa eldri borgara hefur verið á dagskrá hjá okkur þar sem við höfum lagt til að farið verði í samstarf við Janus heilsueflingu sú tillaga er enn í úrvinnslu inn í nefnd.

Innleiðing Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna var ein af tillögum okkar sem var samþykkt í bæjarstjórn.

Tillaga okkar um að koma af stað framkvæmd við innleiðingu þeirra verkefna sem hafa verið samþykktar í vetur var síðan tekin pólitísku eignanámi og sett í nýjan búning meirihlutans.

Betri þjónusta við börn og fjölskyldur

Við lögðum fram tillögu um innleiðingu fjarþjónustu þegar kemur að velferð barna og ungmenna. Þar sem boðið yrði upp á fjarþjónustu fyrir ungmenni með kvíðaeinkenni, tilraunarverkefni til eins árs. Tillagan var lögð inn í fjárhagsáætlunargerð næsta árs því verður áhugavert að sjá hvernig henni verður lent í þeirri vinnu í haust. Mikilvægt mál um aðgengi ungmenna að mikilvægri þjónustu.

Húsnæðismál

Við lögðum fram djarfa og framsýna tillögu þess efnis að um 4% allra nýrra íbúða færu á leigumarkað, þeirri tillögu var hafnað.

Því má segja að við höfum sannarlega áhrif með því að setja mál á dagskrá og tala fyrir ákveðnum breytingum. Þó svo að við höfum ekki valdið til framkvæmda. 

Virkjum lýðræðið – það skiptir máli.