Á morgun kjósum við um það hvernig framtíðin í samfélaginu okkar lítur út. Hvernig Garðabæ við viljum sjá á næstu árum.
Við Garðbæingar vitum hvernig samfélag Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ hefur skapað. Þegar sami flokkurinn er við völd áratugum saman verður til samfélag þar sem fólk sem hefur hagsmuna að gæta gagnvart sveitarfélaginu veigrar sér við því að láta í sér heyra, þar sem ákveðinn flokkur er normið og allt annað frávik, þar sem tengsl inn í flokkinn verða til þess að tækifæri bjóðast sem aðrir fá ekki. Þar sem réttmæt gagnrýni á vinnubrögð meirihlutans, lögð fram af tiltrú og ást á samfélaginu, er máluð upp sem niðurrifstal. Eins og það að samþykkja ekki möglunarlaust allt sem Sjálfstæðisflokknum dettur í hug sé að vera á móti Garðabæ.
Það er kominn tími til að gefa upp á nýtt og losna við þetta ójafnvægi. Það er kominn tími til þess að leyfa samfélaginu okkar að blómstra. Þar sem skoðanaskipti eru velkomin og þar sem enginn hefur sjálfkrafa tilkall til áhrifa.
Við Garðbæingar erum miklu fjölbreyttari en fólk heldur. Í Garðabæ býr fólk sem er kærleiksríkt, sem lætur sig samfélagið sitt varða og allt fólkið í því. Fólk sem trúir því að við getum gert betur í dásamlega bæjarfélaginu okkar.
Ég veit að Garðabær á sér bjarta framtíð þar sem mannvirðing og ábyrgð gagnvart samfélaginu er höfð að leiðarljósi, þar sem fjölbreyttir húsnæðiskostir og ferðamátar eru til staðar fyrir fjölbreytt fólk og þar sem börn gjalda ekki fyrir efnahag foreldra sinna. Þar sem enginn er skilinn útundan.
Það er löngu kominn tími á breytingar í samfélaginu okkar hér í Garðabæ. Garðabæjarlistinn hefur skýra framtíðarsýn, er bæði reynslumikill og ferskur en fyrst og fremst samsettur af fólki sem brennur fyrir betri bæ.
Garðabær er okkar samfélag og tíminn er núna. Mætum á kjörstað á morgun, kjósum X-G.