Listinn 2022

1. Þorbjörg Þorvaldsdóttir

Bakgrunnur og áhugamál:
Ég er Garðbæingur og grunnskólakennari, eiginkona Silju Ýrar S. Leifsdóttur og mamma tveggja leikskólastúlkna, sex og tveggja ára. Ég hef búið víða þótt ég sé að mestu uppalin hér í bænum, en valdi að koma hingað aftur til þess að ala upp börnin mín. Ég hef búið á nokkrum stöðum í Garðabæ: í Kjarrmóum, Ásbrekku á Álftanesi, í Holtsbúð og í Þrastarlundi sem barn og unglingur, en bý nú í Hrísmóum. Sem barn tók ég þátt í skátastarfi með Vífli, lærði á klarinett í Tónlistarskóla Garðabæjar og gekk í Hofsstaðaskóla. Á unglingsárunum æfði ég sund og gekk í Garðaskóla, en fór síðan í Menntaskólann í Reykjavík þaðan sem ég útskrifaðist af fornmáladeild.

Ég vinn í Víðistaðaskóla í Hafnarfirði og kenni þar íslensku, dönsku og spænsku í unglingadeild. Ég er málfræðingur, með BA í almennum málvísindum frá HÍ og MA í málvísindum frá Leiden University í Hollandi. Svo er ég líka íslenskukennari og hef nýverið lokið viðbótardiplómu til kennsluréttinda frá HÍ. Á öðrum tímabilum lífs míns hef ég verið doktorsnemi, flugfreyja, starfað við aðhlynningu, verið barþjónn og unnið í gestamóttöku á hóteli. Ég hef alla tíð verið virk í félagsstörfum og sat m.a. í stjórn Samtakanna ‘78 árin 2018-2022, þar af þrjú ár sem formaður félagsins. Ég hef á kjörtímabilinu verið nefndarmaður Garðabæjarlistans í menningar- og safnanefnd auk þess að vera varabæjarfulltrúi.

Ég hef mikinn áhuga á samfélaginu okkar, mannréttindum og félagsmálum. Þar fyrir utan hef ég áhuga á bókmenntum, poppmenningu og alþjóðastjórnmálum, en þessa dagana á sjósund hug minn allan.

Helstu áherslur:
Helstu áherslur mínar eru fjölbreyttar, öruggar og loftslagsvænar samgöngur, húsnæðisuppbygging fyrir alla hópa Garðbæinga, sérstaklega ungt fólk, og að Garðabær sýni samfélagsleg ábyrgð í velferðarþjónustu. Það eru spennandi tækifæri fyrir hendi í Garðabæ, við verðum að grípa þau!

Það besta við Garðabæ í einu orði: Samfélag

2. Ingvar Arnarson

Bakgrunnur og áhugamál:
Ég er uppalinn Garðbæingur og fjögurra barna faðir með brennandi áhuga á málefnum sem snerta Garðabæ. Ég hef kynnst vel þeirri þjónustu sem sveitarfélagið er að veita. Það er mikilvægt að sveitarfélögin sem hafa það hlutverk að þjónusta íbúa sína gera það sem allra best. Þess vegna er mikilvægt að hlusta á íbúana og taka mið af þeirra þörfum.

Ég hef setið í bæjarstjórn Garðabæjar frá árinu 2018 og var varabæjarfulltrúi frá 2014 – 2018. Ég er kennari að mennt og kenndi náttúrufræði og íþróttir við Garðaskóla 2003-2006 og eftir það hef ég starfað við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og kennt þar við íþróttabraut skólans. Í haust hóf ég nám í opinberri stjórnsýslu við HÍ. Mín helstu áhugamál eru íþróttir, veiðiskapur og að standa í framkvæmdum.

Helstu áherslumál:
Ég legg mikla áherslu á að Garðabær verði í fremstu röð sveitarfélaga þegar að kemur að þjónustu við íbúa. Ég vil sjá gjaldtöku á barnafjölskyldur lækka til muna, efla félagsþjónustu en frekar og auka framboð íþrótta og tómstunda fyrir jafnt unga sem aldna. Huga þarf vel að stígakerfi og almenningssamgöngum innan bæjarins og gæta þarf að því að haldið sé í sérstöðu hverfa bæjarins, skipulag og framkvæmdir eiga að vera gerð í sátt við íbúa og umhverfi. Að mínu mati er einnig mikilvægt að tryggja að uppbygging grunn- og leikskóla fylgi íbúaþróun bæjarins. Ég mun halda áfram að berjast af fullum heilindum fyrir bættu samfélagi.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Íbúar

3. Harpa Þorsteinsdóttir

Bakgrunnur og áhugamál: 
Ég er fædd í Reykjavík og bjó fyrstu árin þar. Ég flutti í Garðabæ þegar ég var 11 ára gömul og gekk í Flataskóla, Garðaskóla og er ég stúdent frá Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. Ég vann á leikskóla samhliða háskólanámi en ég er með B.A. gráðu í uppeldis og menntunarfræðum og fór ég í framhaldi af því í í meistaranám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands. Undanfarin ár hef ég ásamt því að vera bæjarfulltrúi í Garðabæ starfað fyrir Reykjavíkurborg og er ég nú verkefnastjóri lýðheilsumála á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. 

Fótbolti spilaði lengi stórt hlutverk í mínu lífi og spilaði ég lengst af með Stjörnunni þar sem ég var hluti af sigursælu liði þar sem við lönduðum sjö stórum titlum á sex árum, en ásamt því þá spilaði ég fyrir íslenska landsliðið. Eftir að ég hætti að spila hef ég unnið nefndarstörf fyrir KSÍ og er með gráðu í stjórnun á vegum EUFA. Ég er í sambúð með Jóhannesi Karli og eigum við fjögur börn á aldrinum 2-16 ára svo það er alltaf líf og fjör á heimilinu, en þess fyrir utan þá elska ég að vera úti í náttúrunni, hlaupa og hreyfa mig.

Helstu áherslumál: Lýðheilsa, börn og ungmenni.
Það besta við Garðabæ í einu orði: Nálægð

4. Guðjón Pétur Lýðsson

Bakgrunnur og áhugamál: 
Uppalinn á Álftanesi með móður minni henni Brynju Guðmundsdóttur og þremur systkinum. Hef stundað knattspyrnu, körfubolta og tennis á mínum yngri árum og hef því mikinn áhuga á íþróttum yfirhöfuð og öllu því sem ýtir undir góða heilsu. Er í dag íbúi Urriðaholts og byggði þar raðhús og útfrá því hefur áhuginn á skipulagsmálum aukist mikið og myndi segja að það væri eitt af mínum helstu áhugamálum.

Helstu áherslumál: 
Að klára uppbyggingu innviða áður en vöntunin er farinn að skafa það starf sem unnið er, annars vegar íþróttamannvirki og skólar, má þar nefna Urriðaholtsskóla, Álftanesskóla og Sjálandsskóla, en einnig þarf að byrja uppbyggingu á skólamannvirkjum í Hnoðraholti. 

Langtímasýnin er að Stjarnan flytji alla sýna starfsemi í Vetrarmýri og þar verði byggð frábær aðstaða og allir innviðir í kringum þær greinar, aðstaðan geti verið með því besta sem völ er á. Ásgarður yrði skipulagður undir þétta byggð þar sem stutt væri í frábærar almenningssamgöngur (borgarlínu), verslun, skóla og einfaldar og góðar samgöngur í Vetrarmýrina.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Íbúarnir

5. Ósk Sigurðardóttir

Bakgrunnur og áhugamál:
Ég er Garðbæingur, alin upp í Holtsbúð og gekk í Hofstaðaskóla, Flataskóla, Garðaskóla og Fjölbrautarskólann í Garðabæ. Ég er menntaður iðjuþjálfi frá Danmörku, er með MBA gráðu, MPM meistaragráðu í verkefnastjórnun og framhaldsgráðu í nýsköpun og stefnumótun frá Oxford-háskóla.

Ég starfaði til fjölda ára á barna- og unglingageðdeild og sem verkefnastjóri á skrifstofu forstjóra Landspítala. Ég var einnig formaður Iðjuþjálfafélags Íslands í 6 ár. Í dag starfa ég sem framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar Landssambands hreyfihamlaðra og kenni nýsköpun við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Ég er einnig stjórnarmaður í Römpum upp Ísland.

Ég hef mikinn áhuga á nýsköpun, er samfélagslegur frumkvöðull og stofnandi TravAble appsins sem veitir fólki með hreyfihömlun upplýsingar um aðgengi að byggingum og þjónustu. Einnig hef ég verið mentor í fjölda nýsköpunarhraðla og matsmaður nýsköpunar- og samfélagssjóða. 

Önnur áhugamál eru matreiðsla, listir og menning, einnig er ég er forfallin veiðikona og elska að fara á allar tegundir skíða og vera úti í náttúrunni.

Ég er í sambúð með Bárði Erni Gunnarssyni og saman eigum við fjögur börn á aldrinum 11-15 ára.

Helstu áherslumál:
Nýsköpun, sjálfbærni, aðgengis- og öldrunarmál.

Ég vil sjá fjölbreyttari atvinnutækifæri í Garðabæ, bæta aðgengi einyrkja og frumkvöðla að húsnæði og sterkara stuðningsneti ásamt því að styðja við nýsköpunarnám í grunnskólum bæjarins. Ég vil að Garðabær sé aðgengilegur öllum og að bærinn geti stutt við og boðið upp á viðeigandi þjónustu, aðgengilegt húsnæði og velferðartækni, fyrir fatlaða einstaklinga sem og eldri borgara.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Barnvænn

6. Baldur Ó. Svavarsson

Bakgrunnur og áhugamál: 
Ég er 65 ára arkitekt, faðir og afi. Fæddur í Vestmannaeyjum en búið í Garðabæ í nær 60 ár. Gekk í Barnaskóla Garðahrepps og þaðan Landspróf frá Gagnfræðaskóla Garðahrepps 1973 og stúdentspróf frá Menntaskólanum við Tjörnina 1977. Allt skólar sem ekki eru til  með þessum nöfnum í dag.

Arkitekt frá Arkitektaháskólanum í Ósló (AHO) 1984 þar sem ég nam, bjó og starfaði í um 10 ár. 

Hef starfað sem arkitekt og við rekstur eigin arkitektastofu, Úti og Inni s.f. arkitektar, s.l. 30 ár.

Áhugamál mín eru fjölmörg, auk fjölskyldunnar, allt sem viðkemur arkitektúr, hönnun og myndlist. Öll útivera og heilsurækt s.s. skíði og stangveiði sem eru þar fremst. Síðast en ekki síst íþróttir og þá allt sem viðkemur Stjörnunni Undirritaður starfað að viðgangi félagsins frá barnsaldri. Síðast sem leikmaður í meistaraflokki handknattleik auk stjórnarsetu og formennsku í handknattleiksdeild. Þá má geta þess að ég er einn stofnfélaga Skátafélagsins Vífils hér í bæ.

Helstu áherslur: Skipulagsmál 

Það besta við Garðabæ í einu orði: Stjarnan

7. Greta Ósk Óskarsdóttir

Bakgrunnur og áhugamál:
Ég er móðir og húsmóðir, bjó í Breiðholti, Kaupmannahöfn, Vesturbæ og svo Garðabæ. Útskrifuð með BA í bókmenntafræði, hef verið bætiefnaráðgjafi í meira en áratug, ávallt áhugasöm um stjórnmál og heimspeki. Var forman Samtaka kvenna um Nýja stjórnarskrá árið 2020. Er varaforman Samtaka um áhrif umhverfis á heilsu. Var varaformaður Íbúasamtaka Urriðaholts 2020-2021.

Áhugamál eru maðurinn minn og börnin mín, fjölskyldan og vinirnir, náttúran, blóm, jurtir og gróður, heildræn læknisfræði og grasalækningar, lífefnafræði líkamans og umhverfisins, fjárhagslegt sjálfstæði og fjármálalæsi, matargerð og bakstur, sálfræði sérstaklega kenningar Carls Jung, 80s tónlist og klassísk tónlist.

Helstu áherslumál:
Að bæta kerfi og auka lífsgæði. Stuðla að sjálfbærni í rekstri og vinna að vellíðan allra bæjarbúa.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Lífsgæði

8. Sigurður Þórðarson

Bakgrunnur og áhugamál: 
Fæddur og uppalinn Garðbæingur. Helstu áhugamál eru íþróttir af öllum toga og ég hef verið svo gæfusamur að fá að starfa við mitt helsta áhugamál frá unga aldri. Ég hef verið viðloðandi Stjörnuna nánast frá fæðingu, æfði bæði knattspyrnu og körfubolta hjá félaginu og byrjaði svo að þjálfa og dæma hjá knattspyrnudeild í kringum 2001 og starfaði annað hvort sem sjálfboðaliði eða starfsmaður hjá félaginu til 2020 þegar ég fór í fullt starf hjá Knattspyrnusambandi Íslands.

Helstu áherslumál:
Efla félagsþjónustu enn frekar og auka framboð íþrótta og tómstunda fyrir jafnt unga sem aldna. Að mínu mati þarf að endurskoða starf íþróttafélaga í bænum og því samhliða þarf að skoða að stofna íþróttabandalag í kringum starf þeirra.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Íþróttabær

9. Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir

Ég er fædd og uppalin á Siglufirði. Ég stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og útskrifaðist sem tónmenntakennari. Lauk einleikaraprófi og kennaraprófi í píanóleik frá Guildhall School of Music and Drama ásamt kennaraprófi í einsöng. Lagði stund á meðleik bæði í Guildhall og Westminster Choir Collage, Rider University í Prinston U.S.A. þar sem ég lagði líka stund á píanóleik, einsöng og kennslufræði. Hef tekið þátt í fjölda tónlistar námskeiða bæði hérlendis og erlendis. Stundaði nám við Öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð. Útskrifaðist sem leiðsögumaður frá Leiðsögumannaskóla Íslands þegar ég komst á eftirlaun.

Ég bjó í sjö ár í London og að loknu námi kenndi ég tónlist, aðallega píanóleik við einkaskóla. Fluttist til Íslands og kenndi píanóleik við Tónskóla Sigursveins í fjölda ára ásamt undirleik með söngnemendum sem og við Tónlistarskóla Kópavogs. Var deildarstjóri við Tónlistarskóla Garðabæjar á Álftanesi og byggði upp deildina frá 1984 til 1987 en þá varð skólinn sjálfstæður. Ég var skólastjóri frá upphafi þar til Álftanes sameinaðist Garðabæ 2013 og Tónlistarskólarnir voru sameinaðir.

Ég hef haldið og tekið þátt í fjölda tónleika, víða um land og erlendis ásamt eiginmanni mínum. Hef einnig unnið með öðrum söngvurum, kórum, hinum ýmsu hljóðfæraleikurum og sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Fjöldi upptaka fyrir Ríkisútvarpið. Hef unnið sem leiðsögumaður. Var varamaður í hreppsnefnd Bessastaðahrepps á sínum tíma. Hef setið í umhverfisnefnd Garðabæjar s.l. átta ár og tónlistarskólanefnd s.l. fjögur ár. Sjálfboðaliði hjá Rauðakrossinum.

Tónlist er mitt aðaláhugamál. Ég hef líka mjög gaman af að fara í leikhús og á góða myndlistarsýningu. Lestur góðra bóka og útivist eru líka stór partur af tilveru minni.

Ég er gift John Speight söngvara og tónskáldi. Við eigum tvo syni og sex barnabörn.

Helstu áherslumál:
Að Tónlistarskólinn fái aukið fjármagn til uppbyggingar á húsnæði og fleiri stöðugildi svo að öll börn í Garðabæ fái jöfn tækifæri til að stunda tónlistarnám, en nú eru 284 börn á biðlista. Umhverfis- og loftslagsmál. Ég vil sjá Garðabæ með opin græn svæði fyrir almenning ekki bara í útjaðri heldur líka í byggð. Að uppbygging verði takmörkuð á Álftanesi svo það standi undir nafninu sveit í borg.

Það besta við Garðabæ: Fjölbreytileiki náttúrunnar og friðlýsingar.

10. Finnur Jónsson

Bakgrunnur og áhugamál:
Ég er fæddur og uppalinn í Garðabæ og bý nú í Urriðaholti. Ég gekk í Hofsstaðaskóla, síðan Garðaskóla og að lokum Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Ég æfði handbolta lengi vel með Stjörnunni og spilaði með meistaraflokki félagsins í nokkur ár. Ég er með BA gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði og í vor klára ég meistaragráðu í kennslufræði yngri barna í grunnskóla. Ég starfa sem umsjónarkennari í 1. bekk í Urriðaholtsskóla.

Helstu áherslumál:
Ég hef starfað með börnum og ungmennum í fjölda ára í íþrótta- og tómstundastarfi sem og skólastarfi og hef því góða þekkingu á því hvar hægt er að gera enn betur. Garðabær er sístækkandi sveitarfélag þar sem barnafjölskyldum hefur fjölgað hratt undanfarin ár og við því þarf að bregðst með styrkingu innviða bæjarins í víðtækum skilningi, þ.m.t. þegar kemur að því að tryggja góðar og öruggar samgöngur fyrir börn og ungmenni á milli bæjarhluta.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Fólkið.

11. Theodóra Fanndal Torfadóttir

Bakgrunnur og áhugamál: 
Fædd og uppalin í Reykjavík en flutti í Urriðaholtið í Garðabæ haustið 2020. Ég er að vinna að því að klára meistararitgerð mína í lögfræði við Háskólann í Reykjavík og starfa sem fangavörður hjá Fangelsismálastofnun Ríkisins. Ég er einnig varaformaður Gunnhildar – félag ungra jafnaðarmann í Garðabæ sem var endurvakið í byrjun árs 2021.

Helstu áherslumál:
Ég er ný í bæjarpólitíkinni en fljót að læra. Ég brenn fyrir mann- og kvenréttindum.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Náttúran

12. Gunnar Hólmsteinn Ársælsson

Bakgrunnur og áhugamál: 
Fæddur á Akranesi, með MA próf í stjórnmálafræði frá Uppsalaháskóla, kennsluréttindi í framhaldsskóla, vinn við kennslu í FG síðan 2008. Áhugamál eru kvikmyndir, tónlist, ljósmyndun og stjórnmál. 

Helstu áherslumál: Jafnrétti, gagnsæi, lýðræði, fjölbreytni.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Friðsæld

13. Maru Aleman

Bakgrunnur og áhugamál:
Ég er fædd og uppalin í Panama en hef búið á Íslandi síðan árið 2007 eftir að hafa klárað MBA gráðu í hótel- og veitingastjórnun frá Cezar Ritz háskólanum í Sviss. Við fjölskyldan, ég og börnin mín, 12 ára dóttir og 3 ára sonur, höfum búið í Garðabæ í nokkur ár og finnst hvergi betra að vera. Mikið af minni starfsreynslu er í ferðamannaiðnaðinum enda finnst mér virkilega skemmtilegt að eiga í mannlegum samskiptum og starfa í sölu og markaðsetningu. Í dag vinn ég sem tekjustjóri hjá Keahótelum. Þau áhugamál sem ég hef einna helst gaman af er að elda, dansa, læra nýja hluti og að vera með börnunum mínum og ástvinum.

Helstu áherslumál:
Undanfarið hefur Garðabær stækkað mikið og við getum gert mun betur í samgöngumálum með tengingu milli hverfa, s.s. Urriðaholts og Álftaness, sér í lagi fyrir börnin okkar. Samgöngur ættu að vera fríar fyrir börn og unglinga undir 18 ára og ég vil leggja áherslu á að þau geti komist frá skóla til tómstunda með einföldum hætti. Mikilvægt er að hlúa að eldri borgurum og fötluðum og bæta þjónustu við báða hópa svo um munar, ásamt því að passa að það sé hjólastólaaðgengi alls staðar innan bæjarins. Einnig vil ég leggja áherslu á menntun ungmenna og hollari máltíðir í skólum.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Heima

14. Hrafn Magnússon

Bakgrunnur og áhugamál:
Framkvæmdastjóri Sambands almennra lífeyrissjóða og Landsamtaka lífeyrissjóða í 36 ár. Bókmenntir og listir. 

Helstu áherslumál:
Kjör eldri borgara og öryrkja og önnur félagsleg úrræði.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Góðir nágrannar.

15. Kristín Helga Gunnarsdóttir

Bakgrunnur og áhugamál:  Rithöfundur,  blaðamaður, leiðsögumaður. Áhugamál mín eru skíði, fjallgöngur, útivist og hjólreiðar. 

Helstu áherslumál: Útivistarsvæðin, umhverfismál og barnavelferð.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Náttúran (nálægð við útivistarsvæði)

16. Björn Gabríel Björnsson

Bakgrunnur og áhugamál:
Fæddur Reykjavík. Ólst fyrstu fjögur árin upp i Garðabæ, flutti þaðan á Álftanes árið 2005 og búinn að vera þar síðan. Ég hef æft klifur síðan árið 2009 og hef náð ágætis árangri þar, t.a.m. Íslandsmeistaratitil fjórum sinnum. Ég er nýstúdent frá Fjölbrautarskólanum í Garðabæ og björgunarsveitarmaður úr Flugbjörgunarsveitinni í Reykjavík. Áhugamál mín eru útivist og ferðalög.

Helstu áherslumál:
Fjölbreytt íþróttastarf, gagnsæi og lýðheilsumál.

Það besta við Garðabæ í einu orði: Heima

17. Hulda Gísladóttir

Bakgrunnur og áhugamál:
Ég er uppalin í Breiðholti og hef búið í Garðabæ sl 5 ár. Ég er með BS gráðu í viðskiptafræði og meistaragráðu í stjórnun og forystu. Ég er gift Viðari Helgasyni og samanlagt eigum við fimm börn á aldrinum 11-32 ára. Áhugamál mín eru útivist hvers konar en sérstaklega fjallgöngur og hlaup. Ég er virk í frábærum félagsskap hlaupahóps Stjörnunnar.

Helstu áherslumál:
Málefni barna og ungmenna eru mér afar hugleikin en ég á tvo drengi á grunnskólaaldri sem stunda íþróttir af kappi hjá Stjörnunni. Mér finnst skipta öllu að við hlúum vel að börnunum okkar og tryggjum að skólakerfið sem og skipulagðar tómstundir séu með besta móti og ýti undir og styðji við mismunandi styrkleika barnanna okkar. Garðabær er stöndugt bæjarfélag og við eigum að nýta þann grunn til að gera enn betur fyrir íbúana okkar, unga sem aldna.

18. Hannes Ingi Geirsson

Bakgrunnur og áhugamál:
Hannes Ingi Geirsson, borinn og barnfæddur Garðbæingur. Ég er með B.S. gráðu í íþróttafræði frá Háskóla Íslands og MHRM gráðu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði frá Háskólanum í Reykjavík. Ég hef kennt íþróttir og sund við Flataskóla frá árinu 2004 auk þess að þjálfa börn og unglinga í blaki hjá Stjörnunni. Ég hef unnið fjölmarga meistaratitla með blakliði Stjörnunnar auk þess að spila fjölda landsleikja fyrir Íslands hönd. Heilsa og tómstundir ungmenna hefur verið sá málaflokkur sem ég brenn helst fyrir. Ég er kvæntur Karen Kjartansdóttur, almannatengli, og eigum við þrjú börn á aldrinum 11 til 19 ára.

Helstu áherslumál:
Ég hef mikinn metnað fyrir hönd Garðabæjar og býð fram krafta mína til að gera góðan bæ enn betri og skemmtilegri. Mér eru hugleikin málefni fjölskyldufólks en afar brýnt er að gera bæinn meira aðlaðandi fyrir yngri fjölskyldur sem eru að stíga sín fyrstu skref. Til þess þarf að bæta allt aðgengi að þjónustu fyrir fjölskyldur með ung börn. Til þess þarf að taka gjöld fyrir leikskóla, frístund og tómstundamál til endurskoðunar.

19. Sólveig Guðrún Geirsdóttir

Bakgrunnur og áhugamál: 
Ég hef þrætt helstu menntastofnanir bæjarins, fyrst sem nemandi og svo sem starfsmaður. Síðustu ár hef ég unnið með yngstu íbúum Álftaness sem stuðningsfulltrúi og frístundaleiðbeinandi. Yfir sumartímann hef ég svo starfað fyrir Landsvirkjun og í samstarfi við Skógræktarfélög Höfuðborgarsvæðisins unnið að því að græða og fegra nærumhverfi okkar. 

Undanfarið hef ég sinnt verkefninu ‘Sólveig og leitin að áhugamáli’. Það verkefni leiddi mig í óvænt í skvass og má nú flestar stundir finna mig með spaða í hönd.

Helstu áherslumál: 
Þegar kemur að málefnum bæjarfélags okkar er mér helst hugleikið réttlæti og fjölbreytni. Bærinn ætti að vera opinn öllum og mæta ætti íbúum á þeirra forsendum. Samfélag á að aðlagast íbúum þess frekar en öfugt.

20. Guðmundur Andri Thorsson

Bakgrunnur og áhugamál:
Bókmenntamaður og tónlistarunnandi.

Helstu áherslumál: Jöfnuður

Það besta við Garðabæ í einu orðu: Víðáttan

21. Guðrún Elín Herbertsdóttir

Bakgrunnur og áhugamál: 
Alin upp á Álftanesi og bý þar enn. Gékk í Álftanesskóla, Garðaskóla, Fjölbraut í Garðabæ og tók svo B.S próf í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík 2006. Hef hef unnið sl. 17 ár í Seðlabanka Íslands en vann þar á undan ma. á bensínstöð, í apóteki og í útibúi gamla Búnaðarbankans.

Ég á eina dóttur, Emmu Lísu, fædda 2016. Pabbi hennar er bóndi vestur í Dölum, svo Emma Lísa fær bæði að kynnast alvöru sveitalífi sem og „sveitinni í borg“ hérna á Álftanesinu.

Ég var oddviti Bjartrar framtíðar í Garðabæ og sat í bæjarstjórn og bæjarráði 2014-2018.

Helstu áhugamál mín eru samvera með fjölskyldu og góðum vinum, jóga, hugleiðsla, ferðalög og göngur.

Ég greindist með eitlakrabbamein 2020 sem ég er nú laus við en er enn í endurhæfingu eftir stranga lyfjameðferð. Hef því sl. tvö ár fengið hraðkúrs í því að berjast við ríkið og stofnanir til að fá nauðsynlega aðstoð og ná endum saman.

Helstu áherslumál: 
Helstu áherslumál mín snúast að jafnara og víðsýnna samfélagi handa öllum í Garðabæ, mér finnst bærinn í dag henta frekar einsleitum hópi fólks. Skipulagsmál á Álftanesinu snerta mig mikið, ég hef áhyggjur af þróuninni þar. Mér finnst líka skipta gríðarlega miklu máli að koma nýju fólki að í bæjarstjórn sem vinnur fyrir jafnrétti, víðsýni og auknu gegnsæi í stjórnsýslunni.

Það besta við Garðabæ: Fólkið

22. Gísli Rafn Ólafsson

Bakgrunnur og áhugamál: Alþingismaður, hjálparstarfsmaður, tölvunarfræðingur.

Helstu áherslumál: Jöfnuður og mannúð

Það besta við Garðabæ í einu orði: Fólkið