Nú á dögunum voru birtar niðurstöður úr árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2020. Markmið könnunarinnar var að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins ásamt því að gera samanburð og skoða breytingar á mælingum milli ára.
Almennt hækka meðaltöl á milli ára og ánægja eykst hjá þeim sveitarfélögum sem taka þátt í könnuninni en þó ekki hjá Garðabæ, þau lækka. Garðabær kemur ágætlega út í nokkrum þáttum í samanburði við önnur sveitarfélög. Það er ánægjulegt og hafa margið kosið að horfa aðeins til þess þegar rætt er um niðurstöður þessarar könnunar.
Það sem veldur mér þó áhyggjum er að Garðabær hækkar ekki í neinum þætti ólíkt öðrum sveitarfélögum. Ánægja í Garðabæ lækkaði í 7 af 13 þáttum sem kannaðir voru. Þetta er grafalvarlegt og mikilvægt að stinga ekki höfðinu í sandinn þegar að þessir þættir eru skoðaðir. Þættir sem lækka eru ánægju með þjónustu grunnskóla, hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum og skipulagsmál, þá lækkar ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bænum og einnig er marktæk lækkun á ánægju með sveitarfélagið sem stað til að búa á.
Þó að við stöndum ágætlega hvað nokkra þætti varðar miðað við önnur sveitarfélög þá tel ég mikilvægt að við tökum þessar niðurstöður alvarlega. Við þurfum að hlusta á okkar íbúa og finna út hvers vegna ánægja í bænum er að dvína í ákveðnum þáttum en til þess þurfum við að viðurkenna að svo sé og tala um þessi atriði í stað þess að horfa nánast framhjá þeim.
Það er verður vissulega áskorun að halda úti góðri þjónustu. Að mínu mati þarf að leggjast í vinnu við að greina hvað það er sem hægt er að bæta í Garðabæ með því að fara í rýnivinnu til að finna út hvað við getum gert betur.
Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans