Það er gott fyrir heilsuna og ekki síst geðheilsuna að hreyfa sig úti undir berum himni. En af hverju veljum við þá flest einkabílinn, þegar við gætum stóran hluta ársins hæglega notað virka ferðamáta á borð við göngu og hjólreiðar í bland við almenningssamgöngur? Í Garðabæ fer fremur lítið fyrir þeirri fjölbreytni vegfarenda sem sést annars víða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta snýst ekki aðeins um val íbúa, heldur einnig um forgangsröðun sveitarfélagsins.
Í Garðabæ er einfaldlega bæði þægilegra og öruggara að vera á bíl, enda er bærinn fyrst og fremst skipulagður út frá bílaumferð. Gangstéttir, göngu- og hjólastígar virðast oft frekar hannaðir fyrir fólk sem ætlar í göngutúr eða eru á leiðinni í bílinn sinn, ekki fyrir þau sem ætla á skilvirkan hátt á milli staða. Dreifð byggð ýtir svo enn undir notkun á einkabílnum.
Til þess að börnin okkar og við sjálf komumst leiðar okkar, óháð ferðamáta, þarf að forgangsraða fjármunum í gerð aðgreindra hjóla- og göngustíga, gæta þess að gangstéttarkantar séu öruggir fyrir farartæki á borð við rafmagnshlaupahjól, grípa til hraðaminnkandi aðgerða og bæta öryggi á helstu leiðum barna í skóla og frístundir.
Greiðar og öruggar leiðir fyrir hjólandi og gangandi skapa umhverfi þar sem foreldrar geta óhræddir sent börnin sín milli staða í bænum. Börn eiga að geta gengið eða hjólað í bænum sínum án þess að eiga það sífellt á hættu að verða undir bíl. Sjálf gæti ég varla hugsað mér að senda barnið mitt gangandi frá heimili okkar í Hrísmóum í Flataskóla, sem er þó aðeins í fimm mínútna göngufjarlægð. Til þess eru gatnamót Stekkjarflatar og Vífilsstaðavegar of hættuleg og umferðarhraðinn of mikill bæði á Bæjarbraut og Vífilsstaðavegi. Til að nefna dæmi til viðbótar, þá liggur verulega á lagningu öruggra göngu- og hjólastíga að íþróttahúsinu Miðgarði auk fyrirhugaðrar tengingar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur við Urriðaholtið, sem margir íbúar hafa lengi beðið eftir.
Í umferðaröryggisáætlun Garðabæjar, sem unnin var af EFLU og gefin út árið 2021, voru lagðar til tillögur að úrbótum til að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í bænum. Þar má finna fjölda aðgerða og markmið sem ríma vel við þær áherslur sem hér hafa verið taldar upp. Mikilvægt er að sveitarfélagið fylgi þessari vinnu vel eftir, veiti til hennar nægu fjármagni og hugi ekki síst að innviðum fyrir virka ferðamáta við uppbyggingu nýrra hverfa. Með auknu öryggi vegfarenda og betri innviðum mun fólk oftar kjósa að geyma bílinn heima, skutlið minnkar og lýðheilsa batnar.
Garðabæ ber skylda til að búa til umhverfi þar sem við komumst öll örugg leiðar okkar á skilvirkan máta, sama hvernig við kjósum að fara á milli staða. Í samfélaginu okkar verður að vera alvöru möguleiki fyrir Garðbæinga á öllum aldri að nota virka ferðamáta í bland við einkabílinn. Það er betra fyrir umferðarþungann, loftslagið og bæjarbraginn ásamt því að stuðla að markmiðum Heilsueflandi samfélags. Garðabæjarlistinn vill fjölbreyttar og öruggar samgöngur í Garðabæ. Gerum þetta saman!
Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans, X-G, í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí nk.