Nánast öll verkefni sveitarfélaga tengjast lýðheilsu. Í Garðabæ eru frábær tækifæri til þess að vera leiðandi í lýðheilsumálum á sveitarstjórnarstigi. Við búum í nálægð við náttúru og græn svæði eru mörg, ný hverfi líta dagsins ljós og auk þess er fjölbreytni að aukast. Það er mikilvægt að leggja áherslu á þá þætti sem ýta undir velsæld í samfélaginu okkar.
Ein af aðaláherslum okkar í Garðabæjarlistanum er að leggja aukna áherslu á heilbrigða framtíð í allri ákvarðanatöku í samfélaginu. Lýðheilsa snertir á svo ótal mörgum þáttum og það er sérstaklega mikilvægt að horfa til þeirra áhrifa sem nærsamfélagið getur haft á heilsu einstaklinga. Markviss og samstillt áhersla á félagslega áhrifaþætti heilsu þýðir að það þarf að halda vel utan um þær aðgerðir sem bæta kjör daglegs lífs fólks í nærsamfélaginu þar sem það fæðist, vex og eldist. Þetta felur í sér meðal annars snemmþroska barna, menntun, atvinnu, aðgang að auðlindum, samgöngur, skipulag og sjálfbærni. Þetta felur einnig í sér að Heilsueflandi samfélag er markvisst styrkt þar sem áhersla er á sjálfstæði einstaklingsins sem eykur félagslega samheldni og jöfnuð.
Eitt af því besta við samfélagið okkar er að mínu mati nálægðin, nálægð við stofnanir og frístundir, nálægð við náttúru, nálægð við mikilvægar samgönguæðar, nálægð við fólkið sjálft. Þessi nálægð styður við velsæld, hún auðveldar okkur að taka stærri skref í aðgerðum sem snerta heilsu okkar, líðan og öryggi.
Með þetta að leiðarljósi munu áherslur Garðabæjarlistans meðal annars vera á heilsulæsi, snemmtæka íhlutun, forvarnir, næringu, skipulagsmál og öryggi ásamt því að leggja áherslu á að Garðabær verði þekktur fyrir að vera leiðandi í lýðheilsumálum. Við ætlum að styrkja samfélagið okkar í stærri aðgerðum og skipulagsbreytingum með því að innleiða lýðheilsumat en með því þá fáum við aukinn skilning á því hvort tilteknar aðgerðir sveitarfélagsins hafi áhrif á heilbrigði og vellíðan.
Með því að auka meðvitund fólks á því hvað t.d. skipulag hverfa, innviðauppbygging og forgangsröðun aðgerða hefur á heilsu og líðan íbúa leggjum við grunn að auknu samráði. Með auknum upplýsingum getum við sem samfélag tekið upplýstar ákvarðanir um framtíð okkar í Garðabæ.
Í Garðabæ er gott að vera, það eru spennandi tímar framundan og mörg tækifæri til vaxtar. Ég hlakka til að eiga frekara samtal við bæjarbúa og ég vona að við njótum ykkar stuðnings í kosningunum 14. maí.
Harpa Þorsteinsdóttir, 3. sæti XG – Garðabæjarlistinn