Bæjarstjórn 2. júní 2022

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans, Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Ingvar Arnarson, sátu í gær (2. júní 2022) sinn fyrsta bæjarstjórnarfund á nýju kjörtímabili. Á fundinum voru helstu mál þau að ráða bæjarstjóra og skipa í nefndir og ráð (sjá lista neðst í fréttinni). Í bæjarráði fyrir hönd Garðabæjarlistans situr Ingvar fyrsta og þriðja ár kjörtímabilsins, en Þorbjörg mun taka sæti í bæjarráði annað og fjórða árið.

Almar Guðmundsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, var ráðinn bæjarstjóri á fundinum. Garðabæjarlistinn sat hjá við atkvæðagreiðsluna og færði fram eftirfarandi bókun: Garðabæjarlistinn situr hjá við þessa atkvæðagreiðslu þar sem við teljum mikilvægt að bæjarstjóri Garðabæjar sé fyrst og fremst ráðinn á faglegum grundvelli. Okkur finnst eðlilegt að bæjarstjóri sé framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og fylgi stefnu bæjarstjórnar en sitji ekki báðum megin borðsins.

Bæjarfulltrúar Framsóknar og Viðreisnar lögðu fram tillögu um áheyrnarfulltrúa í nefndum Garðabæjar. Garðabæjarlistinn lýsti yfir stuðningi við tillöguna og bókaði eftirfarandi: Garðabæjarlistinn styður tillögu Framsóknar og Viðreisnar, enda er aukin aðkoma og aðgengi allra flokka að nefndarstarfi mikilvægt lýðræðismál og mun stuðla að upplýstari umræðu og því að fulltrúar allra kjósenda í Garðabæ geti uppfyllt skyldur sínar. Tillögunni var vísað til bæjarráðs til frekari skoðunar og við vonumst til að sjá hana verða að veruleika.

Ingvar vakti á fundinum máls á tveimur erindum sem tengjast íþrótta- og tómstundastarfi og hafa komið á borð bæjarráðs. Annars vegar bréf Sentia um aðstöðu fyrir LARP í Heiðmörk og hins vegar ósk FG um uppsetningu frisbígolfvallar í kringum skólann. Bæði þessi erindi eru afar spennandi og til þess fallin að auka framboð af fjölbreyttu tómstundastarfi í bænum okkar, útivist og hreyfingu.

Auk þess fjallaði Ingvar um mikilvægi þess að halda vel utan um þau ungmenni sem eru í aukinni hættu á brottfalli úr framhaldsskóla vegna félagslegrar og efnahagslegrar stöðu með viðeigandi úrræðum.

Til umræðu kom bréf frá foreldri barns með sérþarfir sem ekki finnur úrræði við hæfi í Garðabæ í sumar. Þorbjörg lýsti yfir stuðningi Garðabæjarlistans við bréfritara og lagði að auki áherslu á mikilvægi þess að í Garðabæ verði starfrækt sumarfrístund í skólunum á vegum sveitarfélagsins, til viðbótar við það framboð sem fyrir er.

Þorbjörg fjallaði einnig um minnisblað sem kom á borð bæjarráðs er varðar móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Úkraínu. Hún fagnaði því að sveitarfélagið taki á móti flóttafólki og að þekking á þessu sviði væri nú að byggjast upp í Garðabæ. Þá sagðist hún vonast til þess að Garðabær geti tekið á móti enn fleira fólki í sömu stöðu á næstu árum. Ekki síst sé mikilvægt að starfsfólk skóla fái góða fræðslu, t.d. um einkenni áfallastreituröskunar hjá börnum.

Í þessu samhengi kom hún einnig inn á þá staðreynd að lengi hefur vantað betri upplýsingar um þjónustu Garðabæjar á öðrum tungumálum en íslensku og nefndi að Fjölmenningarsetur býður upp á ráðgjöf til sveitarfélaga. Hægt væri að fá þau í lið með Garðabæ til þess að nýta tækifærið sem hefur skapast núna til að uppfæra alla upplýsingagjöf og efla móttöku innflytjenda af ýmsu tagi.

Næsti fundur bæjarstjórnar verður haldinn 16. júní kl. 17 og verður sendur út á vef Garðabæjar. Við bendum á að bæjarbúum er ávallt velkomið að hafa samband við Þorbjörgu (thorbjorg.thorvaldsdottir@gardabaer.is) og Ingvar (ingvar.arnarson@gardabaer.is).

Fulltrúar Garðabæjarlistans í nefndum og ráðum:

Fjölskylduráð: Þorbjörg Þorvaldsdóttir aðalmaður, Theodóra Fanndal varamaður
Íþrótta- og tómstundaráð: Harpa Þorsteinsdóttir aðalmaður, Sigurður Þórðarson varamaður
Leikskólanefnd: Finnur Jónsson aðalmaður, Maru Aleman varamaður
Menningar- og safnanefnd: Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir aðalmaður, Björn Gabríel Björnsson varamaður
Skipulagsnefnd: Baldur Ó. Svavarsson aðalmaður, Ingvar Arnarson varamaður
Skólanefnd grunnskóla: Hannes Ingi Geirsson aðalmaður, Hulda Gísladóttir varamaður
Skólanefnd Tónlistarskóla Garðabæjar: Ingvar Arnarson aðalmaður, Sólveig Guðrún Geirsdóttir varamaður
Umhverfisnefnd: Greta Ósk Óskarsdóttir aðalmaður, Guðrún Elín Herbertsdóttir varamaður
Öldungaráð: Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir aðalmaður, Hrafn Magnússon varamaður
Kjörstjórn: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson aðalmaður
Svæðisskipulagsnefnd: Ingvar Arnarson aðalmaður, Baldur Ó. Svavarsson varamaður