ER SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN Á MÓTI EIGIN LOFORÐI ?

Samningatækni Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ verður seint kennd í háskólum. Meirihluti bæjarstjórnar kallar það samning að taka 130 milljónir af peningum bæjarbúa árlega, afhenda þá UMF Stjörnunni og setja nær engin skilyrði um hvernig beri að verja þeim miklu fjármunum í þágu samfélagsins.

Nýr samningur bæjarstjórnar við UMF Stjörnuna endurspeglar áherslur ráðandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Meirihlutinn telur greinilega farsælast að ýta undir sjálfstýringu, hafa sem allra minnst afskipti og vonast til að mál, sem augljóslega þarf að taka á, leysist einhvern veginn af sjálfu sér. Meirihlutinn kýs að hafa samninginn galopinn. Fjármagni er ekki skipt upp eftir verkefnum eins og áður var. Og hvergi er að sjá áherslur sem vísa til sáttmálans um Heilsueflandi samfélag, sem meirihlutinn var svo ákafur um að undirrita rétt fyrir kosningar. Hingað til hefur ekkert bólað á framkvæmdum til heilsueflandi samfélags, en eðlilegt að vænta þess að þeirra sæi stað í samningi við íþróttafélag. En meirihlutinn kýs frelsið, sem fer svo vel í munni fulltrúa hans en birtist oftast í verkleysi eða sjálfstýringu.

Sá samningur er meira en undarlegur, þar sem hvergi bólar á væntingum eða áherslum samningsaðila. UMF Stjarnan sinnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar með því skapa heilbrigða leið til uppvaxtar þar sem gildin skipta máli og viðhorf til verkefnanna er lykill að því hvernig til tekst. Áherslur Garðabæjar og Stjörnunnar ættu að vera hinar sömu, enda markmiðum þau sömu, að byggja samfélag þar sem allir fá notið sín á eigin forsendum. En samningurinn tæpir varla á neinu slíku. Markvissar aðgerðir í þágu fatlaðra barna og ungmenna eru engar, aðeins almennt orðalag sem ekki er byggjandi á. Né fyrirfram skilgreint fjármagn í þau ólíku verkefni sem þarfnast forgangsröðunar fjármagns. Aðeins er vísað í að gæta þurfi jafnvægis í rekstri ólíkra þátta eins og yngriflokkastarfs, meistaraflokksstarfs og afreksstarfs, en Stjörnunni algjörlega í sjálfsvald sett hvernig félagið nýtir rúmar 130 milljónir af almannafé á ári hverju.

Hvar er systkinaafslátturinn?

Í nýja samningnum er ekkert að finna um systkinafslátt af æfingagjöldum hjá Stjörnunni. Það hefði þó átt að vera hægðarleikur fyrir meirihlutann að ná slíku ákvæði í samninginn, í krafti þeirra miklu fjármuna almennings sem renna til félagsins. Og ekki má gleyma, að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði kjósendum sínum systkinaafslætti fyrir síðustu kosningar! Garðabæjarlistinn hefur slíkan afslátt á stefnuskrá sinni og hefur ítrekað lagt tillögu þar um fyrir bæjarstjórn. Sú tillaga – og þar með líka loforð meirihluta Sjálfstæðisflokksins – situr föst í nefnd, í algjörri óþökk ungra barnafjölskyldna sem finna svo sannarlega fyrir kostnaðinum við að vera með tvö eða fleiri börn í virku íþróttastarfi í Garðabæ. En það er eins og staða ungra barnafjölskyldna skipti ekki máli í stóra samhenginu eða að þær fjölskyldur sem ekki hafa allt heimsins fé á milli handanna geti bara hunskast annað. Að búseta í Garðabær eigi hvort eð er ekki að vera valkostur fyrir alla. Þegar á reynir virðist hið göfuga loforð meirihlutans eingöngu hafa verið lagt fram til þess að fegra málstaðinn. Innantómt kosningaloforð sem aldrei átti að standa við.

Samningurinn dregur ekki fram neina framtíðarsýn. Slík sýn virðist ekki skipta meirihlutann neinu máli. Allir gera bara sitt í nafni frelsisins algjörlega sundurslitið án nokkurrar heildarsýnar um það samfélag sem við viljum stefna á að Garðabær sé og verði. Það er eins og ekkert sé hræðilegra í augum meirihlutans í henni veröld en að hafa sýn og eiga frumkvæði að því að gera betur í einstaka málaflokkum sem við vitum öll að standa höllum fæti og krefst útsjónarsemi og yfirsetu til að finna megi leiðir til árangurs.