ERU SJÁLFSTÆÐISMENN AÐ SIGLA Í STRAND?

Áhugavert verður að fylgjast með viðbrögðum sjálfstæðismanna í Garðabæ, nú þegar spáð er samdrætti í efnahagslífinu á sama tíma og meirihlutinn í bæjarstjórn leggur í afar fjárfrekar framkvæmdir þar sem ekkert má til spara. Allt er það undir þverrandi góðærinu komið

Nú þegar hefur verið ráðinn sérfræðingur í úttekt á stjórnsýslunni og hans verkefni er að finna peninga, eða öllu heldur hvernig megi verja fjármunum bæjarins betur. Það eitt og sér vekur eftirtekt þar sem sjálfstæðismenn hafa hingað til stært sig af því að vera eitt best rekna sveitarfélagið á landinu. Er farið að hrikta í undirstöðum þeirra fullyrðinga?

Verður aðkeypt félagsleg þjónusta mögulega talin óþarfleg eyðsla á fjármunum? Mun úttektin sýna að það hefði mögulega verið betri stjórnsýsla og ábyrgari rekstur að gera eins og flest önnur sveitarfélög og fjárfesta í innviðum jafnt og þétt til að tryggja lögbundna kjarnaþjónustu, í stað þess að senda þá sem hana þurfa hreinlega annað og borga fyrir það meira en góðu hófi gegnir?

Það kostar nefnilega þegar til lengri tíma er litið að fjárfesta aldrei í innviðum, grunnstoðum sem bera uppi heilt sveitarfélag. Nú er mögulega komið að skuldadögum.

Hvernig sjálfstæðismenn ætla að koma sér í gegnum þetta kjörtímabil án vandræða er erfitt að sjá. Garðabæjarlistinn stendur vaktina og heldur bæjarbúum vel upplýstum, því ekki gerir meirihlutinn það, eins og dæmin sanna. Fáir höfðu áttað sig á þeim gríðarlegu útgjöldum sem einn fundasalur hafði í för með sér enda aldrei sett utan um þá framkvæmd áætlun sem unnið skyldi eftir. Meirihlutinn einfaldlega jós peningum, hátt í hálfum milljarði, í framkvæmdina jafnóðum og þurfa þótti.

Í dag hefur meirihlutinn þegar tekið há lán, samtals um einn milljarð króna, til þess að standa undir byggingu Urriðaholtsskóla og fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýrinni. Fjármögnunina átti að leysa einhvern tímann í framtíðinni, m.a. með sölu á lóðum þar í kring. Það þætti einhverjum háskalegt að stóla á opinn tékka framtíðarinnar. Spár taka sífelldum breytingum og við búum við viðkvæmt efnahagslíf sem á það til að taka dýfur með tilheyrandi kostnaði. Það er því óábyrgt að æða af stað með tryggingu í ef-inu og voninni þegar um svo mikla fjármuni er að ræða. Fjölnota íþróttahúsið eitt kostar að minnsta kosti 5 milljarða króna.
Og enginn er aurinn í kassanum.
Við í Garðabæjarlistanum munum fylgjast vel með hvernig sjálfstæðismenn ætla að viðhalda heimatilbúinni trú sinni á að aðalsmerki þeirra sé ábyrg fjármálastjórn.