Foreldrar og börn

Foreldrar eru undir stöðugu álagi. Hvort barnið sé búið með heimalesturinn, komist í leikskóla áður en foreldrar þurfa að fara aftur að vinna, sé öruggt á leiðinni í skólann, sé með hollt nesti. Hver á að sækja í dag? Bíddu, eru þessar buxur ekki orðnar of litlar? Vorum við búin að skrá krakkana á sumarnámskeið? Hvernig var með þessa fjáröflun? 

Já, hin svokallaða þriðja vakt hvílir þungt á foreldrum í Garðabæ líkt og annars staðar, og – eins og rannsóknir sýna – sérstaklega á mæðrum.

Það er ekki óeðlilegt að hugsanir foreldra hverfist að miklu leyti um velferð barnanna í fjölskyldunni. Við viljum börnunum okkar það besta. Við viljum veita þeim umhverfi þar sem þau geta vaxið og dafnað sem einstaklingar og upplifað lífshamingju, verið sjálfstæð og heilbrigð. 

Garðabær á að gera það sem hægt er til þess að einfalda líf foreldra og þannig gefa þeim andrými til þess að sinna öllu því sem þarf að láta ganga upp. Svo börnin okkar geti blómstrað. 

Garðabæjarlistinn vill lækka kostnað barnafjölskyldna með markvissum hætti: Með því að koma á systkina- og fjölgreinaafslætti í tómstundum gegnum hvatapeningakerfið, með því að lækka leikskólagjöld og með því að bjóða upp á hafragraut á morgnana í skólum og ávexti og grænmeti í nestistímanum án endurgjalds. Sumarfrístund á að vera valkostur á sumrin til viðbótar við þau námskeið sem félagasamtök í Garðabæ hafa boðið upp á. 

Garðabæjarlistinn vill minnka þörfina á skutli – fyrir lýðheilsu, loftslagið og sjálfstæði barnanna okkar. Það verður að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í bænum svo foreldrar geti sent börnin sín áhyggjulaus af stað út í umferðina. En til þess verða börn og ungmenni líka að geta sótt skóla og tómstundir í sínu nærumhverfi, eða eiga kost á áreiðanlegum frístundabíl og góðum almenningssamgöngum þurfi þau að sækja í önnur hverfi. Til þess að einfalda líf bæði barna og foreldra þarf að gæta þess að uppbygging á skólum og tómstundum fylgi fjölgun íbúa í þeim hverfum sem byggjast upp hér í bænum. 

Í efstu fimm sætum Garðabæjarlistans sitja foreldrar sem eiga samtals fimmtán börn á leik- og grunnskólaaldri. Við vitum hvað þarf til svo hægt sé að létta álagi af foreldrum. Okkar samfélag er barnvænt samfélag. Sköpum það saman á kjördag. Veljum X-G.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir
Oddviti X-G, Garðabæjarlistans