Nú er komið að því að kveðja árið 2022 og taka á móti nýju upphafi. Þá er við hæfi að líta yfir farinn veg. Við, bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans, höfum margt til að vera þakklát fyrir á árinu. Að baki er kosningaár þar sem okkar málefni kristölluðust í áherslu á fjölbreytt, ábyrgt og barnvænt samfélag. Við náðum góðum árangri í kosningum til bæjarstjórnar, en við fengum tvo bæjarfulltrúa og vorum grátlega nálægt því að fá inn þriðja mann. Garðabæjarlistinn hlaut 20,9% atkvæða og er þar með stærsti flokkurinn í minnihlutanum í bæjarstjórn. Við tökum því hlutverki alvarlega og veitum meirihluta Sjálfstæðisflokks öflugt aðhald fyrir hönd okkar kjósenda.
Garðabæjarlistinn hefur fundað fyrir hvern bæjarstjórnarfund frá kosningum og haldið uppi öflugu málefnastarfi, tekið sameiginlegar ákvarðanir um forgangsröðun og afgreiðslu mála. Frá kosningum höfum við lagt fram fjölda tillagna og nýtum hvert tækifæri til að koma okkar skoðun á framfæri.
Dæmi um tillögur okkar á árinu eru hækkun hvatapeninga í 75 þúsund og að þeir fylgi framvegis verðlagi. Þetta kom til framkvæmda að hluta, en hvatapeningar munu hækka um 10% árið 2023. Við lögðum einnig fram tillögu um að færa matarkostnað í leik- og grunnskólum undir reglur um tekjutengingu, en endurskoðun á reglum um tekjutengingu gjalda fer fram í vor og við vonumst til þess að koma þessum lið þar undir til að létta enn frekar undir með tekjulægstu barnafjölskyldunum hér í bænum.
Við lok síðasta kjörtímabils lögðum við fram tillögu um grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum ásamt Sjálfstæðisflokki, sem verður að veruleika næsta haust. Samningur við Samtökin ‘78 um hinsegin fræðslu til starfsfólks bæjarins og grunnskólabarna, tillaga sem við stóðum að ásamt öllum flokkum í bæjarstjórn, hefur verið undirritaður og samstarf hafið.
Önnur mál úr okkar ranni hafa hlotið brautargengi í bæjarstjórn á árinu, sem ber vott um ánægjulega breytingu á samstarfsvilja meirihlutans eftir kosningar. Tillaga Garðabæjarlistans um gerð hjólreiðaáætlunar fyrir Garðabæ var samþykkt í sumar og starfshópur skipaður á haustdögum. Þá var bæjarstjóra falið að útbúa málstefnu Garðabæjar á grundvelli tillögu okkar, með það að leiðarljósi að viðmiðunarreglur séu til um framsetningu upplýsinga á íslensku sem og á öðrum tungumálum. Einnig höfum við lagt fram ítarlega fyrirspurn í bæjarstjórn um viðbrögð við raka- og mygluskemmdum og í fjölskylduráði höfum við óskað eftir upplýsingum um félagslegt húsnæði, biðlista og fjölda barna í þeim úrræðum.
Með öðrum orðum hefur Garðabæjarlistinn ekki setið auðum höndum frekar en fyrri daginn og við munum halda áfram af sama krafti á næsta ári, í þágu allra íbúa.
Garðabæjarlistinn samþykkti fjárhagsáætlun Garðabæjar nú í byrjun desember, þrátt fyrir að vera í grunninn ósammála meirihlutanum hvað varðar tekju- og gjaldahliðina. Þá óánægju sýndum við með því að sitja hjá við afgreiðslu gjaldskráa og með því að leggja fram bókun við afgreiðslu fjárhagsáætlunar þar sem afstaða okkar er tíunduð. Gjöld á börn og barnafjölskyldur eru enn of há í Garðabæ og við munum halda áfram að tala fyrir því að þau verði lækkuð. Hins vegar eru í fjárhagsáætlun næsta árs fjöldi mála sem við töluðum fyrir bæði í kosningabaráttunni og í bæjarstjórn. Dæmi um mál sem við styðjum og höfum talað fyrir er sumarfrístund, markviss uppbygging innviða í takt við íbúafjölgun, stóraukið viðhald skólabygginga, áhersla á velferð barna og markvissa innleiðingu samþættrar þjónustu við börn á grundvelli nýrra farsældarlaga, aukin fjárfesting bæði í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og almennu félagslegu húsnæði, uppbygging Garðatorgs og fleira. Þá eru ótalin einstök smærri mál sem við höfum komið í gegn á árinu, hvort sem það er í hluta eða heild, líkt og farið var yfir hér að ofan.
Við gerum okkur grein fyrir því að við breytum ekki stóru myndinni við stjórn bæjarins á meðan Garðabæjarlistinn er í minnihluta. Þangað til það breytist höfum við því kosið að láta að okkur kveða í samstarfi og með þéttu en sanngjörnu aðhaldi bæði í bæjarstjórn og í nefndum bæjarins. Við vonumst til þess á nýju ári að koma í gegn málum á borð við tekjutengingu matarkostnaðar í leik- og grunnskólum, frekari hækkun hvatapeninga, aukinni uppbyggingu hagkvæms húsnæðis og öðrum málum sem létta undir með lág- og millitekjuhópum í bænum.
Við erum full bjartsýni fyrir árið 2023 og Garðabæjarlistinn mun áfram standa vaktina í þágu samfélags sem er fyrir okkur öll: Fjölbreytt, barnvænt og ábyrgt. Við óskum Garðbæingum gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir árið sem er að líða.
Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans.