Á bæjarstjórnarfundi, fimmtudaginn 7. apríl, var lögð fram sameiginleg tillaga bæjarfulltrúa Garðabæjarlistans og Sjálfstæðisflokksins um grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum bæjarins. Tillagan var samþykkt samhljóða en hún hljóðar svo;
,,Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að fela fræðslu- og menningarsviði að taka saman minnisblað um fýsileika þess að bjóða nemendum upp á grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum bæjarins. Minnisblaðið verði tekið til umræðu við gerð fjárhagsáætlun fyrir árið 2023.”
Í greinargerð er fylgdi tillögunni segir m.a. að með því að bjóða upp á grænmetis- og ávaxtastund (nesti) sé verið að létta undir með barnafjölskyldum. Grænmetis- og ávaxtastund komi í staðinn fyrir nestistíma og þurfa nemendur því ekki að mæta með nesti í skólann. Samráð skuli haft við skólastjórnendur og ungmennaráð um framkvæmd og fýsileika ofangreindrar tillögu.
Garðabær er heilsueflandi bæjarfélag sem leggur áherslu á að börnum bjóðist næring sem uppfyllir ráðleggingar og viðmið um mataræði og næringarefni. Í aðgerðaráætlun með lýðheilsu og forvarnarstefnu Garðabæjar kemur fram að bæta þurfi framboð af hollum mat í mötuneytum skóla. Lýðheilsuaðgerð sem þessi er til þess fallin að auka neyslu á grænmeti og ávöxtum. Í skólum bæjarins er mikilvægt að huga að fæðuvenjum barna og með þessu getum við lagt grunn að mataræði sem hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu til framtíðar.
Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi
Harpa Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar
Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs