Í bæjarstjórn Garðabæjar erum við á milli umræða um ársreikning sveitarfélagsins. Ársreikningur ársins 2019 birtir áður þekkta stöðu. Meirihlutinn heldur sínu striki virðist gera sér það að leik að vanáætla tekjur hvar sem hægt er að koma því við. Þegar tekjurnar reynast svo, fyrirsjáanlega, töluvert hærri en áætlað var í ákveðnum liðum slær meirihutinn sér á brjóst og hælir sér af góðum rekstri og ábyrgri fjármálastjórn.
Við skoðun ársreikningsins vakna spurningar um ákveðna þætti og þær höfum við lagt fram fyrir hönd Garðabæjarlistans. Meginstef þeirra er mikilvægi gagnsærrar stjórnsýslu og ábyrgrar áætlunargerðar. Þegar tekjur eru kerfisbundið vanáætlaðar förum við á mis við þann lærdóm að meta innri og ytri áhrif tekna bæjarsjóðs sem er mikilvægasti lærdómurinn til þess að geta tekist á við skyndilegar og ófyrirsjánlegar aðstæður. Fjárhagsáætlunin er tæki til skilvirks rekstrar, ekki gerviplagg til að gera meirihlutanum kleift að hreykja sér af rekstrarsnilld. Fyrir utan þessa kerfisbundnu vanáætlun væri eðlilegt að ársreikningurinn sýndi skýra og sundurliðaða framsetningu á launagreiðslum bæjarstjóra og bæjarfulltrúa, svo dæmi sé tekið, enda um miklar fjárhæðir að ræða og þykir til siðs hjá öðrum sveitarfélögum.
Gagnsæi er gríðarlega mikilvægt aðhaldstæki í stjórnsýslu. Enn eitt dæmi um skort á slíku varðar upplýsingar um tengda aðila. Garðabær skilgreinir bæjarfulltrúa og maka þeirra sem tengda aðila að rekstri bæjarins, en undanskilur bæjarstjóra og aðra prókúruhafa sveitarfélagsins. Það gengur þvert gegn tilgangi skilgreiningar á tengdum aðilum. Hvers vegna nær gagnsæið ekki til allra? Ræður pólitíkin þar för, fremur en krafa um gagnsæi?
Við í Garðabæjarlistanum köllum áfram eftir meira gagnsæi, skýrari upplýsingagjöf og nákvæmari fjárhagsáætlun til að skapa sem allra réttasta mynd af stöðu sveitarfélagsins hverju sinni og frammistöðu meirihlutans við fjármálastýringu.
Staðreyndin er sú, að þegar markvisst er vanáætlað þá er hægt að breiða yfir aðra þætti eins og sívaxandi skuldasöfnun á hvern íbúa, litla fjárfestingu í innviðum þegar kemur að félagsþjónustu, uppbyggingu félagslegs húsnæðis eða bættri þjónustu og íbúðaformi fatlaðs fólks. Lítið sem ekkert saxast á biðlista eftir félagslegu húsnæði og talið gott og gilt þar sem biðtími er ekki lengri í Garðabæ en í Reykjavík. Það þykir árangur í herbúðum meirihlutans. En er það mælikvarðinn sem íbúar Garðabæjar sætta sig við?
Nú erum við í aðstæðum sem ekkert okkar hefur upplifað áður og ljóst að þar mun reyna mikið á samfélag okkar. Það kreppir að og Garðabær, eins og öll önnur sveitarfélög, verður að gera allt sem í valdi bæjarfélagsins stendur til þess að styðja við grunnþjónustu. Við þurfum að tryggja afkomu íbúanna, sem horfa fram á tekjumissi og jafnvel atvinnuleysi og við þurfum að tryggja rekstrarhæfni fyrirtækja. Augljóslega þarf að leggja mikla áherslu á að þeir sem minna mega sín fái alvöru viðspyrnu. Öllu skiptir að innviðirnir séu traustir. Fjárfesting í innviðum hefur verið ein megináhersla okkar í Garðabæjarlistanum frá upphafi. Við munum kalla eftir því að fjárfestingarþörf sveitarfélagsins verði metin og greind, í innviðum, félagslegu húsnæði, skólahúsnæði og íþróttahúsnæði og um leið fagna öllum skrefum sem meirihlutanum hugnast í þeim efnum til að halda uppi atvinnustigi og bæta þjónustu við alla íbúa.