Hvað ef ?

Í upphafi árs er gott að staldra við, taka stöðuna eins og oft er sagt. Á þessu kjörtímabili höfum við í Garðabæjarlistanum lagt eitt og annað til í bæjarstjórn, í þeirri von að meirihlutinn sjái tækifærin og hvaða þýðingu þau verkefni hafa fyrir lýðheilsu Garðbæinga og til að gera samfélagið okkar enn betra og öflugra.

Ungmennahús var eitt af stóru málunum okkar. Ákall eftir slíku húsi hefur ágerst. Nú þegar við erum vonandi að stíga upp úr heimsfaraldri og sóttkvíartímum, sem hafa haldið ungmennum frá bæði tómstundum og íþróttum, hefur það aldrei verið mikilvægara að hlúa að unga fólkinu. Meirihlutinn lætur málið sem vind um eyru þjóta og hefur ekki hreyft sig.

Fræðsla á vegum Samtakanna 78 fyrir allt samfélagið. Fólk sem starfar með börnum og ungmennum fengju markvissa fræðslu ár hvert og aðgengi ungmenna að stuðningi samtakanna væri tryggt. Þetta varðar öll ungmenni, því saman sköpum við fjölbreytt, frjálslynt samfélag sem viðurkennir fjölbreytileikann í allri sinni mynd.

Systkinaafslátt í íþrótta- og tómstundastarf væri búið að útfæra með skynsamlegum hætti þar sem tekjuviðmið væri forsenda útreiknings. Í Garðabæ æfa mörg börn fleiri en eina íþrótt og það viljum við styðja. Við viljum líka styðja barnmargar fjölskyldur til að öll börn geti stundað þær fjölmörgu íþróttir og tómstundir sem eru hér í boði.

Hvatning til ungmenna eldri en 16 ára til að stunda hreyfingu með því að nýta hvatapeningana sem gert er ráð fyrir samkvæmt úthlutun þeirra.

Janus, heilsueflandi lýðheilsuverkefni fyrir alla eldri en 67 ára væri valkostur í Garðabæ eins og í mörgum öðrum sveitarfélögum. Janus er framúrskarandi lýðheilsuverkefni sem tryggir utanumhald og eftirfylgni með líkamlegu hreysti fólks. 

Við eigum að setja metnað okkar í að trygga góða heilsu allra bæjarbúa, andlega sem líkamlega. Þarfirnar eru ólíkar og sveitarfélagið þarf að bregðast við því.

Við í Garðabæjarlistanum höfum haft það að leiðarljósi frá upphafi að tryggja að ólík sjónarmið heyrist, að lýðræðið í bæjarstjórn sé virkt með því að leggja fram tillögur að brýnum verkefnum, þoka málum áfram sem við höfðum fulla trú á að félagar okkar í Sjálfstæðisflokknum gætu stutt stolt og keik. En svo virðist ekki vera og er það miður. Ekki fyrir okkur bæjarfulltrúana, heldur fyrir alla íbúa Garðabæjar sem verða nú af alls konar þjónustu sem styrkir andlega sem líkamlega heilsu og almenna vellíðan.

Við viljum gera betur í því að styrkja samfélagið og byggja upp jákvætt og uppbyggjandi umhverfi fyrir alla. 

Sara Dögg Svanhildardóttir Oddviti Garðabæjarlistans