JAFNRÉTTISMÁLIN OG GARÐABÆR

Jafnréttisáætlun Garðabæjar er nú til endurskoðunar og af því tilefni lagði ég fram tvær tillögur á fyrsta fundi bæjarstjórnar eftir sumarleyfi. Önnur varðar endurskoðunina sjálfa og hin ráðningu í stöðu jafnréttisfulltrúa.

Í jafnréttisáætlunum birtast áherslur hvers tíma og því um að ræða lifandi plagg sem fer fyrir nefnd fjölskylduráðs til reglulegrar endurskoðunar. Áður fór reyndar jafnréttis- og mannréttindanefnd með það verkefni, en meirihlutinn kaus að leggja nefndina niður við upphaf kjörtímabilsins.

Jafnréttisáætlun endurspeglar tíðarandann og um leið varpar hún ljósi á afstöðu þeirra sem leggja línurnar. Okkur í Garðabæjarlistanum finnst mikilvægt og nauðsynlegt að gera ákveðnar breytingar á framsetningu áætlunarinnar, til að draga fram alla hópa samfélagsins og tryggja þeim pláss. Við viljum vekja athygli á þeim þáttum sem mikilvægt er að horfa til frá degi til dags í öllum verkefnum stjórnsýslunnar.

Í núverandi stefnu eru einstaka hópar ekki nefndir og skortir því verulega á skýra sýn sveitarfélagsins í málefnum þeirra. Þar má nefna hinsegin fólk. Í áætluninni er ekkert að finna um hvernig beri að mæta þeim hópi sérstaklega. Sama gildir um fatlað fólk og ekki má gleyma að huga að mismunandi stöðu fólks eftir aldri, litarhætti eða þjóðerni, svo eitthvað sé nefnt.

Við í Garðabæjarlistanum teljum rétt að draga fram það sem þegar er gert af metnaði í sveitarfélaginu okkar, svo íbúar sjái skýrt hvernig samfélagið tekur utan um ólíka hópa og sýnir þeim öllum virðingu. Við eigum að láta þá sýn ná til allra og þar er rétt að horfa til þeirra hópa sem lög um jafnrétti tiltaka sérstaklega. Sýnileikinn og skráðar reglur skipta máli og setja okkur þann ramma sem unnið skal eftir. Ef sýnin er óskýr og ramminn of almennt orðaður er hætta á að okkur yfirsjáist mikilvægir þættir. Málefni sem snerta okkur ekki beint verða þá útundan. Þess vegna þurfum við skýra og afdráttarlausa stefnu og henni þarf að fylgja aðgerðaráætlun svo jafnréttisáherslurnar verði markvissar og áþreifanlegar.

Okkur á það til að þykja jafnréttismál léttvægur málaflokkur en svo er svo sannarlega ekki. Flest stærri sveitarfélög hafa yfir að ráða jafnréttisfulltrúa einmitt til þess að tryggja yfirsýn og eftirfylgni með smáum sem stórum málum sem varða jafnrétti í sinni víðustu mynd. Mismunun getur leynst víða án þess að við áttum okkur endilega á því án fyrirhafnar. Meirihlutinn hafnar þessu og felldi tillögu okkar um að ráða í stöðu jafnréttisfulltrúa þrátt fyrir að í útgefnu efni um jafnréttismál sé t.d. varað við að fella jafnréttismál undir aðrar nefndir eindregið hvatt til þess að málaflokkurinn sé gerður sýnilegur með sérstökum umsjónaraðila til að styðja við og fylgja eftir.

Með von í hjarta förum við inn í haustið og tökum þátt í endurskoðun jafnréttistefnu Garðabæjar og leggjum okkar áherslur fram á sama tíma og landsþing Jafnréttisráðs fer fram í okkar góða bæ.