Kofabyggðirnar

Nú á dögunum kom fram hugmynd frá meirihlutanum að reisa færanlegar kennslustofur við Sunnuhvol á Vífilsstöðum til að fjölga leikskólaplássum í Garðabæ. Þessari hugmynd er ætlað að mæta skorti á leikskólaplássum og í raun skyndilausn sem ætti ekki að þurfa að grípa til ef vandað er til verka við áætlun íbúafjölgunar og framkvæmda. Það var fyrir löngu orðið ljóst að íbúafjölgun í Garðabæ væri meiri en áætluð var af meirihlutanum. Við í Garðabæjarlistanum höfum fyrir löngu bent á að þessi áætlun meirihlutans stæðist ekki skoðun, það er heldur betur að koma á daginn. En á hverjum bitnar þessi vanáætlun, jú hún bitnar fyrst og fremst á barnafjölskyldum og leiðir af sér hina frægu kofa. Staða sem er algjörlega ólíðandi. Við höfum lagt fram tillögur um að áætlanir um uppbyggingu leikskóla verði gerðar þannig að Garðbæingar þurfi ekki að lenda í þessum aðstæðum, en þeim hefur yfirleitt verið hafnað eða svæfðar í nefndum.

Hvers vegna eru kofarnir ekki tímabundin aðgerð í Garðabæ?

Í gegnum tíðina hefur Garðabær þurft að koma fyrir færanlegum kennslustofum við leik- og grunnskóla og oft hefur það verið nauðsynlegt sem tímabundin aðgerð í nýjum hverfum á meðan stórt hlutfall af barnafjölskyldum býr í hverfinu. En skoðum nú aðeins hvar þessir kofar eru, við sem höfum alist upp í Garðabæ munum eftir kofum við Flataskóla í fjölda ára eða allt þar til skólinn var stækkaður í nokkrar áttir, með marga anga líkt og alþjóðaflugvöllur. Þegar þeir kofar fóru komu aðrir við Garðaskóla og standa þar enn. Við Hofsstaðaskóla og á Álftanesi hafa verið kofar við skólana í fjölda ára og ekki má nú gleyma gámunum við Alþjóðaskólann.

Stöndum við stóru orðin – vöndum til verka

Það sem er aftur á móti jákvætt er að það er verið að bregðast við skorti á leikskólaplássum, ég vona svo sannarlega að þessar færanlegu stofur verði komnar í gagnið fyrir haustið og það takist að manna þær stöður sem skapast, þannig verður vonandi hægt að tryggja öllum börnum í Garðabæ leikskólapláss. Einnig vona ég að þetta verði til þess að við uppbyggingu hverfa verði ráðist í að byggja upp leik- og grunnskóla áður en þau hvefin fyllast af börnum. Fyrir mér eru þessir varanlegu kofar minnisvarði um vanáætlanir.

Ingvar Arnarson er bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.