Ég vil búa í Garðabæ og ég vil búa í barnvænu samfélagi. Garðabær er ört stækkandi bæjarfélag og þar hefur barnafjölskyldum fjölgað hratt undanfarin ár. Það á sérstaklega við í Urriðaholti sem er hverfi í hraðri uppbyggingu. Fjölskyldur í Urriðaholti standa frammi fyrir ýmsum áskorunum sem eru mismunandi eftir því hvar á æviskeiði barnsins fjölskyldan stendur.
Börn sem fæðst hafa á síðustu tveimur árum hafa ekki fengið inngöngu í leikskólann í Urriðaholti. Mörg þessara barna hafa nú þegar sótt a.m.k. tvo mismunandi leikskóla í öðrum bæjarhlutum og ljóst er að þau koma til með að þurfa að sækja fleiri mismunandi leikskóla á næstu árum. Það liggur í augum uppi að það fylgir því álag fyrir barn að byrja í leikskóla og á það álag hefur verið aukið með því að bregðast seint og illa við fyrirsjáanlegri þörf fyrir grunnþjónustu við uppbyggingu hverfisins. Stór hluti þessara barna eiga einnig eldri systkini í Urriðaholtsskóla og barnafjölskyldur hafa þannig verið settar í þá stöðu að þurfa að keyra á milli bæjarhluta á hverjum einasta degi, tvisvar á dag, eingöngu til að koma einu barni í einn skóla og öðru barni í annan skóla.
Þau börn sem eru byrjuð að stunda íþróttir og aðrar tómstundir hafa ekki kost á því að stunda sín áhugamál í Urriðaholti. Hluti þessara barna getur notað frístundabíl til þess að komast úr Urriðaholti og á leiðarenda en bíllinn keyrir hins vegar ekki aftur til baka. Því þurfa foreldrar að gera sér ferð út úr hverfinu til þess að sækja börnin enda ljóst að börnin geta ekki farið gangandi eða hjólandi líkt og algengt er, en hvers vegna ekki? Það er beinlínis hættulegt. Eins og staðan er í dag þarf að fara yfir a.m.k. átta mismunandi akreinar til þess að komast gangandi eða hjólandi frá Urriðaholti og til annarra bæjarhluta Garðabæjar. Akreinar og gatnamót sem eru hvorki vel upplýst né merkt.
Næstu ár skipta sköpum þegar kemur að því að skapa samfélag sem virkar vel fyrir allar fjölskyldur í öllum hlutum Garðabæjar. Við þurfum að leggja áherslu á vistvæna, virka og örugga samgöngumáta, við þurfum að tryggja raunverulegt aðgengi að skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi á milli hverfa, án þess að því fylgi aukið álag á fjölskyldur og við þurfum að ráðstafa fjármunum með skynsamlegum hætti.
Það er að ýmsu að hyggja og lausnirnar eru til staðar, það þarf bara að ákveða að forgangsraða þeim, forgangsraða í þágu framtíðarinnar, forgangsraða í þágu barnanna okkar. Íbúar í Garðabæ eiga að geta treyst á þjónustu í nærumhverfi sínu, íbúar eiga að hafa val um það hvernig þeir komast á milli staða og foreldrar eiga að geta verið áhyggjulausir þegar börnin þeirra ferðast á milli bæjarhluta. Ég vil að Garðabær sé okkar samfélag, ég vil að Garðabær sé barnvænt samfélag.
Finnur Jónsson, tómstunda og félagsmálafræðingur, skipar 10. sæti Garðabæjarlistans, XG