Það er vel þekkt að í Garðabæ hefur það verið markmið í sjálfu sér að halda útsvarsprósentunni niðri.
Öll viljum við íbúum það besta hvort heldur sem er í þjónustu eða álögum. En þegar jafnvægis er ekki gætt og halla fer á gæði þjónustunnar er hætt við að slík viðmið komi rekstri sveitarfélags í óefni að ekki sé talað um mikilvæga þjónustu.
Það er okkar sveitarstjórnarfólks að tryggja íbúum framúrskarandi þjónustu og sterka innviði í jafnvægi við fjárhagslega getu. En þegar eitt lægsta útsvar sem fyrirfinnst stendur ekki lengur undir nauðsynlegum innviðum og skyldum gagnvart íbúum, hljóta þau sem völdin hafa að þurfa að endurskoða áherslur sínar.
Sjálfstæðismenn í Garðabæ eru læstir í fortíðinni og eiga erfitt með að horfast í augu við hinn nýja Garðabæ. Garðabæ nútímans.
Í Garðabæ hefur íbúum fjölgað mikið og samhliða hefur íbúasamsetning breyst. Þjónusta við fatlað fólk er orðinn stærri þáttur en áður og barnafjölskyldum fjölgar hratt sem kallar á hraða uppbyggingu leik- og grunnskóla.
Þetta hafa Sjálfstæðismenn illa skilið og hafa hvorki haft áætlanir um að mæta aukinni þörf um þjónustu né hvernig auka skuli tekjur til að standa undir þeirri þjónustu.
Viðkvæðið hjá Sjálfstæðismönnum í Garðabæ hefur verið að nú þrengi að og skortur á fjármagni til reksturs sé áþreifanlegri en áður. Eina leiðin til að bregðast við þeirri stöðu sé að kalla eftir fjárhagsaðstoð frá ríki.
Svo hátt fer sú krafa að mörgum þykir nóg um. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur haft orð á því að ekki sé óeðlilegt að öðru sveitarstjórnarfólki þyki nóg um ópin úr Garðabænum.
Sjálfstæðismönnum í Garðabæ þykir það gott og gilt að íbúar annarra sveitarfélaga leggi Garðabæ til fé í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, því Garðabær hafi hvorki ofan í sig né á. En eru ekki færir um að líta sér nær og horfast í augu við skekkjuna sem þeir hafa skapað.