Á bæjarstjórnarfundi þann 2.desember samþykkti meirihlutinn fjárhagsáætlun fyrir árið 2022. Ég kaus á móti og bókaði eftirfarandi.
Gjöld eru líka skattar, en í Garðabæ eru gjöld á barnafjölskyldur með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli á Íslandi. Við í Garðabæjarlistanum fögnum því að aðeins eigi að hækka gjaldskrár um 2,5% eða allavega fram yfir kosningar, því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnt að þau vilji skoða að hækka gjaldskrár aftur í haust.
Nú á að reyna að telja bæjarbúum trú um að verið sé að lækka greiðslu skatta með því að lækka álagningu fasteignaskatts úr 1,85% niður í 1,79%. Því miður verður það ekki til þess að lækka greiðslu fasteignaskatts, greiðslan mun hækka þar sem að fasteignamat í Garðabæ hækkar á bilinu 9% – 17% á milli ára. Álagningarhlutfallið lækkar en skatturinn hækkar.
Tökum smá dæmi um eign þar sem fasteignamat hækkar um 14% á milli ára: Eign sem var með fasteignamat upp á 100 milljónir fyrir árið 2021 borgar þá 100 milljónir x 1,85% = 185.000kr. Árið 2022 verður álagning fasteignaskatts svona: 114 milljónir x 1,79% = 204.000kr. Þrátt fyrir lækkaða álagningu munu eigendur fasteigna í Garaðabæ samt sem áður borga mun meira í fasteignaskatta árið 2022. Til að bæta gráu ofan á svart hefur meirihlutinn ákveðið að hækka sorphirðugjaldið úr 41.000kr í 49.000kr. Þess má geta að árið 2020 var gjaldið 31.000kr.
Við í Garðabæjarlistanum höfum lagt áherslu á mörg mál á þessu ári og má þar helst nefna systkina- og fjölgreinaafslátt í íþróttum- og tómstundum, að uppbygging leikskóla sé í takt við íbúaþróun, að byggja upp almenningssamgöngur fyrir íbúa, auka heilsueflingu fyrir eldri borgara og margt fleira.
Nú síðast lögðum við fram tillögu um átak í fjölgun félagslegs leiguhúsnæðis. Sú tillaga var ekki samþykkt. Því miður höfum við ekki staðið okkur sem skyldi í þeim málum hérna í Garðabæ og þá sérstaklega í ljósi þess að fjölgað hefur á biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði, fáir fengið úthlutað og lítið verið bætt við af íbúðum í eigu bæjarins. Í úttekt Kjarnans frá 2018 á félagslegu leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu kemur meðal annars fram að í Reykjavík eru tæplega 20 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa og í Kópavogi eru þær tæplega 13. Í Hafnarfirði eru þær um átta. Einnig kemur fram í úttektinni að þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki mun minni þátt í því að sjá þurfandi fólki fyrir félagslegu húsnæði. Í Garðabæ voru tæplega tvær félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa, í Mosfellsbæ voru tæplega þrjár á hverja þúsund íbúa og á Seltjarnarnesi um 3,5 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa.Síðan 2018 hefur íbúum Garðabæjar fjölgað og lítið verið bætt við af félagslegu leiguhúsnæði, þannig að út frá núverandi gögnum á Garðabær ca. 1,6 íbúðir á hverja þúsund íbúa árið 2021.
Ingvar Arnarson