Mig langar til að óska öllu Stjörnufólki til hamingju með 60 ára afmæli félagsins. Ég hef verið í Stjörnunni frá unga aldri, spilað með mörgum deildum félagsins, þjálfað og nú staðið á hliðarlínunni sem stuðningsmaður og foreldri.
Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa lagt félaginu lið og þá sérstaklega starfsmönnum og sjálfboðaliðum. Félag er fólkið sem í því er og það er svo sannarlega kraftur í fólkinu í Stjörnunni. Það má jafnvel segja að Stjarnan sé hjartað í Garðabæ, þar gerast hlutirnir. Það hefur margt breyst hjá Stjörnunni á síðustu árum, til að mynda öll aðstaða og umgjörð. Slíkar breytingar gerast ekki af sjálfu sér því þarna liggur þrotlaus vinna fólks að baki og vil ég þakka öllum fyrir framlag sitt og fórnfýsi.
Nú á þessum tímum er nauðsynlegt að styðja við bakið á félögum í bænum. Rekstur íþróttafélaga er í járnum, tekjur hafa lækkað og mikilvægt er að tryggja að Stjarnan geti haldið úti sínu góða starfi þegar æfingar hefjast að nýju og þegar að farsóttin er um garð gengin. Þá er mikilvægt að bæjarfélagið hjálpi félögum í bænum eins og hægt er við þær aðstæður sem núna eru uppi.
Við í Garðabæjarlistanum höfum verið tilbúin til að gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja að börn og ungmenni geti haldið áfram að stunda sínar tómstundir og að félögin geti starfað áfram. Ég hef reglulega lagt fram tillögur um hækkun hvatapeninga. Í maí þegar fyrsta bylgja farsóttarinar var að renna sitt skeið lagði ég fram tillögu um verulega hækkun hvatapeninga, nánar tiltekið úr 50 þúsund krónum í 90 þúsund krónur. Í greinagerð með tillögunni segir meðal annars að kostnaður við þátttöku barna í íþrótta- og æskulýðsstarfi hefur aukist gífurlega á síðustu árum. Á þessum tímum þar sem tekjur heimila eru að jafnaði að dragast saman er líklegt að börn dragi úr þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Því er mikilvægt að Garðabær standi við bakið á barnafjölskyldum með hækkun hvatapeninga. Einnig er mikilvægt að tryggja að rekstur þeirra félaga sem bjóða upp á skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf verði áfram lífvænlegur og með hækkun hvatapeninga er líklegra að börn og ungmenni í Garðabæ nýti sér þá þjónustu sem þessi félög eru að bjóða upp á.
Það er von mín að Stjarnan haldi áfram að skína sem skærast á komandi árum. Takk fyrir frábærar stundir Stjörnufólk.
Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans