Sara Dögg lagði fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi 2.maí 2019
Bæjarstjórn samþykkir að fela fræðslusviði að fá kynningu á rafræna kerfinu www.learncove.io . Kerfið er sérstaklega hannað með þarfir kennara í huga þegar kemur að því að mæta
fjölbreyttum þörfum nemenda byggt á hæfni þeirra og námsgetu. Með innleiðingu slíks kerfis má einfalda utanumhald gagna, upplýsingagjöf og fá um leið góða yfirsýn yfir námsfravindu hvers nemanda. Enn fremur styður slíkt kerfi við hagræðingu í starfi kennara og ýtir undir bætt starfsumhverfi.
Greinargerð
Með fjórðu iðnbyltingunni munum við sjá fram á miklar breytingar í flestum atvinnugreinum. Aftur á móti er kennarastarfið sú atvinnugrein sem spáð er um að taki hvað minnstum breytingum þegar litið er til umbreytingu starfa í kjölfar tækniþróunar.
Í nýútkominni skýrslu nefndar á vegum forsætisráðuneytisins, Ísland og fjórða iðnbyltingin er farið yfir mögulega þýðingu fjórðu iðnbyltingarinnar á öll störf m.a. kennarastarfið. Þar er sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að skoða þá þætti þar sem tækni getur bætt starfsaðstöðu fólks til muna og aukið velferð á vinnustað. Slík markmið er nauðsynlegt að ræða þegar fjallað er um uppbrot á vinnumarkaði vegna tæknibreytinga.
Tæknin mun hafa hagræðingaráhrif, breyta störfum, leggja einhver þeirra af og skapa ný. Til þess að kennarastarfið standist þá samkeppni sem verður um vel menntaða starfsmenn í heimi hinna öru tæknibreytinga verða vinnuveitendurnir þ.e. sveitarfélögin að taka þau skref sem hægt er að taka í þágu tækni og aukinnar velferðar á vinnustað. Einfaldara aðgengi að alls kyns þjónustu er liður í því sem og rafræn kerfi sem halda utan um viðamikið starf kennarans.