Á síðasta bæjarstjórnarfundi voru ársreikningar Garðabæjar fyrir árið 2021 samþykktir. Að því tilefni lögðum við bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans fram eftirfarandi bókun.
Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans þakka starfsfólki fyrir vinnu við ársreikning. Það er ánægjuefni að skatttekjur á hvern íbúa voru hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þar var gert ráð fyrir 837 þúsund kr. á íbúa en í raun komu inn 871 þúsund kr. á íbúa.
Þá er einnig jákvætt að sala á lóðum/byggingarrétti var töluverð sem gerir það að verkum að tekjur bæjarins hafa aukist um 1,1 milljarð króna á árinu 2021. Ánægjulegt er að sjá mikla fjölgun íbúa í Garðabæ, en frá árinu 2017 hefur fjölgað um 2800 íbúa.
Við höfum þó áhyggjur af nokkrum þáttum. Aukin verðbólga er áhyggjuefni, sérstaklega þar sem að verðtryggðar skuldir bæjarsjóðs hafa aukist töluvert á kjörtímabilinu. Lántaka á síðustu tveimur árum er samtals 6,5 milljarðar kr. Skuldir á hvern íbúa hafa þ.a.l. aukist mjög mikið. Árið 2017 voru þær 751 þúsund kr. en eru í dag orðnar 1224 þúsund kr. á hvern íbúa. Mikilvægt er að hafa í huga að Garðabær hefur staðið í miklum framkvæmdum á þessu tímabili og hafa eignir bæjarins þ.a.l. aukist töluvert.
Það er áhyggjuefni að rekstrarniðurstaða A-sjóðs sé neikvæð um 60 millj. kr. og það þrátt fyrir mikla sölu á lóðum/byggingarétti. Lóðir eru takmörkuð auðlind og ekki hægt að gera ráð fyrir að tekjur af slíkri sölu verði stöðugar til framtíðar, sérstaklega ef verðbólga eykst og kaupmáttur rýrnar. Ef rekstrarniðurstaða A-sjóðs heldur áfram að vera neikvæð á næstu árum hefur bærinn engin önnur úrræði en að hækka álögur eða skera niður í þjónustu til að mæta slíku.
Framundan eru miklar fjárfestingar í innviðum sem eru nauðsynlegir til að veita bæjarbúum viðeigandi þjónustu. Til að standa undir þeirri fjárfestingu er mikilvægt að fara varlega í næstu skref. Að okkar mati er ekki skynsamlegt að auka skuldir meira og því nauðsynlegt að meta hversu miklu er hægt að ná inn með sölu lóða/byggingaréttar og í framhaldinu skoða hvort sú upphæð dugi til að standa undir þeim framtíðarfjárfestingum sem eru nauðsynlegar til að halda í við íbúaþróun Garðabæjar.
Næstu bæjarstjórnar bíður verðugt verkefni. Markmið okkar í Garðabæjarlistanum er að halda álögum eins lágum og kostur er, en einnig að tryggja góða þjónustu við íbúa og byggja upp innviði í takt við íbúaþróun. Til þess að það sé hægt þarf fjárhagsstaða Garðabæjar að vera sterk.
Fyrir hönd Garðabæjarlistans,
Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi, 2. sæti XG
Harpa Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi, 3.sæti XG