Nú hefur bæjarstjórn afgreitt fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Stóra myndin er samdráttur í tekjum. Þær framkvæmdir sem þegar hafa verið ákveðnar eru fjármagnaðar með lánum. Lítið rými er til annarra framkvæmda á komandi árum samkvæmt mati Sjálfstæðismanna, meirihluta bæjarstjórnar. Fyrir lá að halda þarf áfram að byggja Urriðaholtsskóla þar sem þrengir að börnum nú þegar ekki síst vegna þess hversu seint er farið í að huga að nýjum leikskóla í hverfinu. Við í Garðabæjarlistanum höfnum þessari nálgun.
Aðferðafræði meirihlutans
Fjölgun íbúa og sala lóða hafa töluverð áhrif á tekjur bæjarins á næsta ári. Enn og aftur ætlar meirihlutinn að fara mun varlegar í áætlun á þeim þáttum en raunveruleg þróun segir til um. Þrátt fyrir að íbúafjölgun sé einna mest í Garðabæ ætlar meirihlutinn aðeins að gera ráð fyrir 3% fólksfjölgun. Sami meirihluti segir samt að 4-4,5% væri nærri lagi. Lóðasala hefur gengið vel og nam milljarði á þessu ári. Samt er ekki áætlað nema 240 milljónir árið 2021.
Það er hægt að vera varfærin í áætlun, en þegar varfærnin gengur of langt verður hún óábyrg. Hvers vegna skyldi meirihlutanum hugnast þessi aðferðarfræði? Hann vill vega og meta þegar líða fer á næsta ár. Bæta í eða draga saman með viðaukum. Í stað þess að setja upp áætlun sem endurspeglar raunveruleikann og unnið er eftir af ábyrgð, meirihlutinn vill frekar setja ráðstöfun tekna í búning hentisemi.
Stefnuleysið
Stefnulaust at virðist hugnast Sjálfstæðismönnum í Garðabæ vel enda telur bæjarstjórinn umræðu um stefnumörkun þreytandi. Honum hugnast betur pólitísk hentisemi. Þetta sáum við framkvæmdir við fundarsalinn góða. Þá ráku margir upp stór augu þegar endanlegur kostnaður kom í ljós, enda var aldrei til framkvæmdaáætlun eða kostnaðaráætlun. Þess í stað var hent í framkvæmdina því fjármagni sem vantaði eða hentaði hverju sinni.
Í aðdraganda fjárhagáætlunar Garðabæjar heyrðist ákall bæjarstjórans okkar. Ákall um stuðning ríkisins til að halda úti grunnþjónustu, þar sem virtist istefna í sögulegan halla bæjarsjóðs upp á 900 milljónir. Tæpur milljarður er vissulega skafl sem þarf að komast í gegnum með einum eða öðrum hætti.
Fljótt skipast veður í lofti og allt í einu var staðan gjörbreytt. Hallinn á samstæðunni óverulegur eða um 40 milljónir í dýpsta efnahagssamdrætti sem Ísland hefur séð um langan tíma. Svo virðist vera að meirihlutinn hafi áttað sig á stöðu sinni í stóra samhenginu og komist að þeirri niðurstöðu að það væri einfaldlega afar óábyrgt að vanáætla tekjur vegna íbúafjölgunar til að mynda um of og því breyttist staðan heldur betur, þó svo enn sé vanáætlað.
Í svona árferði tekur grunn- og félagsþjónusta hvað mest í hjá sveitarfélögunum í kringum okkur. Útgjaldaaukningin sem þau verða fyrir er mun meiri og ekki í neinni líkingu við veruleikann sem bæjarstjórn Garðabæjar er að takast á við.
Í fjárhagsáætlunin er engin framtíðarsýn þegar kemur að því að taka ákvarðanir um fjárfestingu til framtíðar í stafrænni tækni sem umbyltir samfélaginu okkar á margan hátt. Tæknin getur spara bæði tíma og kostnað fyrir bæjarbúa. Að síðustu er vegið að mannauði sveitarfélagsins með niðurskurði á helsta fjöreggi leik- og grunnskólakennara, þ.e. þróunarsjóði sem meirihlutinn hefur hingað til talað upp í hæstu hæðir af miklu stolti. En nú er öldin önnur og lítið gert úr því hversu gott og mikilvægt innlegg sjóðurinn er fyrir allt skólastarf Garðabæjar.
Ólýðræðisleg vinnubrögð í boði meirihlutans
Aðkoma Garðabæjarlistans að vinnu við fjárhagsáætlunina var lítil sem engin. Sjálfstæðismenn hér í bæ telja samráð falið í því að leggja fram tilbúna áætlun, sem meirihlutinn hefur þegar samþykkt fyrir sitt leyti, okkur til upplýsingar. Ekki gafst kostur á að leggjast yfir gögn eða eiga pólitískt samtal um forgangsröðun verkefna og hvað þá aðferð til að takast á við stöðuna sem uppi er vegna heimsfaraldurs. Sjálfstæðismenn í Garðabæ reyndu þess í stað að nota gamaldags uppeldisaðferð á okkur í minnihlutanum, þið hafið ekki verið nægilega stillt, þið fáið ekkert í gegn af ykkar málum. Refsivöndur Sjálfstæðismanna á lofti.
Samráðsleysið, óábyrga aðferðafræðin og ranga forgangsröðunin sem birtist í þessari fjárhagsáætlun er ástæða þess að við í Garðabæjarlistanum sögðum nei.
Sara Dögg Svanhildardóttir
Ingvar Arnarson
Harpa Þorsteinsdóttir
Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans