Categories
Fréttir

Slæmur viðsnúningur í lífeyriskerfinu

Fullyrða má að við Íslendingar erum stoltir af lífeyrissjóðunum okkar. Sumir segja að stofnun almennu lífeyrissjóðanna árið 1970 hafi verið besta og árangursríkasta efnahagsaðgerð þjóðarinnar á síðustu öld. Það er margt til í þeirri fullyrðingu en mér finnst meira um vert að með stofnun sjóðanna var skotið styrkum stoðum undir velferðarkerfi íslensku þjóðarinnar og er nú svo komið að eignir lífeyrissjóðanna sem hlutfall af landsframleiðslu er orðin í fremstu röð meðal OECD ríkjanna.

Stoðirnar þrjár

Mjög mikilvægt er að gera sér grein fyrir því hvernig íslenska lífeyriskerfið er hugsað. Alþjóðabankinn og OECD hafa í langan tíma lagt til að þjóðir heims byggi upp lífeyriskerfi sín á þremur megin stoðum.
Fyrsta stoðin eru almannatryggingar, sem hið opinbera sér um og ber ábyrgð á. Um er að ræða grunnkerfi sem fjármagnað er af samtímasköttum, þ.e. svokallað gegnumstreymiskerfi.
Almannatryggingar greiðir flatan jafnan grunnlífeyri, þar sem jöfnuður og réttlæti er í fyrirrúmi. Almannatryggingar eru eins og nafnið gefur til kynna fyrir almenning en kerfið getur verið háð tekjum fólks, sérstaklega atvinnu- og fjármagnstekjum.

Önnur stoðin sem kemur til viðbótar almannatryggingum eru lífeyrissjóðirnir. Um er að ræða skyldubundna aðild að lífeyrissjóðunum. Þeir eiga að byggja á samtryggingu sjóðfélaga og meginmarkmið þeirra er að greiða sjóðfélögum lífeyri, sérstaklega ævilangan ellilífeyri. Lífeyrissjóðirnir byggja á sjóðsöfnun og réttindin fara eftir iðgjaldagreiðslum til sjóðanna.

Þriðja stoðin er svo frjáls lífeyrissparnaður einstaklinga. Þessi sparnaður er mjög mikilvægur sem viðbót við greiðslur almannatrygginga og lífeyrissjóða.

Viðsnúningur til hins verra

Sá sem þetta ritar hefur talið að sæmileg sátt og skilningur hafi verið í þjóðfėlaginu um þetta þriggja stoða lífeyriskerfi, sem þjóðir heims keppast við að að koma á í sínum löndum. Hér á Íslandi hefur m.a. verið hægt að finna ofangreinda skilgreiningu lífeyriskerfa  á heimasíðum opinbera aðila og hagsmunasamtaka.
En nú virðist öldin vera önnur. Ýmsir ráðamenn þjóðarinnar og þeirra fylgjendur hafa snúið við fyrstu tveimur veigamestu stoðunum í lífeyriskerfinu. Kenningin er þessi: Fyrsta stoðin eru lífeyrissjóðirnir, en svo koma almannatryggingar sem eins konar viðbót, en þá aðeins ef viðkomandi einstaklingur hefur áunnið sér lítil réttindi í lífeyrissjóðunum. Svo virðist sem almenningur hafi ekki áttað sig á þessum viðsnúningi, sem á sér þó nokkurra ára sögu, m.a. í erindisbrėfum félagsmálaráðherra til nefnda um endurskoðun almannatrygginga.

Að lokum

Greinin er skrifuð til að vekja athygli lesenda á þessum sérkennilega viðsnúningi í lífeyrismálum þjóðarinnar. Ekki síst ef það mætti verða til þess að rétta af þennan viðsnúning við næstu endurskoðun almannatryggingalaganna, sem gæti verið á næsta leiti.

Á ráðstefnu um lífeyrismál sem haldin var hér á landi fyrir nokkrum árum hafði framsögu um velferðarmál Joakim Palme, sonur Olofs heitins Palme, forætisráðherra Svíþjóðar. Joakim Palme varaði við þeirri þróun ef almannatryggingar væru aðeins hugsaðar fyrir þá verst settu í þjóðfélaginu. Að gera almannatryggingar að eins konar fátæktarstofnun væru mikil mistök og óráð. Vonandi kemur sá tími ekki hér á landi að það verði í hugum fólks eins konar feimnismál sökum fátæktar að fá „bætur“ frá Tryggingastofnun ríkisins.

Hrafn Magnússon fyrrv.framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, skipar 14.sæti XG, Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Okkar sam­fé­lag – Álfta­nes

Álftanesið er einstaklega fallegt og þar býr fólk sem lætur sig jafnan málin varða. Garðabæjarlistinn vill efla samfélagið á Álftanesi og standa vörð um sérstöðu þess, sem tekur til fjölda þátta.

Á Álftanesi er kraftur í félagsstarfi og íbúar tilbúnir að leggja mikið á sig fyrir samfélagið. Félagsauður er mikill og má þar nefna starfsemi félags eldri borgara, golfklúbbinn, íþróttafélagið, skátafélagið og fleira. Að okkar mati má vel endurvekja og bæta við félagsstarf í menningu og listum. Einnig viljum við að komið verði á fót íbúaráði Álftnesinga, svo rödd og áherslur íbúa heyrist hátt og skýrt í samskiptum við Garðabæ.

Álftanes er náttúruperla sem hefur hátt verndargildi. Framundan er mikil uppbygging á nesinu en mikilvægt er að slík uppbygging sé gerð í sátt við íbúa og umhverfi.

Votlendi hefur verið endurheimt við Kasthúsatjörn og á Bessastaðanesi sem er vel, samt sem áður er fyrirhugað að byggja íbúðarbyggð á einum helsta viðkomustað gæsa og annarra fugla á nesinu. Í skýrslu umhverfisnefndar frá 2014 kemur fram að mörg svæði á Álftanesi hafi hátt verndargildi og stíga þurfi varlega til jarðar þegar kemur að framkvæmdum. Garðabær hefur verið í forystu um friðlýsingar og náttúruvernd, því skýtur skökku við að gengið sé á votlendi við uppbyggingu íbúðahverfa. Breiðamýrin hefur verið skipulögð sem byggingarsvæði en þar er eitt aðalsvæði margæsarinnar og annarra fugla á leið sinni yfir hafið. Á Norðurnesinu er meira votlendi en annarsstaðar á nesinu og þ.a.l. mjög mikill líffræðilegur fjölbreytileiki.

Ýmsar framkvæmdir eru aðkallandi á Álftanesi á næstunni. Má þar fyrst nefna holræsakerfið sem er löngu tímabært að gengið sé frá svo sómi sé að en það er mikil og kostnaðarsöm framkvæmd. Það þarf að koma öllum húsum inn á kerfið, en ennþá eru hús með eigin rotþrær. Leggja þarf skolpleiðslur lengra fram í sjó svo við búum ekki áfram við mengaðar fjörur. Áður var þörf en nú er nauðsyn.

Við alla þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er á nesinu á næstu misserum er nauðsynlegt að líta til þess að uppbygging grunn-, leik- og tónlistarskóla taki mið af fjölgun íbúa og því ráð að byrja að huga að slíku sem allra fyrst.

Mikilvægt er að viðhalda vegum og bæta við göngu- og hjólastígum á nesinu t.d. frá afleggjaranum að Bessastöðum á norður-nesið og við suðurstrandarveg út á Seylu. Þar er reiðstígur fyrir en gert er ráð fyrir samhliða göngustíg í deiliskipulagi. Einnig er nauðsynlegt að bæta Bakkaveg frá Mýrarkoti að Suðurnesvegi en sá kafli hefur verið vanræktur um árabil og er lítið meira en holur og sama má segja um veginn yfir Garðaholtið. Þá þarf að bæta hjólaleiðina út á Álftanes, svo hjólreiðafólk þurfi ekki að hjóla á Álftanesvegi.

Það væri til sóma ef hringtorgið við Bessastaði fengi löngu tímabæra yfirhalningu. Torg sem er við innkeyrsluna að forsetasetrinu á að vera bæjarprýði, ekki berangursleg grjótahrúga. Garðabær og ríkið eiga að taka höndum saman og bæta úr málunum.

Mikilvægt er að fá loftgæðimæli á Garðaholtið til að fylgjast með loftmengun frá álverinu í Straumsvík. Eins og kemur fram í mati heilbrigðisnefndar í tengslum við endurskoðun á starfsleyfi álversins í Straumsvík þarf að endurskoða umhverfisvöktun hvað loftgæði varðar frá grunni sem og hvernig niðurstöður eru nýttar og rýndar. Dregist hefur að koma fyrir veðurstöð við mælistöðina í Hafnarfirði en það hefur torveldað túlkun gagna.Einnig kemur fram að mengunarálag frá álverinu er líklega mest á Garðaholti og Álftanesi og að þörf er á föstum mælingum á svæðinu.

Við í Garðabæjarlistanum viljum láta til okkar taka á næsta kjörtímabili ef við fáum tækifæri til og eru öll þessi mál sem við höfum minnst á í þessum pistli hluti af þeim verkefnum sem við leggjum áherslu á.

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir frv. skólastjóri Tónlistarskóla Álftaness og skipar 9.sæti á Garðabæjarlistanum

Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi og skipar 2. sæti á Garðabæjarlistanum

Categories
Fréttir

Skipulagsmál – ef hlustað hefði verið

Undirritaður, íbúi hér í „hreppnum“ til 60 ára, hóf afskipti af sveitarstjórnarmálum í Garðabæ fyrir 12 árum síðan. Það voru skipulagsmál sem voru kveikjan að þátttökunni. Var óánægður með stöðuna og margar þeirra hugmynda sem uppi voru í skipulagsmálum.

Viðraði óánægju mína við vini mína í meirihlutanum – en fékk skömm í hattinn fyrir. Bauðst þá óvænt sæti á lista minnihlutans með það fyrir augum að taka sæti í skipulagsnefnd bæjarins. Þáði sætið og hef síðan setið fyrir minnihlutann í skipulagsnefnd bæjarins. Starfið í nefndinni hefur um margt verið fróðlegt og skemmtilegt, enda á mínu fagsviði.

Á þessum 12 árum hef ég haft ánægju af því að starfa í nefndinni en það er í þessu eins og öðrum málaflokkum, það er engum til góðs þegar allt vald er á höndum eins flokks svo áratugum skiptir eins og raunin er í okkar samfélagi. Meðal annars hefði ég viljað að eftirfarandi mál hefðu fengið meira vægi í umræðunni í samráði við Garðbæinga.

Hugmyndir um nýja miðbæinn og sundurlaust yfirbragð hans. Þrír algerlega aðskildir og ótengdir kjarnar hafa verið skapaðir s.k. Hagkaupstorg, Garðatorg og Vídalínstorgið. Ekkert þeirra þó „torg“ í raun, aðeins bílastæði. Vissulega komin starfsemi í miðbæinn og er það vel, en aðlaðandi eru „torgin“ ekki og bútasumurinn alger.

● Þetta hefði mátt koma í veg fyrir – ef hlustað hefði verið.

Skipulag við Ásgarð. Benti á hvaða möguleikar væru þar til uppbyggingar á heildstæðu svæði allra íþróttagreina. Rýmið var þá nægt og skv. þeim hugmyndum sem ég og félagi minn Eyjólfur Bragason lögðum fram í samvinnu við þáverandi formann Stjörnunnar Snorra Ólsen. Hvort tveggja rými fyrir handboltahús, körfu og knatthús auk fimleika, á svæðinu. Svartsýnispár okkar gengu því miður eftir. Ekkert rými eða skipulag til staðar þegar að æskilegum framkvæmdum kom á svæðinu. Íþróttasvæðin nú því aðgreind og á þremur stöðum.

● Þetta hefði mátt koma í veg fyrir – ef hlustað hefði verið.

Skipulagshugmyndir á Garðaholti. Eitt besta og verðmætasta byggingarland á öllu höfuðborgarsvæðinu. Nægt rými fyrir allt að 7-8 þús manna byggð af hæfilegum þéttleika og fjölbreytni, sérbýlis og fjölbýlis, auk atvinnu og skóla. Meirihlutinn hafði á árum áður haft þar hug á myndarlegri uppbyggingu, en núverandi öfl hafa snúið blaðinu algerlega við. Falið einkaaðila að skipuleggja svæðið til minningar um látinn einstakling og til verndar „byggðamynstri 20. aldar“ sem þar ku blasa við. Óábyrg meðferð á verðmætum og framtíðarmöguleikum okkar bæjarbúa. Vissulega er hún falleg og rómantísk hugmyndin um verndun, en núverandi byggðin þarna er bæði sundurlaus og ósamstæð. Auk þess sem „verndarskipulagið“ gefur færi á allt að 30 viðbótar einbýlishúsum með hinum undarlegustu skilmálum 19. aldar húsa. Þetta er í raun upplegg að hefðbundnu fasteignabraski. Stórkostlegu tækifæri og milljörðum króna okkar fórnað. Fjármunum sem að öðrum kosti myndu renna í bæjarsjóð okkar, íbúa bæjarins, til þess að skapa enn betri bæ. Ekki veitir af er bókhaldið er skoðað. Með ábyrgri landnotkun og myndarlegri þéttri byggð á þessu svæði tengjum við einnig Álftanesbyggðina mun betur við austari svæði bæjarins.

● Þetta má enn leiðrétta – ef hlustað verður og X sett við G.

Baldur Ó. Svavarsson arkitekt. Skipar 6. sæti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Mikilvæg skref í átt að aukinni velsæld

Nánast öll verkefni sveitarfélaga tengjast lýðheilsu. Í Garðabæ eru frábær tækifæri til þess að vera leiðandi í lýðheilsumálum á sveitarstjórnarstigi. Við búum í nálægð við náttúru og græn svæði eru mörg, ný hverfi líta dagsins ljós og auk þess er fjölbreytni að aukast. Það er mikilvægt að leggja áherslu á þá þætti sem ýta undir velsæld í samfélaginu okkar.

Ein af aðaláherslum okkar í Garðabæjarlistanum er að leggja aukna áherslu á heilbrigða framtíð í allri ákvarðanatöku í samfélaginu. Lýðheilsa snertir á svo ótal mörgum þáttum og það er sérstaklega mikilvægt að horfa til þeirra áhrifa sem nærsamfélagið getur haft á heilsu einstaklinga. Markviss og samstillt áhersla á félagslega áhrifaþætti heilsu þýðir að það þarf að halda vel utan um þær aðgerðir sem bæta kjör daglegs lífs fólks í nærsamfélaginu þar sem það fæðist, vex og eldist. Þetta felur í sér meðal annars snemmþroska barna, menntun, atvinnu, aðgang að auðlindum, samgöngur, skipulag og sjálfbærni. Þetta felur einnig í sér að Heilsueflandi samfélag er markvisst styrkt þar sem áhersla er á sjálfstæði einstaklingsins sem eykur félagslega samheldni og jöfnuð.

Eitt af því besta við samfélagið okkar er að mínu mati nálægðin, nálægð við stofnanir og frístundir, nálægð við náttúru, nálægð við mikilvægar samgönguæðar, nálægð við fólkið sjálft. Þessi nálægð styður við velsæld, hún auðveldar okkur að taka stærri skref í aðgerðum sem snerta heilsu okkar, líðan og öryggi.

Með þetta að leiðarljósi munu áherslur Garðabæjarlistans meðal annars vera á heilsulæsi, snemmtæka íhlutun, forvarnir, næringu, skipulagsmál og öryggi ásamt því að leggja áherslu á að Garðabær verði þekktur fyrir að vera leiðandi í lýðheilsumálum. Við ætlum að styrkja samfélagið okkar í stærri aðgerðum og skipulagsbreytingum með því að innleiða lýðheilsumat en með því þá fáum við aukinn skilning á því hvort tilteknar aðgerðir sveitarfélagsins hafi áhrif á heilbrigði og vellíðan.

Með því að auka meðvitund fólks á því hvað t.d. skipulag hverfa, innviðauppbygging og forgangsröðun aðgerða hefur á heilsu og líðan íbúa leggjum við grunn að auknu samráði. Með auknum upplýsingum getum við sem samfélag tekið upplýstar ákvarðanir um framtíð okkar í Garðabæ.

Í Garðabæ er gott að vera, það eru spennandi tímar framundan og mörg tækifæri til vaxtar. Ég hlakka til að eiga frekara samtal við bæjarbúa og ég vona að við njótum ykkar stuðnings í kosningunum 14. maí.

Harpa Þorsteinsdóttir, 3. sæti XG – Garðabæjarlistinn

Categories
Fréttir

Er fatlað fólk vel­komið í Garða­bæ?

Um 15% mannkyns telst til fatlaðs fólks. Til fatlaðs fólks teljast m.a þeir sem eru með langvarandi andlega, líkamlega eða vitsmunalega skerðingu og sem verða fyrir ýmiss konar umhverfishindrunum sem geta komið í veg fyrir fulla og árangursríka samfélagsþátttöku.

Fötlun fer ekki í manngreinarálit, hvert og eitt okkar getur þurft á viðeigandi þjónustu að halda: Við sjálf, börnin okkar, foreldrar og vinir.

Í Garðabæ búa um 18.000 manns, bærinn býður upp á frábært skóla- og frístundastarf og margt er til fyrirmyndar. Meðaltekjur íbúa eru háar og útsvar tiltölulega lágt. Lífið er gott.

Víða er þó pottur brotinn. Í Garðabæ eru einungis 28 almennar félagslegar leiguíbúðir, sex íbúðir í íbúðakjarna fyrir fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og þrjú heimili fyrir fullorðið fatlað fólk. Einungis 10 manns fá Notendastýrða þjónustu (NPA eða notendasamninga). Þessar tölur eru í engu samræmi við nágrannasveitarfélög okkar né í samræmi við hlutfallslegan fjölda fatlaðs fólks í Garðabæ. Biðlistar eftir aðgengilegu húsnæði lengjast sífellt og aðgengi að upplýsingum og þjónustu fyrir fatlað fólk og fjölskyldur fatlaðra barna eru ekki fullnægjandi. Fordómar á borð við þá afmennskandi umræðu sem oft á sér stað um kostnað í tengslum við málaflokkinn eru alltof algengir.

Frásagnir fatlaðs fólks og foreldra fatlaðra barna á fundi um málefni fatlaðs fólks í Garðabæ 4. apríl síðastliðinn, staðfestu þessar miklu hindranir og takmörkuðu þjónustu bæjarins.Við Garðbæingar hljótum að vera sammála um að hér þurfi að taka til hendinni. Við verðum að stórbæta þjónustuna og standa vörð um hagsmuni fólks í samráði við notendur og hagsmunasamtök fatlaðra.

Samkvæmt könnun Öryrkjabandalags Íslands eru 94,6% landsmanna á þeirri skoðun að fatlað fólk eigi fá sömu þjónustuna óháð sveitarfélagi og 68,7% telja að sveitarfélög leggi of litla áherslu á fatlað fólk.

Ég trúi því að við Garðbæingar séum sömu skoðunar. Ég trúi því að Garðbæingar vilji jafna lífsskilyrði allra íbúa sinna og að við berum virðingu fyrir fötluðu fólki og fjölskyldum þeirra.

Garðabæjarlistinn vill að sveitarfélagið standi vörð um grundvallarréttindi fatlaðs fólks, þ.e. réttinn til sjálfstæðs lífs án aðgreiningar og þátttöku í samfélaginu með réttu þjónustustigi. Fatlaðir Garðbæingar eiga að hafa val um búsetuform og staðsetningu innan bæjarins og vinna þarf að afstofnanavæðingu. Efla þarf fræðslu um fötlunarmál og vinna verður markvisst gegn fötlunarfordómum. Garðabær á að ganga á undan með góðu fordæmi og bjóða upp á hlutastörf fyrir fatlað fólk með sveigjanlegan vinnutíma og stuðla að aukinni þátttöku og virkni fatlaðra barna með fjölbreyttu íþrótta- og tómstundastarfi.

Með lítilli fyrirhöfn getum við gert Garðabæ að aðgengilegasta sveitarfélagi á Íslandi og orðið fyrirmynd fyrir öll önnur á landinu. Allar opinberar byggingar, almenningssamgöngur, stígar, útivistarsvæði og almenningsgarðar ættu auðvitað að vera aðgengilegir öllum og við þannig fengið tækifæri til þess að njóta fallega bæjarins okkar saman.

Garðabæjarlistinn mun halda opinn fund um málefni fatlaðs fólks í Garðabæ þriðjudaginn 19. apríl kl. 19:30 í Sveinatungu. Öll hjartanlega velkomin!

Höfundur er framkvæmdastjóri Sjálfsbjargar landssambands hreyfihamlaðra og í 5. sæti á lista X-G, Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Fjölbreyttar samgöngur í Garðabæ

Það er gott fyrir heilsuna og ekki síst geðheilsuna að hreyfa sig úti undir berum himni. En af hverju veljum við þá flest einkabílinn, þegar við gætum stóran hluta ársins hæglega notað virka ferðamáta á borð við göngu og hjólreiðar í bland við almenningssamgöngur? Í Garðabæ fer fremur lítið fyrir þeirri fjölbreytni vegfarenda sem sést annars víða á höfuðborgarsvæðinu. Þetta snýst ekki aðeins um val íbúa, heldur einnig um forgangsröðun sveitarfélagsins.  

Í Garðabæ er einfaldlega bæði þægilegra og öruggara að vera á bíl, enda er bærinn fyrst og fremst skipulagður út frá bílaumferð. Gangstéttir, göngu- og hjólastígar virðast oft frekar hannaðir fyrir fólk sem ætlar í göngutúr eða eru á leiðinni í bílinn sinn, ekki fyrir þau sem ætla á skilvirkan hátt á milli staða. Dreifð byggð ýtir svo enn undir notkun á einkabílnum.  

Til þess að börnin okkar og við sjálf komumst leiðar okkar, óháð ferðamáta, þarf að forgangsraða fjármunum í gerð aðgreindra hjóla- og göngustíga, gæta þess að gangstéttarkantar séu öruggir fyrir farartæki á borð við rafmagnshlaupahjól, grípa til hraðaminnkandi aðgerða og bæta öryggi á helstu leiðum barna í skóla og frístundir. 

Greiðar og öruggar leiðir fyrir hjólandi og gangandi skapa umhverfi þar sem foreldrar geta óhræddir sent börnin sín milli staða í bænum. Börn eiga að geta gengið eða hjólað í bænum sínum án þess að eiga það sífellt á hættu að verða undir bíl. Sjálf gæti ég varla hugsað mér að senda barnið mitt gangandi frá heimili okkar í Hrísmóum í Flataskóla, sem er þó aðeins í fimm mínútna göngufjarlægð. Til þess eru gatnamót Stekkjarflatar og Vífilsstaðavegar of hættuleg og umferðarhraðinn of mikill bæði á Bæjarbraut og Vífilsstaðavegi. Til að nefna dæmi til viðbótar, þá liggur verulega á lagningu öruggra göngu- og hjólastíga að íþróttahúsinu Miðgarði auk fyrirhugaðrar tengingar fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur við Urriðaholtið, sem margir íbúar hafa lengi beðið eftir.

Í umferðaröryggisáætlun Garðabæjar, sem unnin var af EFLU og gefin út árið 2021, voru lagðar til tillögur að úrbótum til að auka umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í bænum. Þar má finna fjölda aðgerða og markmið sem ríma vel við þær áherslur sem hér hafa verið taldar upp. Mikilvægt er að sveitarfélagið fylgi þessari vinnu vel eftir, veiti til hennar nægu fjármagni og hugi ekki síst að innviðum fyrir virka ferðamáta við uppbyggingu nýrra hverfa. Með auknu öryggi vegfarenda og betri innviðum mun fólk oftar kjósa að geyma bílinn heima, skutlið minnkar og lýðheilsa batnar. 

Garðabæ ber skylda til að búa til umhverfi þar sem við komumst öll örugg leiðar okkar á skilvirkan máta, sama hvernig við kjósum að fara á milli staða. Í samfélaginu okkar verður að vera alvöru möguleiki fyrir Garðbæinga á öllum aldri að nota virka ferðamáta í bland við einkabílinn. Það er betra fyrir umferðarþungann, loftslagið og bæjarbraginn ásamt því að stuðla að markmiðum Heilsueflandi samfélags. Garðabæjarlistinn vill fjölbreyttar og öruggar samgöngur í Garðabæ. Gerum þetta saman!

Þorbjörg Þorvaldsdóttir. Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans, X-G, í sveitarstjórnarkosningunum 14. maí nk.

Categories
Fréttir

Verðugt verkefni framundan


Á síðasta bæjarstjórnarfundi voru ársreikningar Garðabæjar fyrir árið 2021 samþykktir. Að því tilefni lögðum við bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans fram eftirfarandi bókun.

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans þakka starfsfólki fyrir vinnu við ársreikning. Það er ánægjuefni að skatttekjur á hvern íbúa voru hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Þar  var gert ráð fyrir 837 þúsund kr. á íbúa en í raun komu inn 871 þúsund kr. á íbúa. 
Þá er einnig jákvætt að sala á lóðum/byggingarrétti var töluverð sem gerir það að verkum að tekjur bæjarins hafa aukist um 1,1 milljarð króna á árinu 2021. Ánægjulegt er að sjá mikla fjölgun íbúa í Garðabæ, en frá árinu 2017 hefur fjölgað um 2800 íbúa.
 
Við höfum þó áhyggjur af nokkrum þáttum. Aukin verðbólga er áhyggjuefni, sérstaklega þar sem að verðtryggðar skuldir bæjarsjóðs hafa aukist töluvert á kjörtímabilinu. Lántaka á síðustu tveimur árum er samtals 6,5 milljarðar kr. Skuldir á hvern íbúa hafa þ.a.l. aukist mjög mikið. Árið 2017 voru þær 751 þúsund kr. en eru í dag orðnar 1224 þúsund kr. á hvern íbúa.  Mikilvægt er að hafa í huga að Garðabær hefur staðið í miklum framkvæmdum á þessu tímabili og hafa eignir bæjarins þ.a.l. aukist töluvert.
 
Það er áhyggjuefni að rekstrarniðurstaða A-sjóðs sé neikvæð um 60 millj. kr. og það þrátt fyrir mikla sölu á lóðum/byggingarétti. Lóðir eru takmörkuð auðlind og ekki hægt að gera ráð fyrir að tekjur af slíkri sölu verði stöðugar til framtíðar, sérstaklega ef verðbólga eykst og kaupmáttur rýrnar. Ef rekstrarniðurstaða A-sjóðs heldur áfram að vera neikvæð á næstu árum hefur bærinn engin önnur úrræði en að hækka álögur eða skera niður í þjónustu til að mæta slíku. 
 
Framundan eru miklar fjárfestingar í innviðum sem eru nauðsynlegir til að veita bæjarbúum viðeigandi þjónustu. Til að standa undir þeirri fjárfestingu er mikilvægt að fara varlega í næstu skref. Að okkar mati er ekki skynsamlegt að auka skuldir meira og því nauðsynlegt að meta hversu miklu er hægt að ná inn með sölu lóða/byggingaréttar og í framhaldinu skoða hvort sú upphæð dugi til að standa undir þeim framtíðarfjárfestingum sem eru nauðsynlegar til að halda í við íbúaþróun Garðabæjar.
 
Næstu bæjarstjórnar bíður verðugt verkefni. Markmið okkar í Garðabæjarlistanum er að halda álögum eins lágum og kostur er, en einnig að tryggja góða þjónustu við íbúa og byggja upp innviði í takt við íbúaþróun. Til þess að það sé hægt þarf fjárhagsstaða Garðabæjar að vera sterk.

Fyrir hönd Garðabæjarlistans, 
Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi, 2. sæti XG
Harpa Þorsteinsdóttir bæjarfulltrúi, 3.sæti XG

Categories
Fréttir

Grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum Garðabæjar

Á bæjarstjórnarfundi, fimmtudaginn 7. apríl, var lögð fram sameiginleg tillaga bæjarfulltrúa Garðabæjarlistans og Sjálfstæðisflokksins um grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum bæjarins. Tillagan var samþykkt samhljóða en hún hljóðar svo;

,,Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að fela fræðslu- og menningarsviði að taka saman minnisblað um fýsileika  þess að bjóða nemendum  upp á grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum bæjarins. Minnisblaðið verði tekið til umræðu við gerð fjárhagsáætlun fyrir árið 2023.” 

Í greinargerð er fylgdi tillögunni segir m.a. að með því að bjóða upp á grænmetis- og ávaxtastund (nesti) sé verið að létta undir með barnafjölskyldum. Grænmetis- og ávaxtastund komi í staðinn fyrir nestistíma og þurfa nemendur því ekki að mæta með nesti í skólann. Samráð skuli haft við skólastjórnendur og ungmennaráð um framkvæmd og fýsileika ofangreindrar tillögu. 

Garðabær er heilsueflandi bæjarfélag sem leggur áherslu á að börnum bjóðist næring sem uppfyllir ráðleggingar og viðmið um mataræði og næringarefni. Í aðgerðaráætlun með lýðheilsu og forvarnarstefnu Garðabæjar kemur fram að bæta þurfi framboð af hollum mat í mötuneytum skóla. Lýðheilsuaðgerð sem þessi er til þess fallin að auka neyslu á grænmeti og ávöxtum. Í skólum bæjarins er mikilvægt að huga að fæðuvenjum barna og með þessu getum við lagt grunn að mataræði sem hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu til framtíðar.

Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi
Harpa Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar
Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs

Categories
Fréttir

Fjöl­breytni til fram­tíðar í Garða­bæ

Fjölbreytni er mikilvægt leiðarstef í sýn Garðabæjarlistans fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Fjölbreytt samfélag er sannarlega verðugt markmið í sjálfu sér og ákall okkar um aukna fjölbreytni nær til margra málaflokka sveitarfélagsins. Hugtakið er þannig mikilvægur hlekkur í stefnu Garðabæjarlistans í meðal annars menningarmálum, íþrótta- og æskulýðsmálum og mannréttindamálum. Hér mun ég tæpa á því helsta sem viðkemur fjölbreytni í húsnæðisuppbyggingu og í samgöngum.

Garðabær er á tímamótum. Mikil fólksfjölgun hefur orðið í bænum að undanförnu og frekari uppbygging er fyrirhuguð. Það er mikilvægt að tækifærin sem bærinn hefur núna séu nýtt til þess að mæta þeim þörfum sem samfélagið okkar hefur. Það á að vera hægt að leigja í Garðabæ. Það á að vera hægt að kaupa sína fyrstu eign í Garðabæ. Það er tímabært að kynslóðirnar geti allar búið saman í bænum, óháð aldri og tekjum. Við þurfum fjölbreyttari valkosti.

Fjölbreytni í húsnæðisuppbyggingu þýðir ekki einungis að byggja þurfi bæði fjölbýli og sérbýli, íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, heldur einnig að dágóður hluti uppbyggingarinnar fari til óhagnaðardrifinna leigu- og búseturéttarfélaga, í félagslegt húsnæði og í húsnæði sem sérstaklega er ætlað ungu fólki. Þetta hefur skort lengi í Garðabæ og skökk íbúasamsetningin, þar sem fólk á aldrinum 20-40 ára vantar hlutfallslega í bæjarfélagið, er afleiðing þeirrar einsleitnisstefnu sem rekin hefur verið leynt og ljóst í Garðabæ síðustu áratugina. Samhliða þessu þarf að standa vörð um sérstöðu hverfa og tryggja greitt aðgengi íbúa að grænum svæðum og þeirri stórkostlegu náttúru sem umlykur okkur hér í bænum.

Samgöngur eru annar málaflokkur þar sem Garðabær þarf nauðsynlega að taka skref í átt að fjölbreytni. Líkt og í flestum sveitarfélögum landsins hefur ósagða stefnan verið sú að gera fólki á einkabíl lífið eins auðvelt og hægt er. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að fjölbreyttir, virkir og vistvænir ferðamátar verði líka raunverulegur valkostur fyrir íbúa og að innviðir séu byggðir upp og framkvæmdum forgangsraðað með það í huga. Börnin okkar eiga að komast fótgangandi á öruggan hátt í skóla og frístundir. Fólk á að eiga þess kost að geta hjólað í vinnuna á þægilegum og aðgreindum hjólastígum. Við eigum ekki öll að þurfa tvo bíla á heimili til að geta komist í gegnum hversdagsleikann.

Það er langtímaverkefni að koma upp öruggum og skilvirkum innviðum fyrir virka ferðamáta um allt bæjarfélagið, en við þurfum að taka skrefin. Það er staðreynd að það kjósa æ fleiri að nýta virka ferðamáta, við hvetjum börnin okkar til þess að hjóla í skólann, í sund eða í frístundir. Það er gleðiefni að æ fleiri kjósa að nota reiðhjól, rafhjól og rafmagnshlaupahjól til þess að fara á milli staða en það skiptir máli að innviðir styðji við þessa jákvæðu þróun. Garðabæjarlistinn vill koma upp yfirbyggðum, öruggum og myndavélavöktuðum skýlum fyrir minni farartæki við alla skóla og íþróttamannvirki og styðja þannig við fjölbreytni í samgöngum með alvöru aðgerðum – og fækka mögulega nokkrum ‘hjólinu var stolið’ póstum á íbúasíðum Garðabæjar í leiðinni.

Garðabær stendur á krossgötum og tækifærin eru fyrir hendi. Þann 14. maí nk. fáum við að velja hvernig samfélagið okkar á að líta út til framtíðar. Garðabæjarlistinn velur fjölbreytni, í allri sinni stórkostlegu mynd, og við óskum eftir umboði Garðbæinga til þess að vinna henni veg í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili.

Höfundur er oddviti X-G, Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Störf umhverfisnefndar, stiklað á stóru

Það má segja að umhverfisnefnd hafi verið nokkuð samstíga s.l. fjögur ár. Ég hef þá pólitísku sýn að þegar kosningum er lokið og fólk fer að vinna saman í ráðum og nefndum eigi að leggja flokkapólitík til hliðar og ráðamenn eigi að vinna saman að velferð samfélagsins en ekki rakka allt niður sem andstæðingur í pólitík leggur til. Þannig hef ég reynt að vinna þau ár sem ég hef starfað í nefndum fyrir Garðabæ og hef átt ágætis samstarf við samstarfsfólk mitt. Að mörgum úrbótum hefur verið unnið á kjörtímabilinu. Hér er talið upp það helsta.

Loftslagsmálin og heimsmarkmiðin hafa vegið þungt á þessu kjörtímabili. Loftslagsstefna hefur litið dagsins ljós og verður hún rýnd á hverju ári og bætt inn í beinagrindina, ef svo má að orði komast. Garðabær mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs um samtals 33% fram til ársins 2030. Við í Garðabæjarlistanum hefðum kosið metnaðarfyllra markmið, eða um 50% eins og vísindin ráðleggja, en fáum þau svör að það sé ekki raunhæft.

Flokkun á sorpi skipar stóran sess í loftslagsmálum en þar eigum við verk að vinna, en t.d. hefur flokkun á lífrænum úrgangi ekki enn verið tekin upp í Garðabæ. Það horfir þó til betri vegar með samræmdri meðhöndlun úrgangs á suðvesturhorninu sem er löngu tímabær. Stefnt er að innleiðingu ekki síðar en um næstu áramót. Þessu ber að fagna og kemur vonandi til með að skila enn hærra hlutfalli af sorpi sem fer í endurnýtingu.

Garðabær gegn sóun, innkaupa- og úrgangsstefna Garðabæjar, var samþykkt í september 2019. Virkjuð voru græn teymi innan stofnana til að þróa og fylgja eftir markmiðum stefnunnar. Þetta ætti bæði að minnka sóun og kostnað stofnana. Miklar væntingar eru bundnar við þetta góða framtak. Smám saman erum við að fikra okkur inn í framtíðina hvað orkuskipti varðar. Nítján hleðslustöðvar fyrir rafbíla hafa verið settar upp á víð og dreif um bæinn og rafhlaupahjólaleiga tekin í notkun.

Fylgst er vel með mengun í vötnum, lækjum og við strandir Garðabæjar og mælingar teknar vor og haust. Í þessum mælingum eru nokkrir staðir sem koma alltaf fremur illa út og það þarf að ráðast í átak til að koma í veg fyrir að skólp komist í læki. Hér komum við almenningur sterkt inn, en borið hefur á að fólk hafi losað ýmsa mengandi vökva í niðurföll við hús sín. Við verðum öll að vera meðvituð um að það gengur ekki. Einnig er alltaf eitthvað um það að saurgerlar mælist í sjó við strandir. Rannsóknir á lífríki Vífilstaðavatns og Urriðavatns eru til skoðunar.

Garðabær hefur verið duglegur að friðlýsa mikilvæg verndarsvæði. Á þessu kjörtímabili hafa Hlið á Álftanesi og Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár bæst í þann flokk. Í undirbúningi hjá Umhverfisstofnun er Garðahraun efra, neðra Vífilstaðahraun og Maríuhellar ásamt Urriðakotshrauni.

Tillögur Garðabæjarlistans sem hlotið hafa brautargengi hjá meirihlutanum eru; að veita fyrirtækjum og einstaklingum viðurkenningu sem ná góðum árangri í að minnka plastsóun, að flokka, endurnýta og sporna við matarsóun og að flýta LED-væðingu lýsingar í Garðabæ um fjögur ár, en það sparar mikinn kostnað. Tekið var vel í tillögu okkar um upphækkun og lagningu göngustígs við Suðurstrandarveg en í dag er þar eingöngu reiðstígur. Málið virðist hafa dagað uppi hjá umhverfis- og tæknisviði.

Fræðslu og sögugöngur hafa því miður lagst af í bili vegna aðstæðna í samfélaginu en vonandi verður þráðurinn tekinn upp að nýju þegar aðstæður leyfa.

Umhverfismál hafa alltaf skipt miklu máli en líklega aldrei meira máli en í dag vegna þeirrar loftslagsvár sem steðjar að heiminum. Það þarf stöðugt að stoppa þá af sem engu eira þegar gróði er annars vegar. Landið okkar er dýrmætt og þarf sinn málsvara. Við í Garðabæjarlistanum höfum staðið vaktina í umhverfisnefnd og bæjarstjórn á kjörtímabilinu og munum svo sannarlega halda áfram að leggja okkar af mörkum í þágu náttúrunnar á því næsta.

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir fulltrúi Garðabæjarlistans í umhverfisnefnd.