Categories
Fréttir

Aðalfundur 2023

[English below] Garðabæjarlistinn boðar til aðalfundar laugardaginn 18. mars kl. 16 í Sveinatungu, sal Garðabæjar að Garðatorgi 7. Við hvetjum allt áhugafólk um sveitarstjórnarmál til að mæta á fundinn og taka þátt í starfi listans. 

Dagskrá fundarins skv. samþykktum félagsins er eftirfarandi: 

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Skýrsla stjórnar lögð fram
  3. Reikningar lagðir fram til samþykktar
  4. Lagabreytingar
  5. Ákvörðun félagsgjalds
  6. Kosning stjórnar, formanns og fjögurra meðstjórnenda
  7. Önnur mál

Lagabreytingartillögur og framboð til stjórnar eða formanns berist á gbrlistinn@gmail.com. Einnig er hægt að bjóða sig fram á fundinum sjálfum. 

Kaffiveitingar á boðstólum! Einnig verður aðalfundarhóf Garðabæjarlistans, X-Gleði, kl. 20 sama dag, en staðsetning þess verður auglýst á fundinum. 

Finna má frekari upplýsingar um Garðabæjarlistann á vefsíðu okkar, gardabaejarlistinn.is

Hlökkum til að sjá ykkur!

//

Garðabæjarlistinn invites you to our annual general meeting on Saturday, March 18 at 4 PM in Sveinatunga, Garðatorg 7. We encourage all people interested in local government issues to attend the meeting and participate.

The agenda of the meeting is as follows:

  1. Election of chair and secretary of the meeting
  2. Annual report submitted
  3. Invoices submitted for approval
  4. Amendments
  5. Determination of membership fee
  6. Election of the board, chair and four board members
  7. Other matters

Amendment proposals and candidacy for the board or chair should be sent to gbrlistinn@gmail.com. You can also register to run for the board at the meeting itself.

There will be coffee and something sweet! We will also have a party, X-Gleði, at 8 PM on the same day. Its location will be announced at the meeting.

You can find more information about Garðabæjarlistinn on our website, gardabaejarlistinn.is

We look forward to seeing you!

Categories
Fréttir

Gleðilegt nýtt ár!

Nú er komið að því að kveðja árið 2022 og taka á móti nýju upphafi. Þá er við hæfi að líta yfir farinn veg. Við, bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans, höfum margt til að vera þakklát fyrir á árinu. Að baki er kosningaár þar sem okkar málefni kristölluðust í áherslu á fjölbreytt, ábyrgt og barnvænt samfélag. Við náðum góðum árangri í kosningum til bæjarstjórnar, en við fengum tvo bæjarfulltrúa og vorum grátlega nálægt því að fá inn þriðja mann. Garðabæjarlistinn hlaut 20,9% atkvæða og er þar með stærsti flokkurinn í minnihlutanum í bæjarstjórn. Við tökum því hlutverki alvarlega og veitum meirihluta Sjálfstæðisflokks öflugt aðhald fyrir hönd okkar kjósenda. 

Garðabæjarlistinn hefur fundað fyrir hvern bæjarstjórnarfund frá kosningum og haldið uppi öflugu málefnastarfi, tekið sameiginlegar ákvarðanir um forgangsröðun og afgreiðslu mála. Frá kosningum höfum við lagt fram fjölda tillagna og nýtum hvert tækifæri til að koma okkar skoðun á framfæri.

Dæmi um tillögur okkar á árinu eru hækkun hvatapeninga í 75 þúsund og að þeir fylgi framvegis verðlagi. Þetta kom til framkvæmda að hluta, en hvatapeningar munu hækka um 10% árið 2023. Við lögðum einnig fram tillögu um að færa matarkostnað í leik- og grunnskólum undir reglur um tekjutengingu, en endurskoðun á reglum um tekjutengingu gjalda fer fram í vor og við vonumst til þess að koma þessum lið þar undir til að létta enn frekar undir með tekjulægstu barnafjölskyldunum hér í bænum. 

Við lok síðasta kjörtímabils lögðum við fram tillögu um grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum ásamt Sjálfstæðisflokki, sem verður að veruleika næsta haust. Samningur við Samtökin ‘78 um hinsegin fræðslu til starfsfólks bæjarins og grunnskólabarna, tillaga sem við stóðum að ásamt öllum flokkum í bæjarstjórn, hefur verið undirritaður og samstarf hafið. 

Önnur mál úr okkar ranni hafa hlotið brautargengi í bæjarstjórn á árinu, sem ber vott um ánægjulega breytingu á samstarfsvilja meirihlutans eftir kosningar. Tillaga Garðabæjarlistans um gerð hjólreiðaáætlunar fyrir Garðabæ var samþykkt í sumar og starfshópur skipaður á haustdögum. Þá var bæjarstjóra falið að útbúa málstefnu Garðabæjar á grundvelli tillögu okkar, með það að leiðarljósi að viðmiðunarreglur séu til um framsetningu upplýsinga á íslensku sem og á öðrum tungumálum. Einnig höfum við lagt fram ítarlega fyrirspurn í bæjarstjórn um viðbrögð við raka- og mygluskemmdum og í fjölskylduráði höfum við óskað eftir upplýsingum um félagslegt húsnæði, biðlista og fjölda barna í þeim úrræðum. 

Með öðrum orðum hefur Garðabæjarlistinn ekki setið auðum höndum frekar en fyrri daginn og við munum halda áfram af sama krafti á næsta ári, í þágu allra íbúa.  

Garðabæjarlistinn samþykkti fjárhagsáætlun Garðabæjar nú í byrjun desember, þrátt fyrir að vera í grunninn ósammála meirihlutanum hvað varðar tekju- og gjaldahliðina. Þá óánægju sýndum við með því að sitja hjá við afgreiðslu gjaldskráa og með því að leggja fram bókun við afgreiðslu fjárhagsáætlunar þar sem afstaða okkar er tíunduð. Gjöld á börn og barnafjölskyldur eru enn of há í Garðabæ og við munum halda áfram að tala fyrir því að þau verði lækkuð. Hins vegar eru í fjárhagsáætlun næsta árs fjöldi mála sem við töluðum fyrir bæði í kosningabaráttunni og í bæjarstjórn. Dæmi um mál sem við styðjum og höfum talað fyrir er sumarfrístund, markviss uppbygging innviða í takt við íbúafjölgun, stóraukið viðhald skólabygginga, áhersla á velferð barna og markvissa innleiðingu samþættrar þjónustu við börn á grundvelli nýrra farsældarlaga, aukin fjárfesting bæði í búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk og almennu félagslegu húsnæði, uppbygging Garðatorgs og fleira. Þá eru ótalin einstök smærri mál sem við höfum komið í gegn á árinu, hvort sem það er í hluta eða heild, líkt og farið var yfir hér að ofan. 

Við gerum okkur grein fyrir því að við breytum ekki stóru myndinni við stjórn bæjarins á meðan Garðabæjarlistinn er í minnihluta. Þangað til það breytist höfum við því kosið að láta að okkur kveða í samstarfi og með þéttu en sanngjörnu aðhaldi bæði í bæjarstjórn og í nefndum bæjarins. Við vonumst til þess á nýju ári að koma í gegn málum á borð við tekjutengingu matarkostnaðar í leik- og grunnskólum, frekari hækkun hvatapeninga, aukinni uppbyggingu hagkvæms húsnæðis og öðrum málum sem létta undir með lág- og millitekjuhópum í bænum. 

Við erum full bjartsýni fyrir árið 2023 og Garðabæjarlistinn mun áfram standa vaktina í þágu samfélags sem er fyrir okkur öll: Fjölbreytt, barnvænt og ábyrgt. Við óskum Garðbæingum gleðilegs nýs árs með kærum þökkum fyrir árið sem er að líða. 

Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans. 

Categories
Fréttir

Bæjarstjórn 16. júní 2022

Annar fundur kjörtímabilsins í bæjarstjórn Garðabæjar fór fram fimmtudaginn 16. júní. Fundinn sátu fyrir hönd Garðabæjarlistans: Þorbjörg Þorvaldsdóttir, oddviti, og Greta Ósk Óskarsdóttir, sem kom inn sem varabæjarfulltrúi á sinn fyrsta fund í bæjarstjórn. 

Í upphafi fundar var ráðningarsamningur bæjarstjóra borinn upp til samþykktar bæjarstjórnar, en af því tilefni endurbókaði Þorbjörg bókun Ingvars Arnarssonar úr bæjarráði 7. júní: 

Hérna höfum við samning sem gerður er af Sjálfstæðisflokknum við oddvita þeirra og það án allrar aðkomu minnihlutans. Við í Garðabæjarlistanum viljum hafa laun bæjarstjóra lægri en þau sem eru í þessum samningi. Við teljum þetta of há laun fyrir þau störf sem bæjarstjóri í 18.000 manna sveitarfélagi á að fá. 

Þorbjörg og Greta sátu hjá við afgreiðslu samningsins, en afstaða Garðabæjarlistans skýr og komin fram. Þó átti sér stað góð umræða á fundinum um launakjör kjörinna fulltrúa. Það verður að teljast meirihlutanum til tekna að laun bæjarstjóra hafa verið lækkuð umtalsvert frá því sem áður var, þótt við hefðum viljað sjá meiri lækkun – enda þiggur bæjarstjóri einnig laun fyrir setu í bæjarstjórn og nefndum.

Undir fundargerð bæjarráðs kom Þorbjörg einnig inn á undirskriftalista barna í Flataskóla sem óska eftir stórri rennibraut í Ásgarðslaug. Hún sagðist vona að vel yrði tekið í erindið, sem vísað hefur verið til bæjarstjóra. Það er til mikillar fyrirmyndar að börn láti í sér heyra við sveitarfélagið og við í Garðabæjarlistanum fögnum framtaki krakkanna. 

Garðabæjarlistinn tók þátt í bókun Framsóknar varðandi styrktarsjóð Garðasóknar, sem hlýtur 1.6 milljóna króna styrk ár hvert. Bókunin hljóðaði svo: 

Framsókn og Garðabæjarlistinn vilja að fólk í fjárhagsvanda geti leitað sér aðstoðar óháð því hvaða trú það aðhyllist. Um er að ræða ráðstöfun á útsvari bæjarbúa. Þjóðkirkjan er ríkisrekin stofnun og fær fjármagn þaðan, það væri mun eðlilegra að hér væri sjóður á vegum Garðabæjar sem allir bæjarbúar upplifðu að þeir gætu leitað til. Samkvæmt stjórnarskrá ríkir trúfrelsi á Íslandi og því skrítið að í reynd þvinga fólk sem þarf á aðstoð að leita sér hennar í gegnum kirkjuna.

Þorbjörg kom svo upp og skýrði afstöðu sína: „Mig langar að byrja á því að segja að ég styð allt mannúðarstarf. Fjárhagsaðstoð Þjóðkirkjunnar almennt er ótrúlega góð og þar veit ég að fólki í fjárhagsvanda er mætt af skilningi og hlýhug – og ólíkt mörgum hjálparsamtökum afhenda þau yfirleitt fólki pening sem það getur ráðstafað sjálft, enda þekkir fólk eigin þarfir best. 

Hins vegar finnst mér í prinsippinu ekki rétt að Garðabær reiði sig á úrræði sem er svo augljóslega tengt tiltekinni trú til þess að koma fólki til aðstoðar. Í þessu fyrirkomulagi felst, þrátt fyrir einlægan vilja um annað, mismunun gagnvart þeim sem ekki vilja leita til kirkjunnar.

Einnig sagði Þorbjörg að gott væri að hafa upplýsingar um úthlutanir úr sjóðnum, þar sem það gæti gefið sveitarfélaginu betri mynd af stöðu fólks í bænum. Greta Ósk óskaði eftir upplýsingum um það hvaða styrktar- og líknarfélög Garðabær styrkir og hversu stór hluti þeirra tengist trúfélögum.

Í kjölfar bókunarinnar var góð umræða í bæjarstjórn um málið, þar sem skoðanir eru skiptar. Sjálfstæðismenn telja þetta snúast um að kasta víðu neti til þess að koma fólki til aðstoðar, á meðan fulltrúar minnihlutans telja óeðlilegt að svo sterk tengsl séu milli sveitarfélagsins og tiltekins sjóðs á vegum trúfélags, en samþykktir sjóðsins kveða á um árlegt framlag frá Garðabæ og bæjarstjórn tilnefnir mann í stjórn. Það sem mátti þó ráða af umræðunum var mikill vilji allra til þess að koma fólki í fjárhagsvanda til aðstoðar, sem okkur í Garðabæjarlistanum finnst afar jákvætt. 

Þegar fundargerð skólanefndar var lögð fram lýsti Þorbjörg yfir áhyggjum af niðurstöðum könnunar meðal starfsmanna á kynjajafnrétti, starfsþróun og símenntun, þar sem svör sem fólk skrifaði inn bera þess vitni að starfsfólk á a.m.k. sumum vinnustöðum í Garðabæ búi við óviðunandi álag. Hún hvatti bæjarstjórn til að taka umkvartanirnar alvarlega og hlusta á ákall starfsfólks um betri mönnun, aukinn viðverusveigjanleika og skilning gagnvart fjölskylduaðstæðum. 

Fjöldi tillagna lá fyrir fundinum: 

Þorbjörg og Greta studdu tillögu Viðreisnar og Framsóknarflokks um stefnumótunarvinnu á starfi félagsmiðstöðva Garðabæjar, en tillögunni var hafnað af Sjálfstæðisflokki.

Einnig studdu fulltrúar Garðabæjarlistans tillögu Viðreisnar um starfshóp um þróun á grunnskólauppbyggingu Garðabæjar. Tillögunni var einnig hafnað af Sjálfstæðisflokki. 

Garðabæjarlistinn hafnaði tillögu Viðreisnar um bætt rekstrarumhverfi sjálfstætt starfandi grunnskóla í Garðabæ. Ástæða þess er að tillagan fól í sér að í stað þess að sjálfstætt starfandi grunnskólar fengju sama framlag á nemanda og aðrir grunnskólar í Garðabæ (líkt og nú er) myndu þeir fá hærra framlag, sem við teljum ósanngjarnt gagnvart grunnskólum sem eru reknir af sveitarfélaginu og ekki stutt nægilega sterkum rökum. 

Þorbjörg lagði fram tillögu Garðabæjarlistans um örugg hjólaskýli, sem var samþykkt samhljóða. Tillagan hljóðar svo: 

Bæjarstjórn samþykkir að fela tækni- og umhverfissviði að taka saman yfirlit yfir þá skóla og íþróttamannvirki þar sem mest þörf er fyrir öruggari hjólastæði, yfirbyggð og/eða myndavélavöktuð hjólaskýli. Fyrsti fasi í uppsetningu slíkra stæða og skýla, út frá fyrrnefndri þarfagreiningu, verði hluti fjárhagsáætlunar ársins 2023.

Það gleður okkur að þessi tillaga hafi fengið framgang og hlökkum svo sannarlega til að sjá áhuga fólks á virkum ferðamátum aukast með betri og öruggari geymslumöguleikum.

Garðabæjarlistinn samþykkti loks tvær tillögur Sjálfstæðisflokksins. Annars vegar um nafngift og fegrun hringtorga í Garðabæ og hins vegar tillögu um skipan undirbúningsnefndar vegna uppbyggingar miðbæjarsvæðis í Garðabæ. Greta og Þorbjörg lýstu báðar yfir ánægju með tillöguna en bentu auðvitað á að sá sundurleiti miðbær sem við búum við í dag sé auðvitað verk meirihlutans. Við miðbæjartillöguna bókuðu þær eftirfarandi: 

Þetta er frábært skref og Garðabæjarlistinn styður tillöguna af heilum hug.

Í þessari vinnu er mjög mikilvægt að horft verði sérstaklega til aðgengis fatlaðs fólks, eldra fólks og barna að svæðinu. Einnig skiptir máli að hafa hjólandi og gangandi vegfarendur í forgangi og leita leiða til þess að miðbærinn okkar kafni ekki í bílaumferð eins og raunin er núna. Garðatorg er frábærlega fjölbreyttur þjónustu- og verslunarkjarni, en við verðum að gera hann meira aðlaðandi og grænni. 

Greta Ósk kom sérstaklega inn á græna þáttinn: Ég vona innilega að græn svæði, gróður og gróðurhús verði áberandi í framtíðaráætlunum vegna þess að rannsóknir sýna að þau auka lífsgæði og eru heilsusamleg.“

Síðasta mál fundarins var svo tillaga um sumarfrí bæjarstjórnar, en næsti fundur verður haldinn 18. ágúst. Þangað til sinnir bæjarráð afgreiðslu mála og þar munum við í Garðabæjarlistanum að sjálfsögðu standa vaktina í sumar. Þegar bæjarstjórn tekur aftur til starfa 18. ágúst verða sólblóm þeirra sem hafa sáð fræjunum frá okkur vonandi búin blómstra.