Categories
Fréttir

Allt er gott sem endar vel

Nú er komið að því að taka knatthúsið Miðgarð í notkun. En sagan að baki þessa mannvirkis er ansi löng eða yfir 25 ár. Ég kannast nokkuð vel við þessa sögu og man vel þegar fyrstu umræður um knatthús voru að fara af stað. Þá var einmitt verið að ræða staðsetningu og stærð. En fyrir sveitarstjórnarkosningar 1998 tók ég þátt í að mynda framboð með ungu fólki sem var með þetta efst á sinni stefnuskrá. Við unnum eftir settum lögum og reglum, mótuðum framboðslista og söfnuðum meðmælendum. Ég hafði þá fengið það hlutverk að leiða listann aðeins 19 ára gamall. Við mættum með öll okkar skjöl, undirrituð og klár á bæjarskrifstofur Garðabæjar og ætluðum að leggja þau inn fyrir tilsettan tíma þannig að allt væri löglegt. Þar var ekki vilji til að taka við gögnunum og okkur tjáð að koma seinna. Það sem gerðist eftir það var eitt það furðulegasta sem ég hef upplifað. Nokkur af þeim sem voru skráðí framboð vildu hætta við og drógu sum framboð sitt til baka. Seinna kom í ljós að þeir aðilar höfðu fengið orð í eyra og í þeim orðum hefði legið hótun um framtíð viðkomandi hjá íþróttafélagi bæjarins ef farið yrði í framboð. Þá var einnig lofað að þetta yrði eitt af þeim málum sem Sjálfstæðisflokkurinn myndi taka upp á sína arma og klára ef ekki yrði af framboðinu.  Með þessu athæfi tókst að draga úr krafti unga fólksins á þeim tíma til að hafa áhrif og áhuginn kæfður í fæðingu. 

Eftir að málið var búið að liggja hjá bæjarstjórn í nokkurn tíma, kom fram sterkur hópur árið 2014 sem vildi þrýsta á byggingu knatthúss á Ásgarðssvæðinu. Haldin var opinn fundur með bæjarbúum um nokkrar tillögur að staðsetningu og málin rædd. Þar vakti þó athygli að í öllum tillögum var húsið í litum umhverfis nema þegar að sýnd var staðsetning á Ásgarðssvæðinu. Þá var húsið litað gult og féll mjög illa inn í umhverfið. Þrýstihópurinn var mjög duglegur og lausnamiðaður og kom meðal annars með svipaða lausn að umferðarmálum við Flataskóla og Ásgarð líkt og búið er framkvæma núna. Það má með sanni segja að þessi hópur hafi hreyft við málinu.

Miðað við kostnaðargreiningu sem var lögð fyrir bæjarráð 19. maí 2015 var gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu hússins yrði á bilinu 650 – 1.850 milljónir króna og stefnt var að því að hefja framkvæmdir á því kjörtímabili. Í upphafi árs 2019 breyttist knatthúsið í fjölnota íþróttahús. Efnt var til samkeppni um hönnun og byggingu hússins í Vetrarmýri og í framhaldinu samið við ÍAV sem fékk 5,0 í einkunn fyrir hönnun og í alútboði átti verkið að kosta 4,3 milljarða. Það var áhugavert að sjá að húsið sem fékk 9,2 í einkunn fyrir hönnun og átti að kosta 4,6 milljarða varð ekki fyrir valinu. Þann 3. maí 2019 var tekin fyrsta skóflustunga að byggingu hússins og áætluð verklok í apríl 2021. Á haustdögum 2019 var síðan kominn upp ágreiningur um grundun og í framhaldi hætti verktaki að vinna að verkinu, þá var Bleik brugðið.

En núna í febrúar 2022 er komið að því. Húsið á að taka í notkun og er það stór dagur í sögu okkar Garðbæinga. Nú þarf að kappkosta að samgöngur til og frá húsinu verði sem fjölbreyttastar. Við þurfum að hafa göngustígakerfi sem tengir húsið við aðra hluta bæjarins ásamt því að tryggja almenningssamgöngur gangi til og frá húsinu. Einnig þarf að huga að nýtingu þess og gefa öllum skólum bæjarins tækifæri á að komast að í húsinu sé vilji til þess. Gleymum þó aldrei að húsið er fjölnota.

Til hamingju Garðbæingar!

Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi

Categories
Fréttir

Ópið úr Garðabænum

Það er vel þekkt að í Garðabæ hefur það verið markmið í sjálfu sér að halda útsvarsprósentunni niðri.

Öll viljum við íbúum það besta hvort heldur sem er í þjónustu eða álögum. En þegar jafnvægis er ekki gætt og halla fer á gæði þjónustunnar er hætt við að slík viðmið komi rekstri sveitarfélags í óefni að ekki sé talað um mikilvæga þjónustu.

Það er okkar sveitarstjórnarfólks að tryggja íbúum framúrskarandi þjónustu og sterka innviði í jafnvægi við fjárhagslega getu. En þegar eitt lægsta útsvar sem fyrirfinnst stendur ekki lengur undir nauðsynlegum innviðum og skyldum gagnvart íbúum, hljóta þau sem völdin hafa að þurfa að endurskoða áherslur sínar.

Sjálfstæðismenn í Garðabæ eru læstir í fortíðinni og eiga erfitt með að horfast í augu við hinn nýja Garðabæ. Garðabæ nútímans.

Í Garðabæ hefur íbúum fjölgað mikið og samhliða hefur íbúasamsetning breyst. Þjónusta við fatlað fólk er orðinn stærri þáttur en áður og barnafjölskyldum fjölgar hratt sem kallar á hraða uppbyggingu leik- og grunnskóla.

Þetta hafa Sjálfstæðismenn illa skilið og hafa hvorki haft áætlanir um að mæta aukinni þörf um þjónustu né hvernig auka skuli tekjur til að standa undir þeirri þjónustu.

Viðkvæðið hjá Sjálfstæðismönnum í Garðabæ hefur verið að nú þrengi að og skortur á fjármagni til reksturs sé áþreifanlegri en áður. Eina leiðin til að bregðast við þeirri stöðu sé að kalla eftir fjárhagsaðstoð frá ríki.

Svo hátt fer sú krafa að mörgum þykir nóg um. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur haft orð á því að ekki sé óeðlilegt að öðru sveitarstjórnarfólki þyki nóg um ópin úr Garðabænum.

Sjálfstæðismönnum í Garðabæ þykir það gott og gilt að íbúar annarra sveitarfélaga leggi Garðabæ til fé í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, því Garðabær hafi hvorki ofan í sig né á. En eru ekki færir um að líta sér nær og horfast í augu við skekkjuna sem þeir hafa skapað.

Categories
Fréttir

Val­frelsi í orði en ekki á borði

Í Garðabæ eiga foreldrar að hafa frjálst val um skóla fyrir börn sín. Það valfrelsi hefur verið ríkjandi um langt skeið og byggir á mikilvægri, framsækinni, pólitískri ákvörðun sem var tekin í mun einfaldara og minna samfélagi en við búum í núna. Skólar í rekstri sveitarfélagsins voru þrír, tveir þeirra eingöngu ætlaðir yngsta og miðstigi grunnskólans og einn safnskóli fyrir alla unglinga sveitarfélagsins. Að auki voru tveir sjálfstætt starfandi skólar, sem foreldrar gátu valið án viðbótar kostnaðar. Valið var skýrt, annars vegar sjálfstætt starfandi skóli og hins vegar hverfisskóli á yngsta og miðstigi grunnskólans.

Nú er öldin allt önnur. Garðabær er annað og stærra sveitarfélag, nýtt hverfi byggist upp á ógnarhraða og uppbygging á fleiri nýjum hverfum í undirbúningi. Íbúum hefur fjölgað hratt og fjölskyldur velja Garðabæ til búsetu vegna þess að þær reikna með að íbúar hafi áfram val um skóla, óháð því í hvaða hverfi sveitarfélagsins þær kjósa að búa. En er það svo? Hafa foreldrar raunverulegt val um skóla af sömu gæðum, skóla sem bjóða upp á sambærilegt námsval og þær aðstæður sem þykja bestar fyrir fjölbreytilegan nemendahóp?

Mistök við hraða uppbyggingu

Við sem höfum kosið að starfa fyrir íbúa sveitarfélagsins vitum að það sem skiptir öllu máli fyrir barnafjölskyldur er nálægð við leik- og grunnskóla, íþrótta- og tómstundastarf, samfellan í degi barnanna og öryggi í samgöngum. Því miður sjáum við að ýmislegt hefur farið úrskeiðis við þessa hröðu uppbyggingu þegar litið er til raunveruleikans sem blasir við í Urriðaholtinu. Þar er ekki við neinn að sakast nema meirihluta bæjarstjórnar, sem hafði öll tækifæri til að standa undir væntingum íbúanna. Meirihlutinn hefði hæglega getað byggt þjónustu upp hraðar en hefur kosið að gera það ekki, því skuldahlutfall og skuldaviðmið í rekstri sveitarfélagsins hafa verið langt undir viðmiðum og útsvarsprósenta í algjöru lágmarki.

Tækifærin á kjörtímabilinu til að gera betur blöstu við. Hæglega hefði mátt taka lán eða hækka útsvar tímabundið til að mæta óvenju hraðri íbúafjölgun, en þar virðist bæði hafa skort vilja og kjark. Vissulega sogaði bygging fjölnota íþróttahúss til sín um 5 milljarða króna, en við höfðum samt svigrúm til að gera betur.

Meirihlutinn kaus hins vegar að halda samfélaginu í einhvers konar gíslingu gamalla ákvarðana. Þær skulu standa, án nokkurrar rýni eða endurskoðunar um í hverju valfrelsið felst í raun og veru. Það er nefnilega bara í orði, en ekki á borði. Unglingarnir, um 40 ungmenni geta ekki stundað nám í hverfinu sínu.

Þeir hafa ekkert val.

Veljum raunverulegt val og alvöru uppbyggingu nýrra hverfa

Þetta ráðaleysi hefur að sjálfsögðu þær afleiðingar, að ýta undir brotthvarf fjölskyldna úr nýja hverfinu. Nærþjónusta við barnafjölskyldur er einfaldlega léleg. Leikskólarými vantar og grunnskólinn er ekki byggður upp á þeim hraða sem þörf er á til að tryggja þetta margumrædda valfrelsi, gæði og möguleika á samfellu skóla, íþrótta- og tómstundastarfs. Þegar þetta skortir leitar barnafólk eðlilega annað.

Hlutverk kjörinna fulltrúa er að tryggja að samfélagið og hinar ýmsu stofnanir þess og kerfi gangi hnökralaust, í þágu íbúanna. Þegar við blasir að það hefur mistekist er ekki í boði að leggja árar í bát. Þvert á móti, við verðum að leggjast fastar á þær og sýna að í Garðabæ er hægt að hafa góða þjónustu fyrir íbúana og alvöru valfrelsi um skóla.

Sara Dögg Svanhildardóttir

Categories
Fréttir

Bless 2021

Nú þegar árinu 2021 er lokið er ekki úr vegi að horfa til baka. Við í Garðabæjarlistanum höfum lagt okkar lóð á vogarskálarnar í bæjarmálunum. Okkar fólk í nefndum á vegum bæjarins hefur staðið vaktina og unnið að góðum málum fyrir íbúa Garðabæjar. Við höfum unnið að stefnumótun, sett mál á dagskrá og talað fyrir málefnum bæjarbúa innan stjórnsýslu Garðabæjar.

Nefndarvinna á þessu ári hefur líkt og hjá öðrum verið ýmist unnin á fjar- eða staðfundum. Starfsfólk Garðabæjar hefur verið mjög lausnamiðað í sinni vinnu á þessum tímum. Vil ég sérstaklega skila þökkum frá okkur í Garðabæjarlistanum til þeirra. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að halda uppi starfi í stofnunum bæjarins við slíkar aðstæður. Þar sem ég á börn bæði í leik- og grunnskólum bæjarins er ég virkilega ánægður með hvernig því starfi hefur verið haldið gangandi og faglega unnið að málum í gegnum stöðugar breytingar á sóttvarnarreglum.

Þó svo að margir minnist ársins 2021 sem hörmunga árs trúi ég því að það séu bjartir tímar framundan. Árið hefur vissulega verið krefjandi fyrir marga en einnig lærdómsríkt. Á síðasta ári ákvað ég að söðla um og fara í leyfi frá kennslu í FG. Í haust hóf ég nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Það hefur verið virkilega áhugavert að setjast á skólabekk og þá sérstaklega við þessar aðstæður og hef ég nú þegar lært margt sem nýtist í starfi og leik. Það er ekki öfundsverð staða sem unga fólkið okkar hefur verið sett í í gegnum faraldurinn. Nú hef ég bæði reynslu af þeirri stöðu sem kennari framhaldsskóla og nemandi í háskóla og hef töluverðar áhyggjur af þeim áhrifum sem þessi faraldur hefur haft. Við þurfum að vinna vel að þessum málum og hlúa að unga fólkinu.

Mig langar til að minnast góðs félaga sem lést í lok árs. Jón Fr. Sigvaldason flutti í Garðabæ 1963 en þau hjónin byggðu sér hús í Faxatúni 32, þar sem Jón bjó til æviloka. Jón tók þátt í ýmsu félagsstarfi í Garðabæ, hann vann að mörgum góðum málum fyrir Garðbæinga. Tók þátt í uppbyggingu safnaðarheimilisins o.fl. Jón var með sterka réttlætiskennd og barðist fyrir mörgum málum, má þar t.d. nefna afslátt eldri borgara á fasteignagjöldum. Jón var mikill sagnabrunnur og virkilega gaman að hlusta á sögurnar hans. Hafðu þökk fyrir góð kynni og samstarf.

Við í Garðabæjarlistanum erum komin á fullt að skipuleggja starfið framundan og hlökkum til ársins. Ég hvet þá sem eru áhugasamir um bæjarmálin að setja sig í samband við okkur. Framundan er kosningavor og tilvalið fyrir þá sem brenna fyrir málefni að setja þau á dagskrá með okkur.

Gleðilegt nýtt ár!
Ingvar Arnarson

Categories
Fréttir

Skattahækkanir í Garðabæ

Á bæjarstjórnarfundi þann 2.desember samþykkti meirihlutinn fjárhagsáætlun fyrir árið 2022. Ég kaus á móti og bókaði eftirfarandi.

Gjöld eru líka skattar, en í Garðabæ eru gjöld á barnafjölskyldur með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli á Íslandi. Við í Garðabæjarlistanum fögnum því að aðeins eigi að hækka gjaldskrár um 2,5% eða allavega fram yfir kosningar, því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnt að þau vilji skoða að hækka gjaldskrár aftur í haust.

Nú á að reyna að telja bæjarbúum trú um að verið sé að lækka greiðslu skatta með því að lækka álagningu fasteignaskatts úr 1,85% niður í 1,79%. Því miður verður það ekki til þess að lækka greiðslu fasteignaskatts, greiðslan mun hækka þar sem að fasteignamat í Garðabæ hækkar á bilinu 9% – 17% á milli ára. Álagningarhlutfallið lækkar en skatturinn hækkar.

Tökum smá dæmi um eign þar sem fasteignamat hækkar um 14% á milli ára: Eign sem var með fasteignamat upp á 100 milljónir fyrir árið 2021 borgar þá 100 milljónir x 1,85% = 185.000kr. Árið 2022 verður álagning fasteignaskatts svona: 114 milljónir x 1,79% = 204.000kr. Þrátt fyrir lækkaða álagningu munu eigendur fasteigna í Garaðabæ samt sem áður borga mun meira í fasteignaskatta árið 2022. Til að bæta gráu ofan á svart hefur meirihlutinn ákveðið að hækka sorphirðugjaldið úr 41.000kr í 49.000kr. Þess má geta að árið 2020 var gjaldið 31.000kr.
Við í Garðabæjarlistanum höfum lagt áherslu á mörg mál á þessu ári og má þar helst nefna systkina- og fjölgreinaafslátt í íþróttum- og tómstundum, að uppbygging leikskóla sé í takt við íbúaþróun, að byggja upp almenningssamgöngur fyrir íbúa, auka heilsueflingu fyrir eldri borgara og margt fleira.

Nú síðast lögðum við fram tillögu um átak í fjölgun félagslegs leiguhúsnæðis. Sú tillaga var ekki samþykkt. Því miður höfum við ekki staðið okkur sem skyldi í þeim málum hérna í Garðabæ og þá sérstaklega í ljósi þess að fjölgað hefur á biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði, fáir fengið úthlutað og lítið verið bætt við af íbúðum í eigu bæjarins. Í úttekt Kjarnans frá 2018 á félagslegu leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu kemur meðal annars fram að í Reykjavík eru tæplega 20 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa og í Kópavogi eru þær tæplega 13. Í Hafnarfirði eru þær um átta. Einnig kemur fram í úttektinni að þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki mun minni þátt í því að sjá þurfandi fólki fyrir félagslegu húsnæði. Í Garðabæ voru tæplega tvær félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa, í Mosfellsbæ voru tæplega þrjár á hverja þúsund íbúa og á Seltjarnarnesi um 3,5 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa.Síðan 2018 hefur íbúum Garðabæjar fjölgað og lítið verið bætt við af félagslegu leiguhúsnæði, þannig að út frá núverandi gögnum á Garðabær ca. 1,6 íbúðir á hverja þúsund íbúa árið 2021.

Ingvar Arnarson

Categories
Fréttir

Kofabyggðirnar

Nú á dögunum kom fram hugmynd frá meirihlutanum að reisa færanlegar kennslustofur við Sunnuhvol á Vífilsstöðum til að fjölga leikskólaplássum í Garðabæ. Þessari hugmynd er ætlað að mæta skorti á leikskólaplássum og í raun skyndilausn sem ætti ekki að þurfa að grípa til ef vandað er til verka við áætlun íbúafjölgunar og framkvæmda. Það var fyrir löngu orðið ljóst að íbúafjölgun í Garðabæ væri meiri en áætluð var af meirihlutanum. Við í Garðabæjarlistanum höfum fyrir löngu bent á að þessi áætlun meirihlutans stæðist ekki skoðun, það er heldur betur að koma á daginn. En á hverjum bitnar þessi vanáætlun, jú hún bitnar fyrst og fremst á barnafjölskyldum og leiðir af sér hina frægu kofa. Staða sem er algjörlega ólíðandi. Við höfum lagt fram tillögur um að áætlanir um uppbyggingu leikskóla verði gerðar þannig að Garðbæingar þurfi ekki að lenda í þessum aðstæðum, en þeim hefur yfirleitt verið hafnað eða svæfðar í nefndum.

Hvers vegna eru kofarnir ekki tímabundin aðgerð í Garðabæ?

Í gegnum tíðina hefur Garðabær þurft að koma fyrir færanlegum kennslustofum við leik- og grunnskóla og oft hefur það verið nauðsynlegt sem tímabundin aðgerð í nýjum hverfum á meðan stórt hlutfall af barnafjölskyldum býr í hverfinu. En skoðum nú aðeins hvar þessir kofar eru, við sem höfum alist upp í Garðabæ munum eftir kofum við Flataskóla í fjölda ára eða allt þar til skólinn var stækkaður í nokkrar áttir, með marga anga líkt og alþjóðaflugvöllur. Þegar þeir kofar fóru komu aðrir við Garðaskóla og standa þar enn. Við Hofsstaðaskóla og á Álftanesi hafa verið kofar við skólana í fjölda ára og ekki má nú gleyma gámunum við Alþjóðaskólann.

Stöndum við stóru orðin – vöndum til verka

Það sem er aftur á móti jákvætt er að það er verið að bregðast við skorti á leikskólaplássum, ég vona svo sannarlega að þessar færanlegu stofur verði komnar í gagnið fyrir haustið og það takist að manna þær stöður sem skapast, þannig verður vonandi hægt að tryggja öllum börnum í Garðabæ leikskólapláss. Einnig vona ég að þetta verði til þess að við uppbyggingu hverfa verði ráðist í að byggja upp leik- og grunnskóla áður en þau hvefin fyllast af börnum. Fyrir mér eru þessir varanlegu kofar minnisvarði um vanáætlanir.

Ingvar Arnarson er bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Börnin bíða í Garðabæ

Biðlistar á leikskólum Garðabæjar eru staðreynd. Hversu óþægilegt sem það er fyrir Sjálfstæðismenn í meirihluta Garðabæjar sem hafa haft uppi metnaðarfull loforð fyrir barnafjölskyldur, um að öll börn skuli hafa pláss á leikskólum við 12 mánaða aldur. Þjónusta við börn hefur löngum verið einkenni bæjarins og hingað hafa barnafjölskyldur flutt til að fá góða þjónustu.

Undanfarin ár hefur meirihlutinn hins vegar ítrekað misreiknað sig í áætlunum um íbúafjölgun komandi árs. Og af því að Sjálfstæðismenn reikna ekki rétt, hefur sveitarfélagið ekki getað undirbúið sig, þannig að sómi sé af, fyrir að taka á móti nýjum bæjarbúum.

Biðlistar eru staðreynd

Hátt í hundrað 4 og 5 ára börn hefur verið komið fyrir í grunnskólanum í Urriðaholti sem þrengir verulega að grunnskólabörnum í hverfinu. 104 börn sem eru fædd árið 2019 eða fyrr eru á biðlista eftir leikskólaplássi. Foreldrar 274 barna fædd árið 2020 bíða svo haustsins til að sjá hve mörg pláss losna en hafa enga tryggingu fyrir því að biðlistinn styttist.

Þá fyrst er ákveðið að koma fyrir færanlegum skólastofum við Sunnuhvol til að bregðast við skorti á leikskólaplássum í Garðabæ. Við vitum þó ekki hvenær skólastofurnar verða tilbúnar. Biðlistarnir eru fyrirsjáanlegur vandi og færanlegu skólastofurnar lausn sem við í Garðabæjarlistanum lögðum til síðasta haust. En meirihlutinn sá ekki vandann þá. Í stað þess að búa til leikskólapláss var búinn til leikskólabiðlisti.

Sárt að horfast í augu við sannleikann

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs notaði tækifærið á síðasta fundi bæjarráðs, þar sem ég á ekki sæti, til að bóka sérstaklega um gagnrýni mína á þessa heimatilbúnu leikskólabiðlista og skort á þjónustu og segir hana ranga. Það væri heiðarlegra hjá henni að taka upp umræðuna við mig sjálfa, ef hún telur þessar tölur um fjölda barna sem bíða eftir leikskólaplássi eða hefur verið komið inn á grunnskóla rangar. En það getur hún ekki því þetta er staðan í dag í Garðabæ. Það er ekki þægileg staðreynd að horfast í augu við en hún er sönn.

Við erum sammála um að það er frábær þróun að fá ungt fjölskufólk í sveitarfélagið. Við í Garðabæjarlistanum viljum bara standa faglega að hlutum, sjá íbúaþróun fyrir og vera tilbúin með þjónustuna. Ítrekað höfum við séð hvernig meirihlutinn í Garðabæ vanáætlar íbúafjölgun, til þess að afkoma í ársreikningi líti betur út. Afleiðingin er að þegar fólk flytur til Garðabæjar, þá er þjónustan sem var búið að lofa ekki fyrir hendi. Þess vegna höfum við mótmælt áætlunum meirihlutans um íbúafjölgun við gerð fjárhagsáætlana. Þess vegna lögðum við til síðasta haust að brugðist yrði strax við skorti á leikskólaplássi.

Ekki hlustað á fjármálaráðherra eða raunverulegar tölur

Garðabær hefði strax á síðasta árið getað hafið skipulag og byggingu leikskóla sem þörf er á í nýju hverfi. Það hefði líka rímað vel við ákall Bjarna Benediktssonar um auknar fjárfestingar sveitarfélaga. En Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ vildi ekki hlusta á Bjarna, raunverulegar tölur eða staðreyndirnar sem Garðabæjarlistinn lagði fram. Því var ekki byggt upp í samræmi við raunverulega þörf, með öllum þeim óþægindum sem það hefur í för með sér fyrir fjölda fjölskyldna í Garðabæ.

Sara Dögg Svanhildardóttir er Oddviti Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Sjálf­stætt líf fyrir alla?

Eitt stærsta skrefið sem tekið hefur verið í réttindabaráttu fatlaðs fólks er innleiðing notendastýrðar persónulegrar aðstoðar (NPA) í lög. Með því var meginreglan innleidd að allir eigi rétt á sjálfstæðu lífi, líka fólk sem þarf aðstoð við athafnir daglegs lífs. NPA gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum. Fatlað fólk stýrir því sjálft hvernig aðstoðin sem það fær er skipulögð, hvaða aðstoð er veitt, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana.

Hvar liggur ábyrgðin?

Innleiðing NPA samningstímabilsins lýkur undir lok næsta árs. Þá þarf að vera búið að svara mörgum spurningum um framkvæmd þessarar dýrmætu leiðar fyrir fólk sem þarf á aðstoð að halda. Til að það sé hægt er samráðshópur að störfum á vegum félagsmálaráðuneytisins sem á að endurmeta innleiðingu NPA.

Nýlega féll dómur í héraði gegn Mosfellsbæ, þess efnis að þjónustuna þurfi að veita þrátt fyrir að ríkið mæti ekki umsömdum kostnaði. Þetta hlýtur að hafa veruleg áhrif á verklag sveitarfélaganna, sem hafa almennt ekki talið sig geta tekið á sig kostnað vegna samninganna. Því hafa þau synjað einstaklingum um NPA samninga, á þeim forsendum að fjármagn sem ríkið áætlaði í samninga á innleiðingartímabilinu sé uppurið. Samningum hefur verið synjað óháð því hvort einstaklingurinn sem óskar eftir NPA samningi sé barn eða fullorðinn einstaklingur.

NPA samningar eru bylting í frelsi til athafna

Ein af mikilvægu spurningunum sem varða framtíð NPA samninga er einmitt hverjir munu eiga rétt á þeim. Hvort þeir eigi einnig að ná til barna og ungmenna undir 18 ára aldri eða hvort þeir verði bundnir við fullorðna einstaklinga. Markmið samninganna er að styðja við sjálfstætt líf þeirra einstaklinga sem sem þurfa persónulega aðstoð.

Saga aðstandenda barna og ungmenna sem hafa fengið NPA samning er öll á sama veg. Hann er algjör bylting fyrir daglegt líf þess einstaklings og grunnforsenda fyrir raunverulegri þátttöku til félagslegra athafna og þroska til sjálfstæðis. Þannig auka og styðja slíkir samningar sjálfstætt líf allra einstaklinga, líka barna og ungmenna og bæta lífsgæði þeirra til mikilla muna sem og fjölskyldunnar allrar.

Allt er stopp

Í fjárlögum var gert ráð fyrir 120 til 130 samningum til loka árs 2022. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir 172 samningum. Þörfin er greinilega mun meiri en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir. Því verður afar áhugavert að sjá hvaða áhrif nýlegur dómur sem féll gegn Mosfellsbæ mun hafa á forsendur sveitarfélaga til þess að synja einstaklingi um slíkan samning. Niðurstaða héraðsdóms var að það væri ekki nægjanleg ástæða fyrir Mosfellsbæ að synja slíkum samningum á þeirri forsendu að fjármagn frá ríkinu væri uppurið.

Stöndum vaktina um mannréttindi allra

NPA samningar eru samningar á milli ríkis og sveitarfélaga um þjónustu til fatlaðra einstaklinga með öðrum hætti en áður þekktist og tryggja réttindi allra til sjálfstæðs lífs. Þeir eru mikilvægt framfaraskref í takt við lög um réttindi fatlaðs fólks sem okkur þarf að bera gæfa til að festa í sessi.

Við sem stöndum vaktina, kjörnir fulltrúar hvort heldur sem er á Alþingi eða sveitarstjórnum og förum með það vald að útbýta gæðum verðum að setja okkur inn í aðstæður notenda og leggja okkur við að skilja þann veruleika sem undir er.

Það er þó nokkuð að eiga sjálfstætt líf sitt og sjálfsögð mannréttindi undir þeim sem valdið hafa.

Sara Dögg Svanhildardóttir er oddviti Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Samgöngur fyrir alla eða suma

Alla jafna er hollt og gott að hlusta á gagnrýnisraddir. Það á bæði við þau sem eru fylgjandi Borgarlínunni og þau sem vilja frekar leggja áherslu á aðra samgöngukosti.

Talsmenn Áhugafólks um samgöngur fyrir alla hafa fundið sér samastað í Morgunblaðinu, þar sem þeir keppast við að svara öllum sem mæla Borgarlínunni bót. Eins og flestum er orðið kunnugt verður Borgarlínan hágæða almenningssamgöngur sem munu bylta almenningssamgöngum svo úr verði heildstæður samgöngumáti, sem mun koma til með að stytta för og tryggja aðgengi og nálægð fyrir gangandi og hjólandi.

Samgöngur fyrir suma

Baráttumál talsmanna Samgangna fyrir alla eru tvenn. Annars vegar að fara eigi ódýrari leið við uppbyggingu almenningssamgangna án þess að geta sýnt fram á að það muni ná sömu markmiðum. Hins vegar að aukið fjármagn eigi að fara í uppbyggingu samgöngumannvirkja fyrir einkabílinn og hafa af því áhyggjur að Borgarlína muni hamla öðrum samgöngumátum. Í Morgunblaðinu 30. mars sl. kemur reyndar frá hjá einum talsmanni samtakanna að þau hafi ekki lagt fram tillögur varðandi göngu- og hjólastíga. “Aðrir samgöngumátar” í þeirra huga er því bara einkabíllinn.

Áhugamenn um samgöngur fyrir alla eru því fyrst og fremst áhugamenn um aukið flæði einkabílsins og aukna landnýtingu í þágu hans.

Eða samgöngur fyrir alla

Hugmyndafræði Borgarlínu er hins vegar að tryggja raunverulega valkosti fyrir alla. Að allir geti nýtt sér þær samgöngur sem best henta hverju sinni, hvort sem það er með hágæða almenningssamgöngum, einkabílnum, hjólandi, gangandi eða með rafskútum. Hugmyndafræði Borgarlínu byggir á því að hugsa um samgöngur sem heildstætt kerfi allra sem þurfa að komast frá einum stað til annars, án þess að eitt útiloki annað.

Um er að ræða eina af umfangsmestu innviðauppbyggingu til samgangna sem sögur fara af. Kostnaður verður því vissulega verulegur og fellur hann á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkissjóð, líkt og samþykkt hefur verið í samgöngusáttmála þessara aðila. Líkt og með öll önnur samgönguverkefni eru það við, skattgreiðendur, sem munum að lokum borga, sama úr hvaða vasa okkar fjármagnið kemur. Það er búið að gera ráð fyrir þessum kostnaði í áætlunum, búa til félag í kringum verkefnið og samþykkja kostnaðaráætlanir af ríki og viðkomandi sveitarfélögum.

Breytingarnar verða líka miklar. Breytingar til góðs fyrir okkur sem einstaklinga, okkur sem samfélag og fyrir umhverfið sjálft.

Til fortíðar eða framtíðar?

Talsmenn samgangna fyrir alla furða sig á því að ekki eigi að forgangsraða auknu landrými undir vegakerfi í þágu einkabílsins. Landrými í þéttbýli er takmörkuð auðlind sem þarf að verðmeta, eins og annað í uppbyggingu samgangna.

Við þurfum líka að hafa í huga háleit markmið okkar í þágu umhverfisverndar og meta bestu nýtingu lands með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum. Heimurinn allur þarf að taka umhverfis- og loftslagsmál alvarlega. Þetta á ekki síst við þegar við ákveðum hvernig við skipuleggjum umhverfi okkar og landrými. Mun skipulagið auka ágang okkar á gæði jarðar og auka loftslagsvandann eða mun það hvetja til umhverfisvænni samgangna? Viljum við leggja áherslu á græn svæði til aðhafast á og njóta eða malbik?

Við erum umferðin

Á vegum úti erum við öll umferðin. Flutningsgeta samgöngukerfisins, fyrir einkabíla með að meðaltali rétt rúmlega eina manneskju í bíl er takmörkuð. Þetta sjáum við í hvert sinn sem Íslendingar keppast við að komast allir á sama staðinn. Fyrsta áætlun Grindvíkinga, fyrir Covid takmarkanir, til að bregðast miklum fjölda gosáhugafólks og umferðarteppu á Suðurstrandarvegi var að bílum yrði lagt í Grindavík en áhugasömum gert að taka hópferðarbíl upp að Nátthaga. Með fjöldasamgöngum gæti vegakerfið annað þessum mikla ágangi.

Lausnin við hversdagslegu umferðartöfunum er ekki að neyða fólk úr einkabílnum. Og það er ekki á dagskrá með Borgarlínu. En við vitum að íbúum mun fara fjölgandi og ef við höldum áfram að skipuleggja einungis út frá einum samgöngumáta munu umferðartafir aukast enn. Aukinn fjöldi mislægra gatnamóta, með rándýru landrými, getur tafið umferðarteppur um örfá ár en ekki til frambúðar. Það þarf því að hugsa heildstætt. Með því að gefa fólki raunverulegan kost á að ferðast á þann máta sem því hentar gefum við öllum kost á að komast hraðar á milli staða.

Nýir tímar, ný hugsun og framtíðin

Lykilforsenda þess að vel takist til er að skipulag til framtíðar byggi á samverkandi þáttum almenningssamgangna og þéttingu byggðar. Mikilvægt er að almenningssamgöngur falli að íbúabyggð og auðveldi þannig notkun á slíkum samgöngum. Það þarf að vera hvetjandi að nota almenningssamgöngur en ekki letjandi. Til að okkur takist að byggja upp samgöngukerfi fyrir alla er grunnforsenda sú að byggja hér upp þægilegt og einfalt kerfi fyrir alla en ekki bara suma.

Sara Dögg Svanhildardóttir er oddviti Garðabæjarlistans og bæjarfulltrúi í Garðabæ.

Categories
Fréttir

Hvar eru nauð­syn­legar fram­kvæmdir í Garða­bæ?

Íbúum í Garðabæ fjölgaði um 4,3% árið 2020, sem var mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er ánægjulegt að svo margir kjósi að búa í svo góðum bæ, sérstaklega að barnafjölskyldum fjölgar sem er gott og mikilvægt fyrir stækkandi samfélag.

Garðabær hefur lengi haft þá sérstöðu meðal sveitarfélaga að hópur eldri borgara hefur verið fjölmennari en í sambærilegum sveitarfélögum á meðan yngri aldurshópar hafa verið fámennari. Það sem er ekki eins ánægjulegt er að meirihlutinn í Garðabæ hefur ítrekað vanáætlað íbúafjölgun, til að ársreikningar líti betur út.

Vanáætlaðar framkvæmdir

Fjölgun barnafjölskyldna krefst framtíðarsýnar. Með réttum íbúaspám er hægt að sjá fyrir hvar skóinn muni kreppa í uppbyggingu grunnþjónustu. Fleiri börn kalla á fleiri pláss í leik- og grunnskólum. Fjölgun umfram áætlun kallar líka á aukið álag á nauðsynlega stoðþjónustu í fjölbreyttu samfélagi, sem vex ekki í samræmi við íbúafjölgun.

Meirihlutinn í Garðabæ hefur ekki sýnt að hann geti horfst í augu við þessa þróun eða hafi metnað til að mæta fjölgun íbúa með aukinni þjónustu. Um þetta er hægt að nefna nokkur knýjandi dæmi.

Leikskólapláss vantar í Urriðaholti, nýju hverfi sem verið er að byggja upp, vegna þess að meirihlutinn í Garðabæ kaus að skokka þegar þurfi að hlaupa. Hann getur ekki tryggt börnum í hverfinu pláss í leikskólanum vegna þess að fjöldi barna var ítrekað vanáætlaður. Þess í stað er aukið álag lagt á fjölskyldur í Urriðaholti með vaxandi biðlistum um leikskólapláss.

Nýtt hverfi var byggt upp með nýjum grunnskóla. En ungmenni á grunnskólaaldri, búsett í Urriðaholti, þurfa nú að sækja skóla í annað hverfi, því það er ekki pláss fyrir þau í Urriðaholtsskóla. Það þarf að halda áfram að byggja skólann til að takast á við fólksfjölgunina, nokkuð sem hefði ekki komið á óvart ef íbúafjölgun í Garðabæ væri ekki árlega vanáætluð.

Stefna gegn íbúafjölgun

Þegar vanáætlun er orðin að árlegu vandamáli hlýtur að vera hægt að segja að þetta sé stefna meirihlutans. Árlega vanáætlar meirihlutinn íbúafjölgun og leggur fram framkvæmdaáætlun sem mætir engan veginn raunverulegri þjónustuþörf í vaxandi samfélagi.

Í sunnudagsræðum er talað um framúrskarandi þjónustu, og talað hátt. En framkvæmdaáætlanir sýna að það er ekki keppst við að mæta þessari jákvæðu þróun af neinum metnaði fyrir því að þjónusta nýja íbúa vel.

Þessi staða endurspeglast í áliti bæjarbúa. Í nýlegri ánægjukönnun sveitarfélaga segja Garðbæingar að þjónustan sé að dala, sérstaklega að ánægja með grunnskóla Garðabæjar dali meðal bæjarbúa. Ánægjan með grunnskóla hefur verið gulleggið í umræðu um framúrskarandi þjónustu sveitarfélagsins og því þarf að taka þessa niðurstöðu alvarlega.

Metnaðarleysi eða raunveruleg sýn?

Yngra og stærra samfélag þarf ekki bara leik- og grunnskóla. Skipulag sveitarfélagsins og samgöngur þurfa líka að taka mið af þessum breytingum. Því miður hefur afturhald og gamaldags hugsunarháttur ráðið för í sýn meirihlutans á almenningssamgöngur.

Strætó gengur stopult til og frá stórum hverfum. Í skipulaginu hefur samt verið lögð áhersla á uppbyggingu sem felur í sér dreifða byggð. Það skilar sér í lengri vegalengdum fyrir börn og ungmenni til að sækja þá þjónustu sem við viljum að þau sæki, eins og íþróttir og tómstundir.

Þetta á sérstaklega við um tvö hverfi í Garðabæ, Urriðaholtið og Álftanesið. Ekki má gleyma því að Álftanesið tilheyrir Garðabæ og taka þarf betur utan um margt í þeirri sameiningu sveitarfélaga.

Dulið markmið

Er það kannski dulið markmið meirihlutans að laða að einsleitan hóp íbúa til Garðabæjar? Íbúa sem þurfa eða vilja litla þjónustu og setja kostnað ekki fyrir sig við val á búsetu. Íbúa sem er sama þó svo að leikskólagjöld séu hærri í Garðabæ en í nágrannasveitarfélögunum. Íbúa sem er sama þó Garðabær leggi ekki í sameiginlegan kostnað við almenningssamgöngur, heldur skipuleggi hverfi sem er eingöngu ætlað einkabílnum, líkt og í Garðahverfi þar sem almenningssamgöngur verða ekki í boði.

Með þessum skipulagsákvörðunum er vegið að valfrelsi íbúanna með áþreifanlegum hætti. Íbúum skal stefnt í einkabílinn, ólíkt áætlunum nágrannasveitarfélaganna sem byggja á því að skapa öllum íbúum raunverulegt valfrelsi. Ekki bara valfrelsi um búsetu, heldur líka um frelsi til að velja þá leið til og frá vinnu, skóla, íþróttum og tómstundum sem henta hverjum best.

Þetta er merkileg stefna meirihlutans í Garðabæ; að byggja dreift og halda þjónustustigi í sögulegu lágmarki. Eins og ársreikningur sveitarfélagsins gefur vel til kynna, þá skortir ekki fjárhagslega getu til að framkvæmda þrátt fyrir Covid áföll. Þvert á móti hefði verið hægt að blása til stórsóknar í framkvæmdum fyrr og vinna með fjárfestingaráætlun ríkisins, eins og Bjarni Benediktsson óskaði eftir, til að örva atvinnulífið. Þar hefði Garðabær getað lagt sitt að mörkum strax á síðasta ári.

Höfundur er oddviti og bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans í Garðabæ.