Categories
Fréttir

Börnin bíða í Garðabæ

Biðlistar á leikskólum Garðabæjar eru staðreynd. Hversu óþægilegt sem það er fyrir Sjálfstæðismenn í meirihluta Garðabæjar sem hafa haft uppi metnaðarfull loforð fyrir barnafjölskyldur, um að öll börn skuli hafa pláss á leikskólum við 12 mánaða aldur. Þjónusta við börn hefur löngum verið einkenni bæjarins og hingað hafa barnafjölskyldur flutt til að fá góða þjónustu.

Undanfarin ár hefur meirihlutinn hins vegar ítrekað misreiknað sig í áætlunum um íbúafjölgun komandi árs. Og af því að Sjálfstæðismenn reikna ekki rétt, hefur sveitarfélagið ekki getað undirbúið sig, þannig að sómi sé af, fyrir að taka á móti nýjum bæjarbúum.

Biðlistar eru staðreynd

Hátt í hundrað 4 og 5 ára börn hefur verið komið fyrir í grunnskólanum í Urriðaholti sem þrengir verulega að grunnskólabörnum í hverfinu. 104 börn sem eru fædd árið 2019 eða fyrr eru á biðlista eftir leikskólaplássi. Foreldrar 274 barna fædd árið 2020 bíða svo haustsins til að sjá hve mörg pláss losna en hafa enga tryggingu fyrir því að biðlistinn styttist.

Þá fyrst er ákveðið að koma fyrir færanlegum skólastofum við Sunnuhvol til að bregðast við skorti á leikskólaplássum í Garðabæ. Við vitum þó ekki hvenær skólastofurnar verða tilbúnar. Biðlistarnir eru fyrirsjáanlegur vandi og færanlegu skólastofurnar lausn sem við í Garðabæjarlistanum lögðum til síðasta haust. En meirihlutinn sá ekki vandann þá. Í stað þess að búa til leikskólapláss var búinn til leikskólabiðlisti.

Sárt að horfast í augu við sannleikann

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs notaði tækifærið á síðasta fundi bæjarráðs, þar sem ég á ekki sæti, til að bóka sérstaklega um gagnrýni mína á þessa heimatilbúnu leikskólabiðlista og skort á þjónustu og segir hana ranga. Það væri heiðarlegra hjá henni að taka upp umræðuna við mig sjálfa, ef hún telur þessar tölur um fjölda barna sem bíða eftir leikskólaplássi eða hefur verið komið inn á grunnskóla rangar. En það getur hún ekki því þetta er staðan í dag í Garðabæ. Það er ekki þægileg staðreynd að horfast í augu við en hún er sönn.

Við erum sammála um að það er frábær þróun að fá ungt fjölskufólk í sveitarfélagið. Við í Garðabæjarlistanum viljum bara standa faglega að hlutum, sjá íbúaþróun fyrir og vera tilbúin með þjónustuna. Ítrekað höfum við séð hvernig meirihlutinn í Garðabæ vanáætlar íbúafjölgun, til þess að afkoma í ársreikningi líti betur út. Afleiðingin er að þegar fólk flytur til Garðabæjar, þá er þjónustan sem var búið að lofa ekki fyrir hendi. Þess vegna höfum við mótmælt áætlunum meirihlutans um íbúafjölgun við gerð fjárhagsáætlana. Þess vegna lögðum við til síðasta haust að brugðist yrði strax við skorti á leikskólaplássi.

Ekki hlustað á fjármálaráðherra eða raunverulegar tölur

Garðabær hefði strax á síðasta árið getað hafið skipulag og byggingu leikskóla sem þörf er á í nýju hverfi. Það hefði líka rímað vel við ákall Bjarna Benediktssonar um auknar fjárfestingar sveitarfélaga. En Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ vildi ekki hlusta á Bjarna, raunverulegar tölur eða staðreyndirnar sem Garðabæjarlistinn lagði fram. Því var ekki byggt upp í samræmi við raunverulega þörf, með öllum þeim óþægindum sem það hefur í för með sér fyrir fjölda fjölskyldna í Garðabæ.

Sara Dögg Svanhildardóttir er Oddviti Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Sjálf­stætt líf fyrir alla?

Eitt stærsta skrefið sem tekið hefur verið í réttindabaráttu fatlaðs fólks er innleiðing notendastýrðar persónulegrar aðstoðar (NPA) í lög. Með því var meginreglan innleidd að allir eigi rétt á sjálfstæðu lífi, líka fólk sem þarf aðstoð við athafnir daglegs lífs. NPA gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar það býr og með hverjum. Fatlað fólk stýrir því sjálft hvernig aðstoðin sem það fær er skipulögð, hvaða aðstoð er veitt, hvenær hún fer fram, hvar hún fer fram og hver veitir hana.

Hvar liggur ábyrgðin?

Innleiðing NPA samningstímabilsins lýkur undir lok næsta árs. Þá þarf að vera búið að svara mörgum spurningum um framkvæmd þessarar dýrmætu leiðar fyrir fólk sem þarf á aðstoð að halda. Til að það sé hægt er samráðshópur að störfum á vegum félagsmálaráðuneytisins sem á að endurmeta innleiðingu NPA.

Nýlega féll dómur í héraði gegn Mosfellsbæ, þess efnis að þjónustuna þurfi að veita þrátt fyrir að ríkið mæti ekki umsömdum kostnaði. Þetta hlýtur að hafa veruleg áhrif á verklag sveitarfélaganna, sem hafa almennt ekki talið sig geta tekið á sig kostnað vegna samninganna. Því hafa þau synjað einstaklingum um NPA samninga, á þeim forsendum að fjármagn sem ríkið áætlaði í samninga á innleiðingartímabilinu sé uppurið. Samningum hefur verið synjað óháð því hvort einstaklingurinn sem óskar eftir NPA samningi sé barn eða fullorðinn einstaklingur.

NPA samningar eru bylting í frelsi til athafna

Ein af mikilvægu spurningunum sem varða framtíð NPA samninga er einmitt hverjir munu eiga rétt á þeim. Hvort þeir eigi einnig að ná til barna og ungmenna undir 18 ára aldri eða hvort þeir verði bundnir við fullorðna einstaklinga. Markmið samninganna er að styðja við sjálfstætt líf þeirra einstaklinga sem sem þurfa persónulega aðstoð.

Saga aðstandenda barna og ungmenna sem hafa fengið NPA samning er öll á sama veg. Hann er algjör bylting fyrir daglegt líf þess einstaklings og grunnforsenda fyrir raunverulegri þátttöku til félagslegra athafna og þroska til sjálfstæðis. Þannig auka og styðja slíkir samningar sjálfstætt líf allra einstaklinga, líka barna og ungmenna og bæta lífsgæði þeirra til mikilla muna sem og fjölskyldunnar allrar.

Allt er stopp

Í fjárlögum var gert ráð fyrir 120 til 130 samningum til loka árs 2022. Upphafleg áætlun gerði ráð fyrir 172 samningum. Þörfin er greinilega mun meiri en áætlanir fjárlaga gerðu ráð fyrir. Því verður afar áhugavert að sjá hvaða áhrif nýlegur dómur sem féll gegn Mosfellsbæ mun hafa á forsendur sveitarfélaga til þess að synja einstaklingi um slíkan samning. Niðurstaða héraðsdóms var að það væri ekki nægjanleg ástæða fyrir Mosfellsbæ að synja slíkum samningum á þeirri forsendu að fjármagn frá ríkinu væri uppurið.

Stöndum vaktina um mannréttindi allra

NPA samningar eru samningar á milli ríkis og sveitarfélaga um þjónustu til fatlaðra einstaklinga með öðrum hætti en áður þekktist og tryggja réttindi allra til sjálfstæðs lífs. Þeir eru mikilvægt framfaraskref í takt við lög um réttindi fatlaðs fólks sem okkur þarf að bera gæfa til að festa í sessi.

Við sem stöndum vaktina, kjörnir fulltrúar hvort heldur sem er á Alþingi eða sveitarstjórnum og förum með það vald að útbýta gæðum verðum að setja okkur inn í aðstæður notenda og leggja okkur við að skilja þann veruleika sem undir er.

Það er þó nokkuð að eiga sjálfstætt líf sitt og sjálfsögð mannréttindi undir þeim sem valdið hafa.

Sara Dögg Svanhildardóttir er oddviti Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Samgöngur fyrir alla eða suma

Alla jafna er hollt og gott að hlusta á gagnrýnisraddir. Það á bæði við þau sem eru fylgjandi Borgarlínunni og þau sem vilja frekar leggja áherslu á aðra samgöngukosti.

Talsmenn Áhugafólks um samgöngur fyrir alla hafa fundið sér samastað í Morgunblaðinu, þar sem þeir keppast við að svara öllum sem mæla Borgarlínunni bót. Eins og flestum er orðið kunnugt verður Borgarlínan hágæða almenningssamgöngur sem munu bylta almenningssamgöngum svo úr verði heildstæður samgöngumáti, sem mun koma til með að stytta för og tryggja aðgengi og nálægð fyrir gangandi og hjólandi.

Samgöngur fyrir suma

Baráttumál talsmanna Samgangna fyrir alla eru tvenn. Annars vegar að fara eigi ódýrari leið við uppbyggingu almenningssamgangna án þess að geta sýnt fram á að það muni ná sömu markmiðum. Hins vegar að aukið fjármagn eigi að fara í uppbyggingu samgöngumannvirkja fyrir einkabílinn og hafa af því áhyggjur að Borgarlína muni hamla öðrum samgöngumátum. Í Morgunblaðinu 30. mars sl. kemur reyndar frá hjá einum talsmanni samtakanna að þau hafi ekki lagt fram tillögur varðandi göngu- og hjólastíga. “Aðrir samgöngumátar” í þeirra huga er því bara einkabíllinn.

Áhugamenn um samgöngur fyrir alla eru því fyrst og fremst áhugamenn um aukið flæði einkabílsins og aukna landnýtingu í þágu hans.

Eða samgöngur fyrir alla

Hugmyndafræði Borgarlínu er hins vegar að tryggja raunverulega valkosti fyrir alla. Að allir geti nýtt sér þær samgöngur sem best henta hverju sinni, hvort sem það er með hágæða almenningssamgöngum, einkabílnum, hjólandi, gangandi eða með rafskútum. Hugmyndafræði Borgarlínu byggir á því að hugsa um samgöngur sem heildstætt kerfi allra sem þurfa að komast frá einum stað til annars, án þess að eitt útiloki annað.

Um er að ræða eina af umfangsmestu innviðauppbyggingu til samgangna sem sögur fara af. Kostnaður verður því vissulega verulegur og fellur hann á sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ríkissjóð, líkt og samþykkt hefur verið í samgöngusáttmála þessara aðila. Líkt og með öll önnur samgönguverkefni eru það við, skattgreiðendur, sem munum að lokum borga, sama úr hvaða vasa okkar fjármagnið kemur. Það er búið að gera ráð fyrir þessum kostnaði í áætlunum, búa til félag í kringum verkefnið og samþykkja kostnaðaráætlanir af ríki og viðkomandi sveitarfélögum.

Breytingarnar verða líka miklar. Breytingar til góðs fyrir okkur sem einstaklinga, okkur sem samfélag og fyrir umhverfið sjálft.

Til fortíðar eða framtíðar?

Talsmenn samgangna fyrir alla furða sig á því að ekki eigi að forgangsraða auknu landrými undir vegakerfi í þágu einkabílsins. Landrými í þéttbýli er takmörkuð auðlind sem þarf að verðmeta, eins og annað í uppbyggingu samgangna.

Við þurfum líka að hafa í huga háleit markmið okkar í þágu umhverfisverndar og meta bestu nýtingu lands með hliðsjón af umhverfissjónarmiðum. Heimurinn allur þarf að taka umhverfis- og loftslagsmál alvarlega. Þetta á ekki síst við þegar við ákveðum hvernig við skipuleggjum umhverfi okkar og landrými. Mun skipulagið auka ágang okkar á gæði jarðar og auka loftslagsvandann eða mun það hvetja til umhverfisvænni samgangna? Viljum við leggja áherslu á græn svæði til aðhafast á og njóta eða malbik?

Við erum umferðin

Á vegum úti erum við öll umferðin. Flutningsgeta samgöngukerfisins, fyrir einkabíla með að meðaltali rétt rúmlega eina manneskju í bíl er takmörkuð. Þetta sjáum við í hvert sinn sem Íslendingar keppast við að komast allir á sama staðinn. Fyrsta áætlun Grindvíkinga, fyrir Covid takmarkanir, til að bregðast miklum fjölda gosáhugafólks og umferðarteppu á Suðurstrandarvegi var að bílum yrði lagt í Grindavík en áhugasömum gert að taka hópferðarbíl upp að Nátthaga. Með fjöldasamgöngum gæti vegakerfið annað þessum mikla ágangi.

Lausnin við hversdagslegu umferðartöfunum er ekki að neyða fólk úr einkabílnum. Og það er ekki á dagskrá með Borgarlínu. En við vitum að íbúum mun fara fjölgandi og ef við höldum áfram að skipuleggja einungis út frá einum samgöngumáta munu umferðartafir aukast enn. Aukinn fjöldi mislægra gatnamóta, með rándýru landrými, getur tafið umferðarteppur um örfá ár en ekki til frambúðar. Það þarf því að hugsa heildstætt. Með því að gefa fólki raunverulegan kost á að ferðast á þann máta sem því hentar gefum við öllum kost á að komast hraðar á milli staða.

Nýir tímar, ný hugsun og framtíðin

Lykilforsenda þess að vel takist til er að skipulag til framtíðar byggi á samverkandi þáttum almenningssamgangna og þéttingu byggðar. Mikilvægt er að almenningssamgöngur falli að íbúabyggð og auðveldi þannig notkun á slíkum samgöngum. Það þarf að vera hvetjandi að nota almenningssamgöngur en ekki letjandi. Til að okkur takist að byggja upp samgöngukerfi fyrir alla er grunnforsenda sú að byggja hér upp þægilegt og einfalt kerfi fyrir alla en ekki bara suma.

Sara Dögg Svanhildardóttir er oddviti Garðabæjarlistans og bæjarfulltrúi í Garðabæ.

Categories
Fréttir

Hvar eru nauð­syn­legar fram­kvæmdir í Garða­bæ?

Íbúum í Garðabæ fjölgaði um 4,3% árið 2020, sem var mun meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Það er ánægjulegt að svo margir kjósi að búa í svo góðum bæ, sérstaklega að barnafjölskyldum fjölgar sem er gott og mikilvægt fyrir stækkandi samfélag.

Garðabær hefur lengi haft þá sérstöðu meðal sveitarfélaga að hópur eldri borgara hefur verið fjölmennari en í sambærilegum sveitarfélögum á meðan yngri aldurshópar hafa verið fámennari. Það sem er ekki eins ánægjulegt er að meirihlutinn í Garðabæ hefur ítrekað vanáætlað íbúafjölgun, til að ársreikningar líti betur út.

Vanáætlaðar framkvæmdir

Fjölgun barnafjölskyldna krefst framtíðarsýnar. Með réttum íbúaspám er hægt að sjá fyrir hvar skóinn muni kreppa í uppbyggingu grunnþjónustu. Fleiri börn kalla á fleiri pláss í leik- og grunnskólum. Fjölgun umfram áætlun kallar líka á aukið álag á nauðsynlega stoðþjónustu í fjölbreyttu samfélagi, sem vex ekki í samræmi við íbúafjölgun.

Meirihlutinn í Garðabæ hefur ekki sýnt að hann geti horfst í augu við þessa þróun eða hafi metnað til að mæta fjölgun íbúa með aukinni þjónustu. Um þetta er hægt að nefna nokkur knýjandi dæmi.

Leikskólapláss vantar í Urriðaholti, nýju hverfi sem verið er að byggja upp, vegna þess að meirihlutinn í Garðabæ kaus að skokka þegar þurfi að hlaupa. Hann getur ekki tryggt börnum í hverfinu pláss í leikskólanum vegna þess að fjöldi barna var ítrekað vanáætlaður. Þess í stað er aukið álag lagt á fjölskyldur í Urriðaholti með vaxandi biðlistum um leikskólapláss.

Nýtt hverfi var byggt upp með nýjum grunnskóla. En ungmenni á grunnskólaaldri, búsett í Urriðaholti, þurfa nú að sækja skóla í annað hverfi, því það er ekki pláss fyrir þau í Urriðaholtsskóla. Það þarf að halda áfram að byggja skólann til að takast á við fólksfjölgunina, nokkuð sem hefði ekki komið á óvart ef íbúafjölgun í Garðabæ væri ekki árlega vanáætluð.

Stefna gegn íbúafjölgun

Þegar vanáætlun er orðin að árlegu vandamáli hlýtur að vera hægt að segja að þetta sé stefna meirihlutans. Árlega vanáætlar meirihlutinn íbúafjölgun og leggur fram framkvæmdaáætlun sem mætir engan veginn raunverulegri þjónustuþörf í vaxandi samfélagi.

Í sunnudagsræðum er talað um framúrskarandi þjónustu, og talað hátt. En framkvæmdaáætlanir sýna að það er ekki keppst við að mæta þessari jákvæðu þróun af neinum metnaði fyrir því að þjónusta nýja íbúa vel.

Þessi staða endurspeglast í áliti bæjarbúa. Í nýlegri ánægjukönnun sveitarfélaga segja Garðbæingar að þjónustan sé að dala, sérstaklega að ánægja með grunnskóla Garðabæjar dali meðal bæjarbúa. Ánægjan með grunnskóla hefur verið gulleggið í umræðu um framúrskarandi þjónustu sveitarfélagsins og því þarf að taka þessa niðurstöðu alvarlega.

Metnaðarleysi eða raunveruleg sýn?

Yngra og stærra samfélag þarf ekki bara leik- og grunnskóla. Skipulag sveitarfélagsins og samgöngur þurfa líka að taka mið af þessum breytingum. Því miður hefur afturhald og gamaldags hugsunarháttur ráðið för í sýn meirihlutans á almenningssamgöngur.

Strætó gengur stopult til og frá stórum hverfum. Í skipulaginu hefur samt verið lögð áhersla á uppbyggingu sem felur í sér dreifða byggð. Það skilar sér í lengri vegalengdum fyrir börn og ungmenni til að sækja þá þjónustu sem við viljum að þau sæki, eins og íþróttir og tómstundir.

Þetta á sérstaklega við um tvö hverfi í Garðabæ, Urriðaholtið og Álftanesið. Ekki má gleyma því að Álftanesið tilheyrir Garðabæ og taka þarf betur utan um margt í þeirri sameiningu sveitarfélaga.

Dulið markmið

Er það kannski dulið markmið meirihlutans að laða að einsleitan hóp íbúa til Garðabæjar? Íbúa sem þurfa eða vilja litla þjónustu og setja kostnað ekki fyrir sig við val á búsetu. Íbúa sem er sama þó svo að leikskólagjöld séu hærri í Garðabæ en í nágrannasveitarfélögunum. Íbúa sem er sama þó Garðabær leggi ekki í sameiginlegan kostnað við almenningssamgöngur, heldur skipuleggi hverfi sem er eingöngu ætlað einkabílnum, líkt og í Garðahverfi þar sem almenningssamgöngur verða ekki í boði.

Með þessum skipulagsákvörðunum er vegið að valfrelsi íbúanna með áþreifanlegum hætti. Íbúum skal stefnt í einkabílinn, ólíkt áætlunum nágrannasveitarfélaganna sem byggja á því að skapa öllum íbúum raunverulegt valfrelsi. Ekki bara valfrelsi um búsetu, heldur líka um frelsi til að velja þá leið til og frá vinnu, skóla, íþróttum og tómstundum sem henta hverjum best.

Þetta er merkileg stefna meirihlutans í Garðabæ; að byggja dreift og halda þjónustustigi í sögulegu lágmarki. Eins og ársreikningur sveitarfélagsins gefur vel til kynna, þá skortir ekki fjárhagslega getu til að framkvæmda þrátt fyrir Covid áföll. Þvert á móti hefði verið hægt að blása til stórsóknar í framkvæmdum fyrr og vinna með fjárfestingaráætlun ríkisins, eins og Bjarni Benediktsson óskaði eftir, til að örva atvinnulífið. Þar hefði Garðabær getað lagt sitt að mörkum strax á síðasta ári.

Höfundur er oddviti og bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans í Garðabæ.

Categories
Fréttir

Öll á sömu línunni?

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa gert með sér viðamikinn sáttmála um skipulagsmál sem er samofin við eina umfangsmestu innviðauppbyggingu almenningssamgangna sem sést hefur og felst í tilkomu Borgarlínu. Hvernig sveitarfélögin skipuleggja umhverfi sitt er mjög stórt samfélagsmál, því skipulagsmálin stýra því hvernig umhverfið birtist okkur og hverjum það er ætlað.

Í því ljósi var áhugavert að verða vitni að vinnubrögðum Sjálfstæðismanna í Garðabæ á bæjarráðsfundi sl. þriðjudag.

Þar sem hjartað raunverulega slær

Höfuðborgarsvæðið allt hefur sett sér stefnu í svæðisskipulagi um uppbyggingu hverfa sem byggir á þéttingu byggðar til stuðnings Borgarlínu. Á sama tíma velja Sjálfstæðismenn í Garðabæ að setja allt kapp á að koma lóðum í sölu á nýju svæði sem rúma allt að 30 einbýlishús. Svæði sem í dag hefur engar tengingar við önnur hverfi.

Það er mikilvægt að Garðabær bjóði upp á fjölbreytt búsetuform og næg einbýli fyrir fólk sem hingað vill koma. En að forgangsraða uppbyggingu hverfis sem telur að hámarki 30 einbýlishús er í hrópandi ósamræmi við það svæðisskipulag sem gildir samkomulag um á milli sveitarfélaganna.

Garðbæingar hljóta að spyrja sig hvort þetta sé í takt við sameiginlega sýn höfuðborgarsvæðisins um þéttingu byggðar og samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins? Er það skynsamlegt að fara í innviðauppbyggingu fyrir svo lítið hverfi? Er það besta nýtingin á þessu svæði að það nýtist helst fáum fjölskyldum?

Skipulagið sem nefnt er Garðahverfi, er frá árinu 2013. Á landsvæði þar sem mikið af fornminjum má finna, auk þess sem náttúrufegurðin er óviðjafnanleg. Svæði sem ætti að nýtast sem flestum og helst sem náttúruparadís. En meðal meirihlutans þykir engin ástæða til að endurskoða tæplega 10 ára gamalt skipulag í takt við ákall tímans og þeirrar þróunar sem verið hefur.

Lýðræðislegu vinnubrögð meirihlutans í hnotskurn

Sama dag og klukkutíma kynning á skipulagi Garðahverfis fór fram í bæjarráði, þessum útúrdúr úr skipulagi Garðabæjar, barst bæjarfulltrúum tillaga um að fela umhverfis- og tæknisviði að hefja skipulagsvinnu á rammahluta aðalskipulags á þróunarsvæði A, Lyngás, Miðbær og yfir Hafnarfjarðarveg. Brýnt verkefni, sem byggir á verðlaunatillögu frá árinu 2016. Á þessu svæði verður stoppistöð Borgarlínu og tengingar við Strætó. Eins og fram kemur í greinargerðinni skiptir máli að hafa á svæðinu fjölbreytta starfsemi og fjölbreytt íbúðahúsnæði, gott aðgengi fyrir fjölbreytta ferðamáta og góð almenningsrými.

Skipulag miðkjarna Garðabæjar mun skipta alla bæjarbúa miklu að heppnist vel og því hefði tímanum í bæjarráði óhjákvæmilega verið betur varið í kynningu á þessu verkefni, sem raunverulega er framundan, fremur en þessu hliðarverkefni sem bæjarstjóranum virðist meira annt um.

Tillaga hefur nú verið lögð fram um að hefja undirbúning fyrir þessar viðamiklu framkvæmdir án þess að nokkur kynning á gögnum hafi átt sér stað né heldur liggi fyrir upplýsingar um hvaða gögn eru til. Engar upplýsingar um ábatamat eða hvort það hafi verið gert.

„Ég lif’ í voninni”

Ég vissulega bjó með þá von í brjósti að meirihlutinn tæki við sér og sæi ljósið um hversu mikilvægt það er að ræða þróun og skipulag Garðabæjar í ljósi samkomulags um svæðisskipulag og borgarlínu. Umræðan á síðasta bæjarstjórnarfundi gaf það reyndar ekkert sérstaklega til kynna, þegar ég hóf umræðu um borgarlínu og það mikilvæga hlutverk sem sveitarfélögin gegna til að leysa það verkefni farsællega. Ég mátti því með nokkurri vissu frekar eiga von á hinum þekktu ólýðræðislegu vinnubrögðum meirihlutans í Garðabæ og hvernig þeir fara með skattfé íbúanna.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í Garðabæ.

Categories
Fréttir

Af aðkeyptri þjónustu, gagnsæi og ábyrgri fjármálastjórn.

Við viljum öll að vel sé farið með skattféð okkar, sameiginlega sjóði sem engin einn á. Samfélagið setur sér reglur um hvernig umgangast á skattfé, því við viljum fá góða þjónustu og litla sóun. 

Fyrir skömmu óskuðum við í Garðabæjarlistanum eftir yfirliti yfir aðkeypta þjónustu sveitarfélagsins síðastliðin ár. Það er hluti af eðlilegu eftirliti minnihlutans að rýna hvernig fjármunum sveitarfélagsins er varið. Sérstaka athygli vakti hversu mikil þjónusta er keypt, án útboða eða verðathugana sem á að tryggja að sem mest fáist fyrir fjármuni Garðabæjar. Á síðasta ári voru slík innkaup um 622 milljónir.

Þetta eftirlit minnihlutans kemur ekki úr lausu lofti, undir lok árs 2019 fengum við stjórnsýsluúttekt á Garðabæ, þar sem bent er á að endurskoða sérstaklega þennan lið í rekstri sveitarfélagsins, enda tækifæri til að spara háar fjárhæðir og öll aðkeypt þjónusta yfir 15,5 milljónum er útboðsskyld. Það þýðir að það er ekki val bæjarins að kaupa þjónustuna af hverjum sem er. 

Við skoðun sjáum við að stærstur hluti þessa liðs, alls 16 aðskilin verkefni er yfir mörkum um útboðsskyldu. Við í Garðabæjarlistanum teljum því að þetta sé nokkuð skýr brotalöm á því hvernig farið er með skattpeninga Garðbæinga. Við hljótum að gera kröfu um að 622 milljónum á ári sé ráðstafað af ábyrgð og gagnsæi. 

Nokkuð langur tími er liðinn frá því að stjórnsýsluúttektin lá fyrir og því hefur verið gott rými til að bregðast við. Því hljótum við að spyrja af hverju ekki hefur verið aðhafst? Hefur þessi ábending ekki verið tekin alvarlega? 

Einhver þessara verkkaupa kunna að lifa vegna eldri samninga. Samkvæmt tillögu stjórnsýsluúttektarinnar ættu þeir þó að vera komnir til endurskoðunar og tilvalið að fara í útboð til að tryggja sem best að fjármunum sé vel varið.  

Við hljótum að gera kröfu um að meirihlutinn geri betur því þetta verklag samræmist ekki þeirri ásýnd sem talað er fyrir að hálfu meirihlutans um að farið sé af fullri ábyrgð með skattfé íbúa.

Við í Garðabæjarlistanum ítrekum mikilvægi þess að stjórnsýslan starfi með gagnsæjum hætti. Leikreglur um opinber innkaup á að virða í hvívetna. Innkaup síðasta árs, bera því miður þess ekki merki. Rúmlega hálfur milljarður í aðkeypta þjónustu án útboðs eða verðlagsathugana ber vitni um annað.

Sara Dögg Svanhildardóttir, Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Ó, þú dásamlega Borgarlína

Ég hlustaði á kynningu á fyrsta framkvæmdahluta Borgarlínu í bæjarráði fyrir skömmu og verð að viðurkenna að það fór um mig góð tilfinning.

Loksins sjáum við fram á að hafist verði handa við eina umfangsmestu framkvæmd á uppbyggingu innviða þessa lands. Þvílíkir tímar að lifa.

Loksins sjáum við fram á að almenningssamgöngur muni virka sem skjótur fararkostur og verða alvöru valkostur fyrir fólk á öllum aldri. Ég trúi því að um leið og við upplifum raunverulegan tímasparnað og þægindin sem fylgja Borgarlínu að þá hoppum við fleiri en ætla mætti á þann vagn. Ekki bara unga fólkið sem bíður mögulega einna spenntast og lætur ekki deigan síga við þær aðstæður sem nú eru og nýta almenningssamgöngur sama hvað.

Tilgangur þess að tala stórkostlega framkvæmd niður

Ég hef verið nokkuð hugsi yfir þeirri neikvæðu umræðu sem er úti í samfélaginu. Hún hefur hingað til einkennst af vel miðaldra körlum sem hafa mjög sterka og neikvæða skoðun á Borgarlínunni sem valkost. Og rökin eru oft með miklum ólíkindum. Talað er um að við sem aðhyllumst betri almenningssamgöngur hötum bifreiðar. “Þið sem hatið einkabílinn” er upphrópun sem ég átta mig ekki á hvernig hægt er að slá fram í umræðunni. En markmið þessara útvöldu karla fer ekkert á huldu. Það á einfaldlega að hafa sem hæst og úthrópa Borgarlínuna sem bastarð sem enginn vill og mun ekki virka. Staðreyndir málsins eru að það verða vissulega miklar breytingar á umferðaræðum, ásýnd og skipulagi og það sem meira er, það er frábært að sjá hvernig sú breyting kemur til með að líta út.

Framtíðar stefið unga fólkið og tækifærin

Staðreyndin er sú að allir kalla eftir þægilegri samgöngumáta, hraðari farakosti, minni mengun og aðlaðandi umhverfi heilt yfir til að lifa og starfa í.

Ég, sem búsett er í Garðabæ sem einhverjir kalla mekka einkabílsins, bíð spennt og fagna því að hingað til hafa Sjálfstæðismenn í meirihluta bæjarstjórnar Garðabæjar talað fallega um Borgarlínuna. Talað hana upp en ekki niður.

Borgarlínan er hagsmunamál allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu og verður til þess fallin að gefa sveitarfélögunum í Kraganum aukna vigt, ekki bara í vali á búsetu heldur einnig sem fýsileg staðsetning alls kyns atvinnustarfsemi.

Við horfum til að mynda til þess að Tækniskólinn ein af mikilvægu menntastofnunum landsins hafi áform um að staðsetja sig í Kraganum og þá skipta samgöngur öllu máli.

Ungt fólk kýs almenningssamgöngur og gerir þá kröfu að við sem samfélag horfum til framtíðar og tökum allar breytur inn þegar kemur að skipulagi samgangna og íbúðauppbygginu. Fyrir utan mikilvægi þess að að draga úr umferðarmengun almennt.

Áfram Borgarlína – keyrum þetta í gang!

Sara Dögg Svanhildardóttir er oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar.

Categories
Fréttir

Hver á réttinn ?

Nú stöndum við frammi fyrir því að vinna að styttingu vinnuvikunnar á yngsta skólastiginu, leikskólanum. Leikskólinn er reyndar einnig einn mikilvægasti þjónustuaðili hjá sveitafélögum ásamt því að vera eitt mest krefjandi vinnuumhverfi sem fagfólki í skólastarfi býðst að starfa í. Þetta þrennt vinnur oft á tíðum gegn hvert öðru þar sem leikskólinn er að mínu mati pólitískasta skólastigið þar sem það er nauðsynlegt að bjóða upp á ákveðna þjónustu sem tryggir jafnræði foreldra á vinnumarkaði en jafnframt huga að því hvaða afleiðingar slík þjónusta hefur á þjónustu við börnin sem þar dvelja oft á tíðum hátt í 80% af vökutíma sínum.

Umræðan sem skapast hefur meðal þeirra sem starfa í leikskólum víðsvegar hefur verið á þá leið að áhyggjur hafa myndast af því að þetta ferli komi til með að bitna á faglegu starfi og þá sérstaklega vegna þess að það hefur verið stöðugt fráhvarf frá leikskólakennarastéttinni um nokkurt skeið eða í kjölfar breytinga er varða leyfisbréf á milli skólastiga. Rannsóknir hafa sýnt fram á að leikskólakennarar leita annað í von um betra vinnuumhverfi. Stytting vinnuvikunnar ef vel er farið með getur vissulega haft jákvæð áhrif á vinnuumhverfi kennara ásamt auknum undirbúningstíma en það tvennt þýðir á sama tíma minni viðvera með börnum.

Í leikskóla læra börn einna helst í gegnum leikinn, námsumhverfið þeirra er nánasta umhverfi þeirra á leikskólanum. Til þess að námsumhverfið standist kröfur eru mikilvægustu þættirnir þeir að barnið upplifi öryggi og vellíðan. Í Garðabæ eru leikskólagjöld hærri en tíðkast í öðrum sveitafélögum, það hefur verið rökstutt með gæðum þjónustu við börn og foreldra. Nú stöndum við frammi fyrir krefjandi áskorunum sem kallar á samvinnu stjórnenda, starfsmanna og sveitarfélagsins. Nú þegar í fjárhagsáætlunum er gert ráð fyrir 50% minni fjárhæð í þróunarsjóð í leikskólum Garðabæjar sem hefur verið gulrót í fagstarfi í skólastofnunum sveitarfélagsins. Starfsfólk á leikskólum hefur undanfarið ár starfað undir miklu álagi á tímum Covid og er verið að rannsaka áhrif þess á starfsemi leikskóla og nú er ljóst er að það mun taka sinn toll að innleiða styttingu vinnuvikunnar.

Eins og sveitafélögin setja dæmið fram núna þá hafa skilaboðin verið þau að stytta eigi vinnutímann án þess að hækka kostnað og skerða þjónustu gagnvart börnunum en eins og þetta horfir við í raunveruleikanum þá skiptir einnig höfuðmáli að skerða ekki þjónustu gagnvart foreldrum. Viðhorf samfélagsins til leikskólans togast á í heimi þar sem konur, menn og börn þurfa nauðsynlega á því að halda að gæði skerðist ekki. Það er dæmi sem gengur illa upp og því fyrr sem sveitafélögin hefja samtal um raunverulegan kostnað eða skerðingu á þjónustu komumst við nær að því að leysa þetta verkefni á farsælan hátt.

Harpa Þorsteinsdóttir Bæjarfulltrúi

Categories
Fréttir

Að stinga höfðinu í sandinn

Nú á dögunum voru birtar niðurstöður úr árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2020. Markmið könnunarinnar var að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins ásamt því að gera samanburð og skoða breytingar á mælingum milli ára.

Almennt hækka meðaltöl á milli ára og ánægja eykst hjá þeim sveitarfélögum sem taka þátt í könnuninni en þó ekki hjá Garðabæ, þau lækka. Garðabær kemur ágætlega út í nokkrum þáttum í samanburði við önnur sveitarfélög. Það er ánægjulegt og hafa margið kosið að horfa aðeins til þess þegar rætt er um niðurstöður þessarar könnunar.

Það sem veldur mér þó áhyggjum er að Garðabær hækkar ekki í neinum þætti ólíkt öðrum sveitarfélögum. Ánægja í Garðabæ lækkaði í 7 af 13 þáttum sem kannaðir voru. Þetta er grafalvarlegt og mikilvægt að stinga ekki höfðinu í sandinn þegar að þessir þættir eru skoðaðir. Þættir sem lækka eru ánægju með þjónustu grunnskóla, hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum og skipulagsmál, þá lækkar ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bænum og einnig er marktæk lækkun á  ánægju með sveitarfélagið sem stað til að búa á.

Þó að við stöndum ágætlega hvað nokkra þætti varðar miðað við önnur sveitarfélög þá tel ég mikilvægt að við tökum þessar niðurstöður alvarlega. Við þurfum að hlusta á okkar íbúa og finna út hvers vegna ánægja í bænum er að dvína í ákveðnum þáttum en til þess þurfum við að viðurkenna að svo sé og tala um þessi atriði í stað þess að horfa nánast framhjá þeim.

Það er verður vissulega áskorun að halda úti góðri þjónustu. Að mínu mati þarf að leggjast í vinnu við að greina hvað það er sem hægt er að bæta í Garðabæ með því að fara í rýnivinnu til að finna út hvað við getum gert betur.

Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Bæjarstjórnarfundir í beinni á facebook

Í tilefni þess að loksins eru bæjarstjórnarfundir í Garðabæ í beinni útsendingu á Facebook, ákváðum við að gefa bæjarbúum smá glaðning. Til þess að hvetja fólk til að horfa á beina útsendingu voru meðlimir Garðabæjarlistans að dreifa poppi og Appelsíni. Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans hafa lagt fram tillögur um að gera fundi aðgengilega fyrir bæjarbúa og þannig stuðla að virkara lýðræði.

Garðabæjarbúar tóku vel í þessa gjöf og vonandi hafa flestir kíkt á útsendingu fundarins.