Categories
Fréttir

Bæjarstjórn 2. júní 2022

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans, Þorbjörg Þorvaldsdóttir og Ingvar Arnarson, sátu í gær (2. júní 2022) sinn fyrsta bæjarstjórnarfund á nýju kjörtímabili. Á fundinum voru helstu mál þau að ráða bæjarstjóra og skipa í nefndir og ráð (sjá lista neðst í fréttinni). Í bæjarráði fyrir hönd Garðabæjarlistans situr Ingvar fyrsta og þriðja ár kjörtímabilsins, en Þorbjörg mun taka sæti í bæjarráði annað og fjórða árið.

Almar Guðmundsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, var ráðinn bæjarstjóri á fundinum. Garðabæjarlistinn sat hjá við atkvæðagreiðsluna og færði fram eftirfarandi bókun: Garðabæjarlistinn situr hjá við þessa atkvæðagreiðslu þar sem við teljum mikilvægt að bæjarstjóri Garðabæjar sé fyrst og fremst ráðinn á faglegum grundvelli. Okkur finnst eðlilegt að bæjarstjóri sé framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og fylgi stefnu bæjarstjórnar en sitji ekki báðum megin borðsins.

Bæjarfulltrúar Framsóknar og Viðreisnar lögðu fram tillögu um áheyrnarfulltrúa í nefndum Garðabæjar. Garðabæjarlistinn lýsti yfir stuðningi við tillöguna og bókaði eftirfarandi: Garðabæjarlistinn styður tillögu Framsóknar og Viðreisnar, enda er aukin aðkoma og aðgengi allra flokka að nefndarstarfi mikilvægt lýðræðismál og mun stuðla að upplýstari umræðu og því að fulltrúar allra kjósenda í Garðabæ geti uppfyllt skyldur sínar. Tillögunni var vísað til bæjarráðs til frekari skoðunar og við vonumst til að sjá hana verða að veruleika.

Ingvar vakti á fundinum máls á tveimur erindum sem tengjast íþrótta- og tómstundastarfi og hafa komið á borð bæjarráðs. Annars vegar bréf Sentia um aðstöðu fyrir LARP í Heiðmörk og hins vegar ósk FG um uppsetningu frisbígolfvallar í kringum skólann. Bæði þessi erindi eru afar spennandi og til þess fallin að auka framboð af fjölbreyttu tómstundastarfi í bænum okkar, útivist og hreyfingu.

Auk þess fjallaði Ingvar um mikilvægi þess að halda vel utan um þau ungmenni sem eru í aukinni hættu á brottfalli úr framhaldsskóla vegna félagslegrar og efnahagslegrar stöðu með viðeigandi úrræðum.

Til umræðu kom bréf frá foreldri barns með sérþarfir sem ekki finnur úrræði við hæfi í Garðabæ í sumar. Þorbjörg lýsti yfir stuðningi Garðabæjarlistans við bréfritara og lagði að auki áherslu á mikilvægi þess að í Garðabæ verði starfrækt sumarfrístund í skólunum á vegum sveitarfélagsins, til viðbótar við það framboð sem fyrir er.

Þorbjörg fjallaði einnig um minnisblað sem kom á borð bæjarráðs er varðar móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd frá Úkraínu. Hún fagnaði því að sveitarfélagið taki á móti flóttafólki og að þekking á þessu sviði væri nú að byggjast upp í Garðabæ. Þá sagðist hún vonast til þess að Garðabær geti tekið á móti enn fleira fólki í sömu stöðu á næstu árum. Ekki síst sé mikilvægt að starfsfólk skóla fái góða fræðslu, t.d. um einkenni áfallastreituröskunar hjá börnum.

Í þessu samhengi kom hún einnig inn á þá staðreynd að lengi hefur vantað betri upplýsingar um þjónustu Garðabæjar á öðrum tungumálum en íslensku og nefndi að Fjölmenningarsetur býður upp á ráðgjöf til sveitarfélaga. Hægt væri að fá þau í lið með Garðabæ til þess að nýta tækifærið sem hefur skapast núna til að uppfæra alla upplýsingagjöf og efla móttöku innflytjenda af ýmsu tagi.

Næsti fundur bæjarstjórnar verður haldinn 16. júní kl. 17 og verður sendur út á vef Garðabæjar. Við bendum á að bæjarbúum er ávallt velkomið að hafa samband við Þorbjörgu (thorbjorg.thorvaldsdottir@gardabaer.is) og Ingvar (ingvar.arnarson@gardabaer.is).

Fulltrúar Garðabæjarlistans í nefndum og ráðum:

Fjölskylduráð: Þorbjörg Þorvaldsdóttir aðalmaður, Theodóra Fanndal varamaður
Íþrótta- og tómstundaráð: Harpa Þorsteinsdóttir aðalmaður, Sigurður Þórðarson varamaður
Leikskólanefnd: Finnur Jónsson aðalmaður, Maru Aleman varamaður
Menningar- og safnanefnd: Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir aðalmaður, Björn Gabríel Björnsson varamaður
Skipulagsnefnd: Baldur Ó. Svavarsson aðalmaður, Ingvar Arnarson varamaður
Skólanefnd grunnskóla: Hannes Ingi Geirsson aðalmaður, Hulda Gísladóttir varamaður
Skólanefnd Tónlistarskóla Garðabæjar: Ingvar Arnarson aðalmaður, Sólveig Guðrún Geirsdóttir varamaður
Umhverfisnefnd: Greta Ósk Óskarsdóttir aðalmaður, Guðrún Elín Herbertsdóttir varamaður
Öldungaráð: Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir aðalmaður, Hrafn Magnússon varamaður
Kjörstjórn: Gunnar Hólmsteinn Ársælsson aðalmaður
Svæðisskipulagsnefnd: Ingvar Arnarson aðalmaður, Baldur Ó. Svavarsson varamaður

Categories
Fréttir

Tíminn er núna

Á morgun kjósum við um það hvernig framtíðin í samfélaginu okkar lítur út. Hvernig Garðabæ við viljum sjá á næstu árum.

Við Garðbæingar vitum hvernig samfélag Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ hefur skapað. Þegar sami flokkurinn er við völd áratugum saman verður til samfélag þar sem fólk sem hefur hagsmuna að gæta gagnvart sveitarfélaginu veigrar sér við því að láta í sér heyra, þar sem ákveðinn flokkur er normið og allt annað frávik, þar sem tengsl inn í flokkinn verða til þess að tækifæri bjóðast sem aðrir fá ekki. Þar sem réttmæt gagnrýni á vinnubrögð meirihlutans, lögð fram af tiltrú og ást á samfélaginu, er máluð upp sem niðurrifstal. Eins og það að samþykkja ekki möglunarlaust allt sem Sjálfstæðisflokknum dettur í hug sé að vera á móti Garðabæ.

Það er kominn tími til að gefa upp á nýtt og losna við þetta ójafnvægi. Það er kominn tími til þess að leyfa samfélaginu okkar að blómstra. Þar sem skoðanaskipti eru velkomin og þar sem enginn hefur sjálfkrafa tilkall til áhrifa.

Við Garðbæingar erum miklu fjölbreyttari en fólk heldur. Í Garðabæ býr fólk sem er kærleiksríkt, sem lætur sig samfélagið sitt varða og allt fólkið í því. Fólk sem trúir því að við getum gert betur í dásamlega bæjarfélaginu okkar.

Ég veit að Garðabær á sér bjarta framtíð þar sem mannvirðing og ábyrgð gagnvart samfélaginu er höfð að leiðarljósi, þar sem fjölbreyttir húsnæðiskostir og ferðamátar eru til staðar fyrir fjölbreytt fólk og þar sem börn gjalda ekki fyrir efnahag foreldra sinna. Þar sem enginn er skilinn útundan.

Það er löngu kominn tími á breytingar í samfélaginu okkar hér í Garðabæ. Garðabæjarlistinn hefur skýra framtíðarsýn, er bæði reynslumikill og ferskur en fyrst og fremst samsettur af fólki sem brennur fyrir betri bæ.

Garðabær er okkar samfélag og tíminn er núna. Mætum á kjörstað á morgun, kjósum X-G.

Categories
Fréttir

Hvers virði eru 13.200 mínútur?

Mikið er rætt um bættar samgöngur í Garðabæ og bætta samgönguinnviði. Umferðarþungi milli Garðabæjar og Reykjavíkur er viðvarandi vandamál. Flestir íbúar Garðabæjar þurfa að sækja vinnu eða nám til Reykjavíkur. Sá tími sem tekur að aka í mikilli umferð til og frá vinnu skerðir lífsgæði fjölskyldna í bæjarfélaginu. Þessi mikli akstur er einnig mjög óumhverfisvænn og stækkar kolvetnisspor bæjarins til muna. 

Eru bættir samgönguinnviðir eina leiðin til að bæta þetta ástand? Væri hægt að nýta sér breytt vinnufyrirkomulag í kjölfar COVID-19, minnka þörfina til að fara úr bæjarfélaginu til vinnu og þannig minnka umferð? 

Fjöldi fyrirtækja er nú farinn að bjóða upp á færri viðverudaga á vinnustað og launþegar eru farnir að sækjast eftir breyttu vinnufyrirkomulagi. Rekja má hinn mikla flótta starfsmanna og sérfræðinga á heimsvísu frá hefðbundnum störfum, til breytts viðhorfs til vinnu og þeirrar menningar að eyða miklum tíma í samgöngur til og frá vinnu. 

Garðabæjarlistinn vill styðja við þessa þróun með því að auka tækifæri fólks til að vinna a.m.k. hluta vinnuvikunnar utan vinnustaðar og innan síns bæjarfélags. Þannig minnkar fjarvera frá fjölskyldu, viðskipti við verslun og þjónustu í bæjarfélaginu aukast, það léttir á umferðinni og kolefnisspor bæjarins minnkar með minni akstri. Þannig bæjarfélag er einnig eftirsóknarverðari búsetustaður fyrir aldamótakynslóðina og þær kynslóðir sem eftir koma sem hafa önnur gildi þegar kemur að vinnu auk þessa að vera með sterka umhverfisvitund. Þetta unga fólk vill ekki endilega vinna heima hjá sér heldur miklu frekar á skemmtilegum starfsstöðvum með fjölbreyttri starfsemi og skapandi umhverfi. 

Eitt skref í þessa átt er að styðja við uppbyggingu öflugra samvinnurýma (e. co-working space) í bænum í anda Vinnustofu Kjarvals og Sjávarklasans, með aðgengi að mismunandi skrifstofum, fundarherbergjum, kaffihúsum, ráðstefnurýmum og öðrum samverustöðum. Vísir að minni samvinnurýmum eru komin á tvo staði í bænum með nokkrum borðum. Einnig hefur hópur listamanna skapað sér sameiginlega vinnuaðstöðu í bænum, en betur má ef duga skal. Hugsanlega gætu öflug samvinnurými hýst þverfaglega starfsemi þekkingarstarfsmanna og skapandi greina. Samlegðaráhrif slíks rýmis væru óteljandi. Íbúar nágrannasveitarfélaga gætu einnig nýtt sér þessi rými og stytt sinn ferðatíma. 

Samvinnurými af þessum toga sjáum við spretta upp í sveitarfélögum í jaðri Höfuðborgarsvæðisins sbr. Breiðin á Akranesi og Bankinn á Selfossi. Hvers vegna ekki í Garðabæ? 

Líklega er ekkert bæjarfélag á landinu með jafn hátt hlutfall þekkingarstarfsmanna og Garðabær og þrátt fyrir að vera svona nálægt Reykjavík er tíminn sem fer í að ferðast til og frá vinnu allt of mikill eða allt að klukkutími á dag. Getum við ekki öll verið sammála því að fá viðbótar klukkutíma með börnunum okkar sé eftirsóknarverðara en að sitja í bílnum að hlusta á Bylgjuna á leiðinni í vinnuna? 

Byggjum framsýnan bæ með fjölbreyttum atvinnutækifærum og fjölbreyttri vinnuaðstöðu fyrir núverandi og komandi kynslóðir. 

Höfundur er í 5. sæti á lista Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Why vote X-G in Garðabær?

Garðabæjarlistinn, X-G, is a party in Garðabær made up of several different political parties (Social-democratic Alliance, Left Greens, the Pirate party) as well as of people that have no political affiliation, but care for our community here in Garðabær. We have been in minority in Garðabær council for the past four years, with three council members against the Independence party’s eight. 

Our priorities and issues in the upcoming elections revolve around three principles: We want Garðabær to be more diverse, child friendly, and responsible. 

Garðabæjarlistinn wants everyone to get from one place to another safely and efficiently, regardless of mode of transport. We will improve infrastructure for pedestrians, cyclists, electric-scooter users and place more emphasis on public transport. One thing that can be done right away is to create safe places for the storage of cycles in front of schools and sports areas.

We want everyone to be able to live in our beautiful Garðabær. When it comes to housing, we want to build more affordable and secure rental housing provided by non-profit organizations such as the ones founded by unions (Bjarg from ASÍ and BSRB, Blær from VR) and Icelandic Student Services (FS). 

Our community is more diverse than ever. Garðabæjarlistinn will create a human-rights policy for Garðabær and ensure that everyone who works for the municipality and schoolchildren receive anti-bias education, with the aim to improve living conditions for e.g. people of foreign origin, disabled people and LGBTI+ people.

Our community needs to be more child friendly. As is, costs are much higher for families in Garðabær than in neighbouring municipalities. Garðabæjarlistinn wants to systematically lower the cost of services for families with children, e.g. by providing extra discounts for families with two or more children who are in sports or other activities, and lower rates for play-school. In addition, we will provide a free healthy breakfast, e.g. oatmeal and fruit, for children in primary schools. 

Garðabæjarlistinn is determined in ensuring that the development of schools, sports and the music school is in accordance with the increase in population, while also improving safe access to sports and other activities between neighbourhoods. Children need to be safely able to bike or walk where they need to go. 

Garðabær should be a responsible community. We want to prioritise finances to create more equality for the people in Garðabær, make sure that disabled people receive adequate care and support, as well as having municipal housing available for people who need it. 

We want everyone to feel a sense of belonging in Garðabær, and for that information is key. Garðabæjarlstinn wants to make information on the rights of disabled and older people readily available, as well as providing more information on services and rights in other languages than Icelandic.

We encourage everyone to use their rights to vote on May 14, and hope that the people of Garðabær trust us to improve our community. 

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, leader of X-G Garðabæjarlistinn

Foreign nationals are eligible to vote in municipal elections. Danish, Finnish, Norwegian and Swedish nationals who are registered with a legal domicile in Iceland have the right to vote in municipal elections. Other foreign nationals who have had a legal domicile in Iceland for more than 3 consecutive years before election day also have the right to vote in municipal elections. Voting in Garðabær takes place in Mýrin and Álftanesskóli, 14 May. To find information on where to vote, click here

Categories
Fréttir

Merki­legur minni­hluti

Eftir sveitarstjórnarkosningar 2018 fengum við í Garðabæjarlistanum þrjá fulltrúa kjörna á móti átta fulltrúum Sjálfstæðisflokks. Við fengum rétt tæplega 30% atkvæða, sem telst frábær árangur hjá framboði sem var að koma saman í fyrsta sinn. Aðrir flokkar, Miðflokkur og Framsókn, náðu ekki inn manni og dóu því þau atkvæði sem þeir flokkar fengu. Eftir kosningar var farið í að skipa nefndir en þá kemur í ljós að við eigum aðeins rétt á einum fulltrúa á móti fjórum. Það þótti okkur ósanngjarnt í ljósi þess að við fengum þriðjung atkvæða. Í bæjarráði áttum við einn af fimm fulltrúum og að auki var ráðinn bæjarstjóri sem var á lista meirihlutans.

Þrátt fyrir þetta tókst okkur að halda meirihlutanum á tánum. Við þurftum að sjálfsögðu að leggja á okkur mikla vinnu til þess og það var virkilega skemmtilegt. Við náðum ótrúlegum árangri, en betur má ef duga skal.

Við lögðum fram margar tillögur í bæjarstjórn og jafnvel þó við vissum að þær yrðu aldrei samþykktar, allavega ekki í okkar nafni. Sumar hafa jafnvel verið teknar upp af meirihlutanum og komið þannig til framkvæmda.

Af tillögum og málum okkar á þessu kjörtímabili, má nefna hækkun hvatapeninga, syskina- og fjölgreinaafslátt, tekjutenging gjalda, sundkort fyrir ungmenni, ávaxta- og grænmetisstund í skólum, Janusarverkefnið fyrir eldri borgara, áætlun um uppbyggingu leikskóla, sérsöfnun á lífrænum úrgangi, útboð á endurskoðun ársreikninga og ungmennahús. Þá höfum við lagt fram fjölmargar bókanir ásamt því að leggja fram fyrirspurnir varðandi mál sem okkur finnst þurfa að bæta úr t.d. útboð á gámaleikskólum, kærumál vegna knatthúsins og útboð á vinnu iðnaðarmanna fyrir bæinn.

Í störfum nefnda hefur okkar fólk verið duglegt að halda uppi málefnlegri umræðu, því það er mikilvægt að ræða vel málin frá öllum hliðum og sér í lagi þegar unnið er að stefnumótun fyrir sveitarfélagið í heild sinni. Eftir okkar fólk liggur fjöldi bókana og tillagna sem hafa styrkt lífsgæði okkar allra í bænum.

Ánægjulegt hefur verið að sjá mikla fjölgun íbúa í Garðabæ á kjörtímabilinu, en frá árinu 2017 hefur fjölgað um 2800 íbúa. Við höfum þó áhyggjur af nokkrum þáttum. Aukin verðbólga er áhyggjuefni, sérstaklega þar sem að verðtryggðar skuldir bæjarsjóðs hafa aukist töluvert á kjörtímabilinu. Lántaka á síðustu tveimur árum er samtals 6,5 milljarðar kr. Skuldir á hvern íbúa hafa þ.a.l. aukist mjög mikið. Árið 2017 voru þær 751 þúsund kr. en eru í dag orðnar 1224 þúsund kr. á hvern íbúa. Við þurfum að fara varlega þegar að kemur að lántöku en að sama skapi auka við þjónustu til íbúa.

Að lokum vil ég nefna, að það sem gerir þennan minnihluta merkilegan er sú elja og þrautseigja sem okkar fólk hefur sýnt þrátt fyrir mikið valda ójafnvægi í bæjarstjórn og nefndum. Við í Garðabæjarlistanum er virkilega stolt af okkar þátttöku í stjórnun Garðabæjar, við höfum lært margt síðustu ár og vonumst til að fá ykkar stuðning til að gera enn betur á næsta kjörtímabili.

Setjum X við G,

Höfundur er í öðru sæti á lista Garðabæjarlistans fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Categories
Fréttir

Foreldrar og börn

Foreldrar eru undir stöðugu álagi. Hvort barnið sé búið með heimalesturinn, komist í leikskóla áður en foreldrar þurfa að fara aftur að vinna, sé öruggt á leiðinni í skólann, sé með hollt nesti. Hver á að sækja í dag? Bíddu, eru þessar buxur ekki orðnar of litlar? Vorum við búin að skrá krakkana á sumarnámskeið? Hvernig var með þessa fjáröflun? 

Já, hin svokallaða þriðja vakt hvílir þungt á foreldrum í Garðabæ líkt og annars staðar, og – eins og rannsóknir sýna – sérstaklega á mæðrum.

Það er ekki óeðlilegt að hugsanir foreldra hverfist að miklu leyti um velferð barnanna í fjölskyldunni. Við viljum börnunum okkar það besta. Við viljum veita þeim umhverfi þar sem þau geta vaxið og dafnað sem einstaklingar og upplifað lífshamingju, verið sjálfstæð og heilbrigð. 

Garðabær á að gera það sem hægt er til þess að einfalda líf foreldra og þannig gefa þeim andrými til þess að sinna öllu því sem þarf að láta ganga upp. Svo börnin okkar geti blómstrað. 

Garðabæjarlistinn vill lækka kostnað barnafjölskyldna með markvissum hætti: Með því að koma á systkina- og fjölgreinaafslætti í tómstundum gegnum hvatapeningakerfið, með því að lækka leikskólagjöld og með því að bjóða upp á hafragraut á morgnana í skólum og ávexti og grænmeti í nestistímanum án endurgjalds. Sumarfrístund á að vera valkostur á sumrin til viðbótar við þau námskeið sem félagasamtök í Garðabæ hafa boðið upp á. 

Garðabæjarlistinn vill minnka þörfina á skutli – fyrir lýðheilsu, loftslagið og sjálfstæði barnanna okkar. Það verður að auka öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda í bænum svo foreldrar geti sent börnin sín áhyggjulaus af stað út í umferðina. En til þess verða börn og ungmenni líka að geta sótt skóla og tómstundir í sínu nærumhverfi, eða eiga kost á áreiðanlegum frístundabíl og góðum almenningssamgöngum þurfi þau að sækja í önnur hverfi. Til þess að einfalda líf bæði barna og foreldra þarf að gæta þess að uppbygging á skólum og tómstundum fylgi fjölgun íbúa í þeim hverfum sem byggjast upp hér í bænum. 

Í efstu fimm sætum Garðabæjarlistans sitja foreldrar sem eiga samtals fimmtán börn á leik- og grunnskólaaldri. Við vitum hvað þarf til svo hægt sé að létta álagi af foreldrum. Okkar samfélag er barnvænt samfélag. Sköpum það saman á kjördag. Veljum X-G.

Þorbjörg Þorvaldsdóttir
Oddviti X-G, Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Okkar samfélag – Uppbygging í Garðabæ sem allir njóta

Ég vil byrja á að óska Garðabæ til hamingju með glænýtt fjölnota íþróttahús, Miðgarð. Þetta flotta hús mun auka til muna þau gæði sem hægt er að bjóða bæjarbúum og íþróttafélögum bæjarins. Hús sem allir eiga að nýta og er upphafið að framtíðarsvæði Stjörnunnar. 

Nú er vonandi hægt að einblína á aðra innviði í sveitarfélaginu og klára framkvæmdir við það sem hefur svo sannarlega setið á hakanum, samanber Urriðaholtsskóla. Við hjá Garðabæjarlistanum höfum ítrekað hvatt meirihlutann til að flýta framkvæmdum í Urriðaholti en það hefur engan veginn verið í forgangi líkt og dæmin sanna, engu líkara en að það sé viljandi gert að láta hverfið byggjast þannig upp að allt verði klárað fyrir utan grunnþjónustuna t.d. göngustígar, leiksvæði, skólar og leikskólar, aðgengi að íþróttasvæði Stjörnunnar svo eitthvað sé nefnt.

Bærinn hefur tekið þá stefnu að byggja bráðabirgðarhúsnæði í kringum grunn- og leikskólana okkar, sem skilur eftir lítið framtíðarverðmæti eftir fyrir sveitarfélagið. Þess í stað fara allir þeir fjármunir til þess aðila sem leigir sveitarfélaginu þær byggingar. Eftir standa gáma- og kofabyggðir. Þannig hefur skólinn í Urriðaholti, sem var forhannaður og búið var að skipuleggja, aðeins verið byggður upp að litlu leyti. Ef meirihlutinn vill koma með það mótsvar, sem ég hef reyndar heyrt og bæjarstjóri nefndi á íbúafundi bæði hér í okkar hverfi og á fundi á Álftanesi, að þegar hverfi eldast verði allt í einu mun minna af börnum þar: Halda þessi rök vatni? Hver er staðan í þeim skólum sem voru eru byggðir upp í eldri hverfum í sveitarfélaginu? Þeir skólar standa ekki tómir í dag og að auki hafa bráðabirgðakofar staðið við þá nánast alla tíð.

Ég verð þakklátur fyrir það ef yngsta barnið mitt nær að upplifa að skólinn, íþróttahúsið og sundlaugin verði fullbyggð í Urriðaholti.

Hnoðraholtið mun fara í mikla uppbyggingu á næstu árum. Það mun laða að sér svipaða íbúasamsetningu og er í Urriðaholti. Mikið af ungu fjölskyldufólki mun kappkosta við að byggja sér framtíðarheimili í vel staðsettu hverfi þar sem stutt er í stofnbrautir, náttúruna og íþróttaaðstöðu. Við þurfum að læra af reynslunni og klára innviðina tímanlega.

Að lokum langar mig að fjalla aðeins um Álftanesið mitt. Þar er búið að skipuleggja mikla þéttingu byggðar og þar er nauðsynlegt að tryggja uppbyggingu á grunn- og leikskólum til að mæta aukningu íbúafjölda. Einnig þarf að tryggja að aðstaða fyrir íþróttir og aðra félagsstarfsemi verði til fyrirmyndar. Íþróttahúsið er komið í ágætis ástand og með uppsetning flóðljósa á aðalvöll hefur aðstaðan tekið stakkaskiptum. Aftur á móti þarf að bæta aðstöðu fyrir áhorfendur og væri stórkostlegt ef útbúinn yrði annar völlur við hlið íþróttahússins.

Ég óttast það að ef ekki verður farið í uppbyggingu þessara innviða strax muni sagan úr Urriðaholti endurtaka sig. Staðan í dag er sú að í skólanum er lítið rými fyrir fjölgun nemenda, aðstaða fyrir utan skólann fyrir útiveru er langt frá þeim kröfum sem íbúar gera. Það væri óskandi að farið væri sem allra fyrst í framkvæmdir við körfuboltavöll og battavöll í nálægð við skólann og að byggt væri upp sambærilegt leiksvæði og er við Flataskóla og Sjálandsskóla. 

Guðjón Pétur Lýðsson. 4sæti á Garðabæjarlistanum, X-G

Categories
Fréttir

Sofum á því!

Það var ráðstefna í Hörpu á mánudaginn síðastliðinn þar sem hver rokkstjarnan í þessum fræðum steig á svið á fætur annarri. Það er svo margt í okkar nærumhverfi sem við getum gert til þess að styðja við heilsueflingu og það er okkar hlutverk í stjórnum sveitarfélaganna að skapa aðstæður sem gera fólki kleift að hafa aukin áhrif á heilsu sína og bæta hana til framtíðar.

Ungmenni á Íslandi sofa styttra en í nágrannalöndunum og íslensk ungmenni fá hvergi nærri nægan svefn, það er staðreynd. Ég tel að það séu tækifæri til þess að styðja við heilbrigða framtíð barna og ungmenna með því að setja markmið um að bæta svefn ungmenna og fyrir því hef ég talað fyrir á liðnu kjörtímabili.

Góður svefn er öllum nauðsynlegur til að geta tekist á við viðfangsefni dagsins. Svefn hefur meðal annars jákvæð áhrif á ónæmiskerfið, á námsgetu og einbeitingu, hjálpar heilanum að festa upplýsingar í minni og er nauðsynlegur fyrir vöxt og þroska barna.

Það er áskorun fyrir skólana að taka þetta skref og sérstaklega ef að sveitarfélagið styður ekki vel við bakið á þeim því breytingin á sér ekki eingöngu stað innan skólanna. Það þarf að rýna vel hvernig skipulag sveitarfélagsins styður við og ég hef fulla trú á því að tækifærin séu til staðar í okkar góða samfélagi.

Við viljum fjárfesta í heilsunni með aðgerðum sem stuðla að bættum svefni. Við þurfum að þora að taka skrefið og seinka skólabyrjun á unglingastigi ásamt því að auka vægi fræðslu um mikilvægi svefns. Þannig getum við stutt við heilbrigða framtíð, með mótvægisaðgerð eins og að seinka skólabyrjun lengjum við svefn ungmenna og erum með því að sporna við þeim áhættuþáttum sem við erum að takast á við í auknum mæli í samfélaginu, t.d. streitu og kvíða.

Við í Garðabæjarlistanum viljum taka rétt skref svo þetta geti orðið að veruleika.

Setjum X við G,

Harpa Þorsteins.

Höfundur er í þriðja sæti á lista Garðabæjarlistans fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

Categories
Fréttir

Okkar samfélag, barnvænt samfélag

Ég vil búa í Garðabæ og ég vil búa í barnvænu samfélagi. Garðabær er ört stækkandi bæjarfélag og þar hefur barnafjölskyldum fjölgað hratt undanfarin ár. Það á sérstaklega við í Urriðaholti sem er hverfi í hraðri uppbyggingu. Fjölskyldur í Urriðaholti standa frammi fyrir ýmsum áskorunum sem eru mismunandi eftir því hvar á æviskeiði barnsins fjölskyldan stendur.

Börn sem fæðst hafa á síðustu tveimur árum hafa ekki fengið inngöngu í leikskólann í Urriðaholti. Mörg þessara barna hafa nú þegar sótt a.m.k. tvo mismunandi leikskóla í öðrum bæjarhlutum og ljóst er að þau koma til með að þurfa að sækja fleiri mismunandi leikskóla á næstu árum. Það liggur í augum uppi að það fylgir því álag fyrir barn að byrja í leikskóla og á það álag hefur verið aukið með því að bregðast seint og illa við fyrirsjáanlegri þörf fyrir grunnþjónustu við uppbyggingu hverfisins. Stór hluti þessara barna eiga einnig eldri systkini í Urriðaholtsskóla og barnafjölskyldur hafa þannig verið settar í þá stöðu að þurfa að keyra á milli bæjarhluta á hverjum einasta degi, tvisvar á dag, eingöngu til að koma einu barni í einn skóla og öðru barni í annan skóla.

Þau börn sem eru byrjuð að stunda íþróttir og aðrar tómstundir hafa ekki kost á því að stunda sín áhugamál í Urriðaholti. Hluti þessara barna getur notað frístundabíl til þess að komast úr Urriðaholti og á leiðarenda en bíllinn keyrir hins vegar ekki aftur til baka. Því þurfa foreldrar að gera sér ferð út úr hverfinu til þess að sækja börnin enda ljóst að börnin geta ekki farið gangandi eða hjólandi líkt og algengt er, en hvers vegna ekki? Það er beinlínis hættulegt. Eins og staðan er í dag þarf að fara yfir a.m.k. átta mismunandi akreinar til þess að komast gangandi eða hjólandi frá Urriðaholti og til annarra bæjarhluta Garðabæjar. Akreinar og gatnamót sem eru hvorki vel upplýst né merkt.

Næstu ár skipta sköpum þegar kemur að því að skapa samfélag sem virkar vel fyrir allar fjölskyldur í öllum hlutum Garðabæjar. Við þurfum að leggja áherslu á vistvæna, virka og örugga samgöngumáta, við þurfum að tryggja raunverulegt aðgengi að skipulögðu íþrótta- og félagsstarfi á milli hverfa, án þess að því fylgi aukið álag á fjölskyldur og við þurfum að ráðstafa fjármunum með skynsamlegum hætti.
Það er að ýmsu að hyggja og lausnirnar eru til staðar, það þarf bara að ákveða að forgangsraða þeim, forgangsraða í þágu framtíðarinnar, forgangsraða í þágu barnanna okkar. Íbúar í Garðabæ eiga að geta treyst á þjónustu í nærumhverfi sínu, íbúar eiga að hafa val um það hvernig þeir komast á milli staða og foreldrar eiga að geta verið áhyggjulausir þegar börnin þeirra ferðast á milli bæjarhluta. Ég vil að Garðabær sé okkar samfélag, ég vil að Garðabær sé barnvænt samfélag.

Finnur Jónsson, tómstunda og félagsmálafræðingur, skipar 10. sæti Garðabæjarlistans, XG

Categories
Fréttir

Bregðumst ekki hinsegin börnum í Garðabæ

Árið 2015 lagði Samfylkingin fram tillögu á bæjarstjórnarfundi í Garðabæ um að gera samning við Samtökin ‘78 til þess að tryggja hinsegin fræðslu í grunnskólum Garðabæjar. Tillagan var samþykkt og vísað í skólanefnd, þar sem hún var látin sofna. Árið 2018 var aftur lögð fram af Garðabæjarlistanum sambærileg tillaga, enn aftur árið 2020 og hún svo endurtekin nú í vor af bæjarfulltrúa Garðabæjarlistans, sem nú er oddviti Viðreisnar í Garðabæ. Í hvert sinn hefur tillögunni verið vel tekið, en í hvert sinn hefur pólitísk hugmyndafræði um valfrelsi skólastjórnenda um tilhögun fræðslu verið látin koma í veg fyrir að Garðabær leggi línurnar í málaflokknum. Nú er tillagan komin úr skólanefnd og á borð fræðslusviðs til umræðu. Ekki er enn ljóst hvort hún nær fram að ganga í þetta sinn.

Á fundi Garðabæjarlistans um málefni hinsegin barna og ungmenna með fulltrúum Samtakanna ‘78 í Sveinatungu þann 25. apríl kom fram að margir skólar í Garðabæ nýta sér fræðsluþjónustu samtakanna, en í mismiklum mæli. Hins vegar er ljóst að skýr stefna frá sveitarfélaginu og fastur rammi utan um fræðsluna mun nýtast öllu starfsfólki og börnum bæjarins, ekki síst þeim u.þ.b. 10% grunnskólabarna sem ætla má að séu hinsegin í bænum, sem og börnum hinsegin foreldra. Að mínu mati skiptir miklu máli að sú fræðsla komi frá Samtökunum ‘78 – félagi hinsegin fólks á Íslandi, þar sem sérfræðiþekkingin og tengslin við allt hinsegin samfélagið er til staðar.

Hinsegin börn og ungmenni í Garðabæ hafa sagt frá því að þau hafi ekki öruggt rými innan sveitarfélagsins til að leita í og mörg sækja hinsegin félagsstarf bæði í Hafnarfirði og í Reykjavík. Starfsfólk skólanna í bænum stendur á sama tíma uppi verkfæralaust vegna þess að ekki hefur verið sett stefna í því hvernig taka skuli á móti hinsegin börnum í skólakerfinu og hvernig bæta megi umhverfi þeirra til þess að þau geti fengið að vera þau sjálf. Þessu þurfum við að bæta úr, því samfélagið okkar er fjölbreytt og við þurfum að koma til móts við þann veruleika. Með því að gera ekkert í málunum bregðumst við hinsegin börnum.

Á heimsvísu er nú markvisst vegið að réttindum hinsegin fólks sem aldrei fyrr og bakslagið er sérstaklega þungt fyrir trans börn og foreldra þeirra. Meira að segja á Íslandi fer fram opinber umræða um réttindi trans fólks sem minnir á þá afmennskandi umræðu sem fór fram um réttindi samkynhneigðra á sínum tíma. Því er rétti tíminn núna fyrir Garðabæ að taka afgerandi afstöðu með mannréttindum hinsegin fólks.

Ég tala af reynslu bæði sem kennari á unglingastigi og sem fyrrverandi formaður Samtakanna ‘78: Við þurfum hinsegin fræðslu fyrir yngsta stig, miðstig og unglingastig. Við þurfum hinsegin fræðslu fyrir allt starfsfólk bæjarins. Við þurfum fræðslu fyrir íþróttafélögin í bænum. Garðabær þarf að setja sér sértæka stefnu í málefnum hinsegin fólks. Garðabær þarf að búa til vísi að hinsegin félagsmiðstöð fyrir grunnskólanemendur og koma á fót ungmennahúsi þar sem hægt er að halda hinsegin kvöld fyrir eldri ungmenni. Allt mun þetta skila sér í samfélagi þar sem hinsegin börn og ungmenni fá loksins að upplifa að þau tilheyri. Með því að framkvæma þessa hluti mun Garðabær sýna með skýrum hætti að hann stendur með öllum íbúum sínum.

Í sjö ár hefur verið uppi krafa frá minnihlutanum í bæjarstjórn um að bæta markvisst þjónustu við hinsegin börn og ungmenni í Garðabæ. Ekkert hefur gerst, þótt tillögur séu ítrekað samþykktar og alltaf tekið vel í málefnið á fundum bæjarstjórnar. Með fögrum orðum um mikilvægi málaflokksins hafa ekki ennþá fylgt efndir. Þetta þarf að breytast.

Ég þekki málefni hinsegin barna og ungmenna og mikilvægi þeirra afar vel og mun berjast fyrir þeim í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili. Ég óska eftir umboði Garðbæinga til þess. Kjósum XG í vor, fyrir barnvænt samfélag – fyrir öll börn.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans.