Categories
Fréttir

Við sögðum nei

Nú hefur bæjarstjórn afgreitt fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Stóra myndin er samdráttur í tekjum. Þær framkvæmdir sem þegar hafa verið ákveðnar eru fjármagnaðar með lánum. Lítið rými er til annarra framkvæmda á komandi árum samkvæmt mati Sjálfstæðismanna, meirihluta bæjarstjórnar. Fyrir lá að halda þarf áfram að byggja Urriðaholtsskóla þar sem þrengir að börnum nú þegar ekki síst vegna þess hversu seint er farið í að huga að nýjum leikskóla í hverfinu. Við í Garðabæjarlistanum höfnum þessari nálgun.

Aðferðafræði meirihlutans

Fjölgun íbúa og sala lóða hafa töluverð áhrif á tekjur bæjarins á næsta ári. Enn og aftur ætlar meirihlutinn að fara mun varlegar í áætlun á þeim þáttum en raunveruleg þróun segir til um. Þrátt fyrir að íbúafjölgun sé einna mest í Garðabæ ætlar meirihlutinn aðeins að gera ráð fyrir 3% fólksfjölgun. Sami meirihluti segir samt að 4-4,5% væri nærri lagi. Lóðasala hefur gengið vel og nam milljarði á þessu ári. Samt er ekki áætlað nema 240 milljónir árið 2021. 

Það er hægt að vera varfærin í áætlun, en þegar varfærnin gengur of langt verður hún óábyrg. Hvers vegna skyldi meirihlutanum hugnast þessi aðferðarfræði? Hann vill vega og meta þegar líða fer á næsta ár. Bæta í eða draga saman með viðaukum. Í stað þess að setja upp áætlun sem endurspeglar raunveruleikann og unnið er eftir af ábyrgð, meirihlutinn vill frekar setja ráðstöfun tekna í búning hentisemi. 

Stefnuleysið

Stefnulaust at virðist hugnast Sjálfstæðismönnum í Garðabæ vel enda telur bæjarstjórinn umræðu um stefnumörkun þreytandi. Honum hugnast betur pólitísk hentisemi. Þetta sáum við framkvæmdir við fundarsalinn góða. Þá ráku margir upp stór augu þegar endanlegur kostnaður kom í ljós, enda var aldrei til framkvæmdaáætlun eða kostnaðaráætlun. Þess í stað var hent í framkvæmdina því fjármagni sem vantaði eða hentaði hverju sinni. 

Í aðdraganda fjárhagáætlunar Garðabæjar heyrðist ákall bæjarstjórans okkar. Ákall um stuðning ríkisins til að halda úti grunnþjónustu, þar sem  virtist istefna í sögulegan halla bæjarsjóðs upp á 900 milljónir. Tæpur milljarður er vissulega skafl sem þarf að komast í gegnum með einum eða öðrum hætti.

Fljótt skipast veður í lofti og allt í einu var staðan gjörbreytt. Hallinn á samstæðunni óverulegur eða um 40 milljónir í dýpsta efnahagssamdrætti sem Ísland hefur séð um langan tíma. Svo virðist vera að meirihlutinn hafi áttað sig á stöðu sinni í stóra samhenginu og komist að þeirri niðurstöðu að það væri einfaldlega afar óábyrgt að vanáætla tekjur vegna íbúafjölgunar til að mynda um of og því breyttist staðan heldur betur, þó svo enn sé vanáætlað.

Í svona árferði tekur grunn- og félagsþjónusta hvað mest í hjá sveitarfélögunum í kringum okkur. Útgjaldaaukningin sem þau verða fyrir er mun meiri og ekki í neinni líkingu við veruleikann sem bæjarstjórn Garðabæjar er að takast á við.

Í fjárhagsáætlunin er engin framtíðarsýn þegar kemur að því að taka ákvarðanir um fjárfestingu til framtíðar í stafrænni tækni sem umbyltir samfélaginu okkar á margan hátt. Tæknin getur spara bæði tíma og kostnað fyrir bæjarbúa. Að síðustu er vegið að mannauði sveitarfélagsins með niðurskurði á helsta fjöreggi leik- og grunnskólakennara, þ.e. þróunarsjóði sem meirihlutinn hefur hingað til talað upp í hæstu hæðir af miklu stolti. En nú er öldin önnur og lítið gert úr því hversu gott og mikilvægt innlegg sjóðurinn er fyrir allt skólastarf Garðabæjar.

Ólýðræðisleg vinnubrögð í boði meirihlutans

Aðkoma Garðabæjarlistans að vinnu við fjárhagsáætlunina var lítil sem engin. Sjálfstæðismenn hér í bæ telja samráð falið í því að leggja fram tilbúna áætlun, sem meirihlutinn hefur þegar samþykkt fyrir sitt leyti, okkur til upplýsingar. Ekki gafst kostur á að leggjast yfir gögn eða eiga pólitískt samtal um forgangsröðun verkefna og hvað þá aðferð til að takast á við stöðuna sem uppi er vegna heimsfaraldurs. Sjálfstæðismenn í Garðabæ reyndu þess í stað að nota gamaldags uppeldisaðferð á okkur í minnihlutanum, þið hafið ekki verið nægilega stillt, þið fáið ekkert í gegn af ykkar málum. Refsivöndur Sjálfstæðismanna á lofti.

Samráðsleysið, óábyrga aðferðafræðin og ranga forgangsröðunin sem birtist í þessari fjárhagsáætlun er ástæða þess að við í Garðabæjarlistanum sögðum nei. 

Sara Dögg Svanhildardóttir 

Ingvar Arnarson

Harpa Þorsteinsdóttir

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Tillögur inn í fjárhagsáætlunargerð

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans hafa verið dugleg við að koma með tillögur inn í fjárhagsáætlunargerð 2021. Sem betur fer hafa þessar tillögur allar verið lagðar fram á bæjarstjórnarfundum nú í vetur enda fengum við í minnihlutanum ekkert að koma að gerð þessarar áætlunar.

Categories
Fréttir

Sokkinn kostnaður í mýri

Vetrarhöllin er orðin Garðbæingum dýr. Með nýjum gerðardómi í deilu Garðabæjar og ÍAV verktaka vegna byggingu fjölnota íþróttahússins, sem úrskurðar verktökunum í vil falla alls tæplega 170 milljónir á bæjarsjóð af þeim 200 milljónum sem deilt var um. Ástæðan eru gallar í útboðslýsingu, þar sem fullnægjandi upplýsingar um jarðveg lágu ekki fyrir.

Þessi niðurstaða er mikill áfellisdómur fyrir Sjálfstæðismenn í meirihluta Garðabæjar. Við í Garðabæjarlistanum höfum haft miklar efasemdir um að Garðabær væri í rétti í þessu máli og talið að undirbúningi hafi verið ábótavant af hálfu bæjarins. Nú hefur komið í ljós að það var rétt mat hjá okkur, þrátt fyrir að Gunnar Einarsson bæjarstjóri hafi staðið fastar en kletturinn sjálfur á því að hér ætti Garðabær enga sök.

Dýr dómur fyrir tóman bæjarsjóð

Þessi dómur mun taka í fyrir bæjarsjóð, þar sem reiknað er með rekstrartapi á næsta ári. Garðabær hafði áður samþykkt að greiða 60 m.kr. Kostnaður við fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri hefur því aukist um 226 milljónir, vegna þess að útboðslýsingin var ekki nógu góð. Við sjáum nú fram á að bæjarsjóður verður rekinn með tapi á næsta ári, það er að þessu sinni engin inneign fyrir svona viðbótarkostnaði. Svo á eftir að bæta við kostnaði vegna búnaðar og reksturs, þegar húsið verður tilbúið. Auk þess sem núverandi meirihluti hefur samþykkt að í fjárhagsáætlun næstu tveggja ára verði gert ráð fyrir kostnaði vegna hátíðarhalda meirihlutans, korteri í næstu sveitarstjórnarkosningar.

Ábyrgðin er bæjarstjórans

Bæjarbúar eiga skilið betra en þetta. Þeir eiga skilið fjármálastjórnun þar sem vandað er til verka við útboðslýsingar þegar kemur að stærstu og umfangsmestu framkvæmdum sveitarfélagsins. Útboð vegna íþróttahússins hljóðaði upp á 4,2 milljarða. Vegna verks af slíkri stærðargráðu þarf að fara fram góður undirbúningur til að tryggja að útboðið og grundvöllur þess hafi verið rétt. Niðurstöður gerðardómsins sýna að hér hefur meirihlutinn kastað til hendinni og þar er ábyrgð bæjarstjórans ekki lítil, sem pólitísks leiðtoga og yfirmanns stjórnsýslunnar. Þetta er óboðlegt í alla staði. Við krefjumst þess að faglegri vinnubragða verði gætt og að útboðsreglum sé settur skýr rammi.

Enn eitt útboðið sem fer illa

Það sem verra er, þá sjáum við þetta síendurtekið hér í Kraganum, í umboði Sjálfstæðismanna. Á tyllidögum ber bæjarstjórinn minn sér á brjóst og lofar fjármálastjórn bæjarins og vönduðu vinnubrögðin. Sjálfstæðismenn tala iðulega eins og þeir einir geti stjórnað fjármálum.

Raunveruleikinn er auðvitað allt annar. Þetta er enn eitt úboðið sem kostar sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu háa upphæð. Hér í Kraganum, þar sem Sjálfstæðismenn stýra öllum sveitarfélögunum og Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) hljóta þeir að þurfa að endurskoða vinnulag sitt. Framundan eru stór verkefni á könnu Ssh, auk Borgarlínu. Á nýliðnum aðalfundi samtakanna tók bæjastjórinn minn þar við formennsku, sá sami og ber ábyrgð á útboðinu í Vetrarmýrinni og taldi allt gert upp á punkt og prik, þar til gerðardómur sló á puttana á honum.

Við krefjumst þess að farið sé af meiri ábyrgð með skattfé og að faglegri vinnubrögð séu viðhöfð þegar farið er með almannafé.

Sara Dögg Svanhildardóttir er oddviti Garðabæjarlistans og bæjarfulltrúi í Garðabæ.

Categories
Fréttir

Til hamingju Stjarnan

Mig langar til að óska öllu Stjörnufólki til hamingju með 60 ára afmæli félagsins. Ég hef verið í Stjörnunni frá unga aldri, spilað með mörgum deildum félagsins, þjálfað og nú staðið á hliðarlínunni sem stuðningsmaður og foreldri.

Mig langar að þakka öllum þeim sem hafa lagt félaginu lið og þá sérstaklega starfsmönnum og sjálfboðaliðum. Félag er fólkið sem í því er og það er svo sannarlega kraftur í fólkinu í Stjörnunni. Það má jafnvel segja að Stjarnan sé hjartað í Garðabæ, þar gerast hlutirnir. Það hefur margt breyst hjá Stjörnunni á síðustu árum, til að mynda öll aðstaða og umgjörð. Slíkar breytingar gerast ekki af sjálfu sér því þarna liggur þrotlaus vinna fólks að baki og vil ég þakka öllum fyrir framlag sitt og fórnfýsi.

Nú á þessum tímum er nauðsynlegt að styðja við bakið á félögum í bænum. Rekstur íþróttafélaga er í járnum, tekjur hafa lækkað og mikilvægt er að tryggja að Stjarnan geti haldið úti sínu góða starfi þegar æfingar hefjast að nýju og þegar að farsóttin er um garð gengin. Þá er mikilvægt að bæjarfélagið hjálpi félögum í bænum eins og hægt er við þær aðstæður sem núna eru uppi.

Við í Garðabæjarlistanum höfum verið tilbúin til að gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja að börn og ungmenni geti haldið áfram að stunda sínar tómstundir og að félögin geti starfað áfram. Ég hef reglulega lagt fram tillögur um hækkun hvatapeninga. Í maí þegar fyrsta bylgja farsóttarinar var að renna sitt skeið lagði ég fram tillögu um verulega hækkun hvatapeninga, nánar tiltekið úr 50 þúsund krónum í 90 þúsund krónur. Í greinagerð með tillögunni segir meðal annars að kostnaður við þátttöku barna í íþrótta- og æskulýðsstarfi hefur aukist gífurlega á síðustu árum. Á þessum tímum þar sem tekjur heimila eru að jafnaði að dragast saman er líklegt að börn dragi úr þátttöku í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Því er mikilvægt að Garðabær standi við bakið á barnafjölskyldum með hækkun hvatapeninga. Einnig er mikilvægt að tryggja að rekstur þeirra félaga sem bjóða upp á skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf verði áfram lífvænlegur og með hækkun hvatapeninga er líklegra að börn og ungmenni í Garðabæ nýti sér þá þjónustu sem þessi félög eru að bjóða upp á.

Það er von mín að Stjarnan haldi áfram að skína sem skærast á komandi árum. Takk fyrir frábærar stundir Stjörnufólk.

Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Erindi um samskipti

Einelti er dauðans alvara og hefur verið mikið til umræðu í Garðabæ að undanförnu eins og við öll þekkjum. Þegar svo alvarlegur samskiptavandi, sem einelti er, kemur upp er ljóst að það þarf að leggja betur við hlustir, rýna og endurmeta það umhverfi sem við búum börnum okkar og ungmennum. Hvort sem það er innan skólanna, íþróttahreyfingarinnar eða annarar tómstundaiðju. Einelti er fyrst og fremst afleiðing samskiptavanda sem hefur fengið að þróast í ákveðna átt svo að illa fer. 

Framúrskarandi skólar geta aldrei talist framúrskarandi ef líðan barna og ungmenna er ekki sett í fyrsta sæti, hlúð sé að samskiptum og unnið með þau á uppbyggilegan og markvissan hátt á öllum stigum skólakerfisins og öðrum sem starfa með börnum. Því skiptir máli að við stöldrum við og rýnum ferla og aðgerðarplön sem allar stofnanir samfélagsins leggja til grundvallar í starfi með börnum og ungmennum. 

Samskiptavandi er þess eðlis að oft er erfitt að reiða hendur á hvað á sér stað. Því þurfum við ávallt að hafa í huga hvernig við getum, í verkferlum okkar, gert betur í dag en í gær. Við þurfum að efla forvarnir, efla samskipti, rýna samskipti barna og ungmenna og grípa inn í þegar þarf en láta þau ekki afskiptalaus þó saklaus sýnist. Einelti brýst út vegna alvarlegra bresta í samskiptum og það er ekki eitthvað sem á sér stað á einni nóttu.

Skólar Garðabæjar byggja á góðum grunni. Grunni sem þarf að hlúa að líkt og öllu sem við viljum að vaxi og dafni og mæti fjölbreytileika samfélagsins í dag og þeim áskorunum sem eru margbreytilegar og verða flóknari samhliða þeim breytingum sem eiga sér stað í ört vaxandi samfélagi. 

Valfrelsið sem boðið er upp á í Garðabæ þar sem fjölskyldur geta valið skóla óháð því hverfi sem búið er í er til mikillar fyrirmyndar. En þó valfrelsið sé mikilvægt og eflir skólasamfélagið, þarf líka að vera vakandi yfir því þegar valfrelsið er nýtt til að flýja óþægilegar aðstæður. Valfrelsið, eitt og sér, kemur ekki í veg fyrir vanlíðan. Það er heldur ekki rétt úrræði til að bregðast við samskiptavanda í þeirri von að vandamálið hverfi í næsta skóla. 

Ég hef þegar óskað eftir að leik- og grunnskólanefndir Garðabæjar fundi saman, þar sem þessir þættir, verkferlar, úrræði og aðgerðarplön leik- og grunnskólanna verða rýndir. Það er okkar sameiginlega markmið að öllum börnum og ungmennum farnist vel. Uppvaxtarárin eru óendanlega dýrmæt og að þeim þarf að hlúa þannig að öll börn njóti óháð þeim hlutverkum sem þau taka í samskiptum sínum.

Höfundur er oddviti og fulltrúi Garðabæjarlistans í skólanefnd, Sara Dögg Svanhildardóttur

Categories
Fréttir

Ný stjórn Garðabæjarlistans

Á aðalfundi Garðabæjarlistans þann 14.október 2020 var kosin ný stjórn. Í henni sitja Baldur Ólafsson, Guðjón Pétur Lýðsson, Guðlaugur Kristmundsson, Margrét Rósa Kristjánsdóttir og Valborg Ösp Árnadóttir Warén.

Á fundinum var farið yfir starfsárið sem hefur verið litað af Covid-19 og takmörkunum tengdum því en fráfarandi stjórn fór yfir starfið.

Categories
Fréttir

Sagan enda­lausa

Fyrir ca.20 árum hófst umræðan um að byggja knatthús í Garðabæ. Það gekk illa að ákveða staðsetningu og í mars 2015 var haldinn íbúafundur um málið. Á þeim fundi komu fram nokkrar mögulegar staðsetningar fyrir knatthúsið og mörg áhugaverð sjónarmið sem voru rædd. Miðað við kostnaðargreiningu sem var lögð fyrir bæjarráð 19. maí 2015 var gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu hússins yrði á bilinu 650 – 1.850 milljónir króna og stefnt var að því að hefja framkvæmdir á því kjörtímabili. Í upphafi árs 2019 breyttist knatthúsið í fjölnota íþróttahús. Efnt var til samkeppni um hönnun og byggingu hússins í Vetrarmýri og í framhaldinu samið við ÍAV sem fékk 5 í einkunn fyrir hönnun og í alútboði átti verkið að kosta 4,3 milljarða. Það var áhugavert að sjá að húsið sem fékk 9,2 í einkunn fyrir hönnun og átti að kosta 4,6 milljarða varð ekki fyrir valinu.

Þann 3. maí 2019 var tekin fyrsta skóflustunga að byggingu hússins og áætluð verklok í apríl 2021. Á haustdögum 2019 var síðan kominn upp ágreiningur um grundun og í framhaldi hætti verktaki að vinna að verkinu, þá var Bleik brugðið. Í júní 2020 samþykkti meirihlutinn í bæjarráði samkomulag við verkataka um að halda áfram með verkið. Upphæðin sem ÍAV krefst er 405,2 milljónir fyrir það sem þeir telja aukaverk. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að gengiskostnaður af efni sem verktaki er að kaupa erlendis frá lendi á Garðabæ. Hvergi í alútboðsgögnum er minnst á gengisáhættu hjá verkkaupa(Garðabæ), þar er einungis miðað við breytingar á byggingavísitölu. Einnig greiðir Garðabær óafturkræfar 60 milljónir inn á þetta aukaverk. Það sem eftir stendur fer í gerðardóm þ.e.a.s. 228,2 milljónir. Ef úrskurður gerðardóms fer á versta veg getur samkomulagið kostað skattgreiðendur í Garðabæ ca. 340 milljónir. Í samkomulaginu eru gefnar eftir tafabætur sem hefðu reiknast sem 6 mánaða seinkunn og væru ca. 720 milljónir.

Á bæjarráðsfundi þann 23. júní gat ég ekki samþykkt þetta samkomulag og í kjölfarið lét ég bóka eftirfarandi: „Garðabæjarlistinn telur að ÍAV hafi haft allar upplýsingar þegar fyrirtækið tók þátt í alútboði um byggingu fjölnota íþróttahúss í Garðabæ. Í ljósi þessa er ekki hægt að samþykkja aukin útgjöld úr bæjarsjóði Garðabæjar vegna hönnunar og byggingu hússins. Einnig er óskiljanlegt að Garðabær ætli að samþykkja þetta mikla seinkun á afhendingu hússins án þess að rukka tafabætur. Að okkar mati hefur ÍAV ekki staðið við gerða samninga og þ.a.l. beðið mikla álitshnekki fyrir sitt framferði í þessu máli.“

Samkomulagið var svo tekið fyrir í bæjarstjórn þann 20. ágúst en þar hrósaði einn bæjarfulltrúi meirahlutans ÍAV sérstaklega fyrir að sinna hagsmunum sínum vel og í framhaldinum var samkomulagið samþykkt af meirihlutanum.

Að mínu mati er mikilvægt að skoða hvar ábyrgðin liggur í þessu máli. Einhvers staðar hljóta að hafa verið gerð mistök úr því að þetta verk var ekki inn í alútboði og mikilvægt að vita hvort þau mistök séu af hálfu Garðabæjar eða ÍAV. Það er því miður mjög algengt að útboð séu kærð og of oft eykst kostnaður verka miðað við útboð og nánast alltaf lendir þessi kostnaður á okkur skattgreiðendum.

En nú virðist sagan ætla að taka enda í desember 2021.

Ingvar Arnarson – Bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Hvetjandi eða letjandi al­mennings­sam­göngur í Garða­bæ?

Almenningssamgöngur gegna öllu jafna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu hverfa og hafa meðal annars áhrif á val fólks um búsetu. Í Garðabæ á mikil og hröð uppbygging sér stað vítt og breytt um sveitarfélagið sem hefur leitt til þess að íbúabyggð Garðabæjar er nokkuð dreifðari en áður var. Þetta á ekki síst við eftir að Garðabær sameinaðist Álftanesi og þar með öðrum byggðakjarna. Frá Álftanesi er nokkur spotti í nauðsynlega þjónustu, líkt og íþróttir og tómstundir barna og ungmenna eða í matvöruverslun. Annað nýtt hverfi í Garðabæ er Urriðaholtið, sem vex hratt og er svo komið að bæta þyrfti við nýjum leikskóla í hverfið sem allra fyrst, auk þeirra skóla sem þegar hafa risið.

Almenningssamgöngur í formi pöntunarkerfis

Þegar kemur að almenningssamgöngum í Garðabæ er víða pottur brotinn og tillögum minnihlutans um að bjóða öllum íbúum upp á sömu þjónustu hefur verið hafnað. Bæjarstjóri hefur sagt almenningssamgöngur nægjanlegar fyrir ungmenni til að stunda íþróttir og tómstundir innan sveitarfélagsins og því sé allt í góðu standi. En þegar betur er að gáð þá byggist sú þjónusta ýmist á pöntunarkerfi Strætó bs. eða á leigubílaaksti í boði sveitarfélagsins. Fáir virðast reyndar vita nokkuð um möguleikann á leigubílaakstri, enda eru engar upplýsingar um hann sjáanlegar á vef Garðabæjar.

Almenningssamgöngur og heilsueflandi samfélag

Í hverfi Garðabæjar, svo sem á Álftanesið og Urriðaholtið, flytjast fjölskyldur sem þurfa meiri þjónustu en verið er að veita. Skert þjónusta, t.a.m. í almenningssamgöngum, getur dregið úr ástundun barna og ungmenna í íþróttastarfi þegar erfitt er að komast á æfingar án þess að foreldrar þurfi í sífellu að skjótast úr vinnu til að standa í skutli. Slíkt getur ekki talist til fyrirmyndar í sveitarfélagi sem hefur kvittað upp á samfélagssáttmála um heilsueflandi samfélag. Skref í rétta átt væri að hafa góðar göngu- og hjólaleiðir frá þessum hverfum að íþróttaiðkun, a.m.k yfir sumartímann. Því miður er það ekki raunin.

Hver er framtíðarsýnin?

Nú liggja fyrir kostnaðaráætlanir frá Strætó um bætta samgönguþjónustu í Garðabæ. Annars vegar byggir hún á fastri áætlun sem tryggir ekki bara þjónustu heldur ýtir undir betri nýtingu á almenningssamgöngum til framtíðar. Hins vegar er gert ráð fyrir pöntunarkerfi sem er letjandi fyrir notendur og gerir ráð fyrir að börn og ungmenni þurfi að panta hverja ferð með því að hringja með góðum fyrirvara. Kostnaðurinn við fasta áætlun, sem hvetur til aukinnar notkunar til framtíðar virðist standa í meirihlutanum. Það skýtur svolítið skökku við þegar við sjáum viljann til framkvæmda á stóra sviðinu í eitt og annað þar sem betur mætti fara með almannafé á meðan engin metnaður er fyrir því að tryggja fjölbreytta samgöngukosti á milli hverfa í Garðabæ.

Góðar almenningssamgöngur eru hluti af þeirri þjónustu sem við viljum tryggja öllum íbúum í Garðabæ, svo vel sé.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Aftur til fortíðar?

Menntamálaráðherra hefur lagt til að aukin verði kennsla í íslensku og raungreinum í grunnskólum á kostnað valáfanga, m.a. á unglingastigi. Það er löngu tímabært að gera breytingar á viðmiðunarstundaskrá en þessar tillögur eru ekki til þess fallnar að auka frelsi skóla, kennara og nemenda.

Talað hefur verið fyrir mikilvægi þess að auka vægi verk- og listgreina í grunnskólum og að mæta nemendum af alvöru á þeirra áhugasviði til að styrkleikar þeirra á ólíkum sviðum fái að njóta sín. Einnig hefur verið talað fyrir frelsi skólanna, stjórnenda og kennara til að móta það nám sem boðið er upp á. Ráðherra bregst við kröfum um aukinn sveigjanleika og frelsi með tillögum um að draga úr sveigjanleika, draga úr frelsi og njörva enn frekar niður hversu mörgum mínútum skal varið í kennslu ákveðinna námsgreina.

Áfram er haldið í gömlu góðu stundatöfluna sem var svar menntakerfisins til að styðja við iðnbyltinguna og þau störf sem hún ól af sér. Á 21. öldinni kallar samfélagið á enn frekari færni í samskiptum og samvinnu, getu til að takast á við hið óþekkta og allar þær hröðu breytingarnar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Samt skal áfram halda tryggð við það sem þótti gott og mikilvægt fyrir það samfélag sem var að byggjast upp fyrir 100 árum.

Tillögur menntamálaráðherra ýta ekki undir mikilvægi fjölbreytileikans og gildi samþættingu námsgreina eða list- og verknáms. Orð og gjörðir fara ekki saman þegar enn og aftur er lagður aukinn þungi á bóknám.

Það er mikið áhyggjuefni að val á unglingastigi eigi að skerða um 3 kennslustundir á viku. List- og verkgreinar eiga nú þegar undir högg að sækja og þessar hugmyndir stangast verulega á við þungann í umræðunni hingað til, um að styrkja verði þær stoðir í skólakerfinu. Hér þarf að spyrja mikilvægra spurninga, eins og hvort það hafi verið kannað til hlítar hvaða áhrif tíminn sem hefur farið í hraðlestraræfingar og próf undanfarin ár hefur haft á íslenskufærni ungmenna.

Við vitum að fagþekkingu í stærðfræði og raungreinum er ábótavant í grunnskólunum og um það hefur verið rætt sérstaklega. Þar kreppir skóinn ekki síst. Því getur það ekki talist skynsamleg forgangsröðun að byrja á því að fjölga kennslustundum þegar skortur á kennurum til kennslunnar er eins aðkallandi og raun ber vitni.

Við höfum niðurstöður kennara sjálfra sem segjast ekki hafa þá fagþekkingu sem þarf til að kenna raungreinar af öryggi og þannig að viðunandi sé. Þar liggi hundurinn grafinn en ekki í því að þrengja þurfi svigrúm í viðmiðunarstundaskrá til þess að ná tilskyldum árangri í PISA.

Það er erfitt að sjá hvernig áherslur ráðherra á mikilvægi faglegs frelsis kennara og traust til kennara og skólasamfélagsins til að móta metnaðarfullt nám fyrir börn og ungmenni svo bragur sé að ríma við þessa ætlan. Þessi tillaga ber ekki vott um þá framtíðarmúsík sem ég veit að margir báru von um í brjósti að núverandi ráðherra styddi og myndi sýna það í verki.

Við verðum að tryggja fjölbreytt skólastarf sem styður við frelsi fagstéttarinnar til að skapa og gera. Til að skapa umhverfi sem er eftirsóknarvert að tilheyra í leik og starfi. Það er einfaldlega of mikið í húfi til þess að gera það ekki.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Mennta­kerfi fjöl­breyti­leikans

Nýverið birtist enn á ný frétt um vaxandi kynjahalla í skólakerfinu, drengir heltast úr lestinni strax á framhaldsskólastigi og konur eru mikill meirihluti þeirra sem stunda háskólanám.

Afturblik?

Menntamálaráðherra talar um að bregðast verði hratt og örugglega við og mælir fyrir umbótum, sérstaklega á neðri stigum menntakerfisins, grunn- og framhaldsskólum. Meðal aðgerða sem ráðherra hefur lagt til er að fjölga mínútum í íslensku og náttúrugreinum. Sú breyting hefur hlotið mikla gagnrýni sem verður vonandi til þess að ráðherra taki ákvörðunina til endurskoðunar.

Að fanga viðfangsefnið

Mig langar hins vegar til þess að hvetja ráðherra til þess að horfa til djarfari breytinga og hvetja kennara og skólastjórnendur til þess að taka stærri skref strax til að ná fyrir þann vanda sem brottfall er meðal drengja en ekki síður til að ná til nemenda af erlendu bergi brotin. Öll þekkjum við umræðuna og ákallið um að styrkja þurfi verk- og listgreinar á öllum skólastigum. Ákall sem sífellt verður háværara án úrbóta. Það þarf að skapa skólakerfinu svigrúm til breytinga og leggja upp með ólíkar leiðir innan grunnskólanna til þess að börn og ungmenni fái tækifæri og hafi val um gott og vandað nám við hæfi. Einhverjir skólar gætu þá boðið upp á fleiri mínútur í íslensku eða raungreinum. En aðrir gætu fengið svigrúmið til að bæta við kennslu í verk- og listgreinum og auka aðgengi að tækninámi á fyrstu stigum skólakerfisins. Það skiptir nefnilega máli að sá fræjum.

Svigrúm til breytinga þarf bæði að ná til námsefnis en ekki síður námsumhverfisins. Að ýta undir fjölbreytt umhverfi sem sprettur upp við ólíka hugmyndafræði. Allt of fáir reyna nýjar leiðir í námsumhverfinu sjálfu. Kennslustofa með stólum og borðum er eitthvað sem allir kannast við og svo eru einhverjar kynslóðir sem minnast heimakróksins sem var ákveðin bylting í því umhverfi sem farið var að bjóða upp á. En fleira stendur til boða og börn og ungmenni þurfa ólíka nálgun að námi og að því þarf að hlúa sérstaklega.

Framtíðin er núna

Menntastefna til ársins 2030 þarf að vera framsækin sem aldrei fyrr, með skýrt markmið um jafnrétti og jafnan aðgang til náms. Hún þarf að mæta örum breytingum samfélagsins þar sem tækni spilar orðið stærra hlutverk í okkar daglega lífi, hvort sem við horfum til persónulegra nota og leiða til samskipta eða þegar horft er til opinberrar þjónustu sem þokast í átt til stafrænna lausna. Í þessu umhverfi þarf að horfa til þess hvernig við nálgumst viðfangsefnið með hagsmuni allra nemenda í huga.

Stafræna byltingin skapar enn betra tækifæri til þess að snúa vörn í sókn og efla áherslu á tækni, verk- og listgreinar því allt styður þetta hvert annað. Fjölbreytt menntakerfi þar sem gefið er faglegt svigrúm til þess að mæta ólíkum þörfum og áhuga barna og ungmenna og allra kynja skiptir máli þegar hugað er að breytingum til framtíðar. Breytinga sem eiga að gefa fleirum tækifæri til að öðlast færni og þekkingu i styrkleikum sínum. Þannig sköpum við samfélag sem er samkeppnishæft til lengri tíma. Það skiptir máli.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans