Categories
Fréttir

Grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum Garðabæjar

Á bæjarstjórnarfundi, fimmtudaginn 7. apríl, var lögð fram sameiginleg tillaga bæjarfulltrúa Garðabæjarlistans og Sjálfstæðisflokksins um grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum bæjarins. Tillagan var samþykkt samhljóða en hún hljóðar svo;

,,Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkir að fela fræðslu- og menningarsviði að taka saman minnisblað um fýsileika  þess að bjóða nemendum  upp á grænmetis- og ávaxtastund í grunnskólum bæjarins. Minnisblaðið verði tekið til umræðu við gerð fjárhagsáætlun fyrir árið 2023.” 

Í greinargerð er fylgdi tillögunni segir m.a. að með því að bjóða upp á grænmetis- og ávaxtastund (nesti) sé verið að létta undir með barnafjölskyldum. Grænmetis- og ávaxtastund komi í staðinn fyrir nestistíma og þurfa nemendur því ekki að mæta með nesti í skólann. Samráð skuli haft við skólastjórnendur og ungmennaráð um framkvæmd og fýsileika ofangreindrar tillögu. 

Garðabær er heilsueflandi bæjarfélag sem leggur áherslu á að börnum bjóðist næring sem uppfyllir ráðleggingar og viðmið um mataræði og næringarefni. Í aðgerðaráætlun með lýðheilsu og forvarnarstefnu Garðabæjar kemur fram að bæta þurfi framboð af hollum mat í mötuneytum skóla. Lýðheilsuaðgerð sem þessi er til þess fallin að auka neyslu á grænmeti og ávöxtum. Í skólum bæjarins er mikilvægt að huga að fæðuvenjum barna og með þessu getum við lagt grunn að mataræði sem hefur áhrif á andlega og líkamlega heilsu til framtíðar.

Ingvar Arnarson, bæjarfulltrúi
Harpa Þorsteinsdóttir, bæjarfulltrúi
Sigríður Hulda Jónsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður skólanefndar
Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs

Categories
Fréttir

Fjöl­breytni til fram­tíðar í Garða­bæ

Fjölbreytni er mikilvægt leiðarstef í sýn Garðabæjarlistans fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Fjölbreytt samfélag er sannarlega verðugt markmið í sjálfu sér og ákall okkar um aukna fjölbreytni nær til margra málaflokka sveitarfélagsins. Hugtakið er þannig mikilvægur hlekkur í stefnu Garðabæjarlistans í meðal annars menningarmálum, íþrótta- og æskulýðsmálum og mannréttindamálum. Hér mun ég tæpa á því helsta sem viðkemur fjölbreytni í húsnæðisuppbyggingu og í samgöngum.

Garðabær er á tímamótum. Mikil fólksfjölgun hefur orðið í bænum að undanförnu og frekari uppbygging er fyrirhuguð. Það er mikilvægt að tækifærin sem bærinn hefur núna séu nýtt til þess að mæta þeim þörfum sem samfélagið okkar hefur. Það á að vera hægt að leigja í Garðabæ. Það á að vera hægt að kaupa sína fyrstu eign í Garðabæ. Það er tímabært að kynslóðirnar geti allar búið saman í bænum, óháð aldri og tekjum. Við þurfum fjölbreyttari valkosti.

Fjölbreytni í húsnæðisuppbyggingu þýðir ekki einungis að byggja þurfi bæði fjölbýli og sérbýli, íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði, heldur einnig að dágóður hluti uppbyggingarinnar fari til óhagnaðardrifinna leigu- og búseturéttarfélaga, í félagslegt húsnæði og í húsnæði sem sérstaklega er ætlað ungu fólki. Þetta hefur skort lengi í Garðabæ og skökk íbúasamsetningin, þar sem fólk á aldrinum 20-40 ára vantar hlutfallslega í bæjarfélagið, er afleiðing þeirrar einsleitnisstefnu sem rekin hefur verið leynt og ljóst í Garðabæ síðustu áratugina. Samhliða þessu þarf að standa vörð um sérstöðu hverfa og tryggja greitt aðgengi íbúa að grænum svæðum og þeirri stórkostlegu náttúru sem umlykur okkur hér í bænum.

Samgöngur eru annar málaflokkur þar sem Garðabær þarf nauðsynlega að taka skref í átt að fjölbreytni. Líkt og í flestum sveitarfélögum landsins hefur ósagða stefnan verið sú að gera fólki á einkabíl lífið eins auðvelt og hægt er. Garðabæjarlistinn leggur áherslu á að fjölbreyttir, virkir og vistvænir ferðamátar verði líka raunverulegur valkostur fyrir íbúa og að innviðir séu byggðir upp og framkvæmdum forgangsraðað með það í huga. Börnin okkar eiga að komast fótgangandi á öruggan hátt í skóla og frístundir. Fólk á að eiga þess kost að geta hjólað í vinnuna á þægilegum og aðgreindum hjólastígum. Við eigum ekki öll að þurfa tvo bíla á heimili til að geta komist í gegnum hversdagsleikann.

Það er langtímaverkefni að koma upp öruggum og skilvirkum innviðum fyrir virka ferðamáta um allt bæjarfélagið, en við þurfum að taka skrefin. Það er staðreynd að það kjósa æ fleiri að nýta virka ferðamáta, við hvetjum börnin okkar til þess að hjóla í skólann, í sund eða í frístundir. Það er gleðiefni að æ fleiri kjósa að nota reiðhjól, rafhjól og rafmagnshlaupahjól til þess að fara á milli staða en það skiptir máli að innviðir styðji við þessa jákvæðu þróun. Garðabæjarlistinn vill koma upp yfirbyggðum, öruggum og myndavélavöktuðum skýlum fyrir minni farartæki við alla skóla og íþróttamannvirki og styðja þannig við fjölbreytni í samgöngum með alvöru aðgerðum – og fækka mögulega nokkrum ‘hjólinu var stolið’ póstum á íbúasíðum Garðabæjar í leiðinni.

Garðabær stendur á krossgötum og tækifærin eru fyrir hendi. Þann 14. maí nk. fáum við að velja hvernig samfélagið okkar á að líta út til framtíðar. Garðabæjarlistinn velur fjölbreytni, í allri sinni stórkostlegu mynd, og við óskum eftir umboði Garðbæinga til þess að vinna henni veg í bæjarstjórn á næsta kjörtímabili.

Höfundur er oddviti X-G, Garðabæjarlistans.

Categories
Fréttir

Störf umhverfisnefndar, stiklað á stóru

Það má segja að umhverfisnefnd hafi verið nokkuð samstíga s.l. fjögur ár. Ég hef þá pólitísku sýn að þegar kosningum er lokið og fólk fer að vinna saman í ráðum og nefndum eigi að leggja flokkapólitík til hliðar og ráðamenn eigi að vinna saman að velferð samfélagsins en ekki rakka allt niður sem andstæðingur í pólitík leggur til. Þannig hef ég reynt að vinna þau ár sem ég hef starfað í nefndum fyrir Garðabæ og hef átt ágætis samstarf við samstarfsfólk mitt. Að mörgum úrbótum hefur verið unnið á kjörtímabilinu. Hér er talið upp það helsta.

Loftslagsmálin og heimsmarkmiðin hafa vegið þungt á þessu kjörtímabili. Loftslagsstefna hefur litið dagsins ljós og verður hún rýnd á hverju ári og bætt inn í beinagrindina, ef svo má að orði komast. Garðabær mun draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna eigin reksturs um samtals 33% fram til ársins 2030. Við í Garðabæjarlistanum hefðum kosið metnaðarfyllra markmið, eða um 50% eins og vísindin ráðleggja, en fáum þau svör að það sé ekki raunhæft.

Flokkun á sorpi skipar stóran sess í loftslagsmálum en þar eigum við verk að vinna, en t.d. hefur flokkun á lífrænum úrgangi ekki enn verið tekin upp í Garðabæ. Það horfir þó til betri vegar með samræmdri meðhöndlun úrgangs á suðvesturhorninu sem er löngu tímabær. Stefnt er að innleiðingu ekki síðar en um næstu áramót. Þessu ber að fagna og kemur vonandi til með að skila enn hærra hlutfalli af sorpi sem fer í endurnýtingu.

Garðabær gegn sóun, innkaupa- og úrgangsstefna Garðabæjar, var samþykkt í september 2019. Virkjuð voru græn teymi innan stofnana til að þróa og fylgja eftir markmiðum stefnunnar. Þetta ætti bæði að minnka sóun og kostnað stofnana. Miklar væntingar eru bundnar við þetta góða framtak. Smám saman erum við að fikra okkur inn í framtíðina hvað orkuskipti varðar. Nítján hleðslustöðvar fyrir rafbíla hafa verið settar upp á víð og dreif um bæinn og rafhlaupahjólaleiga tekin í notkun.

Fylgst er vel með mengun í vötnum, lækjum og við strandir Garðabæjar og mælingar teknar vor og haust. Í þessum mælingum eru nokkrir staðir sem koma alltaf fremur illa út og það þarf að ráðast í átak til að koma í veg fyrir að skólp komist í læki. Hér komum við almenningur sterkt inn, en borið hefur á að fólk hafi losað ýmsa mengandi vökva í niðurföll við hús sín. Við verðum öll að vera meðvituð um að það gengur ekki. Einnig er alltaf eitthvað um það að saurgerlar mælist í sjó við strandir. Rannsóknir á lífríki Vífilstaðavatns og Urriðavatns eru til skoðunar.

Garðabær hefur verið duglegur að friðlýsa mikilvæg verndarsvæði. Á þessu kjörtímabili hafa Hlið á Álftanesi og Búrfell, Búrfellsgjá og eystri hluti Selgjár bæst í þann flokk. Í undirbúningi hjá Umhverfisstofnun er Garðahraun efra, neðra Vífilstaðahraun og Maríuhellar ásamt Urriðakotshrauni.

Tillögur Garðabæjarlistans sem hlotið hafa brautargengi hjá meirihlutanum eru; að veita fyrirtækjum og einstaklingum viðurkenningu sem ná góðum árangri í að minnka plastsóun, að flokka, endurnýta og sporna við matarsóun og að flýta LED-væðingu lýsingar í Garðabæ um fjögur ár, en það sparar mikinn kostnað. Tekið var vel í tillögu okkar um upphækkun og lagningu göngustígs við Suðurstrandarveg en í dag er þar eingöngu reiðstígur. Málið virðist hafa dagað uppi hjá umhverfis- og tæknisviði.

Fræðslu og sögugöngur hafa því miður lagst af í bili vegna aðstæðna í samfélaginu en vonandi verður þráðurinn tekinn upp að nýju þegar aðstæður leyfa.

Umhverfismál hafa alltaf skipt miklu máli en líklega aldrei meira máli en í dag vegna þeirrar loftslagsvár sem steðjar að heiminum. Það þarf stöðugt að stoppa þá af sem engu eira þegar gróði er annars vegar. Landið okkar er dýrmætt og þarf sinn málsvara. Við í Garðabæjarlistanum höfum staðið vaktina í umhverfisnefnd og bæjarstjórn á kjörtímabilinu og munum svo sannarlega halda áfram að leggja okkar af mörkum í þágu náttúrunnar á því næsta.

Sveinbjörg Vilhjálmsdóttir fulltrúi Garðabæjarlistans í umhverfisnefnd.

Categories
Fréttir

Garðabær framtíðarinnar

Garðabær er merkilegur bær fyrir margra hluta sakir. Nálægð við náttúruperlur, rík saga, frábærir skólar, öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf og auðvitað fólkið sjálft eru þeir þættir sem vega hvað þyngst í því að fólk velur að búa hér. Það er yndislegt að búa í Garðabæ. Garðabæjarlistinn veit þó að með nýrri og ferskri forgangsröðun má gera bæinn enn betri til framtíðar, fyrir okkur öll.

Í Garðabæ framtíðarinnar getur ungt fólk loksins keypt sér húsnæði vegna þess að í bænum eru byggðar hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk, og þar sem samningar kveða á um hámarkshækkun á endursöluverði munu næstu ungu kaupendur hverrar eignar einnig njóta hagstæðra kjara. Vegna fjölbreyttrar uppbyggingar munu Garðbæingar geta leigt íbúð í sveitarfélaginu eða fengið búseturéttaríbúð, t.d. ef þeir komast ekki inn á húsnæðismarkaðinn eða ef þeir þurfa að hverfa af húsnæðismarkaði þegar aðstæður fjölskyldna breytast.

Uppbygging innviða í Garðabæ framtíðarinnar tekur mið af íbúaþróun og bærinn er meðvitaður um að helstu nauðsynjar og þjónusta á borð við leik- og grunnskóla eiga helst að vera aðgengilegar í fimmtán mínútna göngufjarlægð frá heimilum fólks. Leikskólagjöld eru hófleg og hugað er sérstaklega að félagslegri einangrun ungmenna með sértæku hópastarfi á borð við hinsegin félagsmiðstöð í sérstöku ungmennahúsi.

Í Garðabæ framtíðarinnar er tekjum sveitarfélagsins forgangsraðað þannig að uppbygging á fjölbreyttum samgöngum er sett í öndvegi. Börn geta hjólað á öruggum stígum bæjarhluta á milli, fólk getur tekið strætó ef það vill og gangandi vegfarendur á öllum aldri njóta góðs af minni umferðarhraða og aðgreindum hjóla- og göngustígum. Garðbæingar þurfa ekki að nota bílinn sinn frekar en þeir vilja og geta lagt sitt af mörkum til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum, enda tekur Garðabær fullan þátt í því verkefni að forða mannkyni frá loftslagshamförum.

Í Garðabæ framtíðarinnar er fólki sem á þarf að halda tryggt öruggt húsnæði á vegum bæjarins. Uppbygging félagslegra úrræða er ekki lengur nær eingöngu á höndum nágrannasveitarfélaga, heldur tekur Garðabær stoltur þátt í að grípa það fólk sem höllustum fæti stendur, reisa það við og styðja. Í Garðabæ framtíðarinnar er framúrskarandi þjónusta við fatlað fólk og aðgengismál alltaf höfð í huga við framkvæmdir. Bæjarbúar í Garðabæ framtíðarinnar geta verið stoltir af þeirri félagslegu þjónustu sem er veitt.

Í Garðabæ framtíðarinnar er Garðatorg blómleg miðstöð menningarlífs og verslunar, þar sem fólk situr úti með drykk á góðviðrisdögum og nýtur samveru með skemmtilegu fólki. Menningarhús Garðabæjar heldur úti fjölbreyttri dagskrá fyrir alla aldurshópa og mannlífið blómstrar.

Garðabær framtíðarinnar tekur utan um og ýtir undir sérstöðu hverfa sinna, eflir þau og styrkir. Þar fá félagasamtök og íþróttafélög sambærileg framlög og áhuga frá sveitarfélaginu, óháð því hvar þau eru í bænum. Í Garðabæ framtíðarinnar finnum við nefnilega öll að við tilheyrum heildinni og erum samstíga í því að búa til umhverfi þar sem allir hafa tækifæri til þess að blómstra á eigin forsendum.

Garðabæjarlistinn hefur skýra framtíðarsýn og er tilbúinn til að fylgja henni eftir. Við bjóðum Garðbæingum með okkur í þessa vegferð og hlökkum til kosningabaráttunnar sem framundan er. Saman getum við skapað enn betri Garðabæ.

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí nk.

Categories
Fréttir

Allt er gott sem endar vel

Nú er komið að því að taka knatthúsið Miðgarð í notkun. En sagan að baki þessa mannvirkis er ansi löng eða yfir 25 ár. Ég kannast nokkuð vel við þessa sögu og man vel þegar fyrstu umræður um knatthús voru að fara af stað. Þá var einmitt verið að ræða staðsetningu og stærð. En fyrir sveitarstjórnarkosningar 1998 tók ég þátt í að mynda framboð með ungu fólki sem var með þetta efst á sinni stefnuskrá. Við unnum eftir settum lögum og reglum, mótuðum framboðslista og söfnuðum meðmælendum. Ég hafði þá fengið það hlutverk að leiða listann aðeins 19 ára gamall. Við mættum með öll okkar skjöl, undirrituð og klár á bæjarskrifstofur Garðabæjar og ætluðum að leggja þau inn fyrir tilsettan tíma þannig að allt væri löglegt. Þar var ekki vilji til að taka við gögnunum og okkur tjáð að koma seinna. Það sem gerðist eftir það var eitt það furðulegasta sem ég hef upplifað. Nokkur af þeim sem voru skráðí framboð vildu hætta við og drógu sum framboð sitt til baka. Seinna kom í ljós að þeir aðilar höfðu fengið orð í eyra og í þeim orðum hefði legið hótun um framtíð viðkomandi hjá íþróttafélagi bæjarins ef farið yrði í framboð. Þá var einnig lofað að þetta yrði eitt af þeim málum sem Sjálfstæðisflokkurinn myndi taka upp á sína arma og klára ef ekki yrði af framboðinu.  Með þessu athæfi tókst að draga úr krafti unga fólksins á þeim tíma til að hafa áhrif og áhuginn kæfður í fæðingu. 

Eftir að málið var búið að liggja hjá bæjarstjórn í nokkurn tíma, kom fram sterkur hópur árið 2014 sem vildi þrýsta á byggingu knatthúss á Ásgarðssvæðinu. Haldin var opinn fundur með bæjarbúum um nokkrar tillögur að staðsetningu og málin rædd. Þar vakti þó athygli að í öllum tillögum var húsið í litum umhverfis nema þegar að sýnd var staðsetning á Ásgarðssvæðinu. Þá var húsið litað gult og féll mjög illa inn í umhverfið. Þrýstihópurinn var mjög duglegur og lausnamiðaður og kom meðal annars með svipaða lausn að umferðarmálum við Flataskóla og Ásgarð líkt og búið er framkvæma núna. Það má með sanni segja að þessi hópur hafi hreyft við málinu.

Miðað við kostnaðargreiningu sem var lögð fyrir bæjarráð 19. maí 2015 var gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu hússins yrði á bilinu 650 – 1.850 milljónir króna og stefnt var að því að hefja framkvæmdir á því kjörtímabili. Í upphafi árs 2019 breyttist knatthúsið í fjölnota íþróttahús. Efnt var til samkeppni um hönnun og byggingu hússins í Vetrarmýri og í framhaldinu samið við ÍAV sem fékk 5,0 í einkunn fyrir hönnun og í alútboði átti verkið að kosta 4,3 milljarða. Það var áhugavert að sjá að húsið sem fékk 9,2 í einkunn fyrir hönnun og átti að kosta 4,6 milljarða varð ekki fyrir valinu. Þann 3. maí 2019 var tekin fyrsta skóflustunga að byggingu hússins og áætluð verklok í apríl 2021. Á haustdögum 2019 var síðan kominn upp ágreiningur um grundun og í framhaldi hætti verktaki að vinna að verkinu, þá var Bleik brugðið.

En núna í febrúar 2022 er komið að því. Húsið á að taka í notkun og er það stór dagur í sögu okkar Garðbæinga. Nú þarf að kappkosta að samgöngur til og frá húsinu verði sem fjölbreyttastar. Við þurfum að hafa göngustígakerfi sem tengir húsið við aðra hluta bæjarins ásamt því að tryggja almenningssamgöngur gangi til og frá húsinu. Einnig þarf að huga að nýtingu þess og gefa öllum skólum bæjarins tækifæri á að komast að í húsinu sé vilji til þess. Gleymum þó aldrei að húsið er fjölnota.

Til hamingju Garðbæingar!

Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi

Categories
Fréttir

Ópið úr Garðabænum

Það er vel þekkt að í Garðabæ hefur það verið markmið í sjálfu sér að halda útsvarsprósentunni niðri.

Öll viljum við íbúum það besta hvort heldur sem er í þjónustu eða álögum. En þegar jafnvægis er ekki gætt og halla fer á gæði þjónustunnar er hætt við að slík viðmið komi rekstri sveitarfélags í óefni að ekki sé talað um mikilvæga þjónustu.

Það er okkar sveitarstjórnarfólks að tryggja íbúum framúrskarandi þjónustu og sterka innviði í jafnvægi við fjárhagslega getu. En þegar eitt lægsta útsvar sem fyrirfinnst stendur ekki lengur undir nauðsynlegum innviðum og skyldum gagnvart íbúum, hljóta þau sem völdin hafa að þurfa að endurskoða áherslur sínar.

Sjálfstæðismenn í Garðabæ eru læstir í fortíðinni og eiga erfitt með að horfast í augu við hinn nýja Garðabæ. Garðabæ nútímans.

Í Garðabæ hefur íbúum fjölgað mikið og samhliða hefur íbúasamsetning breyst. Þjónusta við fatlað fólk er orðinn stærri þáttur en áður og barnafjölskyldum fjölgar hratt sem kallar á hraða uppbyggingu leik- og grunnskóla.

Þetta hafa Sjálfstæðismenn illa skilið og hafa hvorki haft áætlanir um að mæta aukinni þörf um þjónustu né hvernig auka skuli tekjur til að standa undir þeirri þjónustu.

Viðkvæðið hjá Sjálfstæðismönnum í Garðabæ hefur verið að nú þrengi að og skortur á fjármagni til reksturs sé áþreifanlegri en áður. Eina leiðin til að bregðast við þeirri stöðu sé að kalla eftir fjárhagsaðstoð frá ríki.

Svo hátt fer sú krafa að mörgum þykir nóg um. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur haft orð á því að ekki sé óeðlilegt að öðru sveitarstjórnarfólki þyki nóg um ópin úr Garðabænum.

Sjálfstæðismönnum í Garðabæ þykir það gott og gilt að íbúar annarra sveitarfélaga leggi Garðabæ til fé í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, því Garðabær hafi hvorki ofan í sig né á. En eru ekki færir um að líta sér nær og horfast í augu við skekkjuna sem þeir hafa skapað.

Categories
Fréttir

Val­frelsi í orði en ekki á borði

Í Garðabæ eiga foreldrar að hafa frjálst val um skóla fyrir börn sín. Það valfrelsi hefur verið ríkjandi um langt skeið og byggir á mikilvægri, framsækinni, pólitískri ákvörðun sem var tekin í mun einfaldara og minna samfélagi en við búum í núna. Skólar í rekstri sveitarfélagsins voru þrír, tveir þeirra eingöngu ætlaðir yngsta og miðstigi grunnskólans og einn safnskóli fyrir alla unglinga sveitarfélagsins. Að auki voru tveir sjálfstætt starfandi skólar, sem foreldrar gátu valið án viðbótar kostnaðar. Valið var skýrt, annars vegar sjálfstætt starfandi skóli og hins vegar hverfisskóli á yngsta og miðstigi grunnskólans.

Nú er öldin allt önnur. Garðabær er annað og stærra sveitarfélag, nýtt hverfi byggist upp á ógnarhraða og uppbygging á fleiri nýjum hverfum í undirbúningi. Íbúum hefur fjölgað hratt og fjölskyldur velja Garðabæ til búsetu vegna þess að þær reikna með að íbúar hafi áfram val um skóla, óháð því í hvaða hverfi sveitarfélagsins þær kjósa að búa. En er það svo? Hafa foreldrar raunverulegt val um skóla af sömu gæðum, skóla sem bjóða upp á sambærilegt námsval og þær aðstæður sem þykja bestar fyrir fjölbreytilegan nemendahóp?

Mistök við hraða uppbyggingu

Við sem höfum kosið að starfa fyrir íbúa sveitarfélagsins vitum að það sem skiptir öllu máli fyrir barnafjölskyldur er nálægð við leik- og grunnskóla, íþrótta- og tómstundastarf, samfellan í degi barnanna og öryggi í samgöngum. Því miður sjáum við að ýmislegt hefur farið úrskeiðis við þessa hröðu uppbyggingu þegar litið er til raunveruleikans sem blasir við í Urriðaholtinu. Þar er ekki við neinn að sakast nema meirihluta bæjarstjórnar, sem hafði öll tækifæri til að standa undir væntingum íbúanna. Meirihlutinn hefði hæglega getað byggt þjónustu upp hraðar en hefur kosið að gera það ekki, því skuldahlutfall og skuldaviðmið í rekstri sveitarfélagsins hafa verið langt undir viðmiðum og útsvarsprósenta í algjöru lágmarki.

Tækifærin á kjörtímabilinu til að gera betur blöstu við. Hæglega hefði mátt taka lán eða hækka útsvar tímabundið til að mæta óvenju hraðri íbúafjölgun, en þar virðist bæði hafa skort vilja og kjark. Vissulega sogaði bygging fjölnota íþróttahúss til sín um 5 milljarða króna, en við höfðum samt svigrúm til að gera betur.

Meirihlutinn kaus hins vegar að halda samfélaginu í einhvers konar gíslingu gamalla ákvarðana. Þær skulu standa, án nokkurrar rýni eða endurskoðunar um í hverju valfrelsið felst í raun og veru. Það er nefnilega bara í orði, en ekki á borði. Unglingarnir, um 40 ungmenni geta ekki stundað nám í hverfinu sínu.

Þeir hafa ekkert val.

Veljum raunverulegt val og alvöru uppbyggingu nýrra hverfa

Þetta ráðaleysi hefur að sjálfsögðu þær afleiðingar, að ýta undir brotthvarf fjölskyldna úr nýja hverfinu. Nærþjónusta við barnafjölskyldur er einfaldlega léleg. Leikskólarými vantar og grunnskólinn er ekki byggður upp á þeim hraða sem þörf er á til að tryggja þetta margumrædda valfrelsi, gæði og möguleika á samfellu skóla, íþrótta- og tómstundastarfs. Þegar þetta skortir leitar barnafólk eðlilega annað.

Hlutverk kjörinna fulltrúa er að tryggja að samfélagið og hinar ýmsu stofnanir þess og kerfi gangi hnökralaust, í þágu íbúanna. Þegar við blasir að það hefur mistekist er ekki í boði að leggja árar í bát. Þvert á móti, við verðum að leggjast fastar á þær og sýna að í Garðabæ er hægt að hafa góða þjónustu fyrir íbúana og alvöru valfrelsi um skóla.

Sara Dögg Svanhildardóttir

Categories
Fréttir

Bless 2021

Nú þegar árinu 2021 er lokið er ekki úr vegi að horfa til baka. Við í Garðabæjarlistanum höfum lagt okkar lóð á vogarskálarnar í bæjarmálunum. Okkar fólk í nefndum á vegum bæjarins hefur staðið vaktina og unnið að góðum málum fyrir íbúa Garðabæjar. Við höfum unnið að stefnumótun, sett mál á dagskrá og talað fyrir málefnum bæjarbúa innan stjórnsýslu Garðabæjar.

Nefndarvinna á þessu ári hefur líkt og hjá öðrum verið ýmist unnin á fjar- eða staðfundum. Starfsfólk Garðabæjar hefur verið mjög lausnamiðað í sinni vinnu á þessum tímum. Vil ég sérstaklega skila þökkum frá okkur í Garðabæjarlistanum til þeirra. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að halda uppi starfi í stofnunum bæjarins við slíkar aðstæður. Þar sem ég á börn bæði í leik- og grunnskólum bæjarins er ég virkilega ánægður með hvernig því starfi hefur verið haldið gangandi og faglega unnið að málum í gegnum stöðugar breytingar á sóttvarnarreglum.

Þó svo að margir minnist ársins 2021 sem hörmunga árs trúi ég því að það séu bjartir tímar framundan. Árið hefur vissulega verið krefjandi fyrir marga en einnig lærdómsríkt. Á síðasta ári ákvað ég að söðla um og fara í leyfi frá kennslu í FG. Í haust hóf ég nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands. Það hefur verið virkilega áhugavert að setjast á skólabekk og þá sérstaklega við þessar aðstæður og hef ég nú þegar lært margt sem nýtist í starfi og leik. Það er ekki öfundsverð staða sem unga fólkið okkar hefur verið sett í í gegnum faraldurinn. Nú hef ég bæði reynslu af þeirri stöðu sem kennari framhaldsskóla og nemandi í háskóla og hef töluverðar áhyggjur af þeim áhrifum sem þessi faraldur hefur haft. Við þurfum að vinna vel að þessum málum og hlúa að unga fólkinu.

Mig langar til að minnast góðs félaga sem lést í lok árs. Jón Fr. Sigvaldason flutti í Garðabæ 1963 en þau hjónin byggðu sér hús í Faxatúni 32, þar sem Jón bjó til æviloka. Jón tók þátt í ýmsu félagsstarfi í Garðabæ, hann vann að mörgum góðum málum fyrir Garðbæinga. Tók þátt í uppbyggingu safnaðarheimilisins o.fl. Jón var með sterka réttlætiskennd og barðist fyrir mörgum málum, má þar t.d. nefna afslátt eldri borgara á fasteignagjöldum. Jón var mikill sagnabrunnur og virkilega gaman að hlusta á sögurnar hans. Hafðu þökk fyrir góð kynni og samstarf.

Við í Garðabæjarlistanum erum komin á fullt að skipuleggja starfið framundan og hlökkum til ársins. Ég hvet þá sem eru áhugasamir um bæjarmálin að setja sig í samband við okkur. Framundan er kosningavor og tilvalið fyrir þá sem brenna fyrir málefni að setja þau á dagskrá með okkur.

Gleðilegt nýtt ár!
Ingvar Arnarson

Categories
Fréttir

Skattahækkanir í Garðabæ

Á bæjarstjórnarfundi þann 2.desember samþykkti meirihlutinn fjárhagsáætlun fyrir árið 2022. Ég kaus á móti og bókaði eftirfarandi.

Gjöld eru líka skattar, en í Garðabæ eru gjöld á barnafjölskyldur með því hæsta sem þekkist á byggðu bóli á Íslandi. Við í Garðabæjarlistanum fögnum því að aðeins eigi að hækka gjaldskrár um 2,5% eða allavega fram yfir kosningar, því að Sjálfstæðisflokkurinn hefur nefnt að þau vilji skoða að hækka gjaldskrár aftur í haust.

Nú á að reyna að telja bæjarbúum trú um að verið sé að lækka greiðslu skatta með því að lækka álagningu fasteignaskatts úr 1,85% niður í 1,79%. Því miður verður það ekki til þess að lækka greiðslu fasteignaskatts, greiðslan mun hækka þar sem að fasteignamat í Garðabæ hækkar á bilinu 9% – 17% á milli ára. Álagningarhlutfallið lækkar en skatturinn hækkar.

Tökum smá dæmi um eign þar sem fasteignamat hækkar um 14% á milli ára: Eign sem var með fasteignamat upp á 100 milljónir fyrir árið 2021 borgar þá 100 milljónir x 1,85% = 185.000kr. Árið 2022 verður álagning fasteignaskatts svona: 114 milljónir x 1,79% = 204.000kr. Þrátt fyrir lækkaða álagningu munu eigendur fasteigna í Garaðabæ samt sem áður borga mun meira í fasteignaskatta árið 2022. Til að bæta gráu ofan á svart hefur meirihlutinn ákveðið að hækka sorphirðugjaldið úr 41.000kr í 49.000kr. Þess má geta að árið 2020 var gjaldið 31.000kr.
Við í Garðabæjarlistanum höfum lagt áherslu á mörg mál á þessu ári og má þar helst nefna systkina- og fjölgreinaafslátt í íþróttum- og tómstundum, að uppbygging leikskóla sé í takt við íbúaþróun, að byggja upp almenningssamgöngur fyrir íbúa, auka heilsueflingu fyrir eldri borgara og margt fleira.

Nú síðast lögðum við fram tillögu um átak í fjölgun félagslegs leiguhúsnæðis. Sú tillaga var ekki samþykkt. Því miður höfum við ekki staðið okkur sem skyldi í þeim málum hérna í Garðabæ og þá sérstaklega í ljósi þess að fjölgað hefur á biðlistum eftir félagslegu leiguhúsnæði, fáir fengið úthlutað og lítið verið bætt við af íbúðum í eigu bæjarins. Í úttekt Kjarnans frá 2018 á félagslegu leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu kemur meðal annars fram að í Reykjavík eru tæplega 20 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa og í Kópavogi eru þær tæplega 13. Í Hafnarfirði eru þær um átta. Einnig kemur fram í úttektinni að þrjú sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu taki mun minni þátt í því að sjá þurfandi fólki fyrir félagslegu húsnæði. Í Garðabæ voru tæplega tvær félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa, í Mosfellsbæ voru tæplega þrjár á hverja þúsund íbúa og á Seltjarnarnesi um 3,5 félagslegar íbúðir á hverja þúsund íbúa.Síðan 2018 hefur íbúum Garðabæjar fjölgað og lítið verið bætt við af félagslegu leiguhúsnæði, þannig að út frá núverandi gögnum á Garðabær ca. 1,6 íbúðir á hverja þúsund íbúa árið 2021.

Ingvar Arnarson

Categories
Fréttir

Kofabyggðirnar

Nú á dögunum kom fram hugmynd frá meirihlutanum að reisa færanlegar kennslustofur við Sunnuhvol á Vífilsstöðum til að fjölga leikskólaplássum í Garðabæ. Þessari hugmynd er ætlað að mæta skorti á leikskólaplássum og í raun skyndilausn sem ætti ekki að þurfa að grípa til ef vandað er til verka við áætlun íbúafjölgunar og framkvæmda. Það var fyrir löngu orðið ljóst að íbúafjölgun í Garðabæ væri meiri en áætluð var af meirihlutanum. Við í Garðabæjarlistanum höfum fyrir löngu bent á að þessi áætlun meirihlutans stæðist ekki skoðun, það er heldur betur að koma á daginn. En á hverjum bitnar þessi vanáætlun, jú hún bitnar fyrst og fremst á barnafjölskyldum og leiðir af sér hina frægu kofa. Staða sem er algjörlega ólíðandi. Við höfum lagt fram tillögur um að áætlanir um uppbyggingu leikskóla verði gerðar þannig að Garðbæingar þurfi ekki að lenda í þessum aðstæðum, en þeim hefur yfirleitt verið hafnað eða svæfðar í nefndum.

Hvers vegna eru kofarnir ekki tímabundin aðgerð í Garðabæ?

Í gegnum tíðina hefur Garðabær þurft að koma fyrir færanlegum kennslustofum við leik- og grunnskóla og oft hefur það verið nauðsynlegt sem tímabundin aðgerð í nýjum hverfum á meðan stórt hlutfall af barnafjölskyldum býr í hverfinu. En skoðum nú aðeins hvar þessir kofar eru, við sem höfum alist upp í Garðabæ munum eftir kofum við Flataskóla í fjölda ára eða allt þar til skólinn var stækkaður í nokkrar áttir, með marga anga líkt og alþjóðaflugvöllur. Þegar þeir kofar fóru komu aðrir við Garðaskóla og standa þar enn. Við Hofsstaðaskóla og á Álftanesi hafa verið kofar við skólana í fjölda ára og ekki má nú gleyma gámunum við Alþjóðaskólann.

Stöndum við stóru orðin – vöndum til verka

Það sem er aftur á móti jákvætt er að það er verið að bregðast við skorti á leikskólaplássum, ég vona svo sannarlega að þessar færanlegu stofur verði komnar í gagnið fyrir haustið og það takist að manna þær stöður sem skapast, þannig verður vonandi hægt að tryggja öllum börnum í Garðabæ leikskólapláss. Einnig vona ég að þetta verði til þess að við uppbyggingu hverfa verði ráðist í að byggja upp leik- og grunnskóla áður en þau hvefin fyllast af börnum. Fyrir mér eru þessir varanlegu kofar minnisvarði um vanáætlanir.

Ingvar Arnarson er bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans.