Við viljum öll að vel sé farið með skattféð okkar, sameiginlega sjóði sem engin einn á. Samfélagið setur sér reglur um hvernig umgangast á skattfé, því við viljum fá góða þjónustu og litla sóun.
Fyrir skömmu óskuðum við í Garðabæjarlistanum eftir yfirliti yfir aðkeypta þjónustu sveitarfélagsins síðastliðin ár. Það er hluti af eðlilegu eftirliti minnihlutans að rýna hvernig fjármunum sveitarfélagsins er varið. Sérstaka athygli vakti hversu mikil þjónusta er keypt, án útboða eða verðathugana sem á að tryggja að sem mest fáist fyrir fjármuni Garðabæjar. Á síðasta ári voru slík innkaup um 622 milljónir.
Þetta eftirlit minnihlutans kemur ekki úr lausu lofti, undir lok árs 2019 fengum við stjórnsýsluúttekt á Garðabæ, þar sem bent er á að endurskoða sérstaklega þennan lið í rekstri sveitarfélagsins, enda tækifæri til að spara háar fjárhæðir og öll aðkeypt þjónusta yfir 15,5 milljónum er útboðsskyld. Það þýðir að það er ekki val bæjarins að kaupa þjónustuna af hverjum sem er.
Við skoðun sjáum við að stærstur hluti þessa liðs, alls 16 aðskilin verkefni er yfir mörkum um útboðsskyldu. Við í Garðabæjarlistanum teljum því að þetta sé nokkuð skýr brotalöm á því hvernig farið er með skattpeninga Garðbæinga. Við hljótum að gera kröfu um að 622 milljónum á ári sé ráðstafað af ábyrgð og gagnsæi.
Nokkuð langur tími er liðinn frá því að stjórnsýsluúttektin lá fyrir og því hefur verið gott rými til að bregðast við. Því hljótum við að spyrja af hverju ekki hefur verið aðhafst? Hefur þessi ábending ekki verið tekin alvarlega?
Einhver þessara verkkaupa kunna að lifa vegna eldri samninga. Samkvæmt tillögu stjórnsýsluúttektarinnar ættu þeir þó að vera komnir til endurskoðunar og tilvalið að fara í útboð til að tryggja sem best að fjármunum sé vel varið.
Við hljótum að gera kröfu um að meirihlutinn geri betur því þetta verklag samræmist ekki þeirri ásýnd sem talað er fyrir að hálfu meirihlutans um að farið sé af fullri ábyrgð með skattfé íbúa.
Við í Garðabæjarlistanum ítrekum mikilvægi þess að stjórnsýslan starfi með gagnsæjum hætti. Leikreglur um opinber innkaup á að virða í hvívetna. Innkaup síðasta árs, bera því miður þess ekki merki. Rúmlega hálfur milljarður í aðkeypta þjónustu án útboðs eða verðlagsathugana ber vitni um annað.
Sara Dögg Svanhildardóttir, Oddviti Garðabæjarlistans