Categories
Fréttir

Af aðkeyptri þjónustu, gagnsæi og ábyrgri fjármálastjórn.

Við viljum öll að vel sé farið með skattféð okkar, sameiginlega sjóði sem engin einn á. Samfélagið setur sér reglur um hvernig umgangast á skattfé, því við viljum fá góða þjónustu og litla sóun. 

Fyrir skömmu óskuðum við í Garðabæjarlistanum eftir yfirliti yfir aðkeypta þjónustu sveitarfélagsins síðastliðin ár. Það er hluti af eðlilegu eftirliti minnihlutans að rýna hvernig fjármunum sveitarfélagsins er varið. Sérstaka athygli vakti hversu mikil þjónusta er keypt, án útboða eða verðathugana sem á að tryggja að sem mest fáist fyrir fjármuni Garðabæjar. Á síðasta ári voru slík innkaup um 622 milljónir.

Þetta eftirlit minnihlutans kemur ekki úr lausu lofti, undir lok árs 2019 fengum við stjórnsýsluúttekt á Garðabæ, þar sem bent er á að endurskoða sérstaklega þennan lið í rekstri sveitarfélagsins, enda tækifæri til að spara háar fjárhæðir og öll aðkeypt þjónusta yfir 15,5 milljónum er útboðsskyld. Það þýðir að það er ekki val bæjarins að kaupa þjónustuna af hverjum sem er. 

Við skoðun sjáum við að stærstur hluti þessa liðs, alls 16 aðskilin verkefni er yfir mörkum um útboðsskyldu. Við í Garðabæjarlistanum teljum því að þetta sé nokkuð skýr brotalöm á því hvernig farið er með skattpeninga Garðbæinga. Við hljótum að gera kröfu um að 622 milljónum á ári sé ráðstafað af ábyrgð og gagnsæi. 

Nokkuð langur tími er liðinn frá því að stjórnsýsluúttektin lá fyrir og því hefur verið gott rými til að bregðast við. Því hljótum við að spyrja af hverju ekki hefur verið aðhafst? Hefur þessi ábending ekki verið tekin alvarlega? 

Einhver þessara verkkaupa kunna að lifa vegna eldri samninga. Samkvæmt tillögu stjórnsýsluúttektarinnar ættu þeir þó að vera komnir til endurskoðunar og tilvalið að fara í útboð til að tryggja sem best að fjármunum sé vel varið.  

Við hljótum að gera kröfu um að meirihlutinn geri betur því þetta verklag samræmist ekki þeirri ásýnd sem talað er fyrir að hálfu meirihlutans um að farið sé af fullri ábyrgð með skattfé íbúa.

Við í Garðabæjarlistanum ítrekum mikilvægi þess að stjórnsýslan starfi með gagnsæjum hætti. Leikreglur um opinber innkaup á að virða í hvívetna. Innkaup síðasta árs, bera því miður þess ekki merki. Rúmlega hálfur milljarður í aðkeypta þjónustu án útboðs eða verðlagsathugana ber vitni um annað.

Sara Dögg Svanhildardóttir, Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Ó, þú dásamlega Borgarlína

Ég hlustaði á kynningu á fyrsta framkvæmdahluta Borgarlínu í bæjarráði fyrir skömmu og verð að viðurkenna að það fór um mig góð tilfinning.

Loksins sjáum við fram á að hafist verði handa við eina umfangsmestu framkvæmd á uppbyggingu innviða þessa lands. Þvílíkir tímar að lifa.

Loksins sjáum við fram á að almenningssamgöngur muni virka sem skjótur fararkostur og verða alvöru valkostur fyrir fólk á öllum aldri. Ég trúi því að um leið og við upplifum raunverulegan tímasparnað og þægindin sem fylgja Borgarlínu að þá hoppum við fleiri en ætla mætti á þann vagn. Ekki bara unga fólkið sem bíður mögulega einna spenntast og lætur ekki deigan síga við þær aðstæður sem nú eru og nýta almenningssamgöngur sama hvað.

Tilgangur þess að tala stórkostlega framkvæmd niður

Ég hef verið nokkuð hugsi yfir þeirri neikvæðu umræðu sem er úti í samfélaginu. Hún hefur hingað til einkennst af vel miðaldra körlum sem hafa mjög sterka og neikvæða skoðun á Borgarlínunni sem valkost. Og rökin eru oft með miklum ólíkindum. Talað er um að við sem aðhyllumst betri almenningssamgöngur hötum bifreiðar. “Þið sem hatið einkabílinn” er upphrópun sem ég átta mig ekki á hvernig hægt er að slá fram í umræðunni. En markmið þessara útvöldu karla fer ekkert á huldu. Það á einfaldlega að hafa sem hæst og úthrópa Borgarlínuna sem bastarð sem enginn vill og mun ekki virka. Staðreyndir málsins eru að það verða vissulega miklar breytingar á umferðaræðum, ásýnd og skipulagi og það sem meira er, það er frábært að sjá hvernig sú breyting kemur til með að líta út.

Framtíðar stefið unga fólkið og tækifærin

Staðreyndin er sú að allir kalla eftir þægilegri samgöngumáta, hraðari farakosti, minni mengun og aðlaðandi umhverfi heilt yfir til að lifa og starfa í.

Ég, sem búsett er í Garðabæ sem einhverjir kalla mekka einkabílsins, bíð spennt og fagna því að hingað til hafa Sjálfstæðismenn í meirihluta bæjarstjórnar Garðabæjar talað fallega um Borgarlínuna. Talað hana upp en ekki niður.

Borgarlínan er hagsmunamál allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu og verður til þess fallin að gefa sveitarfélögunum í Kraganum aukna vigt, ekki bara í vali á búsetu heldur einnig sem fýsileg staðsetning alls kyns atvinnustarfsemi.

Við horfum til að mynda til þess að Tækniskólinn ein af mikilvægu menntastofnunum landsins hafi áform um að staðsetja sig í Kraganum og þá skipta samgöngur öllu máli.

Ungt fólk kýs almenningssamgöngur og gerir þá kröfu að við sem samfélag horfum til framtíðar og tökum allar breytur inn þegar kemur að skipulagi samgangna og íbúðauppbygginu. Fyrir utan mikilvægi þess að að draga úr umferðarmengun almennt.

Áfram Borgarlína – keyrum þetta í gang!

Sara Dögg Svanhildardóttir er oddviti Garðabæjarlistans í bæjarstjórn Garðabæjar.

Categories
Fréttir

Hver á réttinn ?

Nú stöndum við frammi fyrir því að vinna að styttingu vinnuvikunnar á yngsta skólastiginu, leikskólanum. Leikskólinn er reyndar einnig einn mikilvægasti þjónustuaðili hjá sveitafélögum ásamt því að vera eitt mest krefjandi vinnuumhverfi sem fagfólki í skólastarfi býðst að starfa í. Þetta þrennt vinnur oft á tíðum gegn hvert öðru þar sem leikskólinn er að mínu mati pólitískasta skólastigið þar sem það er nauðsynlegt að bjóða upp á ákveðna þjónustu sem tryggir jafnræði foreldra á vinnumarkaði en jafnframt huga að því hvaða afleiðingar slík þjónusta hefur á þjónustu við börnin sem þar dvelja oft á tíðum hátt í 80% af vökutíma sínum.

Umræðan sem skapast hefur meðal þeirra sem starfa í leikskólum víðsvegar hefur verið á þá leið að áhyggjur hafa myndast af því að þetta ferli komi til með að bitna á faglegu starfi og þá sérstaklega vegna þess að það hefur verið stöðugt fráhvarf frá leikskólakennarastéttinni um nokkurt skeið eða í kjölfar breytinga er varða leyfisbréf á milli skólastiga. Rannsóknir hafa sýnt fram á að leikskólakennarar leita annað í von um betra vinnuumhverfi. Stytting vinnuvikunnar ef vel er farið með getur vissulega haft jákvæð áhrif á vinnuumhverfi kennara ásamt auknum undirbúningstíma en það tvennt þýðir á sama tíma minni viðvera með börnum.

Í leikskóla læra börn einna helst í gegnum leikinn, námsumhverfið þeirra er nánasta umhverfi þeirra á leikskólanum. Til þess að námsumhverfið standist kröfur eru mikilvægustu þættirnir þeir að barnið upplifi öryggi og vellíðan. Í Garðabæ eru leikskólagjöld hærri en tíðkast í öðrum sveitafélögum, það hefur verið rökstutt með gæðum þjónustu við börn og foreldra. Nú stöndum við frammi fyrir krefjandi áskorunum sem kallar á samvinnu stjórnenda, starfsmanna og sveitarfélagsins. Nú þegar í fjárhagsáætlunum er gert ráð fyrir 50% minni fjárhæð í þróunarsjóð í leikskólum Garðabæjar sem hefur verið gulrót í fagstarfi í skólastofnunum sveitarfélagsins. Starfsfólk á leikskólum hefur undanfarið ár starfað undir miklu álagi á tímum Covid og er verið að rannsaka áhrif þess á starfsemi leikskóla og nú er ljóst er að það mun taka sinn toll að innleiða styttingu vinnuvikunnar.

Eins og sveitafélögin setja dæmið fram núna þá hafa skilaboðin verið þau að stytta eigi vinnutímann án þess að hækka kostnað og skerða þjónustu gagnvart börnunum en eins og þetta horfir við í raunveruleikanum þá skiptir einnig höfuðmáli að skerða ekki þjónustu gagnvart foreldrum. Viðhorf samfélagsins til leikskólans togast á í heimi þar sem konur, menn og börn þurfa nauðsynlega á því að halda að gæði skerðist ekki. Það er dæmi sem gengur illa upp og því fyrr sem sveitafélögin hefja samtal um raunverulegan kostnað eða skerðingu á þjónustu komumst við nær að því að leysa þetta verkefni á farsælan hátt.

Harpa Þorsteinsdóttir Bæjarfulltrúi

Categories
Fréttir

Að stinga höfðinu í sandinn

Nú á dögunum voru birtar niðurstöður úr árlegri þjónustukönnun Gallup sem var framkvæmd í lok árs 2020. Markmið könnunarinnar var að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins ásamt því að gera samanburð og skoða breytingar á mælingum milli ára.

Almennt hækka meðaltöl á milli ára og ánægja eykst hjá þeim sveitarfélögum sem taka þátt í könnuninni en þó ekki hjá Garðabæ, þau lækka. Garðabær kemur ágætlega út í nokkrum þáttum í samanburði við önnur sveitarfélög. Það er ánægjulegt og hafa margið kosið að horfa aðeins til þess þegar rætt er um niðurstöður þessarar könnunar.

Það sem veldur mér þó áhyggjum er að Garðabær hækkar ekki í neinum þætti ólíkt öðrum sveitarfélögum. Ánægja í Garðabæ lækkaði í 7 af 13 þáttum sem kannaðir voru. Þetta er grafalvarlegt og mikilvægt að stinga ekki höfðinu í sandinn þegar að þessir þættir eru skoðaðir. Þættir sem lækka eru ánægju með þjónustu grunnskóla, hvernig sveitarfélagið sinnir menningarmálum og skipulagsmál, þá lækkar ánægja með aðstöðu til íþróttaiðkunar í bænum og einnig er marktæk lækkun á  ánægju með sveitarfélagið sem stað til að búa á.

Þó að við stöndum ágætlega hvað nokkra þætti varðar miðað við önnur sveitarfélög þá tel ég mikilvægt að við tökum þessar niðurstöður alvarlega. Við þurfum að hlusta á okkar íbúa og finna út hvers vegna ánægja í bænum er að dvína í ákveðnum þáttum en til þess þurfum við að viðurkenna að svo sé og tala um þessi atriði í stað þess að horfa nánast framhjá þeim.

Það er verður vissulega áskorun að halda úti góðri þjónustu. Að mínu mati þarf að leggjast í vinnu við að greina hvað það er sem hægt er að bæta í Garðabæ með því að fara í rýnivinnu til að finna út hvað við getum gert betur.

Ingvar Arnarson bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Bæjarstjórnarfundir í beinni á facebook

Í tilefni þess að loksins eru bæjarstjórnarfundir í Garðabæ í beinni útsendingu á Facebook, ákváðum við að gefa bæjarbúum smá glaðning. Til þess að hvetja fólk til að horfa á beina útsendingu voru meðlimir Garðabæjarlistans að dreifa poppi og Appelsíni. Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans hafa lagt fram tillögur um að gera fundi aðgengilega fyrir bæjarbúa og þannig stuðla að virkara lýðræði.

Garðabæjarbúar tóku vel í þessa gjöf og vonandi hafa flestir kíkt á útsendingu fundarins.

Categories
Fréttir

Hvað ef ?

Í upphafi árs er gott að staldra við, taka stöðuna eins og oft er sagt. Á þessu kjörtímabili höfum við í Garðabæjarlistanum lagt eitt og annað til í bæjarstjórn, í þeirri von að meirihlutinn sjái tækifærin og hvaða þýðingu þau verkefni hafa fyrir lýðheilsu Garðbæinga og til að gera samfélagið okkar enn betra og öflugra.

Ungmennahús var eitt af stóru málunum okkar. Ákall eftir slíku húsi hefur ágerst. Nú þegar við erum vonandi að stíga upp úr heimsfaraldri og sóttkvíartímum, sem hafa haldið ungmennum frá bæði tómstundum og íþróttum, hefur það aldrei verið mikilvægara að hlúa að unga fólkinu. Meirihlutinn lætur málið sem vind um eyru þjóta og hefur ekki hreyft sig.

Fræðsla á vegum Samtakanna 78 fyrir allt samfélagið. Fólk sem starfar með börnum og ungmennum fengju markvissa fræðslu ár hvert og aðgengi ungmenna að stuðningi samtakanna væri tryggt. Þetta varðar öll ungmenni, því saman sköpum við fjölbreytt, frjálslynt samfélag sem viðurkennir fjölbreytileikann í allri sinni mynd.

Systkinaafslátt í íþrótta- og tómstundastarf væri búið að útfæra með skynsamlegum hætti þar sem tekjuviðmið væri forsenda útreiknings. Í Garðabæ æfa mörg börn fleiri en eina íþrótt og það viljum við styðja. Við viljum líka styðja barnmargar fjölskyldur til að öll börn geti stundað þær fjölmörgu íþróttir og tómstundir sem eru hér í boði.

Hvatning til ungmenna eldri en 16 ára til að stunda hreyfingu með því að nýta hvatapeningana sem gert er ráð fyrir samkvæmt úthlutun þeirra.

Janus, heilsueflandi lýðheilsuverkefni fyrir alla eldri en 67 ára væri valkostur í Garðabæ eins og í mörgum öðrum sveitarfélögum. Janus er framúrskarandi lýðheilsuverkefni sem tryggir utanumhald og eftirfylgni með líkamlegu hreysti fólks. 

Við eigum að setja metnað okkar í að trygga góða heilsu allra bæjarbúa, andlega sem líkamlega. Þarfirnar eru ólíkar og sveitarfélagið þarf að bregðast við því.

Við í Garðabæjarlistanum höfum haft það að leiðarljósi frá upphafi að tryggja að ólík sjónarmið heyrist, að lýðræðið í bæjarstjórn sé virkt með því að leggja fram tillögur að brýnum verkefnum, þoka málum áfram sem við höfðum fulla trú á að félagar okkar í Sjálfstæðisflokknum gætu stutt stolt og keik. En svo virðist ekki vera og er það miður. Ekki fyrir okkur bæjarfulltrúana, heldur fyrir alla íbúa Garðabæjar sem verða nú af alls konar þjónustu sem styrkir andlega sem líkamlega heilsu og almenna vellíðan.

Við viljum gera betur í því að styrkja samfélagið og byggja upp jákvætt og uppbyggjandi umhverfi fyrir alla. 

Sara Dögg Svanhildardóttir Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Stafrænt ferðalag þjóðar

Stafræn tækni snertir okkur meira og minna öll í okkar daglega lífi. Þessi tækni færðist mun nær okkur eftir að við flest tókum okkur snjallsíma í hönd. Tæki sem hefur fært okkur nær hvert öðru óháð tengslum og jafnvel án meðvitaðrar ákvörðunar. Veruleiki stafræna heimsins breytist hratt og hefur fært okkur mörg inn á áður óþekktar slóðir, allt í gegnum tæki sem eitt sinn var ósköp einfaldur sími.

Umbreytingin sem nú á sér stað teygir anga sína út í allt samfélagið og inn í allar þjónustugáttir, jafnt hins opinbera sem og einkageirans. Við slíka umbreytingu eru ákveðnar grunnstoðir, sem eru lykill af því að vel takist til. Stafrænni umbyltingu fylgir ný þekking og krafa um nýja færni. Við þessu þarf að bregðast.

Menntakerfið er lykillinn

Þar gegnir menntakerfið okkar gríðarlega mikilvægu hlutverki. Það má ekki láta reka á reiðanum, heldur er mikilvægt að standa í stafni og leiða för. Þegar litið er til nágrannaþjóða okkar sjáum við að þau hafa brugðist við af krafti til að takast á við örar breytingar í stafrænum lausnum. Þær hafa sett sér öfluga stefnu og markað sýn varðandi þróun stafrænnar tækni. Rík áhersla er lögð á metnaðarfulla menntastefnu sem tekur einvörðungu utan um stafræna færni og þekkingu. Allt frá byrjun skólagöngu til háskólanáms en ekki síður til sí- og endurmenntunar til þess að geta mætt umbreytingu starfa með aukinni færni þeirra sem þegar eru á vinnumarkaði.

Endurmenntun kennara – færni til framtíðar

Umbreytingin kallar á endurmenntun kennara með markvissum hætti. Skilgreina þarf hvaða þættir eru kennurum mikilvægir til þess að þeir geti miðlað þekkingu um stafræna tækni og aukið færni komandi kynslóða. M.a. þurfa allir kennarar að öðlast lágmarksfærni í tækninni sjálfri til að geta skilið virknina og fjallað um hana. Þeir þættir sem þjóðir heims hafa sammælst um að skipti hvað mestu máli eru; færni í skapandi hugsun og nýsköpun, samskiptum og samvinnu, færni til að vinna úr upplýsingum og afla sér þekkingar, færni í lausnamiðaðri ákvarðanartöku og getu til frumkvæðis í ákvörðunartöku, stafrænni þátttöku og ákveðin færni í tækniaðgerðum og lausnum.

Þetta þýðir í raun allsherjar innleiðingu stafrænnar færni inn í menntakerfið og er full ástæða til. Til þess að halda í við þróun stafrænnar tækni þarf menntakerfið að stíga í takt.

Menntamálaráðherra þarf að sýna forystu

Við þurfum að efla til samstillts átaks stjórnvalda og atvinnulífs. Menntamálaráðherra þarf að taka þar forystu og marka stefnu í stafrænni færni til framtíðar. Það þýðir markmið með mælanlegum viðmiðum og innspýtingu inni í skólakerfið allt, þar sem stafrænni færni er gefið vægi til þess að við getum gengið í takt við örar breytingar samfélagsins. Ef þarna verður slegið slöku við verum við eftirbátar nágrannaþjóða og ósamkeppnishæf þegar kemur að þekkingu stafrænnar tækni. Við eigum að setja okkur háleit markmið um að vera ekki einungis notendur heldur áhrifavaldar í framþróuninni sjálfri. Til þess þarf framúrskarandi menntakerfi sem styður við alla þá þætti sem styrkja stafræna færni okkar allra.

Tæknilæsi er jafnréttismál

Tæknilæsi almennings er gríðarlega mikilvægt jafnréttis- og byggðamál þar sem færni greiðir og jafnar um leið aðgengi allra að þjónustu sem umbreytist hraðar en við áttum okkur á. Nú hafa sveitarfélög landsins tekið höndum saman til að efla stafræna þjónustu innan stjórnsýslunnar og álíka átak er hafið hjá ríkinu. Samhliða þessu þarf að mennta þjóðina til þess að gera öllum kleift að nýta sér þjónustu, óháð staðsetningu eða búsetu. Það þarf að gera æsku landsins færa um að stíga inn í þróun og sköpun stafrænnar tækni og veita almenningi þá fræðslu, menntun og þjálfun sem til þarf til að geta nýtt sér stafræna þjónustu.

Nýverið lagði menntamálaráðherra fram menntastefnu til ársins 2030. Í þeirri stefnu vantar sárlega upp á að tekin séu nægjanlega stór skref til að efla tæknilæsi þjóðarinnar. Þar verður ráðherra að gera betur ef duga skal.

Höfundur er bæjarfulltrúi og oddviti Garðabæjarlistans í Garðabæ.

Categories
Fréttir

Samvinna í þágu framfara

Nýtt ár verður árið sem við festum í sessi allan lærdóminn, ávinninginn og allt það jákvæða sem árið 2020 færði okkur þó. Í mínum huga er engin spurning um hvað það var. Samvinna og samstaða var lykillinn að því hvernig okkur tókst til að halda samfélaginu gangandi við mjög krefjandi aðstæður.

Við urðum þess áþreifanlega vör á sveitarstjórnarstiginu hvernig máttur samvinnunnar skipaði stórt hlutverk í öllum aðgerðum sem hafa snúið að grunnþjónustu sveitarfélaganna þegar mikið lá við. Bæjarstjórar og forstöðumenn innan stjórnsýslunnar funduðu sem aldrei fyrr þvert á sveitarfélög til að ráða ráðum sínum. Finna sameiginlegar lausnir á flóknum verkefnum.

Eins og að halda uppi leik- og grunnskólastarfi í miðjum heimsfaraldri. Og standa vörð um félagsþjónustuna þannig að fólkið okkar, sem minnstu varnirnar hafa en þurfa þær mestar, væri varið sem allra best gegn þeim alvarlega vágesti sem kórónuveiran er. Í hverri einustu viku var farið yfir aðgerðaplan og upplýst um stöðu mála og því fylgdi mikið öryggi að finna samstöðuna sem ríkti á milli sveitarfélaga. Mögnuð tilfinning að upplifa sem kjörinn fulltrúi. Það var samvinna sem skilaði verðskulduðum árangri.

Höfuðborgarsvæðið þarf að vinna betur saman

Á höfuðborgarsvæðinu er ástæða til frekari samvinnu sveitarfélaganna því þannig er hægt að þjóna íbúum enn betur á svo marga vegu.

Við höfum nú þegar byggðasamlögin, þar sem sveitarfélögin hafa sameinast um rekstur ákveðinnar grunnþjónustu líkt og almenningssamgangna og sorpmála. Rekstur byggðasamlaganna er vissulega flókin og er nú til endurskoðunar til að auka gagnsæi á milli ábyrgðar og ákvarðanatöku.

En fleiri stór verkefni eru þegar komin af stað þar sem samvinnan stýrir ferð. Má þar nefna stafræna þróun sveitarfélaganna. Sú umbreyting mun hafa áhrif á alla þjónustu sveitarfélaga. Hún mun ekki síður hafa áhrif á vinnustundir þeirra sem veita þjónstuna innan stjórnsýslunnar og mun til framtíðar spara tíma og skapa svigrúm til að nýta fjármuni betur og bæta þjónustu við íbúa enn frekar. Við vitum að vægi grunnþjónustu er að aukast og mun gera það áfram. Þá skiptir máli að sveitarfélögin hafi þær bjargir sem þarf til að laga rekstur sinn að breyttri sviðsmynd sem kallar á aukið fagfólk til starfa við leik- og grunnskóla jafnt sem við félagsþjónustuna.

Nú þegar hefur verið sett á laggirnar stafrænan starfshóp sem hefur það hlutverk að leiða sveitarfélögin saman og marka stefnu um sameiginlegan stafrænan grunn til að byggja umbreytinguna á. Stafrænar umbreytingar eru risaverkefni sem kosta töluverða fjármuni enda til þess fallið að styrkja alla innviði í breyttu umhverfi.

Því er mikilvægt að sameinast um leiðir, deila kostnaði og samræma kerfi á milli sveitarfélaga. Ekki síst til að auðvelda íbúum aðgengi að allri þjónustu.

Styrkjum samvinnu innan atvinnusvæðisins

Borgarlínan er annað verkefni sem snertir öll sveitarfélögin og hefur verið komið þannig um kring að úr varð sameiginlegt verkefni þar sem hagsmunir allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu eru undir. Unnið er að skilvirkri tengingu á milli sveitarfélaga þannig að íbúar eigi þess kost að komast hratt og örugglega á milli staða en ekki síður til að vinna gegn loftslagsvánni.

Höfuðborgarsvæðið er eitt atvinnusvæði. Það ekkert eðlilegra en að búa í einu sveitarfélagi og starfa í öðru. Því eigum við að stefna áfram veginn, leita í styrkleikana og styrkja samvinnu þvert á sveitarfélögin sem aldrei fyrr. Hér getum við tekið fleiri mikilvæg verkefni inn í markvissa stefnumótin eins og að kortleggja félagslega þjónustu þvert á sveitarfélögin hvar þarf að gefa í og hvar þarf að hugað að þolmörkum sem varða okkur öll. Búseta á að vera valmöguleiki, óháð sveitarfélagi og óháð stöðu íbúanna sjálfra. Þar skiptir öllu máli að sýnin og stefnan við skipulagningu hverfa taki mið að því. Framboð á húsnæði þarf að taka mið af fjölbreytileika samfélagsins og meðvitað þarf að styðja við slíka íbúaþróun. Þá skiptir máli að taka félagslega þætti inn með markvissum hætti, og kostnað þjónustunnar til að mæta barnafjölskyldum sem best óháð efnahag.

Verðug verkefni og spennandi. Því þau eru framsækin og mikilvæg í þróun uppbyggingar höfuðborgarsvæðisins sem stækkar hratt og varðar öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins.

Sara Dögg Svanhildardóttir

Höfundur er oddviti Garðabæjarlistans í Garðabæ.

Categories
Fréttir

Gleðileg jól

Garðabæjarlistinn óskar öllum gleðilegra jóla og farsælds komandi árs

Categories
Fréttir

Við sögðum nei

Nú hefur bæjarstjórn afgreitt fjárhagsáætlun fyrir árið 2021. Stóra myndin er samdráttur í tekjum. Þær framkvæmdir sem þegar hafa verið ákveðnar eru fjármagnaðar með lánum. Lítið rými er til annarra framkvæmda á komandi árum samkvæmt mati Sjálfstæðismanna, meirihluta bæjarstjórnar. Fyrir lá að halda þarf áfram að byggja Urriðaholtsskóla þar sem þrengir að börnum nú þegar ekki síst vegna þess hversu seint er farið í að huga að nýjum leikskóla í hverfinu. Við í Garðabæjarlistanum höfnum þessari nálgun.

Aðferðafræði meirihlutans

Fjölgun íbúa og sala lóða hafa töluverð áhrif á tekjur bæjarins á næsta ári. Enn og aftur ætlar meirihlutinn að fara mun varlegar í áætlun á þeim þáttum en raunveruleg þróun segir til um. Þrátt fyrir að íbúafjölgun sé einna mest í Garðabæ ætlar meirihlutinn aðeins að gera ráð fyrir 3% fólksfjölgun. Sami meirihluti segir samt að 4-4,5% væri nærri lagi. Lóðasala hefur gengið vel og nam milljarði á þessu ári. Samt er ekki áætlað nema 240 milljónir árið 2021. 

Það er hægt að vera varfærin í áætlun, en þegar varfærnin gengur of langt verður hún óábyrg. Hvers vegna skyldi meirihlutanum hugnast þessi aðferðarfræði? Hann vill vega og meta þegar líða fer á næsta ár. Bæta í eða draga saman með viðaukum. Í stað þess að setja upp áætlun sem endurspeglar raunveruleikann og unnið er eftir af ábyrgð, meirihlutinn vill frekar setja ráðstöfun tekna í búning hentisemi. 

Stefnuleysið

Stefnulaust at virðist hugnast Sjálfstæðismönnum í Garðabæ vel enda telur bæjarstjórinn umræðu um stefnumörkun þreytandi. Honum hugnast betur pólitísk hentisemi. Þetta sáum við framkvæmdir við fundarsalinn góða. Þá ráku margir upp stór augu þegar endanlegur kostnaður kom í ljós, enda var aldrei til framkvæmdaáætlun eða kostnaðaráætlun. Þess í stað var hent í framkvæmdina því fjármagni sem vantaði eða hentaði hverju sinni. 

Í aðdraganda fjárhagáætlunar Garðabæjar heyrðist ákall bæjarstjórans okkar. Ákall um stuðning ríkisins til að halda úti grunnþjónustu, þar sem  virtist istefna í sögulegan halla bæjarsjóðs upp á 900 milljónir. Tæpur milljarður er vissulega skafl sem þarf að komast í gegnum með einum eða öðrum hætti.

Fljótt skipast veður í lofti og allt í einu var staðan gjörbreytt. Hallinn á samstæðunni óverulegur eða um 40 milljónir í dýpsta efnahagssamdrætti sem Ísland hefur séð um langan tíma. Svo virðist vera að meirihlutinn hafi áttað sig á stöðu sinni í stóra samhenginu og komist að þeirri niðurstöðu að það væri einfaldlega afar óábyrgt að vanáætla tekjur vegna íbúafjölgunar til að mynda um of og því breyttist staðan heldur betur, þó svo enn sé vanáætlað.

Í svona árferði tekur grunn- og félagsþjónusta hvað mest í hjá sveitarfélögunum í kringum okkur. Útgjaldaaukningin sem þau verða fyrir er mun meiri og ekki í neinni líkingu við veruleikann sem bæjarstjórn Garðabæjar er að takast á við.

Í fjárhagsáætlunin er engin framtíðarsýn þegar kemur að því að taka ákvarðanir um fjárfestingu til framtíðar í stafrænni tækni sem umbyltir samfélaginu okkar á margan hátt. Tæknin getur spara bæði tíma og kostnað fyrir bæjarbúa. Að síðustu er vegið að mannauði sveitarfélagsins með niðurskurði á helsta fjöreggi leik- og grunnskólakennara, þ.e. þróunarsjóði sem meirihlutinn hefur hingað til talað upp í hæstu hæðir af miklu stolti. En nú er öldin önnur og lítið gert úr því hversu gott og mikilvægt innlegg sjóðurinn er fyrir allt skólastarf Garðabæjar.

Ólýðræðisleg vinnubrögð í boði meirihlutans

Aðkoma Garðabæjarlistans að vinnu við fjárhagsáætlunina var lítil sem engin. Sjálfstæðismenn hér í bæ telja samráð falið í því að leggja fram tilbúna áætlun, sem meirihlutinn hefur þegar samþykkt fyrir sitt leyti, okkur til upplýsingar. Ekki gafst kostur á að leggjast yfir gögn eða eiga pólitískt samtal um forgangsröðun verkefna og hvað þá aðferð til að takast á við stöðuna sem uppi er vegna heimsfaraldurs. Sjálfstæðismenn í Garðabæ reyndu þess í stað að nota gamaldags uppeldisaðferð á okkur í minnihlutanum, þið hafið ekki verið nægilega stillt, þið fáið ekkert í gegn af ykkar málum. Refsivöndur Sjálfstæðismanna á lofti.

Samráðsleysið, óábyrga aðferðafræðin og ranga forgangsröðunin sem birtist í þessari fjárhagsáætlun er ástæða þess að við í Garðabæjarlistanum sögðum nei. 

Sara Dögg Svanhildardóttir 

Ingvar Arnarson

Harpa Þorsteinsdóttir

Bæjarfulltrúar Garðabæjarlistans