Categories
Fréttir

Sagan enda­lausa

Fyrir ca.20 árum hófst umræðan um að byggja knatthús í Garðabæ. Það gekk illa að ákveða staðsetningu og í mars 2015 var haldinn íbúafundur um málið. Á þeim fundi komu fram nokkrar mögulegar staðsetningar fyrir knatthúsið og mörg áhugaverð sjónarmið sem voru rædd. Miðað við kostnaðargreiningu sem var lögð fyrir bæjarráð 19. maí 2015 var gert ráð fyrir að kostnaður við byggingu hússins yrði á bilinu 650 – 1.850 milljónir króna og stefnt var að því að hefja framkvæmdir á því kjörtímabili. Í upphafi árs 2019 breyttist knatthúsið í fjölnota íþróttahús. Efnt var til samkeppni um hönnun og byggingu hússins í Vetrarmýri og í framhaldinu samið við ÍAV sem fékk 5 í einkunn fyrir hönnun og í alútboði átti verkið að kosta 4,3 milljarða. Það var áhugavert að sjá að húsið sem fékk 9,2 í einkunn fyrir hönnun og átti að kosta 4,6 milljarða varð ekki fyrir valinu.

Þann 3. maí 2019 var tekin fyrsta skóflustunga að byggingu hússins og áætluð verklok í apríl 2021. Á haustdögum 2019 var síðan kominn upp ágreiningur um grundun og í framhaldi hætti verktaki að vinna að verkinu, þá var Bleik brugðið. Í júní 2020 samþykkti meirihlutinn í bæjarráði samkomulag við verkataka um að halda áfram með verkið. Upphæðin sem ÍAV krefst er 405,2 milljónir fyrir það sem þeir telja aukaverk. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir að gengiskostnaður af efni sem verktaki er að kaupa erlendis frá lendi á Garðabæ. Hvergi í alútboðsgögnum er minnst á gengisáhættu hjá verkkaupa(Garðabæ), þar er einungis miðað við breytingar á byggingavísitölu. Einnig greiðir Garðabær óafturkræfar 60 milljónir inn á þetta aukaverk. Það sem eftir stendur fer í gerðardóm þ.e.a.s. 228,2 milljónir. Ef úrskurður gerðardóms fer á versta veg getur samkomulagið kostað skattgreiðendur í Garðabæ ca. 340 milljónir. Í samkomulaginu eru gefnar eftir tafabætur sem hefðu reiknast sem 6 mánaða seinkunn og væru ca. 720 milljónir.

Á bæjarráðsfundi þann 23. júní gat ég ekki samþykkt þetta samkomulag og í kjölfarið lét ég bóka eftirfarandi: „Garðabæjarlistinn telur að ÍAV hafi haft allar upplýsingar þegar fyrirtækið tók þátt í alútboði um byggingu fjölnota íþróttahúss í Garðabæ. Í ljósi þessa er ekki hægt að samþykkja aukin útgjöld úr bæjarsjóði Garðabæjar vegna hönnunar og byggingu hússins. Einnig er óskiljanlegt að Garðabær ætli að samþykkja þetta mikla seinkun á afhendingu hússins án þess að rukka tafabætur. Að okkar mati hefur ÍAV ekki staðið við gerða samninga og þ.a.l. beðið mikla álitshnekki fyrir sitt framferði í þessu máli.“

Samkomulagið var svo tekið fyrir í bæjarstjórn þann 20. ágúst en þar hrósaði einn bæjarfulltrúi meirahlutans ÍAV sérstaklega fyrir að sinna hagsmunum sínum vel og í framhaldinum var samkomulagið samþykkt af meirihlutanum.

Að mínu mati er mikilvægt að skoða hvar ábyrgðin liggur í þessu máli. Einhvers staðar hljóta að hafa verið gerð mistök úr því að þetta verk var ekki inn í alútboði og mikilvægt að vita hvort þau mistök séu af hálfu Garðabæjar eða ÍAV. Það er því miður mjög algengt að útboð séu kærð og of oft eykst kostnaður verka miðað við útboð og nánast alltaf lendir þessi kostnaður á okkur skattgreiðendum.

En nú virðist sagan ætla að taka enda í desember 2021.

Ingvar Arnarson – Bæjarfulltrúi Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Hvetjandi eða letjandi al­mennings­sam­göngur í Garða­bæ?

Almenningssamgöngur gegna öllu jafna mikilvægu hlutverki í uppbyggingu hverfa og hafa meðal annars áhrif á val fólks um búsetu. Í Garðabæ á mikil og hröð uppbygging sér stað vítt og breytt um sveitarfélagið sem hefur leitt til þess að íbúabyggð Garðabæjar er nokkuð dreifðari en áður var. Þetta á ekki síst við eftir að Garðabær sameinaðist Álftanesi og þar með öðrum byggðakjarna. Frá Álftanesi er nokkur spotti í nauðsynlega þjónustu, líkt og íþróttir og tómstundir barna og ungmenna eða í matvöruverslun. Annað nýtt hverfi í Garðabæ er Urriðaholtið, sem vex hratt og er svo komið að bæta þyrfti við nýjum leikskóla í hverfið sem allra fyrst, auk þeirra skóla sem þegar hafa risið.

Almenningssamgöngur í formi pöntunarkerfis

Þegar kemur að almenningssamgöngum í Garðabæ er víða pottur brotinn og tillögum minnihlutans um að bjóða öllum íbúum upp á sömu þjónustu hefur verið hafnað. Bæjarstjóri hefur sagt almenningssamgöngur nægjanlegar fyrir ungmenni til að stunda íþróttir og tómstundir innan sveitarfélagsins og því sé allt í góðu standi. En þegar betur er að gáð þá byggist sú þjónusta ýmist á pöntunarkerfi Strætó bs. eða á leigubílaaksti í boði sveitarfélagsins. Fáir virðast reyndar vita nokkuð um möguleikann á leigubílaakstri, enda eru engar upplýsingar um hann sjáanlegar á vef Garðabæjar.

Almenningssamgöngur og heilsueflandi samfélag

Í hverfi Garðabæjar, svo sem á Álftanesið og Urriðaholtið, flytjast fjölskyldur sem þurfa meiri þjónustu en verið er að veita. Skert þjónusta, t.a.m. í almenningssamgöngum, getur dregið úr ástundun barna og ungmenna í íþróttastarfi þegar erfitt er að komast á æfingar án þess að foreldrar þurfi í sífellu að skjótast úr vinnu til að standa í skutli. Slíkt getur ekki talist til fyrirmyndar í sveitarfélagi sem hefur kvittað upp á samfélagssáttmála um heilsueflandi samfélag. Skref í rétta átt væri að hafa góðar göngu- og hjólaleiðir frá þessum hverfum að íþróttaiðkun, a.m.k yfir sumartímann. Því miður er það ekki raunin.

Hver er framtíðarsýnin?

Nú liggja fyrir kostnaðaráætlanir frá Strætó um bætta samgönguþjónustu í Garðabæ. Annars vegar byggir hún á fastri áætlun sem tryggir ekki bara þjónustu heldur ýtir undir betri nýtingu á almenningssamgöngum til framtíðar. Hins vegar er gert ráð fyrir pöntunarkerfi sem er letjandi fyrir notendur og gerir ráð fyrir að börn og ungmenni þurfi að panta hverja ferð með því að hringja með góðum fyrirvara. Kostnaðurinn við fasta áætlun, sem hvetur til aukinnar notkunar til framtíðar virðist standa í meirihlutanum. Það skýtur svolítið skökku við þegar við sjáum viljann til framkvæmda á stóra sviðinu í eitt og annað þar sem betur mætti fara með almannafé á meðan engin metnaður er fyrir því að tryggja fjölbreytta samgöngukosti á milli hverfa í Garðabæ.

Góðar almenningssamgöngur eru hluti af þeirri þjónustu sem við viljum tryggja öllum íbúum í Garðabæ, svo vel sé.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Aftur til fortíðar?

Menntamálaráðherra hefur lagt til að aukin verði kennsla í íslensku og raungreinum í grunnskólum á kostnað valáfanga, m.a. á unglingastigi. Það er löngu tímabært að gera breytingar á viðmiðunarstundaskrá en þessar tillögur eru ekki til þess fallnar að auka frelsi skóla, kennara og nemenda.

Talað hefur verið fyrir mikilvægi þess að auka vægi verk- og listgreina í grunnskólum og að mæta nemendum af alvöru á þeirra áhugasviði til að styrkleikar þeirra á ólíkum sviðum fái að njóta sín. Einnig hefur verið talað fyrir frelsi skólanna, stjórnenda og kennara til að móta það nám sem boðið er upp á. Ráðherra bregst við kröfum um aukinn sveigjanleika og frelsi með tillögum um að draga úr sveigjanleika, draga úr frelsi og njörva enn frekar niður hversu mörgum mínútum skal varið í kennslu ákveðinna námsgreina.

Áfram er haldið í gömlu góðu stundatöfluna sem var svar menntakerfisins til að styðja við iðnbyltinguna og þau störf sem hún ól af sér. Á 21. öldinni kallar samfélagið á enn frekari færni í samskiptum og samvinnu, getu til að takast á við hið óþekkta og allar þær hröðu breytingarnar sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér. Samt skal áfram halda tryggð við það sem þótti gott og mikilvægt fyrir það samfélag sem var að byggjast upp fyrir 100 árum.

Tillögur menntamálaráðherra ýta ekki undir mikilvægi fjölbreytileikans og gildi samþættingu námsgreina eða list- og verknáms. Orð og gjörðir fara ekki saman þegar enn og aftur er lagður aukinn þungi á bóknám.

Það er mikið áhyggjuefni að val á unglingastigi eigi að skerða um 3 kennslustundir á viku. List- og verkgreinar eiga nú þegar undir högg að sækja og þessar hugmyndir stangast verulega á við þungann í umræðunni hingað til, um að styrkja verði þær stoðir í skólakerfinu. Hér þarf að spyrja mikilvægra spurninga, eins og hvort það hafi verið kannað til hlítar hvaða áhrif tíminn sem hefur farið í hraðlestraræfingar og próf undanfarin ár hefur haft á íslenskufærni ungmenna.

Við vitum að fagþekkingu í stærðfræði og raungreinum er ábótavant í grunnskólunum og um það hefur verið rætt sérstaklega. Þar kreppir skóinn ekki síst. Því getur það ekki talist skynsamleg forgangsröðun að byrja á því að fjölga kennslustundum þegar skortur á kennurum til kennslunnar er eins aðkallandi og raun ber vitni.

Við höfum niðurstöður kennara sjálfra sem segjast ekki hafa þá fagþekkingu sem þarf til að kenna raungreinar af öryggi og þannig að viðunandi sé. Þar liggi hundurinn grafinn en ekki í því að þrengja þurfi svigrúm í viðmiðunarstundaskrá til þess að ná tilskyldum árangri í PISA.

Það er erfitt að sjá hvernig áherslur ráðherra á mikilvægi faglegs frelsis kennara og traust til kennara og skólasamfélagsins til að móta metnaðarfullt nám fyrir börn og ungmenni svo bragur sé að ríma við þessa ætlan. Þessi tillaga ber ekki vott um þá framtíðarmúsík sem ég veit að margir báru von um í brjósti að núverandi ráðherra styddi og myndi sýna það í verki.

Við verðum að tryggja fjölbreytt skólastarf sem styður við frelsi fagstéttarinnar til að skapa og gera. Til að skapa umhverfi sem er eftirsóknarvert að tilheyra í leik og starfi. Það er einfaldlega of mikið í húfi til þess að gera það ekki.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Mennta­kerfi fjöl­breyti­leikans

Nýverið birtist enn á ný frétt um vaxandi kynjahalla í skólakerfinu, drengir heltast úr lestinni strax á framhaldsskólastigi og konur eru mikill meirihluti þeirra sem stunda háskólanám.

Afturblik?

Menntamálaráðherra talar um að bregðast verði hratt og örugglega við og mælir fyrir umbótum, sérstaklega á neðri stigum menntakerfisins, grunn- og framhaldsskólum. Meðal aðgerða sem ráðherra hefur lagt til er að fjölga mínútum í íslensku og náttúrugreinum. Sú breyting hefur hlotið mikla gagnrýni sem verður vonandi til þess að ráðherra taki ákvörðunina til endurskoðunar.

Að fanga viðfangsefnið

Mig langar hins vegar til þess að hvetja ráðherra til þess að horfa til djarfari breytinga og hvetja kennara og skólastjórnendur til þess að taka stærri skref strax til að ná fyrir þann vanda sem brottfall er meðal drengja en ekki síður til að ná til nemenda af erlendu bergi brotin. Öll þekkjum við umræðuna og ákallið um að styrkja þurfi verk- og listgreinar á öllum skólastigum. Ákall sem sífellt verður háværara án úrbóta. Það þarf að skapa skólakerfinu svigrúm til breytinga og leggja upp með ólíkar leiðir innan grunnskólanna til þess að börn og ungmenni fái tækifæri og hafi val um gott og vandað nám við hæfi. Einhverjir skólar gætu þá boðið upp á fleiri mínútur í íslensku eða raungreinum. En aðrir gætu fengið svigrúmið til að bæta við kennslu í verk- og listgreinum og auka aðgengi að tækninámi á fyrstu stigum skólakerfisins. Það skiptir nefnilega máli að sá fræjum.

Svigrúm til breytinga þarf bæði að ná til námsefnis en ekki síður námsumhverfisins. Að ýta undir fjölbreytt umhverfi sem sprettur upp við ólíka hugmyndafræði. Allt of fáir reyna nýjar leiðir í námsumhverfinu sjálfu. Kennslustofa með stólum og borðum er eitthvað sem allir kannast við og svo eru einhverjar kynslóðir sem minnast heimakróksins sem var ákveðin bylting í því umhverfi sem farið var að bjóða upp á. En fleira stendur til boða og börn og ungmenni þurfa ólíka nálgun að námi og að því þarf að hlúa sérstaklega.

Framtíðin er núna

Menntastefna til ársins 2030 þarf að vera framsækin sem aldrei fyrr, með skýrt markmið um jafnrétti og jafnan aðgang til náms. Hún þarf að mæta örum breytingum samfélagsins þar sem tækni spilar orðið stærra hlutverk í okkar daglega lífi, hvort sem við horfum til persónulegra nota og leiða til samskipta eða þegar horft er til opinberrar þjónustu sem þokast í átt til stafrænna lausna. Í þessu umhverfi þarf að horfa til þess hvernig við nálgumst viðfangsefnið með hagsmuni allra nemenda í huga.

Stafræna byltingin skapar enn betra tækifæri til þess að snúa vörn í sókn og efla áherslu á tækni, verk- og listgreinar því allt styður þetta hvert annað. Fjölbreytt menntakerfi þar sem gefið er faglegt svigrúm til þess að mæta ólíkum þörfum og áhuga barna og ungmenna og allra kynja skiptir máli þegar hugað er að breytingum til framtíðar. Breytinga sem eiga að gefa fleirum tækifæri til að öðlast færni og þekkingu i styrkleikum sínum. Þannig sköpum við samfélag sem er samkeppnishæft til lengri tíma. Það skiptir máli.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Lofts­lags­málin og sveitar­fé­lagið mitt

Við stöndum frammi fyrir því yfirgripsmikla verkefni að standa vörð um umhverfið okkar og hvert sem litið er eru verkefnin ærin. Nú hafa verið sett lög sem kveða á um að öll sveitarfélög skuli setja sér loftslagsstefnu með skilgreindum markmiðum um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun og aðgerðum til að ná þeim markmiðum. Enn er Reykjavík eina sveitarfélagið sem það hefur gert.

Frá sóknaráætlun til samráðsvettvangsins og heim í hérað

Í sóknaráætlun sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu eru loftslagsmál eitt af forgangsverkefnum næstu ára, þar sem fyrsta skref verður að koma á stöðluðum mælingum á kolefnisspor sveitarfélaganna. Slíkar mælingar eru forsenda þess að hægt sé að setja fram áætlunanir til að draga úr kolefnisspori.

Blásið hefur verið til samráðs og skapaður sérstakur vettvangur fyrir sveitarfélögin um land allt. Samráðsvettvangar hafa vissulega mikilvægu hlutverki að gegna til þess að miðla og deila reynslu og upplýsingum þannig að allir njóti góðs af. En ég spyr hvar er að finna áherslur sveitarfélaganna í Kraganum, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn fer með völd, í loftslagsmálum. Hvar eru þau sem hafa vopnin í höndum sér til þess að setja málið á dagskrá og hefjast handa? Hvar fer samtalið fram? Hvenær ætla Sjálfstæðismenn hér í Kraganum að stíga fram til að leiða þá umræðu og vinnu sem þarf til að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu setji sér loftslagsstefnu, líkt og Reykjavík hefur gert?

Því miður fer ekki mikið fyrir þeirri umræðu enn sem komið er. Í Garðabæ hefur hvergi verið stofnað til samtalsins eða vettvangnum fundinn staður þannig að kjörnir fulltrúar deili sýn og sameinist um leið. Loftslagsmál eru þannig mál að það skiptir máli að um þau skapist þverpólitísk samstaða. Það er samfélaginu öllu til heilla.

Ekki er gott að segjahvers vegna Sjálfstæðismenn tala sig ekki hása í þessum málaflokki. Því má velta fyrir sér hvort um einhvers konar kerfislegt áhugaleysi sé um að ræða eða hvort samruni stjórnsýslu og pólitísks valds í þessum sveitarfélögum leiði umræðuna til stjórnsýslunnar í stað þess að hið pólitíska samtal eigi sér stað. Það lyktar einhvern veginn þannig.

Mín ósk er sú að pólitískir valdhafar lofti út og bjóði upp á alvöru samtal. Að þau sem valdið hafa byggi umræðuna á lýðræðislegri vinnu þar sem aðkoma allra er sett ofar flokkadráttum eða kerfislægri villu sem felur embættismönnum ekki bara alla vinnuna heldur líka hina pólitísku stefnumótun.

Það er skrýtin pólitík.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

Skólastefna fortíðar til framtíðar?

Nú þegar ný menntastefna til ársins 2030 liggur fyrir til umræðu á Alþingi er áhugavert til þess að vita að í október 2013 samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar síðast að endurskoða skólastefnu sveitarfélagsins.

Það er nokkuð ljóst að kominn er tími á endurskoðun. Ekki eingöngu vegna þess hve langt er síðan hún var síðast endurskoðun, heldur ekki síður vegna þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í samfélaginu á þeim tíma.

Tvennt þykir mér sérstök ástæða til að draga fram. Í núverandi skólastefnu Garðabæjar er hvergi minnst á menntun án aðgreiningar, svo gömul er stefnan. Stefnan um menntun á aðgreiningar hefur verið við lýði í íslensku skólakerfi um langt skeið og meðal annars verið gerð evrópsk úttekt á því hvernig til tókst með innleiðingu.

Hitt er síðan framtíðarmál. Þær tæknibreytingar sem eiga sér stað í öllum samfélögum hafa gríðarleg áhrif á okkur öll. Stafrænar lausnir taka yfir á fjölmörgum sviðum sem snerta okkar daglega líf og munu gera það áfram. Hraði þeirrar þróunar gerir það að verkum að við sjáum ekki fyrir í hverju allar þessar breytingar felast.

Það er mikilvægt að hver einstaklingur hafi jöfn tækifæri og jafnt aðgengi að þessum nýja veruleika og því skiptir máli að tæknilæsi þjóðar sé sett í forgang. Hér er um stórt jafnréttismál að ræða sem allar nágrannaþjóðir okkar hafa áttað sig á og leggja mikla áherslu á í sínum menntastefnum nú þegar.

Því skiptir máli að leggja fram sýn til framtíðar í skólastefnu. Leik- og grunnskólar eru dýrmætur lykill að þeim grunni sem hver þjóð þarf á að halda til að efla þekkingu svo hægt sé að takast á við þær áskoranir sem framundan eru. Tæknilæsi er færni sem við þurfum öll á að halda samhliða lykilþáttum á við hæfni til samskipta, samvinnu, sjálfstæðra vinnubragða og áræðni til að takast á við hið óþekkta. Því er það mikilsvert að skólakerfið hreyfist í takt við nýja tíma en festist ekki í því sem þótti gott og framúrskarandi árið 2013.

Ég hef lagt það til að hafin verði vinna við endurskoðun skólastefnu Garðabæjar, því þar er svo sannarlega verk að vinna. Garðabær hefur hingað til lagt nokkurn metnað í að byggja upp góða og framsækna skóla, stutt við fjölbreytni og valfrelsi í skólavali og fjölbreytt rekstrarform. Nú, þegar menntamálaráðherra er að leggja fram menntastefnu til ársins 2030 ætlar Garðabær að verða eftirbátur á, þar sem skólakerfið er lykill að framþróun og mun hafa áhrif á samkeppni um störf þegar fram í sækir hvort sem er hér á landi eða erlendis.

Það liggur á að hefja endurskoðun skólastefnunnar. Því hvet ég félaga mína í meirihlutanum til þess að bretta upp ermar og blása til sóknar í skólamálum Garðabæjar með því að hefja þessa vinnu í samvinnu og samstarfi við samfélagið allt.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

BÆJARSTJÓRNARFUNDUR 4. APRÍL 2019

Það var líf og fjör á bæjarstjórnarfundinum 4.apríl. Sara Dögg lagði fram 2 tillögur sem hægt er að lesa betur hér að neðan. Tillagan um aukið gagnsæi við framkvæmdir verkefna féll í grýttan jarðveg hjá Meirihlutanum og var sú krafa lögð fram að tillagan yrði dregin til baka.

Einnig voru tvær bókanir settar fram. Önnur var um stuðning við Hjallastefnu wn fyrirhugað er að koma á fót miðstigi við Grunnskóla Hjallastefnu í Garðabæ. Bókunin var svohljóðandi:

“Garðabæjarlistinn fagnar stuðningi við fyrirhugaðan vöxt Hjallastefnunnar við grunnskólann þar sem áform eru um að vaxa upp á miðstigið með von um að áformin verði farsæl því valfrelsið skiptir máli.”

Hin bókunin var ítrekun á mikilvægi þess að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðarinnar.

“Garðabæjarlistinn ítrekar mikilvægi þess að innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðuu þjóðanna fái rými og fjarmögnun við fjárhagsáætlunargerð á komandi hausti, enda er búið að samþykkja innleiðingu sáttmálans í bæjarstjórn fyrr á þessu ári.”

Tillaga Garðabæjarlistans um aukið gagnsæi við framkvæmdir verkefna.

Flutningsmaður Sara Dögg Svanhildardóttir

Bæjarstjórn samþykkir að unnið verði að því að birta stöðu verkefna sem eru í framkvæmdaferli með tímaás á heimasíðu Garðabæjar.

Greinagerð

Með þessari aðgerð auðveldar Garðabær íbúum að afla sér upplýsinga um þau verkefni sem eru í framkvæmd. Aukið upplýsingaflæði og gagnsærri stjórnsýsla er ærið verkefni. Að gera verkáætlanir sýnilegar og framgang verkefna gerir íbúa meðvitaðari um þau verkefni sem eru á hendi sveitarfélagsins en um leið veitir markviss gagnsæ upplýsingagjöf stjórnsýslunni mikilvægt aðhald og styður við agaðri stjórnsýslu. Þegar farið er með opinbert fé er mikilvægt að halda upplýsinum að skattgreiðendum þ.e. íbúunum sjálfum.

Tillaga Garðabæjarlistans um forvarnarnámskeið gegn kvíða

Flutningsmaður Sara Dögg Svanhildardóttir

Bæjarstjórn felur fræðslusviði að skoða mögulegar leiðir til þess að bjóða upp á viðurkennda fjarþjónustu í forvarnarskyni á unglingastigi í formi forvarnarnámskeiða gegn kvíða fyrir ungmenni. Að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 verði gert ráð 1,5 mkr. í formi styrkjar til þróunarvinnu og aðlögun námskeiðs að hluta og niðurgreiðslu námskeiðs fyrir aldurshópinn 14-16 ára eða unglingastig grunnskólans í gegnum fjarþjónustu.

Greinagerð

Tillagan er viðbragð við niðurstöðu könnunar Rannsóknar og greiningar um vaxandi kvíðaeinkenna meðal ungmenna í Garðabæ, sérstaklega meðal stúlkna með því að auðvelda aðgengi allra ungmenna að fyrstu hjálp vegna líðan.

Að auðvelda aðgengi að fyrstu hjálp getur skipt sköpum og í því falist mikið forvarnargildi. Því væri afar metnaðarfullt að fara af stað með tilraunarverkefni þar sem vaxandi kvíði er að mælast hjá t.d. stúlkum í Garðabæ. Það væri afar ábyrgt af bæjarstjórn að bregðast hratt við og auðvelda aðgengi að fyrstu hjálp og sjá hvaða áhrif það hefur. En fyrsta hjálp er talin gríðarlega mikilvæg sem inngrip til þess að koma í veg fyrir alvarlegri vanda og þróun á einkennum sem mögulega er hægt að koma í veg fyrir. Almennt er kallað eftir frekari úrræðum

í formi fyrstu hjálpar eins og það er kallað til þess einmitt að sporna við alvarlegri vanda sem oft verður raunin þegar ekkert er að gert. En eins og greint hefur verið frá er ber á vaxandi einkennum á þunglindinog kvíða meðal ungmenna í Garðabæ en meðal umgmennanna í 9.og 10. bekk greina 9,11% stúlkna frá þunglyndiseinkennum og 5% drengja. 3,52% stúlkna greina frá kvíðaeinkennum og 1,48% drengja. 20% stúlknanna skora hæst á kvíðakvarðanum.

Fjarþjónusta er fyrir margt mjög snjöll leið og góð viðbót við þá stoðþjónustu sem boðið er upp á í dag. Það sem gerir hana eftirsóknaverða eru m.a. þeir þættir sem hún hefur bein áhrif á sem eru, tímasparnaður, minni kostnaður og auðveldara aðgengi fyrir t.d ungt fók til þess að halda. að þarf á þegar aðstoðar sér leita þegar á þarf að halda.

Categories
Fréttir

AÐ FJÁRFESTA Í FRAMTÍÐINNI

Hlut­verk bæj­ar­ar­full­trúa er að standa vörð um hags­muni bæj­ar­búa, halda vel utan um rekstur og leit­ast við að styðja við og bjóða upp á fag­lega og góða þjón­ustu. Lög­bundin verk­efni eru þau verk­efni sem eru ávallt í for­grunni enda hlut­verk sveit­ar­fé­lags að standa undir ákveð­inni grunn­þjón­ustu eins og menntun og vel­ferða­þjón­ustu.

Hlúa þarf að innviðum og leit­ast við að bjóða upp á það besta í þágu íbúa hverju sinni. Eitt af því sem skiptir máli er tími fólks. Allt tekur sinn tíma. Ég sem bæj­ar­full­trúi er mjög upp­tekin af því að vinna að því að ein­falda leiðir fólks að allri þjón­ustu og spara tíma en ekki síður fjár­magn. Tækn­inni fleygir fram og við sjáum fram á margar snjallar lausnir sem hafa það einmitt í för með sér að spara tíma og kostnað í þágu íbúa. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar að fjár­festa í tækni og slíkt kallar á vilja og kjark til að fjár­festa til fram­tíð­ar.

Að fjár­festa í tækni styrkir enn frekar inn­viði, eykur gæði þjón­ustu og sparar tíma. Mik­il­vægt er að horfa til skóla­kerf­is­ins í þessu sam­bandi, að styðja við skóla­starf einmitt með fjár­fest­ingu í tækni. Fyrir kenn­ara skiptir gott aðgengi að gögn­um, náms­efni og kennslu­á­ætl­unum máli en ekki síður umhverfi til að tengja saman við fram­vindu og náms­mat nem­enda við allan und­ir­bún­ing fyrir kennslu. Um leið sparar slíkt tíma og ýtir undir frek­ari gæði í skóla­starfi sem og sam­vinnu innan sem og milli skóla. Fjár­fest­ing í tækni styrkir sömu­leiðis alla stoð­þjón­ustu til muna þar sem fjar­þjón­usta fer vax­andi og væri því frá­bær við­bót við þá þjón­ustu sem þörf er á innan skóla­kerf­is­ins. Slík þjón­usta sparar ekki síður tíma og fjár­muni hvort heldur sem er fyrir kenn­ara, börn eða for­eldra.

Í Garðabæ er fyr­ir­hugað að fara í vinnu, taka út stöð­una. Það er ein­læg von mín að það verði til þess að horft verði til fram­tíðar með fók­us­inn á auð­veld­ara aðgengi allra að þjón­ustu að leið­ar­ljósi og nýrri sýn verði fylgt eftir inn í fjár­hags­á­ætl­un.

Ég hef fyrir hönd Garða­bæj­ar­list­ans nú þegar lagt til fyrstu til­lög­urnar sem snúa að tækni­vædd­ari Garðabæ með fók­us­inn á þjón­ustu við börn, ung­menni og kenn­ara. Því hlakka ég til þess að taka þátt í að koma Garðabæ inn í fram­tíð­ina með hug­myndum að leiðum til að fjár­festa í tækni allt frá skóla­kerf­inu inn í stjórn­kerfið og gera þannig Garðabæ að fram­sæknu sveit­ar­fé­lagi sem tekur stöðu með fram­tíð­inni.

https://kjarninn.is/skodun/2019-04-10-ad-fjarfesta-i-framtidinni/

Categories
Fréttir

TILLAGA UM UMBÆTUR Í STARFSUMHVERFI GRUNNSKÓLAKENNARA

Sara Dögg lagði fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi 2.maí 2019

Bæjarstjórn samþykkir að fela fræðslusviði að fá kynningu á rafræna kerfinu www.learncove.io . Kerfið er sérstaklega hannað með þarfir kennara í huga þegar kemur að því að mæta

fjölbreyttum þörfum nemenda byggt á hæfni þeirra og námsgetu. Með innleiðingu slíks kerfis má einfalda utanumhald gagna, upplýsingagjöf og fá um leið góða yfirsýn yfir námsfravindu hvers nemanda. Enn fremur styður slíkt kerfi við hagræðingu í starfi kennara og ýtir undir bætt starfsumhverfi.

Greinargerð

Með fjórðu iðnbyltingunni munum við sjá fram á miklar breytingar í flestum atvinnugreinum. Aftur á móti er kennarastarfið sú atvinnugrein sem spáð er um að taki hvað minnstum breytingum þegar litið er til umbreytingu starfa í kjölfar tækniþróunar.

Í nýútkominni skýrslu nefndar á vegum forsætisráðuneytisins, Ísland og fjórða iðnbyltingin er farið yfir mögulega þýðingu fjórðu iðnbyltingarinnar á öll störf m.a. kennarastarfið. Þar er sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að skoða þá þætti þar sem tækni getur bætt starfsaðstöðu fólks til muna og aukið velferð á vinnustað. Slík markmið er nauðsynlegt að ræða þegar fjallað er um uppbrot á vinnumarkaði vegna tæknibreytinga.

Tæknin mun hafa hagræðingaráhrif, breyta störfum, leggja einhver þeirra af og skapa ný. Til þess að kennarastarfið standist þá samkeppni sem verður um vel menntaða starfsmenn í heimi hinna öru tæknibreytinga verða vinnuveitendurnir þ.e. sveitarfélögin að taka þau skref sem hægt er að taka í þágu tækni og aukinnar velferðar á vinnustað. Einfaldara aðgengi að alls kyns þjónustu er liður í því sem og rafræn kerfi sem halda utan um viðamikið starf kennarans.

Categories
Fréttir

TILLAGA GARÐABÆJARLISTANS UM SAMNING VIÐ JANUS HEILSUEFLINGU.

Valborg Warén lagði fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi 2.maí:

Bæjarstjórn samþykkir að gerður verður samningur við Janus heilsueflingu og að verkefnið verði þannig hluti af heilsueflandi samfélagi.

Með Janus heilsueflingu er leitast við að efla heilbrigði með því að skapa fólki aðstæður og umhverfi sem gera einstaklingum kleift að auka lýðheilsu og efla vilja til að viðhalda heilbrigði.

Greinargerð

Heilsurækt fyrir íbúa 65 ára og eldri þarf að vera aðgengileg og fjölbreytt enda er um að ræða hóp fólks með ólíkar þarfir og gera má ráð fyrir því að kröfur eldri borgara séu bæði margþættar og ólíkar. Samkvæmt Úttekt íþróttafulltrúa Garðabæjar á þátttöku 67 ára og eldri íbúa Garðabæjar í frístundastarfi eru um 500 eldri borgarar sem eru ekki skráðir i neina hreyfingu og því væri Janus heilsuefling mikilvæg viðbót við þá heilsurækt og þjónustu sem er nú þegar í boði fyrir þennan aldurshóp í Garðabæ.