Categories
Fréttir

Skólastefna fortíðar til framtíðar?

Nú þegar ný menntastefna til ársins 2030 liggur fyrir til umræðu á Alþingi er áhugavert til þess að vita að í október 2013 samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar síðast að endurskoða skólastefnu sveitarfélagsins.

Það er nokkuð ljóst að kominn er tími á endurskoðun. Ekki eingöngu vegna þess hve langt er síðan hún var síðast endurskoðun, heldur ekki síður vegna þeirra breytinga sem átt hafa sér stað í samfélaginu á þeim tíma.

Tvennt þykir mér sérstök ástæða til að draga fram. Í núverandi skólastefnu Garðabæjar er hvergi minnst á menntun án aðgreiningar, svo gömul er stefnan. Stefnan um menntun á aðgreiningar hefur verið við lýði í íslensku skólakerfi um langt skeið og meðal annars verið gerð evrópsk úttekt á því hvernig til tókst með innleiðingu.

Hitt er síðan framtíðarmál. Þær tæknibreytingar sem eiga sér stað í öllum samfélögum hafa gríðarleg áhrif á okkur öll. Stafrænar lausnir taka yfir á fjölmörgum sviðum sem snerta okkar daglega líf og munu gera það áfram. Hraði þeirrar þróunar gerir það að verkum að við sjáum ekki fyrir í hverju allar þessar breytingar felast.

Það er mikilvægt að hver einstaklingur hafi jöfn tækifæri og jafnt aðgengi að þessum nýja veruleika og því skiptir máli að tæknilæsi þjóðar sé sett í forgang. Hér er um stórt jafnréttismál að ræða sem allar nágrannaþjóðir okkar hafa áttað sig á og leggja mikla áherslu á í sínum menntastefnum nú þegar.

Því skiptir máli að leggja fram sýn til framtíðar í skólastefnu. Leik- og grunnskólar eru dýrmætur lykill að þeim grunni sem hver þjóð þarf á að halda til að efla þekkingu svo hægt sé að takast á við þær áskoranir sem framundan eru. Tæknilæsi er færni sem við þurfum öll á að halda samhliða lykilþáttum á við hæfni til samskipta, samvinnu, sjálfstæðra vinnubragða og áræðni til að takast á við hið óþekkta. Því er það mikilsvert að skólakerfið hreyfist í takt við nýja tíma en festist ekki í því sem þótti gott og framúrskarandi árið 2013.

Ég hef lagt það til að hafin verði vinna við endurskoðun skólastefnu Garðabæjar, því þar er svo sannarlega verk að vinna. Garðabær hefur hingað til lagt nokkurn metnað í að byggja upp góða og framsækna skóla, stutt við fjölbreytni og valfrelsi í skólavali og fjölbreytt rekstrarform. Nú, þegar menntamálaráðherra er að leggja fram menntastefnu til ársins 2030 ætlar Garðabær að verða eftirbátur á, þar sem skólakerfið er lykill að framþróun og mun hafa áhrif á samkeppni um störf þegar fram í sækir hvort sem er hér á landi eða erlendis.

Það liggur á að hefja endurskoðun skólastefnunnar. Því hvet ég félaga mína í meirihlutanum til þess að bretta upp ermar og blása til sóknar í skólamálum Garðabæjar með því að hefja þessa vinnu í samvinnu og samstarfi við samfélagið allt.

Sara Dögg Svanhildardóttir – Oddviti Garðabæjarlistans

Categories
Fréttir

BÆJARSTJÓRNARFUNDUR 4. APRÍL 2019

Það var líf og fjör á bæjarstjórnarfundinum 4.apríl. Sara Dögg lagði fram 2 tillögur sem hægt er að lesa betur hér að neðan. Tillagan um aukið gagnsæi við framkvæmdir verkefna féll í grýttan jarðveg hjá Meirihlutanum og var sú krafa lögð fram að tillagan yrði dregin til baka.

Einnig voru tvær bókanir settar fram. Önnur var um stuðning við Hjallastefnu wn fyrirhugað er að koma á fót miðstigi við Grunnskóla Hjallastefnu í Garðabæ. Bókunin var svohljóðandi:

“Garðabæjarlistinn fagnar stuðningi við fyrirhugaðan vöxt Hjallastefnunnar við grunnskólann þar sem áform eru um að vaxa upp á miðstigið með von um að áformin verði farsæl því valfrelsið skiptir máli.”

Hin bókunin var ítrekun á mikilvægi þess að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðarinnar.

“Garðabæjarlistinn ítrekar mikilvægi þess að innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðuu þjóðanna fái rými og fjarmögnun við fjárhagsáætlunargerð á komandi hausti, enda er búið að samþykkja innleiðingu sáttmálans í bæjarstjórn fyrr á þessu ári.”

Tillaga Garðabæjarlistans um aukið gagnsæi við framkvæmdir verkefna.

Flutningsmaður Sara Dögg Svanhildardóttir

Bæjarstjórn samþykkir að unnið verði að því að birta stöðu verkefna sem eru í framkvæmdaferli með tímaás á heimasíðu Garðabæjar.

Greinagerð

Með þessari aðgerð auðveldar Garðabær íbúum að afla sér upplýsinga um þau verkefni sem eru í framkvæmd. Aukið upplýsingaflæði og gagnsærri stjórnsýsla er ærið verkefni. Að gera verkáætlanir sýnilegar og framgang verkefna gerir íbúa meðvitaðari um þau verkefni sem eru á hendi sveitarfélagsins en um leið veitir markviss gagnsæ upplýsingagjöf stjórnsýslunni mikilvægt aðhald og styður við agaðri stjórnsýslu. Þegar farið er með opinbert fé er mikilvægt að halda upplýsinum að skattgreiðendum þ.e. íbúunum sjálfum.

Tillaga Garðabæjarlistans um forvarnarnámskeið gegn kvíða

Flutningsmaður Sara Dögg Svanhildardóttir

Bæjarstjórn felur fræðslusviði að skoða mögulegar leiðir til þess að bjóða upp á viðurkennda fjarþjónustu í forvarnarskyni á unglingastigi í formi forvarnarnámskeiða gegn kvíða fyrir ungmenni. Að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 verði gert ráð 1,5 mkr. í formi styrkjar til þróunarvinnu og aðlögun námskeiðs að hluta og niðurgreiðslu námskeiðs fyrir aldurshópinn 14-16 ára eða unglingastig grunnskólans í gegnum fjarþjónustu.

Greinagerð

Tillagan er viðbragð við niðurstöðu könnunar Rannsóknar og greiningar um vaxandi kvíðaeinkenna meðal ungmenna í Garðabæ, sérstaklega meðal stúlkna með því að auðvelda aðgengi allra ungmenna að fyrstu hjálp vegna líðan.

Að auðvelda aðgengi að fyrstu hjálp getur skipt sköpum og í því falist mikið forvarnargildi. Því væri afar metnaðarfullt að fara af stað með tilraunarverkefni þar sem vaxandi kvíði er að mælast hjá t.d. stúlkum í Garðabæ. Það væri afar ábyrgt af bæjarstjórn að bregðast hratt við og auðvelda aðgengi að fyrstu hjálp og sjá hvaða áhrif það hefur. En fyrsta hjálp er talin gríðarlega mikilvæg sem inngrip til þess að koma í veg fyrir alvarlegri vanda og þróun á einkennum sem mögulega er hægt að koma í veg fyrir. Almennt er kallað eftir frekari úrræðum

í formi fyrstu hjálpar eins og það er kallað til þess einmitt að sporna við alvarlegri vanda sem oft verður raunin þegar ekkert er að gert. En eins og greint hefur verið frá er ber á vaxandi einkennum á þunglindinog kvíða meðal ungmenna í Garðabæ en meðal umgmennanna í 9.og 10. bekk greina 9,11% stúlkna frá þunglyndiseinkennum og 5% drengja. 3,52% stúlkna greina frá kvíðaeinkennum og 1,48% drengja. 20% stúlknanna skora hæst á kvíðakvarðanum.

Fjarþjónusta er fyrir margt mjög snjöll leið og góð viðbót við þá stoðþjónustu sem boðið er upp á í dag. Það sem gerir hana eftirsóknaverða eru m.a. þeir þættir sem hún hefur bein áhrif á sem eru, tímasparnaður, minni kostnaður og auðveldara aðgengi fyrir t.d ungt fók til þess að halda. að þarf á þegar aðstoðar sér leita þegar á þarf að halda.

Categories
Fréttir

AÐ FJÁRFESTA Í FRAMTÍÐINNI

Hlut­verk bæj­ar­ar­full­trúa er að standa vörð um hags­muni bæj­ar­búa, halda vel utan um rekstur og leit­ast við að styðja við og bjóða upp á fag­lega og góða þjón­ustu. Lög­bundin verk­efni eru þau verk­efni sem eru ávallt í for­grunni enda hlut­verk sveit­ar­fé­lags að standa undir ákveð­inni grunn­þjón­ustu eins og menntun og vel­ferða­þjón­ustu.

Hlúa þarf að innviðum og leit­ast við að bjóða upp á það besta í þágu íbúa hverju sinni. Eitt af því sem skiptir máli er tími fólks. Allt tekur sinn tíma. Ég sem bæj­ar­full­trúi er mjög upp­tekin af því að vinna að því að ein­falda leiðir fólks að allri þjón­ustu og spara tíma en ekki síður fjár­magn. Tækn­inni fleygir fram og við sjáum fram á margar snjallar lausnir sem hafa það einmitt í för með sér að spara tíma og kostnað í þágu íbúa. Til þess að svo megi verða þarf hins vegar að fjár­festa í tækni og slíkt kallar á vilja og kjark til að fjár­festa til fram­tíð­ar.

Að fjár­festa í tækni styrkir enn frekar inn­viði, eykur gæði þjón­ustu og sparar tíma. Mik­il­vægt er að horfa til skóla­kerf­is­ins í þessu sam­bandi, að styðja við skóla­starf einmitt með fjár­fest­ingu í tækni. Fyrir kenn­ara skiptir gott aðgengi að gögn­um, náms­efni og kennslu­á­ætl­unum máli en ekki síður umhverfi til að tengja saman við fram­vindu og náms­mat nem­enda við allan und­ir­bún­ing fyrir kennslu. Um leið sparar slíkt tíma og ýtir undir frek­ari gæði í skóla­starfi sem og sam­vinnu innan sem og milli skóla. Fjár­fest­ing í tækni styrkir sömu­leiðis alla stoð­þjón­ustu til muna þar sem fjar­þjón­usta fer vax­andi og væri því frá­bær við­bót við þá þjón­ustu sem þörf er á innan skóla­kerf­is­ins. Slík þjón­usta sparar ekki síður tíma og fjár­muni hvort heldur sem er fyrir kenn­ara, börn eða for­eldra.

Í Garðabæ er fyr­ir­hugað að fara í vinnu, taka út stöð­una. Það er ein­læg von mín að það verði til þess að horft verði til fram­tíðar með fók­us­inn á auð­veld­ara aðgengi allra að þjón­ustu að leið­ar­ljósi og nýrri sýn verði fylgt eftir inn í fjár­hags­á­ætl­un.

Ég hef fyrir hönd Garða­bæj­ar­list­ans nú þegar lagt til fyrstu til­lög­urnar sem snúa að tækni­vædd­ari Garðabæ með fók­us­inn á þjón­ustu við börn, ung­menni og kenn­ara. Því hlakka ég til þess að taka þátt í að koma Garðabæ inn í fram­tíð­ina með hug­myndum að leiðum til að fjár­festa í tækni allt frá skóla­kerf­inu inn í stjórn­kerfið og gera þannig Garðabæ að fram­sæknu sveit­ar­fé­lagi sem tekur stöðu með fram­tíð­inni.

https://kjarninn.is/skodun/2019-04-10-ad-fjarfesta-i-framtidinni/

Categories
Fréttir

TILLAGA UM UMBÆTUR Í STARFSUMHVERFI GRUNNSKÓLAKENNARA

Sara Dögg lagði fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi 2.maí 2019

Bæjarstjórn samþykkir að fela fræðslusviði að fá kynningu á rafræna kerfinu www.learncove.io . Kerfið er sérstaklega hannað með þarfir kennara í huga þegar kemur að því að mæta

fjölbreyttum þörfum nemenda byggt á hæfni þeirra og námsgetu. Með innleiðingu slíks kerfis má einfalda utanumhald gagna, upplýsingagjöf og fá um leið góða yfirsýn yfir námsfravindu hvers nemanda. Enn fremur styður slíkt kerfi við hagræðingu í starfi kennara og ýtir undir bætt starfsumhverfi.

Greinargerð

Með fjórðu iðnbyltingunni munum við sjá fram á miklar breytingar í flestum atvinnugreinum. Aftur á móti er kennarastarfið sú atvinnugrein sem spáð er um að taki hvað minnstum breytingum þegar litið er til umbreytingu starfa í kjölfar tækniþróunar.

Í nýútkominni skýrslu nefndar á vegum forsætisráðuneytisins, Ísland og fjórða iðnbyltingin er farið yfir mögulega þýðingu fjórðu iðnbyltingarinnar á öll störf m.a. kennarastarfið. Þar er sérstaklega fjallað um mikilvægi þess að skoða þá þætti þar sem tækni getur bætt starfsaðstöðu fólks til muna og aukið velferð á vinnustað. Slík markmið er nauðsynlegt að ræða þegar fjallað er um uppbrot á vinnumarkaði vegna tæknibreytinga.

Tæknin mun hafa hagræðingaráhrif, breyta störfum, leggja einhver þeirra af og skapa ný. Til þess að kennarastarfið standist þá samkeppni sem verður um vel menntaða starfsmenn í heimi hinna öru tæknibreytinga verða vinnuveitendurnir þ.e. sveitarfélögin að taka þau skref sem hægt er að taka í þágu tækni og aukinnar velferðar á vinnustað. Einfaldara aðgengi að alls kyns þjónustu er liður í því sem og rafræn kerfi sem halda utan um viðamikið starf kennarans.

Categories
Fréttir

TILLAGA GARÐABÆJARLISTANS UM SAMNING VIÐ JANUS HEILSUEFLINGU.

Valborg Warén lagði fram eftirfarandi tillögu á bæjarstjórnarfundi 2.maí:

Bæjarstjórn samþykkir að gerður verður samningur við Janus heilsueflingu og að verkefnið verði þannig hluti af heilsueflandi samfélagi.

Með Janus heilsueflingu er leitast við að efla heilbrigði með því að skapa fólki aðstæður og umhverfi sem gera einstaklingum kleift að auka lýðheilsu og efla vilja til að viðhalda heilbrigði.

Greinargerð

Heilsurækt fyrir íbúa 65 ára og eldri þarf að vera aðgengileg og fjölbreytt enda er um að ræða hóp fólks með ólíkar þarfir og gera má ráð fyrir því að kröfur eldri borgara séu bæði margþættar og ólíkar. Samkvæmt Úttekt íþróttafulltrúa Garðabæjar á þátttöku 67 ára og eldri íbúa Garðabæjar í frístundastarfi eru um 500 eldri borgarar sem eru ekki skráðir i neina hreyfingu og því væri Janus heilsuefling mikilvæg viðbót við þá heilsurækt og þjónustu sem er nú þegar í boði fyrir þennan aldurshóp í Garðabæ.

Categories
Fréttir

FYRIRSPURN UM BÆJARGARÐ

Ábyrg fjármál eru okkur mikilvæg. Ingvar Arnarson lagði fram fyrirspurn um kostnaðinn við Bæjargarð í Garðabæ.

– Hver er núverandi staða á heildarkostnaði framkvæmda við Bæjargarðinn? –

– Óskað er eftir sundurliðun á kostnaði við Bæjargarðinn

– Hver er áætlaður heildarkostnaður við Bæjargarðinn við verklok?

– Óskað er eftir afriti af framkvæmdaáætlun Bæjargarðs.

Categories
Fréttir

AÐ GETA HAFT ÁHRIF

Á þessu fyrsta ári kjörtímabilsins höfum við í Garðabæjarlistanum lagt fram 31 tillögu fyrir bæjarstjórn og því við hæfi að draga fram í hverju þær hafa falist og meðferð þeirra.

Tillögurnar hafa verið af ýmsum toga og fengið fjölbreytta meðferð meirihlutans. Allt frá því að hafa fengið nokkrar góðar samþykktar yfir í að vera felldar og teknar pólitísku eignarhaldi. Tillögur sem taka á ólíkum þáttum en allt málefnum sem við í Garðabæjarlistanum töluðum sterkt fyrir í aðdraganda kosninga.

Gagnsærri stjórnsýsla.

Við höfum verið að rýna í stjórnsýsluna og lagt til þó nokkrar tillögur til úrbóta þegar kemur að skýrari verkferlum og gagnsæi upplýsinga fyrir íbúa. Einhverjar eru í vinnslu og ein hefur þegar fengið fullnaðar afgreiðslu og breytt verklagi innan stjórnsýslunnar með formlegum hætti.

Fræðslumál

Okkar fyrsta tillaga í bæjarstjórn var um markvissa hinsegin fræðslu fyrir allt starfsfólk Garðabæjar sem var samþykkt til meðferðar hjá fræðsluráði og gerði það að verkum að allir stjórnendur grunnskólanna fengu fræðslu ásamt því að unnið er að sambærilegu fyrirkomulagi innan íþrótta- og tómstundasviðs.

Menntamál

Stytting vinnuvikunar þar sem fókusinn yrði á leikskólaumhverfið til að byrja með var felld. Því miður. Þar hefði verið hægt að stíga mikilvægt skref í að bæta umhverfi heillar stéttar sem starfar hjá Garðabæ. Fleiri tillögur sem taka á vinnuumhverfi kennara voru lagðar fram þar sem fókusinn var á tækni og vinnuhagræði með innleiðingu kerfis sem tekur utan um alla þætti sem varða skipulag og utanumhald kennslu. Tillagan var sett í farveg til frekari skoðunar hjá fræðslusviði. Önnur sambærileg tillaga um aukna kennslu í upplýsingatækni í takt við stafrænu byltinguna var færð til umræðu og úrvinnslu í skólanefnd. Sú tillaga hefur haft þau áhrif að í haust munum við fá til okkar alla kennsluráðgjafa og fá yfirsýn yfir þessa þætti skólastarfsins með það í huga hvernig megi gera betur.

Umhverfismál

Við lögðum fram tillögu um innleiðingu Heimsmarkmiðanna sem felld var inn í tillögu meirihlutans og hún samþykkt. Tillaga um umhverfisvænni ferðamáta starfsmanna bæjarins var flutt yfir í bæjarráð og síðar lagði meirihlutinn fram sambærilega tillögu um kaup á rafmangshjólum sem bjóðast starfsmönnum til afnota.

Lýðheilsumál

Við höfum ítrekað lagt fram tillögu sem tekur á frekari systkinaafslætti þegar kemur að íþróttaiðkun sem hefur verið send áfram inn í nefnd en ekki verið afgreidd. Lýðheilsa eldri borgara hefur verið á dagskrá hjá okkur þar sem við höfum lagt til að farið verði í samstarf við Janus heilsueflingu sú tillaga er enn í úrvinnslu inn í nefnd.

Innleiðing Barnasáttmála sameinuðu þjóðanna var ein af tillögum okkar sem var samþykkt í bæjarstjórn.

Tillaga okkar um að koma af stað framkvæmd við innleiðingu þeirra verkefna sem hafa verið samþykktar í vetur var síðan tekin pólitísku eignanámi og sett í nýjan búning meirihlutans.

Betri þjónusta við börn og fjölskyldur

Við lögðum fram tillögu um innleiðingu fjarþjónustu þegar kemur að velferð barna og ungmenna. Þar sem boðið yrði upp á fjarþjónustu fyrir ungmenni með kvíðaeinkenni, tilraunarverkefni til eins árs. Tillagan var lögð inn í fjárhagsáætlunargerð næsta árs því verður áhugavert að sjá hvernig henni verður lent í þeirri vinnu í haust. Mikilvægt mál um aðgengi ungmenna að mikilvægri þjónustu.

Húsnæðismál

Við lögðum fram djarfa og framsýna tillögu þess efnis að um 4% allra nýrra íbúða færu á leigumarkað, þeirri tillögu var hafnað.

Því má segja að við höfum sannarlega áhrif með því að setja mál á dagskrá og tala fyrir ákveðnum breytingum. Þó svo að við höfum ekki valdið til framkvæmda. 

Virkjum lýðræðið – það skiptir máli.

Categories
Fréttir

ER SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN Á MÓTI EIGIN LOFORÐI ?

Samningatækni Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ verður seint kennd í háskólum. Meirihluti bæjarstjórnar kallar það samning að taka 130 milljónir af peningum bæjarbúa árlega, afhenda þá UMF Stjörnunni og setja nær engin skilyrði um hvernig beri að verja þeim miklu fjármunum í þágu samfélagsins.

Nýr samningur bæjarstjórnar við UMF Stjörnuna endurspeglar áherslur ráðandi meirihluta Sjálfstæðisflokksins. Meirihlutinn telur greinilega farsælast að ýta undir sjálfstýringu, hafa sem allra minnst afskipti og vonast til að mál, sem augljóslega þarf að taka á, leysist einhvern veginn af sjálfu sér. Meirihlutinn kýs að hafa samninginn galopinn. Fjármagni er ekki skipt upp eftir verkefnum eins og áður var. Og hvergi er að sjá áherslur sem vísa til sáttmálans um Heilsueflandi samfélag, sem meirihlutinn var svo ákafur um að undirrita rétt fyrir kosningar. Hingað til hefur ekkert bólað á framkvæmdum til heilsueflandi samfélags, en eðlilegt að vænta þess að þeirra sæi stað í samningi við íþróttafélag. En meirihlutinn kýs frelsið, sem fer svo vel í munni fulltrúa hans en birtist oftast í verkleysi eða sjálfstýringu.

Sá samningur er meira en undarlegur, þar sem hvergi bólar á væntingum eða áherslum samningsaðila. UMF Stjarnan sinnir gríðarlega mikilvægu hlutverki í samfélagi okkar með því skapa heilbrigða leið til uppvaxtar þar sem gildin skipta máli og viðhorf til verkefnanna er lykill að því hvernig til tekst. Áherslur Garðabæjar og Stjörnunnar ættu að vera hinar sömu, enda markmiðum þau sömu, að byggja samfélag þar sem allir fá notið sín á eigin forsendum. En samningurinn tæpir varla á neinu slíku. Markvissar aðgerðir í þágu fatlaðra barna og ungmenna eru engar, aðeins almennt orðalag sem ekki er byggjandi á. Né fyrirfram skilgreint fjármagn í þau ólíku verkefni sem þarfnast forgangsröðunar fjármagns. Aðeins er vísað í að gæta þurfi jafnvægis í rekstri ólíkra þátta eins og yngriflokkastarfs, meistaraflokksstarfs og afreksstarfs, en Stjörnunni algjörlega í sjálfsvald sett hvernig félagið nýtir rúmar 130 milljónir af almannafé á ári hverju.

Hvar er systkinaafslátturinn?

Í nýja samningnum er ekkert að finna um systkinafslátt af æfingagjöldum hjá Stjörnunni. Það hefði þó átt að vera hægðarleikur fyrir meirihlutann að ná slíku ákvæði í samninginn, í krafti þeirra miklu fjármuna almennings sem renna til félagsins. Og ekki má gleyma, að Sjálfstæðisflokkurinn lofaði kjósendum sínum systkinaafslætti fyrir síðustu kosningar! Garðabæjarlistinn hefur slíkan afslátt á stefnuskrá sinni og hefur ítrekað lagt tillögu þar um fyrir bæjarstjórn. Sú tillaga – og þar með líka loforð meirihluta Sjálfstæðisflokksins – situr föst í nefnd, í algjörri óþökk ungra barnafjölskyldna sem finna svo sannarlega fyrir kostnaðinum við að vera með tvö eða fleiri börn í virku íþróttastarfi í Garðabæ. En það er eins og staða ungra barnafjölskyldna skipti ekki máli í stóra samhenginu eða að þær fjölskyldur sem ekki hafa allt heimsins fé á milli handanna geti bara hunskast annað. Að búseta í Garðabær eigi hvort eð er ekki að vera valkostur fyrir alla. Þegar á reynir virðist hið göfuga loforð meirihlutans eingöngu hafa verið lagt fram til þess að fegra málstaðinn. Innantómt kosningaloforð sem aldrei átti að standa við.

Samningurinn dregur ekki fram neina framtíðarsýn. Slík sýn virðist ekki skipta meirihlutann neinu máli. Allir gera bara sitt í nafni frelsisins algjörlega sundurslitið án nokkurrar heildarsýnar um það samfélag sem við viljum stefna á að Garðabær sé og verði. Það er eins og ekkert sé hræðilegra í augum meirihlutans í henni veröld en að hafa sýn og eiga frumkvæði að því að gera betur í einstaka málaflokkum sem við vitum öll að standa höllum fæti og krefst útsjónarsemi og yfirsetu til að finna megi leiðir til árangurs.

Categories
Fréttir

ERU SJÁLFSTÆÐISMENN AÐ SIGLA Í STRAND?

Áhugavert verður að fylgjast með viðbrögðum sjálfstæðismanna í Garðabæ, nú þegar spáð er samdrætti í efnahagslífinu á sama tíma og meirihlutinn í bæjarstjórn leggur í afar fjárfrekar framkvæmdir þar sem ekkert má til spara. Allt er það undir þverrandi góðærinu komið

Nú þegar hefur verið ráðinn sérfræðingur í úttekt á stjórnsýslunni og hans verkefni er að finna peninga, eða öllu heldur hvernig megi verja fjármunum bæjarins betur. Það eitt og sér vekur eftirtekt þar sem sjálfstæðismenn hafa hingað til stært sig af því að vera eitt best rekna sveitarfélagið á landinu. Er farið að hrikta í undirstöðum þeirra fullyrðinga?

Verður aðkeypt félagsleg þjónusta mögulega talin óþarfleg eyðsla á fjármunum? Mun úttektin sýna að það hefði mögulega verið betri stjórnsýsla og ábyrgari rekstur að gera eins og flest önnur sveitarfélög og fjárfesta í innviðum jafnt og þétt til að tryggja lögbundna kjarnaþjónustu, í stað þess að senda þá sem hana þurfa hreinlega annað og borga fyrir það meira en góðu hófi gegnir?

Það kostar nefnilega þegar til lengri tíma er litið að fjárfesta aldrei í innviðum, grunnstoðum sem bera uppi heilt sveitarfélag. Nú er mögulega komið að skuldadögum.

Hvernig sjálfstæðismenn ætla að koma sér í gegnum þetta kjörtímabil án vandræða er erfitt að sjá. Garðabæjarlistinn stendur vaktina og heldur bæjarbúum vel upplýstum, því ekki gerir meirihlutinn það, eins og dæmin sanna. Fáir höfðu áttað sig á þeim gríðarlegu útgjöldum sem einn fundasalur hafði í för með sér enda aldrei sett utan um þá framkvæmd áætlun sem unnið skyldi eftir. Meirihlutinn einfaldlega jós peningum, hátt í hálfum milljarði, í framkvæmdina jafnóðum og þurfa þótti.

Í dag hefur meirihlutinn þegar tekið há lán, samtals um einn milljarð króna, til þess að standa undir byggingu Urriðaholtsskóla og fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýrinni. Fjármögnunina átti að leysa einhvern tímann í framtíðinni, m.a. með sölu á lóðum þar í kring. Það þætti einhverjum háskalegt að stóla á opinn tékka framtíðarinnar. Spár taka sífelldum breytingum og við búum við viðkvæmt efnahagslíf sem á það til að taka dýfur með tilheyrandi kostnaði. Það er því óábyrgt að æða af stað með tryggingu í ef-inu og voninni þegar um svo mikla fjármuni er að ræða. Fjölnota íþróttahúsið eitt kostar að minnsta kosti 5 milljarða króna.
Og enginn er aurinn í kassanum.
Við í Garðabæjarlistanum munum fylgjast vel með hvernig sjálfstæðismenn ætla að viðhalda heimatilbúinni trú sinni á að aðalsmerki þeirra sé ábyrg fjármálastjórn.

Categories
Fréttir

JAFNRÉTTISMÁLIN OG GARÐABÆR

Jafnréttisáætlun Garðabæjar er nú til endurskoðunar og af því tilefni lagði ég fram tvær tillögur á fyrsta fundi bæjarstjórnar eftir sumarleyfi. Önnur varðar endurskoðunina sjálfa og hin ráðningu í stöðu jafnréttisfulltrúa.

Í jafnréttisáætlunum birtast áherslur hvers tíma og því um að ræða lifandi plagg sem fer fyrir nefnd fjölskylduráðs til reglulegrar endurskoðunar. Áður fór reyndar jafnréttis- og mannréttindanefnd með það verkefni, en meirihlutinn kaus að leggja nefndina niður við upphaf kjörtímabilsins.

Jafnréttisáætlun endurspeglar tíðarandann og um leið varpar hún ljósi á afstöðu þeirra sem leggja línurnar. Okkur í Garðabæjarlistanum finnst mikilvægt og nauðsynlegt að gera ákveðnar breytingar á framsetningu áætlunarinnar, til að draga fram alla hópa samfélagsins og tryggja þeim pláss. Við viljum vekja athygli á þeim þáttum sem mikilvægt er að horfa til frá degi til dags í öllum verkefnum stjórnsýslunnar.

Í núverandi stefnu eru einstaka hópar ekki nefndir og skortir því verulega á skýra sýn sveitarfélagsins í málefnum þeirra. Þar má nefna hinsegin fólk. Í áætluninni er ekkert að finna um hvernig beri að mæta þeim hópi sérstaklega. Sama gildir um fatlað fólk og ekki má gleyma að huga að mismunandi stöðu fólks eftir aldri, litarhætti eða þjóðerni, svo eitthvað sé nefnt.

Við í Garðabæjarlistanum teljum rétt að draga fram það sem þegar er gert af metnaði í sveitarfélaginu okkar, svo íbúar sjái skýrt hvernig samfélagið tekur utan um ólíka hópa og sýnir þeim öllum virðingu. Við eigum að láta þá sýn ná til allra og þar er rétt að horfa til þeirra hópa sem lög um jafnrétti tiltaka sérstaklega. Sýnileikinn og skráðar reglur skipta máli og setja okkur þann ramma sem unnið skal eftir. Ef sýnin er óskýr og ramminn of almennt orðaður er hætta á að okkur yfirsjáist mikilvægir þættir. Málefni sem snerta okkur ekki beint verða þá útundan. Þess vegna þurfum við skýra og afdráttarlausa stefnu og henni þarf að fylgja aðgerðaráætlun svo jafnréttisáherslurnar verði markvissar og áþreifanlegar.

Okkur á það til að þykja jafnréttismál léttvægur málaflokkur en svo er svo sannarlega ekki. Flest stærri sveitarfélög hafa yfir að ráða jafnréttisfulltrúa einmitt til þess að tryggja yfirsýn og eftirfylgni með smáum sem stórum málum sem varða jafnrétti í sinni víðustu mynd. Mismunun getur leynst víða án þess að við áttum okkur endilega á því án fyrirhafnar. Meirihlutinn hafnar þessu og felldi tillögu okkar um að ráða í stöðu jafnréttisfulltrúa þrátt fyrir að í útgefnu efni um jafnréttismál sé t.d. varað við að fella jafnréttismál undir aðrar nefndir eindregið hvatt til þess að málaflokkurinn sé gerður sýnilegur með sérstökum umsjónaraðila til að styðja við og fylgja eftir.

Með von í hjarta förum við inn í haustið og tökum þátt í endurskoðun jafnréttistefnu Garðabæjar og leggjum okkar áherslur fram á sama tíma og landsþing Jafnréttisráðs fer fram í okkar góða bæ.